1. tbl. 107. árg. 2021

Ritstjórnargrein

Langlífi og heilbrigðisþjónusta. Ólafur Samúelsson

Ólafur Helgi Samúelsson | sérfræðingur í lyf- og öldrunarlækningum Landspítala og hjúkrunarheimilinu Eir

doi 10.17992/lbl.2021.01.614

Með auknu langlífi stendur mannkynið frammi fyrir mestu breytingu á samsetningu þjóðfélaga í sögu sinni. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hefur undanfarin ár undirbúið fjölþætt verkefni sem nefnist Áratugur heilbrigðrar öldrunar 2020-2030. Átakið er hugsað sem tækifæri til að efla samvinnu stjórnvalda, alþjóðlegra stofnana, fagfólks, vísindasamfélags, fjölmiðla, einkafyrirtækja og borgara til að móta hugmyndir og leiðir til að bæta tilveru aldraðra, fjölskyldna þeirra og samfélaga þar sem þeir búa. Ennfremur sem átak til hugarfarsbreytinga, meðal annars til að vinna á útbreiddum aldursfordómum. Þarna kennir ýmissa gagnlegra grasa.1

Fjöldi 70 ára og eldri Íslendinga mun varlega áætlað tvöfaldast á næstu 30 árum og þau verða fjórðungur þjóðarinnar. Til að mæta þessu þarf nýjar áherslur og viðhorfsbreytingu. Ein birtingarmynd of einfaldrar sýnar á heilbrigðisþjónustu við aldraða er áratuga reglubundið ákall um að leysa útskriftarvanda Landspítala með bráðabirgðaplássum í bið eftir hjúkrunarrými. Ævinlega er talað um tímabundið neyðarástand. Þessi lausn er löngu gjaldþrota og minnir á sífellt hærri yfirdrátt á bankareikningi. Aðferðin hefur skilað vaxandi fjölda eldri einstaklinga í rýmum sem ekki uppfylla skilyrði um aðstöðu eða þjónustu. Óskandi væri að ríki, sveitarfélög, félagasamtök og einkaframtak gætu sameinast í meira mæli um aðrar skapandi hugmyndir.

Mikilvægt verkefni er að seinka færniskerðingu. Vitundaraukning um mikilvægi hreyfingar, félagslegra tengsla og heilbrigðra lífshátta, jafnvel í elstu aldurshópum, er grunnur að betri lýðheilsu.2 Heilsufar eldra fólks einkennist oft af langvinnum og samverkandi flóknum vandamálum. Heilbrigðiskerfi sem mæta þessu á samþættan og heildrænan hátt eru skilvirkari en kerfi sem fyrst og fremst bregðast við einstaka sjúkdómsmiðuðum uppákomum. Vaxandi þörf verður fyrir menntun sérhæfðs starfskrafts. Auka þarf möguleika til endurhæfingar eftir heilsufarsáföll og sjúkrahúsdvöl. Þessi starfsemi getur verið á ýmsum stigum en þarf að uppfylla skilyrði um þekkingu og þjónustu. Heimaþjónustu með áherslu á teymisvinnu og fyrirbyggjandi vinnubrögð þarf að efla. Reglubundin skimun og mat atriða eins og færni, geðeinkenna, vitrænnar getu, næringar og lyfjameðferðar auka möguleika á inngripum áður en í óefni er komið. Lykilaðilar hér væru heilsugæsla og heimaþjónusta með greiðan aðgang að sérhæfðum göngudeildum og sérfræðingum. Þetta dregur úr þörf á þjónustu bráðadeilda og seinkar hjúkrunarheimilisþörf.

Á 21. öldinni þarf að þróa kerfi langtímaumönnunar sem er fjölbreytt og fagleg og þar sem viðeigandi þjónusta er veitt heima eða á stofnunum eftir þörfum einstaklinga. Hjúkrunarheimili geta gegnt fjölbreyttu hlutverki með endurhæfingu og hvíldarinnlögnum auk heimilishlutverks. Þau þurfa faglega að ráða við flókin tilfelli, meðan annars vitræna skerðingu með hegðunartruflunum, eftirlit og meðferð bráðra og langvinnra sjúkdóma, reglubundna yfirferð lyfjameðferðar og aðstöðu til að veita líknandi og lífslokameðferð. Slíkt dregur úr óviðeigandi og stundum skaðlegri notkun bráðaþjónustu viðkvæms hóps. Fjármögnun, fagleg mönnun og kröfur um þjónustu þurfa að vera í samræmi við þetta. Yfirstandandi heimsfaraldur hefur víða dregið mikilvægi þessa fram í dagsljósið.3

Nútímasjúkrahús þarf að taka tillit til þarfa vaxandi hóps fjölveikra skjólstæðinga og haga þjónustu sinni og umhverfi þannig að dragi úr skaðlegum áhrifum sjúkrahúsdvalar og bráðra veikinda. Skipuleggjendur starfsemi nýs Landspítala mættu hafa slíkar áherslur í huga.

Aldrei á æviskeiði er meiri munur milli einstaklinga en á efri árum og í raun enginn dæmigerður aldraður. Þessi breytileiki er ekki tilviljanakenndur heldur háður félagslegum og efnahagslegum þáttum, lífsstíl, kyni og fleiru. Okkur hættir til að skilgreina ákveðinn aldurshóp sem fyrst og fremst þjónustuþega en eldra fólk hefur eins og aðrir borgarar ólíka getu og þarfir og getur lagt til samfélagsins á margan hátt. Eðlilegt er að hlutverk breytist eftir æviskeiðum en þörf fyrir tilgang og bestu mögulega heilsu er ekki aldursháð. Ef færni og heilsa eru góð, fylgja ótal tækifæri með auknu langlífi. Ef efri ár einkennast fyrst og fremst af hraðri afturför eru áhrif langlífis neikvæð fyrir einstakling og samfélag.

Íslendingar sem nú eru um eða yfir miðjum aldri eiga tækifæri til að hafa mótandi áhrif á samfélag nánustu framtíðar. Áhugavert væri að ímynda sér hóp aldraðra næstu 20 til 30 ára. Í þeim flokki gætu reynst kunnugleg andlit. Hvernig samfélag og heilbrigðisþjónusta viljum við að mæti þeim?

Heimildir

1. who.int/initiatives/decade-of-healthy-ageing - desember 2020.
 
2. Gudlaugsson J, Aspelund Th, Guðnason V, et al. Áhrif 6 mánaða þjálfunar á hreyfigetu, vöðvakraft, þol og líkamsþyngdarstuðul eldri einstaklinga - Eru áhrif þjálfunar sambærileg hjá konum og körlum? Læknablaðið 2013; 99: 331-7.
https://doi.org/10.17992/lbl.2013.0708.504
PMid:23813280
 
3. O'Neill D, Briggs R, Holmerovå, et al. COVID-19 highlights the need for universal adoption of standards of medical care for physicians in nursing homes in Europe. Eur Geriatr Med 2020; 11: 645-50.
https://doi.org/10.1007/s41999-020-00347-6
PMid:32557250 PMCid:PMC7298916


Þetta vefsvæði byggir á Eplica