09. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Með toppeinkunn fyrir sérnám á Landspítala. Hjalti Már Björnsson er kennslustjóri bráðalækninga

„Af reynslu minni og störfum sem bráðalæknir erlendis tel ég bráðalækninganám á Landspítala fyllilega sambærilegt við það sem gerist í öðrum löndum,“ segir Hjalti Már

„Vel er hægt er að byggja upp meira sérnám en við höfum séð hér á landi og ég tel að við munum sjá meira af skipulögðu sérnámi í náinni framtíð,“ segir Hjalti Már Björnsson, kennslustjóri bráðalækninga á Landspítala.

                                          
                                          Hjalti Már Björnsson bráðalæknir er kennslustjóri nýsamþykkts sérnáms
                                          í bráðalækningum á Landspítala. Mynd/gag

  hlsuta

Spítalinn hlaut í sumar viðurkenningu mats- og hæfisnefndar heilbrigðisráðuneytisins til að veita fullt sérnám í bráðalækningum. Kennt er í náinni samvinnu við Royal College of Emergency Medicine í Bretlandi og er námið byggt á námsskrá og ePortfolio þeirra. Reynir Tómas Geirsson leiddi nefnd um hæfnismatið.

„Við stóðumst fyllilega þær kröfur og fengum að mér skilst eina bestu útkomu á mati á sérnámskennslu lækna sem veitt hefur verið námsleið hér á Íslandi,“ segir Hjalti.

Þrettán í náminu

Um 20 starfa sem bráðalæknar hér á landi og stunda 13 sérnámið hér um þessar mundir. „Þrír eru á fyrsta ári, sex á leið á annað ár og fjórir á því þriðja,“ segir Hjalti. Með tímanum verði nægilega margir bráðalæknar á landinu en miðað sé við einn á hverja 10.000 íbúa. „Ísland er þó strjálbýlla en mörg önnur lönd og því þyrftu þeir að vera rétt fleiri hér á landi.“

Hjalti nefnir marga kosti við að kenna sérfræðigreinina hér heima en hingað til hefur meginþorri lækna lært sérgrein sína utan landssteinanna. „Það er nýtt í íslensku heilbrigðiskerfi og læknasamfélaginu að læknar taki stóran hluta af sínu sérnámi á Íslandi,“ segir Hjalti og bendir á að mikil pressa hafi verið á íslenska lækna að fara utan og sækja nýja þekkingu. „En þetta hugarfar hefur verið að breytast,“ segir Hjalti og nefnir kostina og aðalástæður þess að hægt sé að bjóða sérnámið hér á landi:

„Í fyrsta lagi hefur með tilkomu netsins orðið auðveldara að sækja sér þekkingu. Hægt er að kynna sér bestu fyrirlestra í heimi í stofunni heima. Í öðru lagi flæða upplýsingar á milli landa og því auðveldara að taka upp erlent sérnám en verið hefur,“ segir hann og bætir við:

„Í þriðja lagi hefur fagleg þjálfun á læknum aukist, sérstaklega í okkar fagi, og því auðveldara að veita fulla kennslu. Í fjórða lagi er það þannig að til þess að starfa sem sérfræðilæknir í ákveðnu landi er mjög æskilegt að sérnámið hafi lagt áherslu á þau vandamál sem hafa verið í þínu nærsamfélagi,“ segir hann og bendir á að hann hafi lært í Bandaríkjunum þar sem mikil áhersla hafi verið lögð á meðhöndlun skotsára og sjúkdóma sem sjáist almennt ekki á Íslandi. „Það er því þjálfun sem gagnast mér lítið hér á landi.“ Hann nefnir fleiri kosti þess að bjóða sérnám hér á landi.

„Í fimmta lagi er líka kostur að hafa reynda sérnámslækna á spítalanum,“ segir hann og bendir á ákveðna vankanta á íslenska heilbrigðiskerfinu. „Það hefur verið byggt upp af reyndum sérfræðilæknum og kandídötum og þeim sem eru að byrja sérnám. Í kerfið hefur vantað sérnámslækna sem eru lengra komnir, sem bæði létta álagi af öðrum sérfræðilæknum og hægt er að treysta fyrir viðameiri verkefnum. Þessir læknar eru einnig virkir við að halda sérfræðilæknum á tánum með flóknum og erfiðum spurningum.“ Það sé krefjandi fyrir sérfræðilækna að vera með slíka sérnámslækna í handleiðslu.

Hann bendir í sjötta lagi á að hreyfanleiki sérfræðilækna hafi aukist í heiminum sem auðveldi sérnámið. Hingað til lands komi erlendir sérfræðingar til starfa sem hefur kennslugildi fyrir sérnámslækna á Landspítala.

„Auk þess munum við áfram gera kröfu um að sérnámslæknar á Íslandi taki minnst sex mánaða námstíma erlendis.“ Hann segir tækifærin mörg til þess. „Við gerum ráð fyrir að margir taki 1-2 ár af sérnámstíma sínum erlendis.“ Það nægi til að víkka sjóndeildarhringinn og koma fersk að verkum Landspítala.

Kennt hér frá 2002

Bráðalækningar hafa verið kenndar við Landspítala samkvæmt námskrá allt frá árinu 2002. Námið hefur þróast og haustið 2016 hófst kennsla samkvæmt námskrá Royal College of Emergency Medicine. Hjalti segir fyrstu þrjú árin kjarnanám kennd í samvinnu við svæfinga- og gjörgæsludeild og lyflækningadeild frá árinu 2017.

„Með þessu næst fram betri skilningur á störfum hinna stéttanna og samþætting í kennslunni.“ Nemendurnir geti að þeim loknum fengið þau metin erlendis. „Það verður örugglega þannig að einhverjir kjósa að taka allt námið erlendis.“

Hjalti segir námsframvinduna skráða. Fulltrúar frá Bretlandi tryggi gæðin. „Við höfum breytt öllum skilgreiningum þannig að ekki er hægt að flytjast á milli ára fyrr en kröfum hvers þeirra hefur verið svarað.“ Hann segir að rétt eins og í Bretlandi þurfi allir sérnámslæknar að innleiða breytingar á deildum sínum og fylgjast með mælingum um að þeir hafi bætt starfsemina.

Strangt inntökuferli

Hjalti segir ráðningarferlið í sérnámið strangt. „Umsækjendur koma í formleg viðtöl. Við förum yfir feril þeirra, leggjum fyrir þau klínísk tilfelli og förum yfir siðferðisleg vandamál í þriðju prófrauninni. Umsækjendum er svo boðin staða eftir mælanlegri frammistöðu. Því eins og við vitum er íslenskt samfélag lítið og læknasamfélagið enn minna og því hætta á frændhygli, þannig að við leggjum mikla áherslu á fagleg vinnubrögð við ráðningar þannig að við fáum alltaf þann hæfasta til að sinna verkinu.“

Allir sérnámslæknar þurfi að standast þrjú skrifleg og eitt verklegt próf. „Þessi próf hafa verið gerð á vegum Bretanna, en við höldum þau hér á landi í samvinnu við Prófamiðstöð háskólans. Það er ánægjulegt að segja frá því að þrátt fyrir að fallið hafi verið hátt í 60% meðal þeirra sem þreyta fyrsta prófið í Bretlandi hafa allir sérnámslæknar á Íslandi í ár og í fyrra náð prófinu,“ segir hann. „Við höfum því fulla trú á því að þetta fólk nái í gegnum nálar-augað og ljúki námi í bráðalækningum.“

Gefandi álagsstarf að vera bráðalæknir

„Það er álagsstarf að vera bráðalæknir og fáir sem endast í 40 ár. Það er því algengt að þeir sem vinna við bráðalækningar fari yfir í stjórnunarstörf og rannsóknir og kennslu upp úr fimmtugu. Við þurfum því fleiri bráðalækna til að veita samfellda bráðaþjónustu um allt land, allan sólarhringinn,“ segir Hjalti Már Björnsson bráðalæknir.

Hann segir að þrátt fyrir álagið séu bráðalækningar skemmtilegasta sérfræðigreinin og gefandi vinna. „Það fylgir þessari sérgrein að vinna þétt með mörgum öðrum heilbrigðisstéttum. Reynslan í Bandaríkjunum er að þeir sem hafa farið í stjórnunarstörf þar hafa notið þess að vera með bakgrunn í bráðalækningum ólíkt þeim sem eru í mjög þröngum sérgreinum sem hafa ekki eins mikla snertifleti við heilbrigðiskerfið eins og bráðalækningar hafa,“ segir hann.

Spurður hvers vegna hann hafi valið bráðalækningar á sínum tíma segist hann hafi unnið í 9 ár ár hinum ýmsu deildum Landspítala áður en bráðalækningar urðu fyrir valinu.

„Ég komst að því að bráðalækningar og það sem fór fram á bráðamóttöku er alltaf það skemmtilegasta í ferlinu. Það er að taka á móti einstaklingum með bráð einkenni og vita ekki hvað er að og komast að því – eða í það minnsta komast af stað með að sjá hvað veldur einkennunum,“ segir Hjalti.Þetta vefsvæði byggir á Eplica