07/08. tbl. 106. árg. 2020

Ritstjórnargrein

Heilsugæsla á breyttum tímum. Óskar Reykdalsson

Óskar Reykdalsson læknir forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

doi 10.17992/lbl.2020.0708.589

Heilsugæslan hefur gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum mánuðum og árum og má segja að sífellt umbótastarf sé lykillinn að þessum breytingum. Eftir efnahagshrunið árið 2008 dróst starfsemi heilsugæslunnar saman og uppbygging hófst að nýju árið 2015 með umfangsmiklum breytingum á stjórnskipulagi og enn fremur með breyttu fjármögnunarlíkani árið 2017.Töluvert viðbótarfjármagn hefur verið sett í að styrkja heilsugæsluna með ákveðnum verkefnum, meðal annars bættri geðheilbrigðisþjónustu með fjölgun sálfræðinga í barna- og fullorðinsþjónustu. Slíkar breytingar eru liður í bættri heilsugæslu.

Í kjölfar breytinga á fjármögnun fjölgaði heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu úr 17 í 19. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins rekur 15 stöðvar en fjórar eru í einkarekstri. Aukin teymisvinna, opnara aðgengi og breytt hugarfar gerði heilsugæsluna enn betri en áður. Þjónustukannanir hafa sýnt að íbúar treysta henni. Einnig sýna starfsánægjukannanir vaxandi ánægju og stolt starfsmanna af vinnustað sínum. Jafnframt hefur samstarf við aðrar stofnanir aukist, bæði við stofnanir með mismunandi rekstrarform eða aðrar heilbrigðisstofnanir eins og Landspítala. Öflugt samstarf við deildir á Landspítala, aðrar heilbrigðisstofnanir, einkareknar heilsugæslustöðvar, Læknavaktina og fleiri aðila hefur verið til fyrirmyndar. Góð samvinna og jákvætt hugarfar hafa orðið til þess að tryggja réttan sjúkling á réttan stað og það er lykillinn að þeim breytingum sem hafa verið gerðar og skilað góðum árangri.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sér um fjölbreytta starfsemi og eru ýmis verkefni í umsjón hennar, til dæmis þrjú geðheilsuteymi, miðstöð foreldra og barna, Þroska- og hegðunarmiðstöð, skoðanir á hælisleitendum, göngudeild sóttvarna, héraðsvaktin, auk heilsugæslustöðvanna 15.

Á undanförnum árum hefur Heilsugæsla höfuð-borgarsvæðisins eins og margar aðrar heil-brigðisstofnanir um allt land tekið að sér við-bótar-verkefni. Heilsugæslan er stolt af að vera aðili að þessum verkefnum og dæmi um slíkt eru fangelsis-lækningar, geðheilbrigðisþjónusta í fangelsum og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu en hún hefur sannað gildi sitt til dæmis með skoðunum á sýklalyfjanotkun og ýmsum samstarfsverkefnum. Mikilvægt er að halda áfram slíkri uppbyggingu landi og þjóð til hagsbóta.

Fjölþætt starfsemi og hlutverk heilsugæslunnar er til góðs og öflugt samstarf eininga tryggir betri þjónustu við sjúklinga. Rafræn þjónusta hefur aukist á undanförnum árum og fer vaxandi. Netspjall hefur sannað gildi sitt á síðustu mánuðum á COVID-tímum og við mislingaátakið fyrir ári. Símanúmerið 1700 er einnig öflugur leiðarvísir í hinu íslenska heilbrigðiskerfi og netspjallið góð leið til að leiðbeina fólki sem leitar til kerfisins.

Á síðasta ári kom upp mislingasmit hérlendis. Það var í raun gott áreynslupróf fyrir heilsugæsluna til að takast á við faraldra. Þá tókst okkur að bólusetja fjölmarga á skömmum tíma. Á þeim vikum tókst okkur að gerbreyta allri starfsemi heilsugæslunnar á einu augabragði og koma í veg fyrir að mislingar næðu sér á strik í landinu. Þetta hefur síðan endurtekið sig nú á þessu ári með heimsfaraldri COVID-19. Heilsugæslan þurfti aftur að breyta allri starfsemi eins og allar stofnanir hafa gert. Frá því að vera með hefðbundna stofnun í að margir starfsmenn unnu heima og þeir sem mættu þurftu oft að vinna utandyra við sýnatökur. Það varð veruleg fjölgun símtala en viðtöl á stöðvunum voru að sama skapi færri. Náið samstarf var á milli heilbrigðisstofnana og innan stofnana sem er grunnur að góðum árangri. Það er nauðsynlegt að hafa þessi atriði í huga og draga lærdóm af því hvernig bregðast á við þegar alvarleg smit eða faraldrar koma upp.

Vegna COVID-19 hafa ýmis verkefni safnast upp á þessum mánuðum og eru starfsmenn heilsugæslunnar að vinna með þau á degi hverjum og á sama tíma eru sumarleyfi að hefjast. Frí eru mikilvæg og ekki síst eftir annasaman vetur. Óvissa hefur einkennt þennan vetur og má segja að sú óvissa sé enn til staðar. Heilsugæslan tók að sér umsjón með sýnatöku á Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli í samstarfi við Landspítala, sóttvarnalækni, Almannavarnir, Íslenska erfðagreiningu og fleiri. Öll þessi vinna og samfélagsleg ábyrgð þeirra sem að málinu koma er þannig að verkefnið hefur gengið vel þrátt fyrir stuttan undirbúningstíma.

Góður árangur hérlendis í heimsfaraldrinum er til fyrirmyndar og ber að þakka hann þeim faglegu vinnubrögðum, þeirri samfélagslegu ábyrgð og þeim mikla vilja að láta hlutina ganga. Allir í hinu íslenska heilbrigðiskerfi og víðar hafa lagt sig fram um að láta hlutina ganga upp. Mislingarnir voru spretthlaup en COVID langhlaup.

Við þurfum nú að undirbúa hvernig við vinnum með áhrif faraldursins á næstu misserum, hvort sem það verða nýjar bylgjur eða áhrif langvarandi efnahagskreppu. Það hefur verið þannig í vetur að um leið og einn sigur er unninn kemur næsta áskorun.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica