07/08. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Eva vildi ekki sjá eftir að hafa aldrei prófað læknisfræðina

Eva Katrín Sigurðardóttir er ein þeirra fjölmörgu sem útskrifast úr grunnnámi
læknisfræðinnar erlendis. Þessi þriggja barna móðir flytur nú heim frá Danmörku
með fjölskylduna og stefnir á að hefja sérnámið hér á landi

„Læknisfræðin var draumur sem blundaði innra með mér,“ segir Eva Katrín Sigurðardóttir sem útskrifast úr grunnnámi læknisfræðinnar frá Kaupmannahafnarháskóla nú í júní. Hún er enn úti og Læknablaðið náði henni við borðstofuborðið með aðstoð Zoom-fundarforritsins. Hún fór fjallabaksleið að fræðunum. Kláraði viðskiptafræði 2010 hér heima og fylgdi manninum sínum, Kristjáni Þór Gunnarssyni heimilislækni, til Danmerkur í sérnám.

Eva Katrín með fjölskyldunni, manninum sínum Kristjáni Þór og dætrunum þremur. Myndir/aðsendar

„Ég var komin í gegnum helminginn af viðskiptafræðináminu þegar ég fór að velta fyrir mér að söðla um og fara í læknisfræðina. Þá komst ég að því að ég væri ólétt að öðru barni okkar og kláraði viðskiptafræðina.“ Draumurinn hafi þó orðið praktíkinni sterkari.

„Við maðurinn minn höfum verið saman síðan hann var á þriðja ári í læknisfræði,“ segir hún. „Ég andaði ofan í hálsmálið á honum þegar hann var í námi. Fannst læknisfræðin alltaf meira og meira spennandi,“ lýsir hún og hvernig hún hafi setið með honum og vinum hans þegar þeir lærðu.

„Ég var komin með orðaforðann áður en ég byrjaði. Gamall draumur frá því að ég man eftir mér en ég gaf honum ekki séns,“ segir hún. „Ég hélt hreint ekki að ég gæti þetta með tvö börn,“ segir hún.

 

Árs inntökuferli

„Einn morguninn sagði maðurinn minn: Eva ég vil ekki að hlusta á þig níræða segja að þú sjáir eftir því að hafa aldrei prufað. Þú verður að prófa og ef þér líkar ekki hættirðu,“ segir Eva sem endanlega ákvað að slá til og fara í námið þegar hún hélt útskriftarpartí úr viðskiptafræðinni árið 2010.

„Þá fékk náinn frændi minn heilablæðingu. Nokkrum dögum seinna var hann á skurðarborði í Stokkhólmi á leiðinni í opna heilaskurðaðgerð. Ég gat ekki sofið þá nótt og um morguninn ákvað ég að lífið væri of stutt til þess að gera ekki það sem mann langar og dreymir um.“

Eva lagði mikið á sig til að komast inn í námið. Tók kúrsa í raungreinum í fjarnámi frá Háskóla Íslands. Hún skráði sig einnig sem sjálfboðaliða hjá Læknum án landamæra og vann með þeim í ár auk þess að vinna á elliheimili fyrir heilabilaða til að læra dönsku.

„Það tók ár að sækja um hér úti,“ segir hún og komst inn í námið, ein 56 af tæplega 1600. „Þetta var mikil samkeppni.“ Eva útskrifast eftir 8 ára námsframvindu. „Við eignuðumst þriðja barnið á leiðinni,“ segir hún og hlær. „Ég hef því þurft að taka mér smá frí. Ég er alveg tilbúin að klára núna.“

En var hjálp í eiginmanninum? „Ég er oft spurð að þessu,“ segir Eva. „Í rauninni hefur hjálpin falist í því að hann hefur séð um börnin og eldamennskuna,” segir hún og hlær.

Fjölskyldan stefnir á að flytja heim nú í sumar. „Eldri stelpurnar okkar eru 11 og 13 ára og sú yngsta tveggja ára. Við söknum fjölskyldu, vina, náttúrunnar og sundlauganna og viljum koma heim áður en þær eldri festast hér úti. Ég hef sjálf upplifað þetta. Foreldrar mínir fluttu út þegar ég var nýbyrjuð í menntaskóla og ég neitaði að fara með. Ég vildi ekki upplifa það sem foreldri,“ segir hún og byrjar kandídatsárið í haust hér heima.

 

Sérnám út frá lífsstílnum

Hún fagnar því að úrvalið í sérnámi sé alltaf að aukast hér á klakanum. Svæfinga- og kvenlækningar hafi lengi verið á stefnuskránni. „En á elleftu önn hér úti valdi ég öldrun til að fá víðtækari reynslu í lyflækningum. Fagið kom mér á óvart.“ Hún sé því ekki ákveðin en lyf muni í það minnsta koma við sögu.

„Með aldrinum og þremur börnum mun ég einnig taka tillit til þess hvernig lífi mig langar að lifa. Er ég til í mikla vaktavinnu og álag? Ég þarf að meta það.“ En hlakkar hún til að starfa sem læknir á Íslandi eftir dönsku reynsluna?

„Ég hef leyst af í Rangárþingi,“ segir hún og hefur því innsýn í að úrræðin séu ólík milli landanna. „Allt annað sögukerfi. Allt annað sjúklingakerfi og utanumhald. Til-finning mín eftir þann tíma var að úrræðin séu ekki eins mörg og hér í Danmörku,“ segir hún. „Enda væri það kannski skrítið. Hér eru bæði fleiri spítalar og fleira fólk.“

Hún útskýrir hvernig heimilislæknar séu hliðverðir kerfisins í Danmörku og hvernig „krabbameinspakkinn“ þeirra sé ein helsta rósin í hnappagati danska heilbrigðiskerfisins.

„Ekki mega líða meira en 8 dagar frá því að heimilislækni grunar að sjúklingur sé með húðkrabbamein þar til komið er svar og plan um aðgerðir,“ segir hún. Sé um ristilkrabbamein að ræða megi líða fjórar vikur sem sé lengsti ferillinn við greiningarnar.

„Þetta er skilvirkt kerfi. En það hefur sína kosti og galla eins og öll önnur,“ segir hún og er spennt fyrir því íslenska þótt hún hafi stundum haft áhyggjur af úrræðaleysinu. „Margir kjósa samt að koma heim eftir nám ytra og eru jafnvel ánægðari en hér.“

Eva Katrín segir læknanámið í Kaupmannahafnarháskóla sterkt, þau fái mikla reynslu. „Við förum til að mynda í þriggja vikna krufningarkúrs þar sem við lærum anatómíu. Við erum með okkar eigið lík sem við skerum upp og kryfjum niður í smæstu taugar.“ Verknámið sé mikið, rétt eins og hér heima en fjölbreytnin jafnvel meiri. Fólk alls staðar að úr heiminum komi með sjaldgæfa sjúkdóma inn á spítalann.

 

Hugsi yfir álaginu á lækna

Hún segist hugsi yfir álagi sem virðist á íslenska lækna. „Hér er passað upp á starfsfólk. Vinnuvikan er 37 tímar. Læknar vinna lengur og flestir fá þann tíma greiddan í fríi. Á þriggja mánaða fresti er fólk sent í frí,“ segir hún.

„Dönum finnst þeir samt hlaupa allt of hratt, hafa allt of mikið að gera. Enginn tími sé til að borða eða pissa en miðað við það sem ég hef heyrt af ástandinu heima er álagið enn meira þar.“

Hún segir að lokum að árin í náminu hafi bæði tekið verulega á og gefið mikið. „Um leið og reynir á fræðin verður rosalega skemmtilegt. Enginn dagur er eins. Við erum í samskiptum við allskonar fólk. Það er spennandi,“ segir Eva sem fær að finna fyrir COVID-áhrifunum á útskriftinni.

„Útskriftarathöfnin verður rafræn þann 29. júní. Við höfum ákveðið að hittast í hópum. Tíu manns saman með tölvur að horfa á athöfnina.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica