10. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Öldungadeild. Stiklur um Þórð Sveinsson. Þórður Harðarson

                               

 

Afi minn, Þórður Sveinsson (1874-1946), var fyrsti íslenski geðlæknirinn. Hann var bóndasonur úr Húnavatnssýslu, fæddur að Geithömrum í Svínadal. Hann ólst upp við hina mestu hrakninga, missti móður sína 8 ára, en föður sinn fermingarárið. Sveinn faðir hans missti heilsuna harðindaveturinn 1882, þegar hann bjargaði fjölskyldu sinni frá hungurdauða með því að fara mikla slarkferð að Ánastöðum á Vatnsnesi til að sækja kjöt af strönduðum hvölum. Þórður veiktist kornungur af berklum, en móðir hans notaði meðal annars húsaskúm til að græða sárin sem hann hafði á hálsinum. Hann var vannærður, pasturslítill og kraftlaus. Honum varð það til lífs að frændi hans einn innritaði hann í Möðruvallaskóla að honum fornspurðum. Eftir þetta gekk honum greiðlega á námsbrautinni og hann lauk Latínuskólanum á þremur og Læknaskólanum á fjórum árum.

                                      
                                       Þórður Sveinsson kominn um miðjan aldur. Stóllinn og skrifborðið er
                                       nú er í eigu Þórðar Harðarsonar einsog sést á myndinni af honum.


Að hvatningu sveitunga sinna, Guðmundar Björnssonar landlæknis og Guðmundar Magnússonar prófessors, gekk Þórður síðar á fund Hannesar Hafstein ráðherra sem var andstæðingur hans í stjórnmálum. Kvaðst hann ætla að setjast að í Ameríku nema svo ólíklega vildi til að landstjórnin vildi styrkja sig með 600 króna árlegu framlagi til að læra geðlækningar í Danmörku. Þá hafði alllengi verið til umræðu að byggja geðveikrahæli á Íslandi, en engir fjármunir til og enginn menntaður læknir í greininni. Ekki var þetta vænlegt útspil á borð sjálfs ráðherrans, en Hannes sýndi veglyndi sitt og varð við þessum óbeinu tilmælum.

Þórður dvaldist við nám í geðlækningum í Kaupmannahöfn, Árósum og München á árunum 1905-1906. Meðal lærifeðra hans voru Alexander Friedenreich í Höfn og sjálfur Emil Kraepelin prófessor í München, sem þá var einhver frægasti geðlæknir Evrópu. Báðir þessir menn töldu gagn af böðum og vatnslækningum og hafa vafalítið haft áhrif á Þórð. Um lækningaaðferðir Þórðar vísast meðal annars til ágætrar greinar Jóhannesar Bergsveinssonar í Læknablaðinu (2007; 93: 11).

Í Danmörku kynntist Þórður konuefninu, Ellen Johanne Kaaber. Hún var 17 ára dóttir Jens Ludvig Joachim Kaaber, auðugs forstjóra á Friðriksbergi, og konu hans Söru. Systkinin voru 13 og Ellen yngst. Þórður þótti kynlegur kvistur á heimilinu. Hann var vinstrisinnaður, trúlaus íslenskur þjóðernissinni, andstæða hinnar fáguðu íhaldssömu Kaaberfjölskyldu. Út yfir tók þegar hann vildi skemmta fólkinu með íslenskum draugasögum. Eignir Kaabers höfðu rýrnað nokkuð en hann lagði þó til heimanmundar allt sem tilheyrði innan stokks. Ofan á þetta lagði hann hálf árslaun dansks embættismanns. Ellen taldi það ævinlega alvarlegt glappaskot að afhenda Þórði féð til ráðstöfunar, en hann þótti óþarflega sparsamur.

Þórður og Sigurður Guðmundsson skólameistari, aldavinur hans, höfðu ákveðið að hefja til virðingar rammíslensk nöfn sem höfðu legið í láginni. Ellen fékk því framgengt að sum börnin þeirra fengu einnig mildari nöfn, enda gat hún aldrei borið fram nafn frumburðar síns, Harðar, hvað þá heldur nöfn sonanna Sverris, Úlfars eða Agnars. Hvorki Sigurður né Þórður lögðu í Kálfsnafnið og bíður það líklega enn virðingar sinnar. Til er bréf Þórðar til systur sinnar á Grund í Svínadal, þar sem hann segir frá því að Hörður, þá 11 ára, sé á leið til Sigurðar á Akureyri sérstaklega til að læra íslensku og stærðfræði, en hann sé þá þegar með góðan grunn í ensku, frönsku, þýsku og latínu. Engum sögum fer af því hvernig Herði féll þessi fræðslufóðrun.

Þórður efndi til stórbús á Kleppi. Hann lét leggja vatnslögn á eigin kostnað frá aðalvatnsæðinni frá Gvendarbrunnum til Reykjavíkur. Hann leigði tröllslegan þúfnabana til að slétta Kleppstúnið og hóf búskapinn með miklum jarðabótum og skepnuhaldi. Í þessu felast nútímaleg viðhorf sem vöktu þó ekki aðdáun allra.

Þórður var borgarfulltrúi í Reykjavík 1920-30. Þar myndaði hann svonefndan Doddaflokk með Gunnlaugi Claessen lækni og þóttu þeir félagar sérvitrir í skoðunum. Þeir börðust gegn hundahaldi, en með líkbrennslu. Í samtímaheimild var framgöngu hans í bæjarstjórninni lýst: „Hugsunin er eins og bráðvitlaus, ótaminn foli – tekur ótal hliðarstökk, brýst allt í einu fram í nýju og ólíku atriði því, sem áður var aðalatriðið. Setningarnar koma stundum sín úr hverri áttinni, hver á aðra þvera. En þær hitta allar, eru margar beittar og sumar minnisstæðar, og svo frumlegar, að það væri skemmtilegt safn að eiga þær í einu lagi.”

Þórður Sveinsson lenti milli steins og sleggju í deilu Helga Tómassonar og Jónasar frá Hriflu, Stóru bombunni. Hann stóð með Helga eins og flestir stéttarbræður hans og lýsti yfir stuðningi við hann, en gat ekki teflt í tvísýnu starfsöryggi sínu með stóran barnahóp til að sjá fyrir. Hann hélt sig því nokkuð til hlés þegar skarst í odda. Til greina kom að hann yrði settur yfirlæknir gamla og nýja spítalans, en af því varð ekki. Þess í stað var ráðinn Lárus Jónsson til að stjórna nýja spítalanum. Það val reyndist ekki sem best.

Þórður var ekki síst þjóðþekktur fyrir áhuga sinn á spíritisma, en þar átti hann samleið með ýmsum ágætum samtímamönnum sínum. Um skeið mun Ellen hafa þótt nóg um ákafa Þórðar við sálarrannsóknirnar. Ein var ástæða öðrum fremur að frú Sveinsson hvekktist á handanfræðunum. Systir hennar, Petra, var gift dönskum símaverkfræðingi. Þau fluttust til Pétursborgar þegar símkerfi var lagt um borgina. Í októberbyltingunni 1917 hurfu þau hjón og spurðist ekkert til þeirra langa hríð. Var nú leitað til allra tiltækra miðla í Reykjavík um fregnir af þeim hjónum og var Ellen tjáð að systir hennar og mágur væru látin, en ættu góða vist fyrir handan. Nokkrum mánuðum síðar komu þau hjón fram og amaði ekkert að þeim, en þau höfðu lagt langa leið að baki um Rússland, Finnland og Svíþjóð.

Skáldið Wystan Hugh Auden lýsir í bók sinni Letters from Iceland heimsókn að Kleppi rétt fyrir stríð. Hann ritaði meðal annars: „ ... Our host, the doctor in charge, is a charming old man and so are all his family. He has whitish-grey hair, gold- rimmed spectacles, fiery blue eyes, a bad leg, and a black velvet smoking-jacket.“

Síðustu árin gat Þórður ekki gengið eftir berklaveiki í hrygg og síðar lærbrot. Hann lést úr hjartabilun í desember 1946.Þetta vefsvæði byggir á Eplica