10. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Bókauppskera haustsins - Ari og Ian, tveir góðir

                            
                          
                          Vélar eins og ég
, nýjasta verkið úr penna Ian McEwan, sem
                          Árni Óskarsson þýddi. McEwan snýr upp á lesandann:
                          spennandi, fágaður og eldklár. Bók hans Laugardagur fjallar
                          um dag í lífi skurðlæknis og opnar fyrir manni þankagang
                          homo sapiens.

Urðarmáni er ný bók eftir Ara Jóhannesson lækni sem er nú búinn að koma sér vel fyrir á skáldabekk. Að baki þessari bók liggur mikil heimildavinna, og þekkingin á efninu er djúpstæð. Sviðið er Reykjavík á því sögufræga ári 1918. Í bókinni fléttar Ari haganlega saman ýmsum þráðum um spænsku veikina og baráttu við hana hjá háum og lágum. Jafnframt notar Ari sína skáldgáfu óhefta, breytir nöfnum, eykur við nýjum persónum á sviðið og fleira í þeim dúr. Frásögnin er römmuð inn af tveimur köflum þar sem svokallaður nútími leikur lausum hala og kínverskir túristar hafa borið með sér nýja drepsótt til landsins. Sölvi Oddsson gjörgæslulæknir og góðkunningi höfundar úr fyrri bók hans Lífsmörk skýtur óvænt upp kolli. Sterk líkindi eru milli þessara drepsótta, og Ari bregður upp óhugnanlegum lýsingum af ástandinu.

Í meginhlutverki sögunnar er landlæknir og hans breyskleiki. Drepsóttin, lífið, kókaínfíknin, togstreitan við ljósmóðurina, há og lága. - Gosið í Kötlu kemur líka við sögu og fullveldisfagnaðurinn 1. desember. Inn á milli er skotið bútum úr dagblöðunum frá því nóvember 1918 þegar flensan geisar hvað harðast sem gerir frásögnina mjög raunverulega og kippir lesandanum niður á jörðina.

Fyrir nokkrum dögum var hér á kreiki stórskáldið Ian McEwan og eitt af því sem hann sagði var að gildi þess að lesa sumar bækur oft væri ótvírætt, uppskeran væri alltaf fersk og vitundin næmi aldrei í einum lestri allan þann hugarheim sem ein bók gæti geymt. Þetta smellpassar við Urðarmána, Ari hefur spunnið inn í frásögnina svo marga þætti að annar lestur sýnir lesandanum nýja fleti og tengingar.

Spænska veikin var síðasti stóri mannskæði faraldurinn sem hér hefur farið yfir og Reykjavík lamaðist þessa nóvemberdaga 1918. Þessari martröð hefur ekki verið gerð mikil skil í bókmenntum, til þess var minningin of sár og nærri í tíma. En 2019 dettur lesanda í hug ef til vill gæti verið stuttur spölur milli bókar og kvikmyndar eða sjónvarpseríu. Netflix?

Jón Trausti rithöfundur var fæddur 1873 á Rifi á Melrakkasléttu. Hann dó í spænsku veikinni og kemur mjög við sögu í Urðarmána. Jón Trausti var vinsæll höfundur, - skrifaði bækur af sögulegum toga og byggðar á uppvexti skáldsins í mikilli fátækt á heiðarbýli á Öxarfjarðarheiði. Einu ljóða hans var auðið langra lífdaga því að Sigfús Einarsson gerði lag við það, Draumalandið, sem einsöngvarar og kórar hafa spreytt sig á. Bók Andra Snæs, Draumalandið (2006) á augljósa tengingu við þetta ljóð. Hér er hægt að hlusta á það: youtube.com/watch?v=3fLGRYke2Ok

VS



Þetta vefsvæði byggir á Eplica