11. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Ég ætlaði ekki að hætta svona, segir Magnús Ólason

Magnús Ólason, fyrrum framkvæmda­stjóri lækninga á Reykjalundi, segir að hann hafi verið tilbúinn að ljúka störfum en ekki að vera rekinn án nokkurrar ástæðu. Sárt sé að sjá stoðunum kippt undan ævistarfinu

                                        
                                         Magnús Ólason skoðar stöðu sína eftir óvænta uppsögn eftir ríflega 30
                                         ára starf á endurhæfingarstöðinni Reykjalundi, eða allt frá árinu 1985.
                                         Mynd/gag

„Ég var undir það búinn að hætta að vinna. Það var ekki vandamálið, en ég var ekki undirbúinn undir að vera látinn fara fyrirvaralaust án nokkurrar ástæðu. Engar skýringar gefnar,“ segir Magnús Ólason, fyrrum framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi.

Hann hafði starfað á endurhæfingarstöðinni allt frá árinu 1985. Magnús skoðar nú stöðu sína með aðstoð frá Læknafélaginu eftir óvænt starfslok í kjölfar brottrekstrar forstjóra endurhæfingastöðvarinnar.

Málið hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum. Óánægjan meðal starfsmanna er mikil. Margir íhuga uppsögn. Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir hefur verið ráðinn í starf Magnúsar og Herdís Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri endurhæfingarsviðs á Reykjalundi, sett sem forstjóri samhliða því starfi.

Magnús segir að hann hafi ekki búist við því að Ólafur yrði ráðinn í starf hans þar sem hann væri ekki endurhæfingarmenntaður. Hann hafði því boðist til að vinna þar til starfið yrði auglýst að nýju svo fleiri sæktu um þegar öldurnar hefði lægt.

„Ég vissi vel að vænlegir kandídatar til að taka við af mér sóttu ekki um því þeir vildu ekki koma inn í það andrúmsloft sem var komið þarna í september,“ segir Magnús. Hann segist vona Reykjalundar vegna að hægt verði að vinda ofan af óánægjunni.

Magnús varð sjötugur á síðasta ári en þar sem Reykjalundur lýtur ekki reglum um starfslok við þau tímamót hefði hann getað haldið áfram störfum. „Þegar ég varð sjötugur var ég beðinn um að halda áfram því ég hafði unnið að þjónustusamningagerð fyrir Reykjalund 2012 og var með þá hluti á tæru. Forstjórinn, sem einnig missti vinnunna, bað mig um að vera með sér í að semja nýjan þjónustusamning,“ segir hann.

„Auk þess var ég beðinn um að taka að mér sérverkefni í einhverja mánuði eftir að nýr framkvæmdastjóri lækninga tæki við, til dæmis að afla Reykjalundi alþjóðlegrar gæðavottunar (CARF).“

Samningurinn hafi nánast verið í höfn þegar Sjúkratryggingar hafi óskað frekari upplýsinga um innra starfið og í kjölfarið farið fram á það í vor að Reykjalundur þjónustaði 50% fleiri sjúklinga fyrir sama fé. Reykjalundur hafði þá farið fram á meira fé.

Magnús segir mannskapinn hafa verið nógu píndan fyrir og alltaf þjónustað 5-10% umfram lágmarkssamningsviðmið. Eftir að forstjóri Sjúkratrygginga hafi komið að málum hafi þau þokast áfram, enda sé hún læknir. Fókusinn hafi verið settur á fjölda meðferðardaga en ekki ástæðu endurhæfingarinnar. Hann hafi fengið umboð framkvæmdastjóra til að klára samningagerðina viku áður en hann var rekinn. Sjálfur hafi hann einnig boðist til að vinna áfram vegna manneklunnar sem blasti við.

„Ég fékk engar skýringar á uppsögninni,“ segir Magnús. „Ég spurði: Hef ég brotið eitthvað af mér? Nei, nei, nei. Hef ég staðið mig illa í starfi? Nei, nei, nei. Þetta var aðeins liður í einhverju ferli sem málið var komið í,“ segir Magnús.

„Ég var auðvitað tilbúinn að hætta en ég ætlaði ekki að hætta svona,“ segir hann hreinskilnislega.

„Mér finnst þessi gjörningur í raun svo makalaus og svo vitlaus. Ég er aðallega sár út í að með ákveðnum hætti sé verið að eyðileggja þennan stað sem ég hef lagt krafta mína í frá því að ég kom heim úr sérnámi,“ segir Magnús.

En hvað ætlar Magnús að gera nú? Setjast í helgan stein eða halda áfram að vinna?

„Ég hef sagt sumu samstarfsfólki frá því að ég fékk nú strax daginn eftir uppsögnina atvinnu-tilboð. Ég hef fengið annað síðan og áður en ég fór hafði ég fengið tvö tilboð um að koma og veita ráðgjöf. Ef ég hef áhuga á að vinna er það ekki vandamálið,“ segir Magnús.

„Ég er fullfrískur og tel mig færan til að halda áfram.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica