12. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Norsk stjórnvöld verja 48% meira á mann til heilbrigðismála en þau íslensku

Ísland ver minna af vergri landsframleiðslu (VLF) til heilbrigðismála en OECD-ríkin að jafnaði. Hlutfallslega minna fé er varið í málaflokkinn hér á landi en í nokkru hinna Norðurlandanna.

Ísland ver 8,3% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála, samkvæmt úttekt OECD (2019) á heilbrigðisútgjöldum. Það er lægra en að meðaltali meðal OECD-ríkja þar sem hlutfalllið er 8,8%. Bandaríkin verja 16,9% VLÞ til málaflokksins, Sviss 12,2%, Þýskaland og Frakkland 11,2%. Norðurlöndin verja öll hærra hlutfalli en Ísland í málaflokkinn. Svíþjóð 11%, Danmörk 10,5%, Noregur 10,2% og Finnland 9,1%. Samkvæmt úttektinni ver 21 land hlutfallslega meiru af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála en Ísland.

                     
                      Borgarspítalinn séður frá Álfhólsvegi í síðdegisbirtunni. Það er ys og þys í byggingariðnaði og
                      spítalinn sem var í útjaðri byggðar 1952 er nú orðinn innikróaður. Mynd/Védís                      

Svandís Svavardóttir, heilbrigðisráðherra, segir að fjárframlögin til heilbrigðismála hafi hækkað umtalsvert á kjörtímabilinu, en meira þurfi til. „Við ættum að stefna að því að nálgast það sem gerist á Norðurlöndunum í þessum efnum. Á þessu kjörtímabili erum við líka að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga sem er rétt rúm 17% um þessar mundir. Okkar markmið er að nálgast það sem best gerist á Norðurlöndunum að þessu leyti, eða um 15%, enda er þar um mikilvægt jöfnunar- og lífskjaramál að ræða.“

                                                             

Athyglisvert er að sjá í gögnum OECD að landsmenn greiða minna úr eigin vasa en íbúar annarra Norðurlandanna gera eða 779 dollara, tæpar 96.000 krónur að meðaltali. Norðmenn greiða 110.000 krónur, Danir 102.000 og Finnar 128.000 krónur að meðaltali.

                                

OECD hefur einnig tekið saman hve miklu þjóðirnar verja á hvern íbúa. Heildarútgjöld Íslendinga eru einnig minni á hvern en Norðmenn, Danir og Svíar verja. Finnar eru eina Norðurlandaþjóðin sem ver lægri fjárhæð á hvern landsmann en Ísland og munar þar um 120 dollurum á mann, eða 15.000 krónum. Umreiknað í íslenskar krónur nemur kostnaður við hvern landsmann 535.000 krónum, þar af greiða stjórnvöld 439.110 krónur með hverjum. Norsk stjórnvöld verja 48% fé á íbúa en þau íslensku fé á íbúa en bandarísk stjórnvöld verja 151% meira á mann en þau íslensku.

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, segir það þyngra en tárum taki að sjá þessa niðurstöðu. „Oft er nefnt að heilbrigðiskerfið sé meiri baggi á þjóðinni vegna þess hve við erum fá, en það sést þegar féð er brotið niður á hvern einstakling í íslensku samfélagi að við erum einfaldlega ekki að gera nóg,“ segir hann.

„Miðað við framlög frændþjóða okkar vantar á bilinu 30 til 50 milljarða króna til heilbrigðismála í fjárlögin. Afleiðingarnar eru öllum augljósar, óviðunandi biðlistar, hætta á fjölgun alvarlegra atvika og minnkandi gæði.“

Bandarísk stjórnvöld verja mestu á mann eða 8949 dollurum, sem jafnast á við rúma 1,1 milljónir króna miðað við 123 króna gengi. Það er rúmlega 69% meira en norsk stjórnvöld gera en þau greiða 5289 dollara á hvern íbúa. Þau þýsku greiða 5056 dollara með hverjum, sænsk 4569 og dönsk 4472. Íslensk stjórnvöld greiða svo 3570 dollara með hverjum landsmanni og þau finnsku 3184 dollara.

Reynir segir að ef íslenskt stjórnvöld vilji bjóða upp á heilbrigðisþjónustu á pari við það sem Norðurlöndin og nágrannaríki okkar geri, þurfi þau að breyta forgangsröð sinni. „Þau þurfa að veðja á heilsu þjóðarinnar og gera betur. Það gleymist að meta arðinn af góðri læknisþjónustu við gerð fjárlaga.“

Læknablaðið leitaði álits stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar 2016 og spurði þá meðal annars hvort stjórnmálaöflin vildu hækka framlag ríksins miðað við verga landsframleiðslu. Sjálfstæðiflokkurinn sagði uppbyggingu heilbrigðiskerfsins höfuðatriði kosningabaráttunnar án þess að nefna tölu. Framsóknarflokkurinn vildi miða við þjónustuþörf hverju sinni. Flokkur Svandísar, Vinstrihreyfingin grænt framboð, var afdráttarlaus í svörum sínum: „Vinstri græn vilja að árið 2020 verði heildarútgjöld til heilbrigðismála 10,6% af vergri landsframleiðslu sem er sama hlutfall og hjá Dönum árið 2015.“ En telur Svandís nú að það muni takast?

„Nei, við munum ekki ná því markmiði á kjörtímabilinu en við erum að auka þetta hlutfall frá ári til árs. Að mínu mati ætti að freista þess að nálgast þessi markmið á næstu árum. Ef við viljum vera áfram í fremstu röð í heilbrigðisþjónustu, horfumst í augu við hækkandi aldur þjóðarinnar og náum að bæta húsakost og aðra umgjörð þjónustunnar og tryggja viðunandi mönnun, þá þarf aukna fjármuni,“ segir hún.

„Við erum nú að stíga skref til þess að bæta skipulag þjónustunnar, setja heilbrigðisstefnu og tryggja markvissari innkaup. Með því má stuðla að bættri nýtingu fjár þar sem dregið er úr sóun og tvíverknaði en gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga jafnframt bætt. Við höfum allar forsendur til þess að íslenska heilbrigðis-kerfið sé í fremstu röð en til þess þarf bæði bætt skipulag og aukið fjármagn.“

OECD mælir heilbrigðisþjónustu og vörur og tekur tillit til einkarekinnar þjónustu og forvarna. Tölurnar ná ekki yfir útgjöld til fjárfestinga.

Fjármálaráðherra gagnrýnir framúrkeyrsluna

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í ViðskiptaMogganum þann 20. nóvember að hann saknaði þess að ekki væri tekin dýpri umræða um það hvernig farið sé með fjármunina í heilbrigðiskerfinu. Aukin fjárframlög eftir afköstum hafi ekki náð fram að ganga.

„Við fáum svo ár eftir ár nýja og nýja skýringu á því hvað valdi hallarekstrinum,“ sagði Bjarni í viðtalinu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica