07/08. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Vert að láta vaða svo draumarnir rætist, það gerði Ari Jóhannesson læknir og rithöfundur

                                           
                                           Ari Jóhannesson hefur nú lokið við að skrifa sína þriðju bók. Tvær
                                           skáldsögur og ljóðabók eru að baki og vonast hann til þess að bæta
                                           fleirum í sarpinn í framtíðinni.
                                           Mynd/gag

Ef maður hefur þetta í sér er vert að láta vaða,“ segir Ari Jóhannesson, lyflæknir og rithöfundur. Þriðja bókin hans og önnur skáldsagan, Urðarmáni, er komin út. Sögusviðið er Ísland á tímum spönsku veikinnar. Hann hefur náð að fylgja menntaskóladraumum sínum um að gerast rithöfundur vel úr hlaði.                                             

„Ég held ég hafi farið að hugsa: Bíddu, ætlarðu að drepast án þess að gera nokkuð í þessu?“ svarar Ari spurður af hverju hann hafi ekki gripið í pennann fyrr en á sextugsaldri. Fyrsta bók hans, ljóðabókin Öskudagar, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2007. Skáldsagan Lífsmörk, sem fjallar um tilfinningaflækjur unga svæfingalæknisins Sölva Oddssonar, kom svo út 2014 og nú Urðarmáni.

Ari segir fyrstu drögin að bókinni hafa verið gerð fyrir fjórum árum. „Ég hafði lesið Mánastein eftir Sjón og þyrsti að vita meira um þessa skelfilegu drepsótt. Þá kviknaði löngun til að veita því áfram í skáldverki.“

Hann lýsir sögunni skemmtilega. Viðbrögð við drepsótt, fíknir, reiði og stéttakipting séu sum af stefjum sögunnar. Átök séu milli hefðbundinnar læknisfræði og alþýðulækninga og sérgæska og samhyggja takist á í viðbrögðunum við drepsóttinni. Sagan sé í meginatriðum skáldsaga, en byggð á raunverulegum atburðum og persónum í kringum spönsku veikina.

„Það þarf ekki mikla söguþekkingu til að sjá að önnur aðalpersónan Arngrímur Sigurðsson, dregur vissulega dám af þáverandi landlækni, Guðmundi Björnssyni, en ég breyti honum það mikið og skálda það mikið að ég taldi ekki verjandi annað en að hann kæmi fram undir öðru nafni.“ Aðrir læknar haldi sínu nafni, eins og Þórður Thoroddsen og nafni hans Sveinsson. Þá sé Jón Rósenkranz gerður að sögumanninum. En það eru þó ekki aðeins karlmenn í aðalhlutverki því hin aðalpersónan sé Katla, ung kona sem sækir um leyfi til ljósmóðurstarfa og truflar líf landlæknis meira en lítið.

Ari segir að fyrir sögu Sjóns hafi verið merkilega hljótt um spönsku veikina í skáldverkum. „Að vísu skrifaði Gunnar Gunnarsson skáldsögu um hana 1922 sem hét Sælir eru einfaldir, en hún er allt öðruvísi og minna um spönsku veikina en allt annað.“ Þögnin sé reyndar alþjóðlegt fyrirbæri.

„Þegar ég var að kynna mér hvað hefði verið skrifað um spönsku veikina í Evrópu og Bandaríkjunum kom í ljós að það er þögn um hana mjög lengi og þótt þetta sé efni í ótal skáldsögur eru ekki margar sem gerast í þessari farsótt.“

Ari sér fyrir sér að skrifa meira eftir þessa þriðju bók sína en þó vart aðra skáldsögu. „Ég held ég taki til við ljóðið aftur. Maður sér fyrir endann á ljóði, en það er erfitt að sjá fyrir endann á skáldsögu þegar maður byrjar.“ Bera megi skáldsöguskrif og fjallgöngu saman.

„Maður kemur upp á hæð og heldur að toppnum sé náð, en þá birtist manni alltaf ný hæð þangað til maður loksins kemst á toppinn.“

Ari er ánægður með Urðarmána. „Ég er nú á því að þessi saga sé heildstæðari en sú fyrri, Lífsmörk,“ segir hann. „Ég hef reynt að læra af mistökum sem ég gerði í henni. Reynslan skilar sér.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica