09. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Símenntun lækna er ævilöng skuldbinding. Reynir Arngrímsson

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir sínar eigin skoðanir en ekki félagsins.

Framundan er aðalfundur Læknafélags Íslands. Viðfangsefni málþings fundarins mun að þessu sinni verða símenntun lækna. Auk þess koma til hefðbundinnar umfjöllunar á aðalfundinum ályktanir félagsmanna um heilbrigðismál, stöðu læknastéttarinnar og innra starf félagsins. Fundurinn er að þessu sinni haldinn í skugga lausra samninga nánast allra lækna landsins, hvort sem þeir starfa hjá opinberum stofnunum eða sjálfstætt og mun það án efa setja svip sinn á fundinn.

Gæði og þjónusta sem veitt er og hægt er að veita í heilbrigðiskerfinu byggist að miklum hluta á þekkingu og færni lækna sem þar starfa á hverjum tíma. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða verkefni í heilsugæslu, við göngu- og dagdeildaþjónustu og hjá sjálfstætt starfandi sérgreinalæknum eða meðferð sem krefst innlagnar á sjúkrahús. Það er á ábyrgð heilbrigðisyfirvalda og stjórnenda heilbrigðisstofnana í umboði heilbrigðisráðherra að tryggja aðgengi að læknisþjónustunni og skilvirkni hennar með umgjörð og aðstöðu sem hæfir starfseminni. Skilgreining og innleiðing frekari gæðavísa en nú tíðkast og skráningu á frammistöðu kerfisins skiptir máli og þarf að efla. En lykilatriði er jafnframt og ekki síður að læknar verða að geta haldið við þekkingu sinni, fylgst með tækniframförum og tileinkað sér nýjungar jafnóðum. Það má halda því fram að gæði kerfisins byggist á stöðugri endurnýjun og viðhaldi þekkingar.

Víða erlendis eru fagfélög lækna og heilbrigðisyfirvöld farin að gera strangari kröfur um símenntun lækna og í sumum tilfellum er það orðið skilyrði fyrir viðhaldi á starfsréttindum, til dæmis í sérgreinum læknisfræðinnar. Þessi þróun sækir fram og mikilvægt að LÍ taki afstöðu í þessum málum og gangi fram fyrir skjöldu í skilgreiningu á þessu verkefni. Þetta verður umfjöllunarefni á málþingi aðalfundarins.

Í skoðanakönnun LÍ á síðasta ári kom fram að margir læknar (66%) hafa ekki tækifæri til til þess að sinna viðhaldsmenntun í vinnutíma og er það áhyggjuefni. Niðurstöðurnar sýndu að 20% lækna nýta námsleyfi sitt samkvæmt kjarasamningi að fullu og innan við helmingur gerir það að hluta. Aðeins 28% segjast geta náð 1-2 klukkustundum í viðhaldsmenntun á viku og aðeins 5% hafa lengri tíma aflögu. Tæplega 20% svöruðu að þeir ættu ekki rétt á greiddu námsleyfi. Mikilvægt er að hafa í huga að viðhaldsmenntun hefst um leið og embættisprófum er lokið og læknisstarfið hefst. Menntun læknis lýkur aldrei heldur er ævilöng skuldbinding um stöðuga starfsþjálfun og starfsþróun. Mikilvægt er að átta sig á hvers vegna svo lítill hundraðshluti lækna fullnýtir kjarasamningsbundin réttindi til viðhaldsmenntunar. Er það umgjörðin á vinnustaðnum, álag og mannekla sem er hindrandi, viðhorf yfirmanna eða hafa ákvæði um réttindin dregist aftur úr, til dæmis raunkostnaður sem fylgir því að sækja endurmenntunarnámskeið erlendis? Það er áhyggjuefni fyrir heilbrigðiskerfið og hlýtur að kalla á að þeir sem bera ábyrgð á gæðum þjónustunnar og móta heilbrigðisstefnuna skoði hvaða úrbóta er þörf til að tryggja að læknar ástundi og geti nýtt sér möguleika til viðhalds þekkingar og starfsþróunar.

LÍ setti á laggirnar vinnuhóp um starfsþróun og símenntun í febrúar síðastliðnum og er málþingið undirbúið í samstarfi við vinnuhópinn. Í hópnum sitja læknar úr stærstu sérgreinum lækna hérlendis. Finna má upplýsingar um hann á innri heimasíðu LÍ. Vinnuhópnum er ætlað að gera tillögur til stjórnar LÍ um hvernig bæta megi úr og efla símenntun lækna. Í áðurnefndri skoðanakönnun kom fram að fleiri en færri (68%) telja að LÍ eigi að setja lágmarksviðmið varðandi viðhaldsmenntun sérfræðilækna og halda eigi utan um skráninguna.

Í núverandi kjaraviðræðum er mikilvægt að halda þessum sjónarmiðum á lofti og leita leiða til að bæta aðgengi lækna að núverandi námsleyfisréttindum, til dæmis með endurskoðun á ferða- og námskeiðskostnaði. Huga þarf að innleiðingu á innbyggðu hvatakerfi tengdu starfsþróun í kjarasamningum. Jafnframt að taka innan félagsins og á vettvangi kjaraviðræðna til umræðu starfsþróunarákvæði og réttindi sem finna má í öðrum kjarasamningum hins opinbera, svo sem sérstakt tillegg launatengdra gjalda í fræðslusjóði félaganna og til starfsmenntaseturs sem í dæmi LÍ væri Fræðslustofnun. Fræðslustarfsemi LÍ og aðildarfélaga er töluverð. LÍ gefur út Læknablaðið og á vegum félagsins heldur Fræðslustofnun árlega Læknadaga. Á þessum grunni er mikilvægt að byggja og efla faghluta Læknafélagsins, en til þess þarf fjármagn. Meðal hlutverka Fræðslustofnunar í framtíðinni gæti verið að halda utan um skráningu símenntunar lækna og standa fyrir frekara fræðslustarfi á eigin vegum og í samstarfi við innlenda og erlenda aðila, til dæmis á sviðum sem félögin telja mikilvægt að efla með skipulagningu námskeiða, svo sem í stjórnunarþáttum, en einnig við sértækari fagleg markmið í samvinnu við aðildar- og sérgreinafélög lækna hér heima.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica