02. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Lögfræði 54. pistill. Betri vinnutími lækna og innleiðing hans. Dögg Pálsdóttir

Samninganefnd Læknafélags Íslands (LÍ) hafði þrjú meginmarkmið í nýafstöðnum kjaraviðræðum við ríkið: 1) Að læknar fengju sömu styttingu á vinnuviku sinni og aðrar heilbrigðisstéttir, nema lyfjafræðingar, hafa þegar fengið og raunar obbinn af opinberum starfsmönnum. 2) Að ná fram hækkun á grunnlaunum lækna. 3) Að ná fram lagfæringum vegna mikillar bindingar og mikils vinnuálags hjá stórum hópi lækna sem sinna gæsluvöktum.

Þessi meginmarkmið náðust í þeim kjarasamningi LÍ og fjármála- og efnahagsráðherra sem undirritaður var 28. nóvember 2024. Góð þátttaka var í atkvæðagreiðslunni um kjarasamninginn, sem lauk 13. desember 2024. Tæplega 82% þeirra sem atkvæðisrétt höfðu greiddu atkvæði um kjarasamninginn og liðlega 86% þeirra samþykktu hann.

Í þessum pistli er stuttlega fjallað um betri vinnutíma og hvað í honum felst.1

Ítarlega er fjallað um hvað felst í betri vinnutíma lækna í fylgiskjali 2 með nýgerðum kjarasamningi, sem er meðal annars aðgengilegur á ytri heimasíðu LÍ, www.lis.is. Þar kemur fram að:

 

• Virkur vinnutími breytist úr 40 í 36 klukkustundir á viku.

• Helstu markmið með betri vinnutíma eru að:

o Bæta starfsumhverfi lækna.

o Auka jafnvægi vinnu og einkalífs hjá læknum.

o Stuðla að betri heilsu lækna.

o Bæta öryggi og þjónustu við skjólstæðinga lækna og auka skilvirkni þjónustu.

o Auka sveigjanleika í mönnun til að mæta þörfum þjónustunnar.

o Stuðla að betra skipulagi og draga úr álagi og yfirvinnu hjá læknum.

o Gera heilbrigðisstofnanir hér á landi að eftirsóttum vinnustöðum lækna.

 

Stytting vinnuskyldu lækna mun hafa áhrif á starfsemi stofnana og mönnunargat mun mögulega myndast. Til að fyrirbyggja slíkt þarf endurskoðun og umbótavinnu hjá heilbrigðisstofnunum, kerfisbreytingar á vinnufyrirkomulagi og starfsumhverfi lækna en tryggja um leið gæði og framþróun lækninga og þjónustu við skjólstæðinga.

Allar breytingar sem ráðast þarf í eiga þó hvorki að leiða af sér lækkun launa lækna né skerðingu á þjónustu.

Í aðdraganda innleiðingar á betri vinnutíma verða læknar sem starfa í skertu starfshlutfalli hvattir til að auka við sig starfshlutfall sem nemur styttingu vinnuskyldunnar. Þá er það von samningsaðila að þessar breytingar muni laða lækna heim aftur og er verið að stofna vinnuhóp á vegum heilbrigðisráðuneytisins með fulltrúum þess og LÍ, til að vinna að því verkefni.

Verkefnið „Vinnuskipulag lækna“ verður grunnur umbótastarfs heilbrigðisstofnana, en það á uppruna í viljayfirlýsingu sem LÍ, Félag sjúkrahúslækna og Landspítali undirrituðu í lok árs 2022.

Heilbrigðisráðherra hefur þegar skipað stýrihóp með fulltrúum samningsaðila ásamt oddamanni frá ráðuneytinu. Formaður hópsins er Tómas Þór Ágústsson framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, Steinunn Þórðardóttir formaður LÍ er fulltrúi félagsins í hópnum og fulltrúi ríkisins er Halldóra Friðjónsdóttir varaformaður samninganefndar ríkisins. Stýrihópurinn starfar allan gildistíma kjarasamningsins, sem er til 31. mars 2028 og hefur það hlutverk á landsvísu að tryggja innleiðingu og eftirfylgni þeirra umbóta og kerfisbreytinga sem kjarasamningurinn kallar á. Með stýrihópnum starfar verkefnastjóri í fullu starfi.

Verkefni stýrihópsins er víðtækt og felur meðal annars í sér reglubundið samráð við heilbrigðisráðherra og að fylgjast með framvindu verkefnisins til að tryggja að markmið náist og forsendur standist. Stýrihópurinn hefur heimild til að bregðast við ef svo er ekki, auk þess sem hann á að upplýsa ráðherra ef stefnir í þjónustuskerðingu eða að innleiðing leiði til ófyrirséðs kostnaðarauka. Stýrihópurinn ber ábyrgð á að útbúnar verði miðlægar leiðbeiningar og stuðningsefni til nota fyrir stjórnendur, lækna og aðra haghafa.

Við hverja heilbrigðisstofnun verða innleiðingarhópar og er gert ráð fyrir mikilli aðkomu lækna að vinnu þeirra hópa. Í þeim skal meðal annars skoða hvort létta megi verkefnum af læknum, þó þannig að gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga sé ávallt tryggt. Þar er vísað til verkefna sem aðrir en læknar geta sinnt en hafa dagað uppi hjá læknum. Hér telur LÍ vera sóknarfæri sem geti aukið afköst lækna og gert vinnu þeirra skilvirkari í verkefnum sem þeir einir geta sinnt. Það kallar á að læknar fái eðlilegan stuðning annarra starfsmanna við störf sín. Það er mat LÍ að grundvallarforsenda þess að innleiðing betri vinnutíma lækna takist vel, sé að læknar taki sem mestan þátt í öllum undirbúningi. LÍ hvetur lækna sem starfa samkvæmt nýgerðum kjarasamningi að láta sig varða þessa vinnu og fylgjast vel með henni, hver á sinni stofnun.

Það er ljóst að tíminn til stefnu er ekki mikill og það er talsverð vinna framundan, því gildistöku betri vinnutíma lækna verður ekki hnikað. Hún verður 1. apríl 2025.

 

 

1. LÍ hélt málþing um efnið á Læknadögum 2025. Upptaka af málþinginu verður aðgengileg fyrir lækna og heilbrigðisstofnanir kringum mánaðarmótin janúar/febrúar. Þá er mikið efni um betri vinnutíma á heimasíðunni https://betrivinnutimi.is/.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica