12. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Embætti landlæknis 31. pistill. Færsla í sjúkraskrá þegar ávanabindandi lyfi er ávísað

Margir sem nota ópíóíða, hvort sem er fast eða tímabundið, nota einnig benzódíazepín. Árið 2018 leystu 62.000 manns út ópíóíða og 56.000 manns út benzódíazepín og skyld lyf á Íslandi. Sex þúsund einstaklingar leystu út benzódíazepín og ópíóíða samtímis (± 15 dagar). Notkun þessara tveggja slævandi lyfja eykur mjög hættuna á óæskilegum áhrifum þeirra og getur jafnvel leitt til dauða. Í kjölfar aukinnar dánartíðni af völdum ópíóíða á Vesturlöndum mælti CMDh (samvinnuvettvangur lyfjastofnana innan EES) með því í febrúar 2018 að eftirfarandi texti skyldi settur inn í sérlyfjaskrártexta (SmPC) allra benzódíazepín- og ópíóíð-lyfja, hafi hann ekki verið fyrir:

Benzódíazepín og skyld lyf:
(Lausleg þýðing)

Áhætta við samhliða notkun ópíóíða:

Samhliða notkun (sérlyfjaheiti benzódíazepíns) og ópíóíða getur leitt til slævingar, öndurnarbælingar, meðvitundarleysis og dauða. Vegna þessarar hættu við samhliða notkun (sérlyfjaheiti benzódíazepíns) og ópíóíða skal aðeins ávísa þessum lyfjum til samhliða notkunar þegar engin önnur meðferðarúrræði eru möguleg. Ef ákveðið er að ávísa (sérlyfjaheiti benzódíazepíns) og ópíóíða til samhliða notkunar skal nota lægstu virka skammta og meðferðarlengd ætti að vera eins stutt og unnt er.

Fylgjast á náið með einkennum öndunarbælingar og slævingar. Eindregið er mælt með því að upplýsa sjúklinginn og aðstandendur hans um þetta og hvetja þá til að vera á varðbergi gagnvart þessum einkennum.

Sambærilegur texti kemur einnig inn varðandi öll ópíóíð-lyf þar sem bent er á hættuna sem fylgir samhliða notkun ópíóíða og annarra slævandi lyfja, svo sem benzódíazepína og skyldra lyfja. Þessi vinna er þegar hafin við íslensku Sérlyfjaskrána.

Í mars 2018 gaf velferðarráðuneytið út skýrsluna Aðgerðir til að sporna við misnotkun lyfja sem geta valdið ávana og fíkn.1 Í skýrslunni eru rakin þau atriði sem ávallt ætti að ræða við sjúklinga sem fá ávísað ávanabindandi lyfjum. Með vísan til þessa beinir Embætti landlæknis því til lækna að eftirfarandi skuli fært í sjúkraskrá hjá þeim sjúklingum sem fá ávísað ávanabindandi lyfi:

  • Að önnur úrræði en ávanabindandi lyf hafi verið íhuguð eða reynd.
  • Að búið sé að útskýra fyrir sjúklingnum:
  • - Slævandi aukaverkanir og til hvaða ráða skuli gripið ef þeirra verður vart.
  • - Hættuna á að ánetjast.
  • Að ákveðið hafi verið fyrirfram hversu lengi á að gefa hið ávanabindandi lyf.
  • Að ákveðið hafi verið fyrirfram í hvaða skömmtum.
  • Ef farið er yfir fyrirfram ákveðna skammta og meðferðarlengd; hvers vegna og hversu lengi fyrirhugað.

                          

Af töflunni sést að í fyrra hefði þurft að færa í sjúkraskrá upplýsingar um ávísun ávanabindandi lyfja hjá 100.000 manns og að fara hefði þurft í gegnum samhliða notkun ópíóíða og benzódíazepína hjá þúsundum einstaklinga til þess að ganga úr skugga um að lægstu virku skammtar væru notaðir í stysta mögulegan tíma.

Heimildir

1. stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3d1a8517-5f66-11e8-942c-005056bc530c - október 2019.
 
2. hma.eu/cmdh.html - október 2019.  


Þetta vefsvæði byggir á Eplica