1. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Sagan sýnir að við lærum mest af mistökum segir Magnús Gottfreðsson

 „Þetta hefur verið erfitt og óvenjulegt ár,“ segir Magnús Gottfreðsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala, sem nú er nýhættur í ritstjórn Læknablaðsins eftir 7 ára setu, þar af síðastliðin fjögur ár sem ritstjóri. „Ég kveð blaðið með söknuði en jafnframt með þeirri sannfæringu að mörg framfaraskref hafi verið stigin í útgáfu blaðsins á undanförnum árum. Þá er ég þeirrar skoðunar að regluleg endurnýjun sé nauðsynleg í starfi eins og þessu, gott fólk tekur við og framtíð blaðsins er björt.“

Aðgerðir í heimsfaröldrum eru alltaf gagnrýndar segir Magnús Gottfreðsson
smitsjúkdómalæknir. Hann óttast að eftir að bólusetningar hefjist verði ekki stutt
við fjársvelt heilbrigðiskerfið. Það hafi verið í krónískri krísu allt frá bankahruni.

Magnús stjórnar 15 manna vísindadeild Landspítala og kennir við Háskóla Íslands, hann er með doktorsnema og mörg rannsóknarverkefni. Hann er einnig forseti NSCMID, samtaka sérfræðinga í smitsjúkdómum og sýklafræði á Norðurlöndunum, sem hafa þurft að fella niður ráðstefnur árs-ins og funda þess í stað reglulega með fjarfundabúnaði. Magnús er smitsjúkdómalæknir í heimsfaraldri, eitthvað sem hann bjóst við en trúði samt ekki.

Magnús í aðalskrifstofuhúsnæði Landspítala við Skaftahlíð 24, áður Stöð 2, þaráður Tónabær, þarþaráður Lídó. Mynd/gag.

„Faraldrar eru tilhugsun sem við smitsjúkdómalæknar erum vanir. Ég bjóst við þessu og hef rætt margoft, en samt kom örlítið á óvart þegar heimsfaraldurinn raungerðist. Þetta er togstreita á milli rökhugsunar og trúar,“ segir Magnús á léttu nótunum. En hvernig metur hann framhaldið?

„Við höfum heyrt tölur nefndar og sviðsmyndir en þangað til að við náum því marki að geta tryggt að 60-70% þjóðarinnar hafi mótefni, ógnar veiran daglegu lífi okkar,“ segir hann. „Sennilega mun það taka út árið 2021 en vonandi er það rangt hjá mér og við fáum meira bóluefni hraðar og leysum dæmið fyrr.“

Sammannlegt eðli

Magnús segir áhugavert „bæði persónulega og faglega“ að verða vitni af því hvernig sagan verður til. „Geta borið saman viðbrögð mismunandi þjóða og mátað það allt í spegli sögunnar.“ Þótt tímarnir séu ekki fordæmalausir, upplifi kynslóðirnar sem nú lifa það svo.

„Tilfinningalegu viðbrögðin eru sambærileg hvar sem maður drepur niður fæti. Sammannlegt eðli sýnir sig við þessar aðstæður,“ segir Magnús.

„Niðurstaðan er oft sú þegar rýnt er í gögn eftir á að annaðhvort hafi verið gert of lítið eða of mikið,“ segir hann. „Það er aldrei þannig að fólk segi að einhver hafi fundið réttu lausnina. Allar ákvarðanir orka tvímælis og gagnrýni er óhjákvæmileg. Hún er beinlínis skrifuð inn í atburðarásina. Öðruvísi getur þetta ekki verið því breytingin er það hröð í eðli sínu og heimsfaraldurinn snertir okkur öll á einhvern hátt,“ segir Magnús.

„Það er þó varasamt og ákveðin rökvilla að meta umfang faraldra eingöngu með því að skoða tölurnar um þá eftir á, þegar miklum ráðstöfunum hefur verið beitt til að lágmarka skaðann,“ segir hann.

Magnús í vinnunni í vor þegar kófið brast á af fullum þunga. Myndir/Þorkell Þorkelsson.

En er hægt að bera saman COVID-19 og spænsku veikina sem náði landi 1918 og Magnús hefur mikið skoðað? Þá veiktust ríflega 60% borgarbúa og mörg hundruð dóu. „SARS-CoV-2 er mjög smitandi og ef við beitum ekki sérstökum aðgerðum til að takmarka útbreiðslu getum við hæglega lent í sömu stöðu og í spænsku veikinni,“ segir hann og bendir á að báðar veirurnar hafi smitstuðulinn 2-3.

„En munurinn er sá að í spænsku veikinni var ekkert gert hér í borginni og veiran gekk hratt yfir og smitaði gríðarlega marga. Ef ekki hefði verið tekið föstum tökum á veirunni í yfirstandandi faraldri stæðum við í mjög erfiðum sporum.“

Harðar aðgerðir í veiku kerfi

Vegna aðstæðna hefur Magnús tekið meiri þátt í klínískum störfum með læknum spítalans. Hann segir fólk hafa lagt mikið á sig og upplifað gríðarlegt álag. „Við getum verið mjög stolt af árangri okkar í þessari baráttu hingað til. Vonandi verður framhald á því nú þegar bólusetningar eru í augsýn.

 

Ritstjórnin samankomin á fundi í Hlíðasmára haustið 2019. Frá vinstri: Sigurbergur Kárason, Elsa B. Valsdóttir, Magnús Haraldsson, Ingibjörg Guðmundsdóttir, Magnús Gottfreðsson og Gerður Gröndal. Á myndina vantar Margréti Ólafíu Tómasdóttur. Mynd/ VS.

Orrustan við veiruna er samt ekki búin þegar strax er farið er að tala um að herða sultarólarnar. Það sendir skrýtin skilaboð,“ segir hann og vísar til aðhaldskröfunnar sem nú er gerð á spítalann. Samkvæmt fjölmiðlum nemur talan 400 milljónum á fjárlögum en á 5. milljarð sé litið til hallareksturs síðustu ára sem standa þurfi skil á. „Ég spyr mig hvort þetta séu skilaboðin sem almenningur vill senda inn í heilbrigðiskerfið eins og staðan er? Ég er ekki viss um að það sé þannig.“

Magnús bendir á veika stöðu íslenska heilbrigðiskerfisins fyrir faraldurinn. „Við megum ekki gleyma því að við erum með minni getu til að takast á við svona áföll en margar aðrar þjóðir því við erum með fremur lítið heilbrigðiskerfi og einangruð í Norður-Atlantshafi. Við getum til að mynda ekki leitað til nágrannaríkja, sent sjúklinga á milli landa eins og gert hefur verið á meginlandi Evrópu.

Einnig er gjörgæslan hjá okkur lítil, eins og margoft hefur komið fram, og erfitt að stækka hana. Þetta er ekki eins og að kaupa eitt sett af tækjum og málið er leyst. Það er flókið að byggja strúktúrinn upp og margir hlekkir í þeirri keðju.“ Hann heldur áfram: „Eitt af því sem lengi hefur verið vanrækt í heilbrigðiskerfinu er fjármögnun vísindastarfs og efling háskólahlutverks Landspítala. Við aðstæður sem þessar skiptir öllu máli að spítalinn og heilbrigðiskerfið hafi burði til að rækja rannsókna- og menntunarhlutverk vel. Viðbrögð okkar verða að byggjast á þekkingu.“ Hann óttast að þegar þessi faraldur sé frá verði ekki byggt upp fyrir næsta áfall.

„Ég tel reyndar að sagan sýni að við lærum mest af mistökum, þannig að ef við sleppum tiltölulega vel frá þessum faraldri erum við ekki jafn líkleg til þess að læra af honum,“ segir Magnús og er hugsi.

Vilji almennings hunsaður?

„80.000 manns skrifuðu til dæmis árið 2016 undir undirskriftarlista um að efla heilbrigðiskerfið og bæta fjármögnun þess. Mjög margir þeirra sem sitja á þingi í dag sitja þar út á slík loforð en núna voru að birtast tölur frá OECD sem sýna að þetta hlutfall hefur lítið sem ekkert breyst.“ Það nemi 8,8% af vergri landsframleiðslu samkvæmt bráðabirgðatölum OECD fyrir árið 2019, frá 8,5 prósentunum frá árinu áður. Magnús bendir á að strax og talan haggist ögn upp á við sé farið fram á niðurskurð.

„Tölurnar sýna að stjórnmálamenn eiga mjög erfitt með að standa við loforð um að efla kerfið, jafnvel þó að þeir lýsi því hátíðlega yfir að setja málið á oddinn. Á sama tíma upplifum við hér á spítalanum, sem hefur verið meira og minna í krónískri krísu frá því að spítalarnir voru sameinaðir, að gengið sé fram með óraunhæfum kröfum um niðurskurð,“ segir hann. „Maður er hugsi yfir yfir þessu í ljósi þess sem á undan er gengið.“

Hefur vilji almennings þá áhrif? „Mér sýnist ekki,“ svarar hann rólega. „Þessar tölur tala sínu máli. Nú efast ég ekki um góðan ásetning þegar orð um að efla kerfið eru sögð. En ásetningur er eitt og raunveruleg framkvæmd er annað.“ Hann vill þó ekki gera lítið úr þeim breytingum sem gerðar hafi verið og bendir á að heilsugæslan hafi verið efld.

„Staðreyndin er þó sú að kerfið í heild sinni hefur verið vanfjármagnað lengi. Fjármagn hefur nýlega verið fært frá spítalanum til heilsugæslunnar. Það er pólitísk ákvörðun með sínum rökum, en það var ekki beðið um það. Almenningur var að biðja um betri fjármögnun kerfisins í heild og við stöndum samt nánast á sama punktinum.“ Hann segir það dapurlegt.

„Ég er hissa á að þetta skuli ekki vera rætt meira. Ég velti því fyrir mér hvort það verði þannig áfram þegar fer að nálgast kosningar,“ segir hann. „Ef menn gera ekki ráð fyrir að þurfa að standa við loforðin í fjárlögum þá standa menn ekki við loforðin, hvað sem þeir svo segja í ræðustól.“

En aftur að veirunni. Magnús segir að hann verði að játa að hann hafi reiknað með að þróun bóluefnis myndi taka ívið lengri tíma. En undirstaðan hafi staðið styrk. „Það höfðu þegar verið stigin ákveðin skref í grunnrannsóknum á skyldum veirum eins og SARS-veirunni. Einnig voru komnar fram nýjar aðferðir við hönnun og framleiðslu bóluefna,“ segir hann.

„Þannig að þessi tæki voru komin í verkfærakistuna þegar faraldurinn hófst og hægt að grípa til þeirra og nota. Það vildi okkur til happs,“ segir hann. „Þetta hefur orðið til þess að við þróun bóluefna gegn SARS-CoV-2 hefur hraðamet í hverju einasta þrepi verið slegið“ En stafar fólki hætta af því að hvert skref í áttina að bóluefni hafi verið stytt?

„Ég get ekki séð að það hafi verið slegið af kröfunum,“ segir Magnús. Óvissa fylgi þó öllum framfaraskrefum.

„Ég tel að allir geri sér grein fyrir hve mikið er í húfi. Ef ekki tekst vel til getur það haft mikil áhrif á ímynd bólusetninga, heilbrigðisvísinda og vísinda almennt. Það er því mikið undir að fólk beri traust til vísinda og þekkingar. Þar stöndum við Íslendingar vel sem betur fer.“

Hann telur ekki að fólk þurfi að óttast. „Við getum ekki útilokað alla áhættu í lífinu og í þessari stöðu sem við erum í. Þjóðir heimsins þar sem meðalaldurinn er hár upplifa nú gríðarlegan skaða farsóttarinnar. Þegar bóluefni hafa fengið samþykki frá eftirlitsaðilum ætti áhættan af notkun þeirra að vera hverfandi borið saman við óbreytt ástand, sem er að leyfa þessari veiru að grassera með tilheyrandi afleiðingum.“

Verjum 38% minna í heilbrigðiskerfið en Norðmenn

Norðmenn verja 38% meira í heilbrigðiskerfið er íslensk stjórnvöld, – dönsk og sænsk um 20% meira, en finnsk tæpum 5% minna þegar litið til Bandaríkjadollara á hvern þegn landanna. Þetta má lesa út úr glænýjum tölum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.*

Fjárhæðin hækkaði milli ára hér á landi um 462 dollara á mann, fór úr 4349 dollurum í 4811, en íslensku tölurnar eru sagðar til bráðabirgða. Aukningin nemur 10,6% á sama tíma og gengi íslensku krónunnar hefur veikst um 4% miðað við miðgildi þann 31. desember árin 2018 og 2019.

Öll Norðurlöndin juku fjárframlögin, sé litið til dollara á hvern þegn. Danir um 8,7%, Finnar um 9,7%. Norðmenn um 7,4% og Svíar um 6,15%.

 

*Health spending. data.oecd.org/healthres/health-spending.htm – desember 2020.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica