07/08. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Læknafélagið skoðar oflækningar að sögn Reynis Arngrímssonar

Læknafélag Íslands stefnir á að kanna viðhorf lækna til fullyrðinga um að oflækningar séu stundaðar hér á landi. Gera á sambærilega könnun meðal íslenskra lækna og gerð var meðal þeirra norsku. Þetta segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélagsins. Hann segir að takist að fjármagna átak um snjallt val þegar kemur að þjónustu í heilbrigðiskerfinu verði ráðist í verkið.

                                          
                                           Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, sér tækifæri í átaki
                                           gegn oflækningum.

„Snjallt val eða þekkingarmiðað val á heilbrigðisþjónustu gengur í stuttu máli út á að bæði læknar og notendur heilbrigðisþjónustunnar eiga að spyrja sig lykilspurninga áður en sérhvert læknisverk er hafið,“ lýsir Reynir.

Stefnt sé að því að heilbrigðisþjónustan sé byggð á sannreyndum viðurkenndum vísindalegum aðferðum og rannsókum. „Ekki á að endurtaka áður gerðar rannsóknir eða íhlutanir. Nauðsynlegt er að spyrja hvort meðferðin eða rannsóknin sé sannanlega nauðsynleg í hverju tilviki. Loks að inngripið valdi ekki skaða.“

Reynir segir að jafnframt gangi átakið út á að læknar innan hverrar sérgreinar rýni eigin vinnuhætti. „Hver sérgreinahópur á að finna fimm úrsérgengin úrræði og rannsóknir sem tímabært er að leggja af og fræða þá sem leita eftir slíkum úrræðum um breytta meðferðarnálgun. Aðgengi að fræðsluefni og gögnum þar að lútandi verði á heimasíðum sem læknar geti bent á og nálgast sjálfir,“ segir hann.

Skottulækningar hafi aukist

„Einnig skiptir miklu máli að vara við sjúkdómabraski og skottulækningum sem hefur vaxið fiskur um hrygg undir nýjum kennimerkjum svokallaðra viðbótarmeðferða.“ Reynir segir að því miður séu ýmsar heilbrigðisstéttir farnar að feta sig inn á þær brautir.

„Þær byggjast meira á trúgirni og blekkingum en að þær standist viðurkennda vísindalega nálgun. Það er áhyggjuefni þegar heyrist talað fyrir slíku sjúkdómabraski í þingsölum Alþingis, en með því er verið að stuðla að sóun á almannafé,“ segir hann.

Reynir segir markmiðið einnig að læknar rýni starfshætti sína sem geti verið svar við ásökunum um oflækningar. „Ég tel að það séu vísbendingar um oflækningar hér á landi. Við sjáum það til dæmis núna að átak í heilsugæslunni hefur skilað sér í því að lyfjaávísanir á breiðvirk sýklalyf hafa dregist mjög saman. Það gerðist eftir að umræður hófust um þær og gangskör var gerð að því að reyna að minnka þær,“ segir Reynir. Þetta megi að sjálfsögðu flokka undir eina tegund oflækninga.

„Annað dæmi sem bent hefur verið á er of frjálsleg notkun sterkra ópíóíð-verkjalyfja við langvarandi stoðkerfisverkjum. Í Bandaríkjunum falla dómar og himinháar fjársektir á lyfjafyrirtæki fyrir ranga upplýsingagjöf um sum þessara lyfja. Hér sýnir reynsla lækna að endurskoða þarf hvernig lyfin eru notuð svo tryggt sé að þeir sem sannlega þurfa og gagn hafa af þeim fái þau en hinir séu upplýstir og fræddir um önnur úrræði,“ segir Reynir. Hér þurfi fræðslu og aðgengi að upplýsingum í anda átaksins um snjallt val.

Fagmennskan aukist

Reyni leist vel á framkvæmd átaksins í Noregi sem Stefán Hjörleifsson kynnti fyrir stjórn félagsins og hagsmunaaðilum. Læknafélagið vinni nú að því að afla upplýsinga og ákveða næstu skref.

„Við viljum byrja á að upplýsa um þennan möguleika og skoða hverjir geti verið samstarfsaðilar okkar að átakinu,“ segir hann. Aðdragandinn og lýsingarnar á undirbúningnum í Noregi hafi heillað, sem og viðfangsefnið.

„Átakið er til faglegra endurbóta á þjónustunni,“ segir hann. Nú strandi á fjármagni. Þá sé líka spurning hvernig Fræðslustofnun lækna geti komið að málinu. „Þetta verkefni gæti tengst inn í endurmenntun okkar lækna að einhverju leyti.“ Læknastéttin hefði gott af því að skoða vinnubrögð sín og hvernig hún geti komið að fræðslu til almennings.

„Ég tel að þetta átak ætti að gera vinnuna skilvirkari og þjónustuna bæði betri og faglegri.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica