1. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Læknar ráku lestina sem skilaði sér, - rætt við Sigurveigu Pétursdóttur, formann samninganefndar

„Ég er ánægð með samninginn,“ segir Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar lækna. 93% þeirra nærri 70% lækna sem kusu um nýjan kjarasamning sinn samþykktu. Læknar höfðu verið samningslausir í tvö ár

„Við töldum ekki rétt að læknar myndu draga vagninn í þetta sinn þar sem aðrar stéttir, eins og hjúkrunarfræðingar, börðust fyrir grundvallarbreytingum. Það var því mikilvægt að þær fengju að klára sitt áður en röðin kom að okkur,“ segir Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar Læknafélagsins, sem ritaði undir samning við fjármála- og efnahagsráðherra þann 7. desember.

Samningurinn var samþykktur í atkvæðagreiðslu sem lauk 17. desember. 758 læknar af 1103 greiddu honum atkvæði sitt og gildir hann frá 1. mars 2019 til 31. mars 2023.

Um tvö ár eru frá því að kjarasamningurinn rann sitt skeið á enda og segir hún mikla vinnu hafa mætt þeim í haust að ná samningnum saman. „Áherslan er í anda lífskjarasamningsins. Hún er í anda þess að lyfta aðeins meira þeim yngri,“ segir hún. „Höfuðósk félagsmanna var að hækkunin færi á grunnlaunin og það gerir hún að mestu leyti.“

Sigurveig er ánægð með samninginn. „En auðvitað vill maður alltaf meira. Við hefðum viljað ýmislegt fyrir ýmsa sérhópa innan læknafélagsins.“ Hún nefnir til að mynda bætt vaktafyrirkomulag hjá ákveðnum hópum og ákvæði fyrir dreifbýlislækna. Hún segir þó mikinn sigur í að læknar fái afturvirkar launagreiðslur sem greiddar verði út mánaðamótin janúar og febrúar.

„Aldrei hefur slík afturvirkni verið eins og í þetta skipti. Það er stórt réttlætismál,“ segir hún. En hvað fékk samninganefnd ríkisins til að samþykkja hana? „Sanngirni,“ telur Sigurveig. „Ég vil meina að þetta hafi verið skynsöm samninganefnd sem sá að þetta var rétt og sanngjarnt.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigurveig semur um kjör lækna. „Þetta er þriðja lotan og sú síðasta,“ segir hún þar sem hún situr með blaðamanni Læknablaðsins á einni kaffistofu Fossvogsspítala daginn sem samningurinn var samþykktur. „Ég tel gott að önnur sjónarmið komist að,“ segir hún.

Sigurveig segir þessa þriðju lotu eins en samt öðruvísi en hinar tvær. Hún nefnir þá fyrstu sem hafi endað í verkfalli. Álagið hafi verið mikið en samstaðan mjög góð. „Fjölmiðlar eltu okkur á röndum og hringdu dag og nótt. Ýmsir aðrir -hringdu og vildu ráðleggja okkur og hvöttu okkur til að semja. Það var allt öðruvísi en samt sama prinsippið.“

Auk Sigurveigar sátu Björn Gunnarsson, Björn Gunnlaugsson, Dóra Lúðvíksdóttir, Guðrún Ása Björnsdóttir, Oddur Ingimarsson og Ragnheiður Baldursdóttir í samninganefndinni. Einnig
Geir Karlsson sem kom inn fyrir Hrönn Garðarsdóttur, Már Kristjánsson og Stefán Þórisson.

Sigurveig segir að hún hafi ekki búist við öðru en að samningurinn yrði samþykktur. „Annars blasti ekkert annað við en harðar aðgerðir. Mér fannst samninganefndirnar ná það vel saman í þetta skipti að ég sá ekki að það væri góður kostur að fara í hörku,“ segir hún. „Ég tel að við höfum komist þangað sem hægt var að komast.“

Sigurveig Pétursdóttir er formaður samninganefndar Læknafélagsins. Þetta voru þriðju samningarnir sem hún kemur að og þeir síðustu, segir hún. Mynd/gag



Þetta vefsvæði byggir á Eplica