07/08. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Lögfræði 33. pistil. Þungunarrof og réttur heilbrigðisstarfsmanna til að skorast undan störfum

Nýlega samþykkti Alþingi lög um þungunarrof nr. 43/2019. Markmið laganna er að tryggja sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi. Helstu nýmæli frá eldri lögum um sama efni, sem gilt hafa frá árinu 1975 eru þau að konu er nú veitt fullt ákvörðunarvald um það hvort hún elur barn fram að lokum 22. viku þungunar, óháð því hvaða ástæður liggja að baki þeim vilja hennar. Áfram er áhersla lögð á að þungunarrof skuli framkvæmt eins snemma og mögulegt er, helst fyrir lok 12. viku þungunar. Eftir lok 22. viku þungunar er einungis heimilt að framkvæma þungunarrof ef lífi konunnar er stefnt í hættu við áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar.

Þó frumvarpið um þungunarrof hafi verið samþykkt af meirihluta Alþingis eru enn skiptar skoðanir í samfélaginu um að lögfesta skilyrðislausan rétt konu til að rjúfa þungun fram að lokum 22. viku. Ýmsum þykir að þær breytingar sem í hinum nýju lögum felast hefðu þurft meiri almenna umræðu, ekki síst um það hvenær líta eigi svo á að fóstrið eigi sjálfstæðan rétt til lífs. Siðfræðistofnun Háskóla Íslands vék sérstaklega að mikilvægi þessa í umsögn sinni og telur Siðfræðistofnun varasamt að heimila þungunarrof allt til 22. viku því þá getur fóstur verið orðið lífvænlegt utan líkama móður.1 Fyrir liggur að hvergi á Norðurlöndunum er svo rúmur frestur til þungunarrofs.

Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar segir að við umfjöllun nefndarinnar hafi komið fram sú spurning hver staða heilbrigðisstarfsmanns væri þegar kona óskar eftir þungunarrofi þrátt fyrir ráðleggingar læknis um annað eða þegar framkvæmd þungunarrofs stangast á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans.2

Frá gildistöku læknalaga nr. 53/1988 hafa verið ákvæði í lögum sem heimila læknum að skorast undan störfum sem stangast á við trúarleg eða siðferðisleg viðhorf hans séu störfin ekki framkvæmd í lækningaskyni. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að læknalögunum frá 1988 segir að mikilvægt sé að velta fyrir sér spurningunni um það hvort og í hvaða tilvikum lækni sé heimilt að skorast undan að framkvæma aðgerð. Fara beri mjög varlega í skýringar en almennt sé viðurkennt, þó það styðjist ekki við ótvíræðan lagabókstaf, að læknar geti aldrei skorast undan að framkvæma aðgerð sé um að ræða aðgerð í lækningaskyni. Það sé hins vegar viðurkennt að læknar geti skorast undan að framkvæma aðgerð af trúarlegum eða siðferðislegum ástæðum sé markmið aðgerðarinnar ekki lækning í þröngri merkingu þess orðs, t.d. ófrjósemisaðgerð eða fóstureyðing af félagslegum ástæðum.3 Frá því að þessi heimild var lögfest í læknalögunum frá 1988 hefur hún verið talin gilda um allar löggiltar heilbrigðisstéttir.

Sambærilegt ákvæði er því að finna í 14. gr. laga um heilbrigðisstarfmenn nr. 34/2012 þar sem segir að heilbrigðisstarfsmanni sé heimilt að skorast undan störfum sem stangast á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans, enda sé tryggt að sjúklingur fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Í áðurnefndu meirihluta nefndaráliti er bent á 14. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn. Þar er til viðbótar skýrt frá því að í umræðunni um þetta í nefndinni hafi verið bent á að fæðing barns væri í öllum tilvikum hættulegri en þungunarrof og því væru rök heilbrigðisstarfsmanns fyrir því að víkjast undan því að framkvæma þungunarrof með vísan til þess að lífi konu væri stefnt í hættu afar takmörkuð.4 Meirihluti velferðarnefndar tekur undir þetta sjónarmið í nefndarálitinu án þess þó að vísa til neinna rannsókna fullyrðingunni til stuðnings. Meirihlutinn bendir um leið á að erfitt geti verið að skikka heilbrigðisstarfsmann til þess að veita þjónustu sem stangast á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans.5 Vegna þessa ákvað meirihluti velferðarnefndar að bæta nýrri málsgrein við 4. gr. laganna um það að skorist heilbrigðisstarfsmaður undan framkvæmd þungunarrofs á grundvelli 14. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn skuli tryggt að kona njóti réttinda skv. 1. mgr. sömu greinar. Ekki er nánar skýrt hvorki í nefndaráliti né framsöguræðu framsögumanns velferðarnefndar með hvaða hætti það skuli gert. Líklega er því treyst að á hverjum tíma séu starfandi heilbrigðisstarfsmenn sem fyrirvaralaust eru tilbúnir til að framkvæma þungunarrof án tillits til ástæðna fyrir þungunarrofi og jafnvel þó komið sé að lokum 22. viku meðgöngu.

Í Codex Ethicus Læknafélags Íslands segir í 1. mgr. 4. gr. Það er meginregla, að lækni er frjálst að hlýða samvisku sinni og sannfæringu. Hann getur, ef lög og úrskurðir bjóða ekki annað, synjað að framkvæma læknisverk, sem hann treystir sér ekki til að gera eða bera ábyrgð á eða hann telur ástæðulaust eða óþarft. Nefndarálit meirihluta velferðarnefndar um að fæðing sé í öllum tilfellum hættumeiri en þungunarrof breytir þar engum um. Lög um þungunarrof öðlast gildi 1. september nk. Það er því mikilvægt að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn þekki vel rétt sinn gagnvart framkvæmd þungunarrofs til að fylgja samvisku sinni og sannfæringu.

1. Umsögn Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, bls. 5. althingi.is/altext/erindi/149/149-4359.pdf

2. Nefndarálit frá meirihluta velferðarnefndar um frumvarp til laga um þungunarrof, 393. mál, þskj. 1402. althingi.is/altext/149/s/1402.html .

3. Frumvarp til læknalaga, 116. mál, þskj. 120, bls. 11. Alþingistíðindi: althingi.is/altext/ 110/s/pdf/0120.pdf.

4. Sjá nefndarálitið.

5. Sjá nefndarálitið.

Heimildir

1. Lög um þungunarrof nr. 43/2019.
 
2. Frumvarp til laga um þungunarrof, 393. mál, þskj. 521. Alþingistíðindi: althingi.is/altext/149/ s/0521.html .  
 
3. Siðareglur lækna. lis.is/is/sidfraedi/codex-ethicus/codex .  


Þetta vefsvæði byggir á Eplica