02. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Lærði aftur til læknis á Landspítala eftir útskrift í Rússlandi

Ástin dró Alexander Illarionov, ungan rússneskan lækni, til starfa á Íslandi. Hann vinnur nú á lyflækningasviði Landspítala eftir að hafa tekið kandídatsárið aftur hér á landi til að fá lækningaleyfi.

                                          
                                          Alexander Illarionov hefur frá árinu 2017 lært íslensku, tekið kandídatsár
                                          hér á landi, fengið læknaleyfi og hafið sérnám í lyflækningum. Mynd/gag

hlusta

Alexander lærði lækningar á bernskuslóðum sínum í St. Pétursborg í Rússlandi. „Ég kom í fyrsta skipti til Íslands árið 2013. Ég var ferðamaður,“ segir Alexander sem þá var læknanemi við ríkislæknaskólann í borginni. Hann var á 5 vikna löngu ferðalagi. Hafði áður ferðast víða um Evrópu og varð Ísland hlutskarpara en Noregur þegar hann kom hingað fyrst. Það var happaferð því hingað flutti hann síðar eftir ástinni þegar hann hafði lokið læknanáminu heima fyrir og er í sambúð.

„Ég fór aftur til Rússlands í þrjú ár til að klára læknanámið en kom svo aftur til Íslands árið 2017. Það var erfitt að fá læknisprófið staðfest hér á Íslandi. Ég þurfti að skila gögnum til Embættis landlæknis. Til að fá þau til að skoða gögnin þurfti ég ráðningarsamning við Landspítalann og til þess að fá hann þurfti ég lækningaleyfi,“ segir hann á íslensku og án gagnrýni í röddinni. Staðan hafi lítið bifast í fjóra mánuði.

Fjallabaksleið að leyfinu

„Vinur minn, hjúkrunarfræðingur á Landspítala, ráðlagði mér að sækja um vinnu á spítalanum. Ég fór beint á meltingar- og nýrnadeildina og fékk viðtal við yfirlækni og vinnu á skilunardeildinni og ráðningarsamning og málin tóku að hreyfast. Ég byrjaði að starfa í janúar 2018 eins og sérhæfður starfsmaður,“ segir Alexander.

„Ég tók svo próf í maí sem 6. árs læknanemar þurfa að taka. Eftir það fékk ég leyfi til að sækja um að komast á kandídatsár. Mikil áhersla var lögð á að ég talaði íslensku, annars fengi ég ekki þetta tækifæri,“ lýsir hann og er nú á fyrsta ári í sérnámi í lyflækningum.

Við setjumst niður á föstudagseftirmiðdegi á kaffihúsi í miðbænum. Hvorugt veit hvernig hitt lítur út og hann ekki nákvæmlega hver vinkillinn verður. Blaðamaður veit heldur ekki hvort grípa þurfi til enskunnar, en nei. Alexander talar fantagóða íslensku eftir þennan stutta tíma hér á landi. Hann er yfirvegaður þegar hann segir sögu sína og gefur lesendum Læknablaðsins innsýn í líf sitt.

Mikilvægt að kunna íslensku

„Það er sanngjarnt að fara fram á íslenskukunnáttu og mikilvægt að tala tungumálið enda ekki hægt að vinna án færni í tungumálinu á kandídatsárinu. Mér finnst líka sanngjarnt að taka kandídatsárið aftur hér á landi. Ég er glaður að hafa gert það. Ég lærði ótrúlega mikið og það var mjög góð reynsla,“ segir hann. Námið ytra og hér á landi sé mjög ólíkt og gott að hafa reynslu af ólíku vinnuumhverfi.

„Ég vissi að ég þyrfti að vera öruggur í vinnunni með hvað ég þyrfti að gera og hvernig kerfið virkar,“ segir hann. „Ég lærði líka mikið af læknisprófinu þegar ég var að undirbúa mig.“

Alexander lýsir því hvernig meiri áhersla sé lögð á fræðin í Rússlandi en gjörðirnar hér á landi. „Þegar ég kláraði námið í Rússlandi vissi ég ekki hvernig vinnan sjálf færi fram. Ég lærði það á kandídatsárinu í Rússlandi. En læknanemar á 4. og 5. ári hér vita hvað þau þurfa að gera; stofugangur, panta blóðprufur og annað,“ segir hann. Þá fái kandídatar í Rússlandi ekki greidd laun heldur þurfi sjálfir að greiða fyrir árið.

Stórar fjölskyldur í litlu landi

„Þetta er allt öðruvísi, segir Alexander og hlær létt. Spurður hvort það sé þá ekki mikilvægt að eiga peninga til að verða læknir í Rússlandi segir hann að afburðanemendur geti fengið styrk. Það hafi hann fengið. En vildi hann alltaf verða læknir? „Já, strax þegar ég var fjögurra eða 5 ára gamall,“ segir hann. „Mér fannst þetta svo áhugavert og gaman að fara til læknis.“

Hann á móður sína í Rússlandi og þau hittast reglulega annars staðar í Evrópu og eru í góðu sambandi. „Fjölskylda mín er mjög lítil miðað við íslenskar stórfjölskyldur,“ segir hann og brosir. Hann hafi aldrei búist við því að verða læknir annars staðar en í Rússlandi, hvað þá á Íslandi.

„Ég var í sjokki þegar ég kom hingað fyrst. Ég vildi finna búð þegar ég stóð við Hallgrímskirkju og spurði næsta mann: Hvar er miðbærinn?“ Allt hafi verið svo lítið. Svarið hafi verið: „Þú ert í miðbænum.“

Allt önnur þjónusta í Rússlandi

Hann segir heilbrigðiskerfið í Rússlandi mjög ólíkt því sem hér er. „Stærsta vandamálið í Rússlandi er peningaleysi,“ segir hann og spyr um leið hvort það sé orð á íslensku, peningaleysi. Hann hafi sett það saman í huganum.

„Ég starfaði á hjartadeildinni. Þar var enginn mónitor. Hann var aðeins á gjörgæslunni. Aðeins einn hjúkrunarfræðingur sinnti 30-40 sjúklingum en kannski þrír læknar. Enginn sjúkraliði, enginn sjúkraþjálfari. Þegar ég kom hingað vissi ég ekki hvað sjúkraliði væri. Hvað gerir sjúkraliði? Hver er þetta?“

Hann lýsir einnig ólíku starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga hér á landi og í Rússlandi. „Ef sjúklingur þarf lyf í æð eða annað slíkt þarf hann að koma til hjúkrunarfræðingsins. Hjúkrunarfræðingurinn kemur ekki til sjúklingsins,“ segir Alexander. Peninga skorti til að senda sjúklinga í rannsóknir. Erfitt sé að komast í segulómun, hjartarannsóknir eða sam­bærilegar meðferðir.

„Læknar í Rússlandi þurfa alltaf að réttlæta af hverju þeir panta þessar rannsóknir. Þeir þurfa að útskýra fyrir sjúkratryggingum af hverju þeir þurfa lungnamynd af sjúklingi.“ Hann segir fjóra til átta sjúklinga deila sjúkrastofu. „Sjúklingur er aldrei einn. Ef hann vill það þarf hann að borga fyrir það sérstaklega.“

Alexander lýsir því að til séu sjúkrahús fyrir ríkari landsmenn í Rússlandi, þar sem þeir greiði sjálfir fyrir lækninguna. Hvað finnst honum um það? „Stundum gott. Mér finnst allt í lagi, eins og er í Rússlandi, að greiða 3.-4.000 krónur og komast beint til sérfræðilæknis. Annars er kerfið svipað því sem hér er, fólk þarf að komast til heimilislæknis og fá tilvísun. Það getur tekið langan tíma.“

Bráðamóttakan í vanda

Alexander segir marga kvarta yfir þjónustunni hér á landi. „En ég veit að kerfið er gott. Hér er veitt ótrúlega góð þjónusta. Á Landspítala er afar gott starfsfólk. Íslendingar vita ekki hvernig þetta getur verið.“ Starfsandinn milli heilbrigðisstétta sé eftirtektarvert góður.

Alexander hefur unnið víða á Landspítala, bæði nú í sérnáminu og á kandídatsárinu, meðal annars á bráðamóttökunni og nú í hreyfiteyminu sem tekur á móti sjúklingum af bráðamóttöku á lyflækningasvið. „Ég er sammála Má Kristjánssyni lækni,“ segir hann. Bæta þurfi úr stöðunni á bráðamóttökunni.

„Við vorum með sjúkling með hjartadrep frammi á gangi. Hann var ekki í mónitor, því þar var enginn. Það var fáránlegt. Öryggi sjúklings þarf að vera í fyrirrúmi. Þeir eiga ekki að vera frammi á gangi. Þetta ástand er ekki gott.“ Vandinn sé ekki einangraður við bráðamóttökuna. „Þetta er vandi Landspítala,“ segir hann og bendir á fráflæðisvandann. „Vandinn er ekki plássleysi á bráðamóttökunni heldur vantar pláss á Landspítala.“ Það skorti fjármagn.

„Hingað koma fleiri og fleiri sjúklingar. Fólk er að eldast. Við þurfum að gefa viðeigandi þjónustu en ekki spara peninga. Við eigum ekki að spara peninga á kostnað öryggis sjúklings.“

Finnur ekki fyrir fordómum

En hvernig taka sjúklingar erlendum lækni? „Í rauninni allt í lagi. Fólk spyr oft hvaðan ég komi. Einstaka sinnum vill sjúklingur eða aðstandandi ekki tala við mig.“ Svo hafi það gerst að barn hafi viljað íslenskan lækni. „Ef barn vill íslenskan lækni fær það íslenskan lækni. Ég velti því ekki frekar fyrir mér hvað það var að hugsa.“

Spurður hvort hann finni fyrir fordómum fyrir því að læra grunnnámið í Rússlandi eins og hann gerði eða Ungverjalandi og Slóveníu svarar hann að námið þar ytra sé afar gott en kerfið ólíkt. Nemarnir þurfi að læra á það.

„Þetta eru góðir læknar og ég hef ekki hitt lækni hér á landi sem ekki er góður. Þetta er samvinna og hér vinna heilbrigðisstéttirnar saman,“ segir hann. Það sé ólíkt því sem sé í Rússlandi þar sem samvinnan sé ekki eins rík og hjúkrunarfræðingar tróni yfir læknum.

„Ég finn ekki fyrir fordómum innan spítalans heldur stuðningi heilbrigðisstarfsmanna.“

Lærði íslensku á Landspítala

Hann segir frá því að hann hafi ekki kunnað mörg orð þegar hann hóf störf á Landspítala. Hann hafi ekki kunnað að kynna sig á íslensku eða þylja upp kennitöluna. „Ég fór á námskeið hjá Mími en mér fannst það gagnlaust, enda fáar stundir á viku. Ég lærði íslensku í vinnunni, 8 klukkutíma á dag, 5 daga vikunnar.“

Á þremur mánuðum hafi hann lært nóg til að fá pláss á kandídatsári. „Íslenska tengd læknisfræði er í lagi. Það er erfiðara að tala um það sem ekki tengist læknisfræðinni. Ef sjúklingur er með andlega vanlíðan, þá er það frekar erfitt fyrir mig.“

En hvernig er á Íslandi? „Mjög gott,“ segir hann. „Oft er spurt hvað sé best á Íslandi. Mér finnst það ekki náttúran heldur íslenskt fólk. Allir eru svo næs. Hér er lítið um glæpi. Hér er öruggt,“ segir hann. „Fólk brosir en það gerir það ekki í Rússlandi,“ segir hann og hlær. Hann sér ekki fyrir sér að starfa sem læknir í Rússlandi í framtíðinni.

„Ég sakna matarins en ég sakna ekki Rússlands.“

415 erlendir læknar fengið starfsleyfi frá aldamótum

Alls hafa 415 erlendir læknar fengið starfsleyfi hjá Embætti landlæknis frá árinu 2000. Þar af fengu 35 erlendir læknar starfsleyfi árið 2019. Alls 24 læknar fengu útgefið starfsleyfi eftir próf en höfðu upphaflega starfsleyfi erlendi s frá og 33 læknar þar sem upphaflegt útgáfuland starfsleyfis er bæði Ísland og erlent land. Læknar sem hafa starfsleyfi hér á landi eru frá 33 löndum, 17 þeirra landa eru utan Evrópu. Samkvæmt tölum Landspítala eru um 45 erlendir læknar á skrá um 5% af heildinni. Starfshlutfall fjórðungs þeirra er sagt lítið. Almennt séu erlendir starfsmenn um 6% af heildarmannafla spítalans. Samkvæmt svörum Embættisins hefur einum erlendum lækni verið synjað um almennt lækningaleyfi (2018) og tveimur um sérfræðileyfi (2014 og 2019) en ekki almennt leyfi.

Læknablaðið spurði Embættið einnig út í það verkferli að læknir þurfi að hafa ráðningarsamning til að fá lækningaleyfi og sagðist Embættið starfa eftir 16. grein reglugerðar nr. 467/2005 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi. „Ef viðkomandi er utan EES þarf hann að skila inn ráðningarsamningi eða staðfestingu um vilyrði fyrir starfi í íslensku heilbrigðiskerfi,“ segir í svörunum. „Embættið telur ekki þörf að gera breytingar á þessum kröfum,“ segir það og bendir á að kröfurnar eigi við um allar löggildar heilbrigðisstéttir, ekki eingöngu lækna.Þetta vefsvæði byggir á Eplica