06. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Níu létust af tréspíra á þjóðhátíð árið 1943. Ragnar Jónsson bæklunarlæknir kann þessa sögu

Níu létust eftir að hafa drukkið tréspíra á Þjóðhátíð í Eyjum fyrir tæpum áttatíu árum. Nokkrir tugir veiktust og um tuttugu voru lagðir inn á spítalann í Vestmannaeyjum. Eyjamenn lýstu óhugnanlegum kvalaópum frá spítalanum.

                                            
                                            Ragnar Jónsson bæklunarlæknir hefur lagt mikið á sig til að vernda sögu
                                            tréspíradrykkju og erfiðar afleiðingar hennar á Þjóðhátíð í Eyjum árið
                                            1943. Mynd/gag

„Þetta er sögustund,“ sagði Ragnar á Þjóðminjasafninu þegar hann lýsti hörmungum á Þjóðhátíð árið 1943. Hann sagði frá því hvernig þriggja manna áhöfn á bátnum Stakksárfossi VE 245, Ólafur Davíðsson, Guðni Hjörtur Guðnason og Halldór E. Halldórsson, hafi fundið ryðgaða þaravaxna járntunnu í sjó um eina og hálfa til tvær sjómílur vestur af Þrídröngum. Þeir hafi dregið hana um borð, opnað og fundið spíralyktina. Tunnuna hafi þeir tekið heim en viljað fá innihaldið staðfest hjá lyfsala bæjarins með leynd. Tveimur dögum seinna sagðist lyfsalinn ekki geta sagt til um innihaldið og óljóst með hvernig þeir meðtóku skilaboðin en að nokkrum dögum liðnum voru níu látnir.

                                      

Ragnar kynnti rannsókn sína á aðalfundi Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar fyrr í vor. Hann sagði frá því hvernig hann, aðeins átta ára gamall, komst fyrst á snoðir um atburðinn sem var á forsíðu Morgunblaðsins á sínum tíma. Hann hafi heyrt á tal föður síns og Stebba pól, Stefáns Árnasonar yfirlögregluþjóns, árið 1960 þegar þeir fengu sér kaffi á skrifstofunni „heima á Látrum“ og það þótt þeir töluðu í hálfum hljóðum.

„Þessi viðbrögð voru þó ekkert einsdæmi. Tréspíramálið á Þjóðhátíðinni 1943 hafði mikil langvinn áhrif á bæjarbúa, svo mikil að enn var hvíslað um málið mörgum árum síðar. Mörgum áratugum síðar, fjörutíu, fimmtíu, sextíu árum árum síðar, var fyrst hægt að tala um tréspíramálið án þess að fara í felur með það en þá voru ekki margir eftir til svara,“ lýsti Ragnar sem talaði meðal annars við á annan tug Vestmanneyinga sem mundu atburðinn.

„Í viðtölum mínum við þetta gamla fólk sagði það að mikil sorg hafi verið í loftinu, en þetta hafi farið mjög hljótt. Það lá í loftinu skömm og sorg sem kom út í þagnargildi. Það var ekki hægt að koma svona hörmungum í orð og þá er betra að þegja,“ hafði Ragnar eftir því.

Hann sagði frá því hvernig þeir félagar hefðu tekið sénsinn á að neyta innihalds tunnunnar og skipt því á milli sín svo hver fékk um 50 lítra. Halldór fái sína lítra en fari í annan skipstúr og komi ekki meira við sögu. Enn meðvitaðir um hættuna og eftir svör lyfsalans hafi Hjörtur leitað til vinar síns, Þorláks Sverrissonar kaupmanns, sem þekkti héraðslækninn og beðið hann um að fara með sýni til hans. Þorlákur hafi dreypt á og sagt innihaldið venjulegan spíra, hann ætti tréspíra sem væri öðruvísi. Þetta væri ekta „spiritus.“ Seinna hittust þeir aftur og hafði Þorlákur þá drukkið um pela úr flöskunni og þeir talið innihaldið í lagi. Hjörtur hafi því tekið tréspírann með á Þjóðhátíð. „Lík Þorláks fannst eftir Þjóðhátíð mánudaginn 9. ágúst og líklega lést hann aðfararnótt mánudags.“

Ragnar lýsti ítarlega hvernig Hjörtur dreifði tréspíranum og skildi eftir flöskur hér og þar í hvítum tjöldum hátíðargesta. Hann lýsti einnig hvernig Hjörtur vaknaði með einkenni tréspíraeitrunar á sunnudeginum. „Er hann vaknaði og frameftir degi var hann ringlaður og utan við sig og sjón hans óskýr,“ sagði hann. Hjörtur hafi lifað en aðrir fóru að deyja:

Þorlákur Sverrisson kaupmaður, drakk um 750 ml og lést 9. ágúst.

Árný Guðjónsdóttir á Sandfelli, talin hafa drukkið 200-300 ml og lést 9. ágúst.

Ingvi Sveinbjörnsson, 300-400 ml, lést 9. ágúst.

Þórarinn Bernódusson, nokkur hundruð ml og lést 9. ágúst.

Daníel Loftsson, verulegt magn eða um lítri og lést 9. ágúst.

Guðmundur Guðmundsson, lést 10. ágúst.

Sveinjón Ingvarsson, lést 10. ágúst.

Jón Gestsson andast aðfararnótt þriðjudags 10. ágúst.

Ólafur Davíðsson, skipstjórinn, látinn 11. ágúst.

Bróðir Jóns Gestssonar, Andrés, var einn þeirra sem veiktust hastarlega. „Er hann vaknaði á mánudagsmorgni, var hann með uppköstum og leið illa. Þá hafði hann fulla sjón. Er á daginn leið, dapraðist sjónin, og um kvöldið sá hann allt í þoku. Á þriðjudagsmorgni var hann fluttur á sjúkrahús. Hann fékk aldrei sjónina aftur og var ætíð kallaður Andrés blindi í Eyjum eftir þetta,“ sagði Ragnar og að saga hafi komist á kreik um að Andrés hafi verið úrskurðaður látinn og kominn út í líkhús, en hafi þá hreyft fingur og verið fluttur til baka. „Ég fann þó hvergi neitt skrifað um þetta,“ sagði Ragnar en fékk þá stuðning úr sal og sagðist einn fundargesta hafa heyrt þetta frá fyrstu hendi.

Ólafur Davíðsson, skipstjóri á Stakksárfossi, sem hafði fundið og flutt tunnuna í land, andaðist síðastur, en hann lést miðvikudaginn 11. ágúst. „Sagan segir að eftir að hann hafði gert sér grein fyrir afleiðingum tunnufundarins og dreifingu innihaldsins, hafi hann tekið þá ákvörðun að taka forlögin í eigin hendur og nýtti hann sér tréspírann til þess,“ sagði Ragnar.

Af lítrunum 150 virðist sem um fimmtíu hafi verið neytt með þessum alvarlegu afleiðingum. „Eftirleikur þessa máls var að þrír voru kærðir. Einn sýknaður og tveir dæmdir, annar í tólf mánaða fangelsi og hinn í sex mánuði fyrir manndráp af gáleysi.“

Áhrif af tréspíradrykkju

Fyrstu áhrif af drykkju tréspíra eru sljóleiki, skert samhæfing hreyfinga, uppköst og kviðverkir. Eituráhrif geta komið fram eftir neyslu á litlu magni af tréspíra og jafnvel leitt til dauða. Langvinnar afleiðingar hjá þeim sem lifa af eitrunina geta orðið blinda og nýrnabilun.

Áfengi getur bjargað

Rætt var á aðalfundi Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar að drykkja alkóhóls gæti bjargað þeim sem drekka tréspíra. Efnasamsetningin sé lík þótt áhrifin á líkamann séu ólík.

„Metanól (tréspíri) og etanól eru lík efnafræðilega og sami hvatinn í líkamanum (alcohol dehydrogenasi) brýtur þessi efni niður. Við niðurbrot etanóls myndast vatn og koltvísýringur en við niðurbrot tréspíra myndast maurasýra, formalín og format sem eru öll eitruð. Maurasýran sýrir blóðið og leiðir til þess að sýrubasajafnvægi líkamans raskast og sýrustig lækkar hættulega mikið sem veldur vefjaskemmdum.“

Meðferðin beinist að því að leiðrétta sýrustig líkamans og reyna að draga úr styrk þeirra eiturefna sem myndast við niðurbrot tréspírans. „Sé etanól í blóði á sama tíma og tréspíri brotnar etanólið niður en ekki tréspírinn og kemur það í veg fyrir að eitruð niðurbrotsefni myndist. Ef þéttni tréspíra er há geta komið fram bein eituráhrif af honum, til dæmis á taugakerfi og nýru.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica