04. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Útskrifast fyrst íslenskra kvenna sem hjarta- og lungnaskurðlæknir

„Fyrsta hjartaaðgerðin sem ég tók þátt í sem læknanemi var enduraðgerð á hjarta. Myndast hafði mikill örvefur og ég fékk að hanga á hökum til að lyfta upp bringubeininu í nokkra klukkutíma. Það hélt mér ekki frá heldur var byrjunin á þessu ævintýri,“ segir Ragnheiður Martha Jóhannesdóttir, sérfræðilæknir í hjarta- og lungnaskurðlækningum. 

                                           
                                          „Allt frá því að ég man eftir mér ætlaði ég að verða læknir,“ segir
                                          Ragnheiður Martha Jóhannesdóttir sem áttaði sig seint á að hún yrði
                                          fyrst íslenskra kvenna til að ljúka námi í hjarta- og lungnaskurðlækningum.
                                          Mynd: Aðsend.                                      

„Allt frá því að ég man eftir mér ætlaði ég að verða læknir. Amma man eftir mér segja það þegar ég var tveggja ára,“ segir hún og hlær á línunni frá Umeå í Svíþjóð en hún útskrifaðist frá Norrlands-háskólasjúkrahúsinu þar nú um miðjan mánuðinn.

Ragnheiður gekk í MR. „Af því að ég ætlaði að verða læknir,“ segir hún. Hún var þá þegar ákveðin í að verða skurðlæknir. Á öðru ári í læknadeild fór afi hennar í hjáveituaðgerð. „Þá kviknaði hjá mér löngun til þess að mennta mig í þessari sérgrein. Um leið og ég kom inn á hjartaskurðdeildina á 4. ári var ég fullviss um að valið væri rétt,“ segir hún. „Ég hef alltaf vitað hvað ég vil gera.“

Hún segist ekki hafa spáð í að hún yrði fyrsta íslenska konan til að útskrifast úr þessari sérgrein. „Ekkert, og fattaði ekki fyrr en ég varð deildarlæknir að það væru einungis karlar í faginu heima og engir kvenmenn úti í þessu sérnámi. Þetta æxlaðist því bara svona og var ekki planað.“

Hún segir starfsfélagana hér heima hafa stutt sig heilshugar. „Þeir drógu alls ekki úr mér heldur hvöttu mig áfram.“ En hvað er það sem fælir konur frá faginu?

„Úff, ég veit það ekki.“ Sumir nefna hve langan tíma aðgerðirnar taki og fólki finnst mikil ábyrgð í að sýsla með hjartað. Hún hvetur konur til þess að feta þessa leið.

„Við sem ákveðum að verða læknar höfum þegar ákveðið að hafa líf fólks í höndunum. Við þurfum ekki að óttast þær krefjandi aðstæður sem fylgja því að gera hjartaaðgerð,“ segir hún. „Það er eðlilegt að vera stressaður fyrir aðgerð eða óöruggur með eitthvað sem maður er að gera í fyrsta skipti, en fyrir mér hverfa allar svona til-finningar fyrir algjörri einbeitingu í aðgerðum.“

Er hún stolt sem fyrsta íslenska konan sem hjarta- og lungnaskurðlæknir? „Já, ég verð að segja það. Ég er það, svona þegar ég fattaði að þetta eru tímamót fyrir okkur íslenskar konur. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því.“

Ragnheiður er ánægð í Umeå. „Hér er góður andi og mikið jafnræði milli lækna á klíníkinni. Hér setja yfirlæknar sig ekki á háan hest. Hópurinn fer saman yfir málefni dagsins á morgnana. Svo drekka allir saman kaffi áður en læknar fara á stofugang eða í aðgerð. Samvinnan er góð.“ Hún er ekki ein kvenna í hjarta- og lungnaskurðlækningum ytra. „Við erum fjórar hérna sem er einstakt því við erum ekki svo margar í faginu hér í Svíþjóð, en fjölgar þó ört.“

Hvað tekur við nú eftir útskrift? „Ég held áfram að læra. Núna get ég gert tvennskonar hjartaaðgerðir, kransæðahjáveituaðgerð og ósæðarlokuskipti. Ég á enn eftir að læra að gera margar aðrar aðgerðir.“ Hún einbeitir sér að hjartanu núna en stefnir á að læra að gera lungnaaðgerðir med VATS-tækni.

Á heimleið? „Ekki eins og er.“ Hún hefur ásamt manni sínum byggt hús í Umeå.

„Ég á eftir að læra svo mikið enn að ég er ekki farin að huga að heimferð.“ En er hún þá komin í draumastarfið. „Jú, jú, þetta er ótrúlegt. Ég hef verið í læknanámi frá því að ég var tvítug, í 13 ár. Þegar pappírinn kom í pósti um daginn marðist það inn að ég væri í alvörunni búin.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica