06. tbl. 105. árg. 2019
Umræða og fréttir
300 ár frá fæðingu Bjarna Pálssonar, fyrsta landlæknisins
Bjarna var minnst með blómsveig og hátíðarstund á Seltjarnarnesi
Landlæknar bera blómsveig úr Nesstofu að minnismerkinu um Bjarna
Pálsson, fyrsta forvera þeirra.
Myndir í opnunni: Motiv/Jón Svavarsson
Þann 17. maí fæddist norður í Svarfaðardal maður sem Guðmundur Hannesson læknir og ritstjóri átti eftir að minnast með þessum orðum: „Með honum hófst hér íslensk læknastétt og er oss því skylt að vita nokkur deili á þessum föður stéttar vorrar.“
Séra Bjarni Þór Bjarnason, Reynir Arngrímsson, Ólafur Ólafsson og
Alma D. Möller við minnismerkið um Bjarna Pálsson.
Þessi maður var að sjálfsögðu Bjarni Pálsson sem skipaður var í embætti landlæknis árið 1760 og gegndi því til dánardægurs 1779. Núverandi landlæknir, sá 19. í röðinni, Alma D. Möller, efndi til minningarhátíðar um Bjarna af ærnu tilefni enda ekki á hverjum degi sem stofnandi heilbrigðiskerfis heillar þjóðar á stórafmæli. Alma lagði blómsveig að minnismerki um Bjarna við Nesstofu og naut við það fulltingis forvera síns Ólafs Ólafssonar, þess 15. í röðinni, formanns Læknafélags Íslands og sóknarprestsins á Seltjarnarnesi, Bjarna Þór Bjarnasonar. Svo var haldið til kirkju þar sem Alma flutti ávarp og Ágúst Einarsson prófessor emeritus flutti erindi um Bjarna Pálsson.
Alma D. Möller, 19. landlæknir Íslands, flytur ávarp sitt í
Seltjarnarneskirkju.
Fyrsti menntaði læknirinn
Í ávarpi Ölmu kom meðal annaars fram að Bjarni Pálsson naut þeirrar gæfu að hljóta skólagöngu, fyrst á Hólum og síðan í Kaupmannahöfn. Hann lærði læknislist og náttúrufræði ásamt öðru. Ýmislegt varð þó til að tefja hann frá náminu, svo sem þátttaka í frægum rannsóknarferðum með Eggerti Ólafssyni. Hann var því orðinn fertugur þegar hann lauk námi en þá var hann raunar löngu byrjaður að lækna fólk.
Að námi loknu blasti við honum það verkefni að byggja upp frá grunni heilbrigðiskerfi fátækrar þjóðar sem taldi um 40.000 manns. Til þess hafði hann greinilega rétta viðhorfið því um hann var sagt „trautt héldu honum veður, sjór eða úrtölur, er hans var vitjað til veikra“.
Rétt eins og nú til dags þarf heilbrigðiskerfi á fleiri höndum að halda en lækna og Bjarna var uppálagt að mennta lækna og yfirsetukonur, sjá um lyfsölu og sinna sóttvörnum. Einu starfi vék hann sér þó undan þegar biskupar landsins fengu þá hugmynd að mennta presta í læknisverkum. Það tók Bjarni ekki í mál, hann vildi koma upp vel lærðum læknum en ekki skottulæknum – með fullri virðingu fyrir prestum.
Hann átti sér draum um að reisa Landspítala. „Það tókst honum ekki og hefur það reyndar vafist fyrir mönnum allar götur síðan“, svo vitnað sé til orða Ölmu.
Að hefja land og lýð
Auk þess að sinna stjórnun eins og það heitir nú til dags og kenna fólki var hann líka vel liðtækur í lækningum. Hann þótti hafa góða þekkingu á læknisfræði á mælikvarða síns tíma og var sagður duglegur, hjálpfús og ósérhlífinn. Trúmaður var hann mikill og hafði þann sið þegar hann kom úr læknisferðum að ganga til kirkju, læsa að sér og leggjast flatur á gólf hennar, þakka guði þegar vel gekk en ákalla hann um hjálp þegar miður gekk.
Eftir að hafa vikið að kulnun og fleiri þáttum sem hafa áhrif á heilsu nútímamannsins sagði Alma: „Bjarni hefur eflaust skynjað þessa áhrifaþætti heilsu enda var hann fjölfróður og hafði áhuga á hverju því sem gæti komið að gagni við að „hefja land og lýð“. Það hefur án efa verið fyrirmynd að lýðheilsustarfi okkar tíma.“
Ágúst Einarsson flytur erindi sitt um Bjarna Pálsson í Seltjarnarneskirkju
19. maí síðastliðinn.
Fróðlegt yfirlit um íslensk heilbrigðismál gefið út
Einn þeirra sem minntust Bjarna Pálssonar landlæknis á Seltjarnarnesi var Ágúst Einarsson prófessor emeritus og fyrrum alþingismaður. Hann hefur nýlega gefið út bók, allnokkra að vöxtum, sem ber titilinn Íslensk heilbrigðismál í alþjóðlegu samhengi og helgar hana minningu Bjarna.
Ágúst hefur á undanförnum árum gefið út bækur og ritgerðir um hlutdeild ýmissa þátta í íslensku hagkerfi og nú er röðin komin að heilbrigðiskerfinu. Hann rekur í stuttu máli sögu lækninga, bæði á Íslandi og í heiminum. Síðan ræðir hann alþjóðavæðingu og sérstöðu heilbrigðismála innan hennar, fjallar um sjúkdóma og tryggingar, veitendur, þiggjendur og greiðendur heilbrigðisþjónustu, gæði þjón-ustunnar og tölulegar upplýsingar. Fjölgun aldraðra, lyfjamál og framfarir í heilbrigðisþjónustu eru skoðuð og loks setur hann fram stefnumótun fyrir heilbrigðiskerfið í 18 liðum.
Hér er ekki um ritdóm að ræða en þó er ljóst við fyrstu sýn að þessi bók gerir alvarlega tilraun til að mæta þeim skorti á þekkingu og innsýn sem oftar en ekki einkennir íslenska umræðu um heilbrigðismál. Hér er farið yfir vítt svið og það er mikið um tölur og súlurit í bókinni. En þeir sem virkilega vilja setja sig inn í málin ættu að finna umtalsverðan efnivið í umræðuna á þessum 360 blaðsíðum.