12. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Augu fortíðar og framtíðar. Ari Jóhannesson

Undir miðnætti seint í nóvembermánuði árið 1976 ek ég þjóðveg 15 í Connecticut til suðurs í stormi og slagveðursrigningu. Brátt ber mig að smábæ. Eftir nokkra leit sé ég illa lýst skilti: Berwick Fun----Home. Einhver gárunginn hefur greinilega málað yfir -eral. Já, þú ert náunginn frá Augnbankanum, segir maðurinn sem tekur á móti mér. Hann vildi endilega gefa úr sér augun ef þau gætu orðið einhverjum að gagni. Stundarfjórðungi síðar bogra ég yfir líki öldungs í opinni kistu. Á höfði mannsins er gyðingahúfa. Á framhandlegginn er flúruð tala: A-19745. Auschwitz, segir næturvörðurinn. Þetta var talan hans í Auschwitz. Átti hann fjölskyldu? Hún dó öll í fangabúðunum en hann kom hingað eftir stríð.

Ég tek til við að fjarlægja augun og velti fyrir mér hvað þau hafi séð í útrýmingarbúðunum. Voru þau full af hatri eftir þá reynslu? Eða bjó A-19745 yfir þroska Dalai Lama sem eitt sinn var spurður að því hvort hann hataði ekki kínversk stjórnvöld? Þau hafa rænt okkur öllu, sagði hann. Eigum við að láta þau ræna huga okkar líka?

Þegar ég ek heimleiðis hefur stormurinn færst í aukana. Skyndilega kem ég auga á tré sem fallið hefur á veginn framundan. Ég næ að sveigja bílinn framhjá trénu og hemla. Við þetta fer augnkrukkan á hliðina og lokið hrekkur af. Í sömu mund dregur frá tungli svo bíllinn ljómar að innan. Eitt andartak horfumst við í augu, ég og A-19745. Þetta augnablik er fryst að eilífu fyrir sjónum mínum og í hvert sinn sem ég leiði hugann að því sem aflaga fer í þessum heimi af mannavöldum, birtast augu gyðingsins mér.

Helförin er eilífur minnisvarði um ískalda, yfirvegaða illsku og átti að vera það víti til varnaðar komandi kynslóðum sem tryggði að aldrei gæti neitt í líkingu við það gerst aftur. Öll vitum við hver raunin hefur orðið. Við fáum reglulega fréttir af voðaverkum af ýmsu tagi hér og þar í heiminum og bregðumst við þeim með votti af ógleði í fyrstu en síðan með vaxandi fáleika þess sem stöðug endurtekning sínkhúðar smám saman gegn hugarangri og meðlíðan. Þetta gerist heldur ekki í okkar eigin ranni, heldur hinu megin á hnettinum. Við erum blessunarlega stikkfrí.

En við erum fráleitt stikkfrí gagnvart nýrri ógn sem enginn getur látið sem ekki sé til með því að líta undan eða afneita. Ástæðan er auðvitað sú að þessa ógn eigum við öll þátt í að skapa, ekki bara hópur siðblindingja. Aðförin að jörðinni í formi rányrkju, mengunar og háskahlýnunar andrúmsloftsins kallar, auk annars, á róttæka endurskoðun þeirra gilda sem lengi hafa verið leiðarljós okkar Vesturlandabúa. Engu er líkara er en við höfum sammælst um að tortíma okkur hægt en örugglega undir gunnfána gróðahyggju og gerviþarfa og þykknandi hjúpi koltvísýrings, metans og annarra gróðurhúsaloftegunda, auk mengandi sóts.

Kemur þessi óheillaþróun okkur læknum sérstaklega við? Svo sannarlega. Þegar má merkja bein og óbein áhrif hennar á heilsufar og að óbreyttu verða þau geigvænleg áður en yfir lýkur. Þegar leikskólabörn dagsins í dag hafa náð miðjum aldri verður Norðurpóllinn horfinn. Á sama tíma hafa stórir heimshlutar að óbreyttu breyst í dystópíu, nær óbyggileg eymdarpláss.

Ein afleiðing loftslagsbreytinga er stóraukin tíðni fjölmargra sjúkdóma. Útsetning fyrir örsmáum sótögnum og öðru svifryki er líklega veigamikill áhættuþáttur hjartasjúkdóma, mögulega gegnum áhrif á endóþel og blóðstorknun. Þá eykur loftmengun algengi og tíðni versnunar á öndunarfæra- og ofnæmissjúkdómum og verður í síauknum mæli hættuleg heilsu eldra fólks, barna og þungaðra kvenna með ýmsu móti. Smitsjúkdómar fylgja auknum náttúruhamförum einsog skuggi, oftar en ekki í mynd farsótta. Þannig mætti lengi telja.

Önnur afleiðing eru fordæmalausir fólksflutningar. Loftslagsflóttamenn frá flestum heimshornum munu knýja dyra á Vesturlöndum sem munu ekki telja sig þess umkomin að taka við þeim. Ísland verður þar ekki undantekning ef að líkum lætur.

Margir óttast að of seint sé að snúa þessari þróun við. Í því er fullmikil svartsýni fólgin. En skjótra og róttækra aðgerða er þörf. Því miður er lítil ástæða til að ætla að stjórnvöldum einum sé treystandi til að draga vagninn. Lykillinn að árangri hlýtur miklu frekar að felast í breiðri samstöðu almennings sem þrátt fyrir þjónkun við markaðsöfl og eigin skammsýni, getur vonandi, við löngu tímabæra sjálfskoðun, ekki hugsað sér að ógna lífsviðurværi afkomenda sinna.

Við læknar getum lagt baráttunni lið með því að fjalla sem fagmenn tæpitungulaust um heilsufarsafleiðingar loftslagsbreytinga en líka sem einstaklingar sem er of annt um arfleifð okkar til þess að fórna henni á altari stundarhagsmuna, afkomendum okkar til óbætanlegs skaða. Að óbreyttu er nefnilega hætt við því að þegar þeir beina sjónum til baka að hegðun okkar verði lítil sátt í augum þeirra. Nema við gyrðum okkur rækilega í brók og göngum í lið með náttúrunni í stað þess að murka úr henni lífið.

Upphafsljóðið í bókinni Splunkunýr dagur (1973) eftir Pétur Gunnarsson hljóðar svo:

af jarðarinnar hálfu

byrja allir dagar fallega

þolimóð snýst hún og snýst

með trén og höfin og vötnin

eyðimerkurnar og eldfjöllin

okkur tvö og ykkur hin

og öll dýrin

Þolinmæði jarðarinnar eru takmörk sett. Og fallegir dagar gætu heyrt sögunni til fyrr en okkur grunar. Miklu fyrr.Þetta vefsvæði byggir á Eplica