06. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Annasöm breytingatíð að baki, segir Reynir Arngrímsson formaður LÍ

Reynir fékk ekki mótframboð og verður því formaður næstu tvö árin

                                           
                                            Reynir Arngrímsson: Kjarasamningar og jafnlaunavottun eru brýn
                                            úrlausnarefni núna en símenntun lækna og læknaleysi á landsbyggðinni
                                            eru langtímaverkefni sem taka verður á.

Ólafsfirðingurinn og erfðalæknirinn Reynir Arngrímsson tók við forystu Læknafélagi Íslands haustið 2017. Þá var verið að umbylta skipulagi félagsins og sú breyting hefur óneitanlega sett svip sinn á störf stjórnar þessi tvö ár. – Já, þessi tvö ár hafa verið nokkuð sérstök út af þessum miklu breytingum á félaginu. Það hefur farið mikill tími í þær breytingar og að halda öllu í jafnvægi við þær, segir hann og bætir því við að tvö ár séu í það stysta til þessa að ná tökum á starfinu við þessar aðstæður.

Samhliða breytingunum átti Læknafélagið aldarafmæli í fyrra og það jók enn á annríkið. Fljótlega eftir að nýja stjórnin tók við var hafist handa um endurbætur á húsnæði félagsins í Hlíðasmára. Félagsaðstaðan var tekin í gegn, veggir fjarlægðir og allt endurnýjað, þar á meðal sett upp ný hljóð- og myndkerfi. – Nú býr félagið að gífurlega góðri aðstöðu til fundarhalda og félagsstarfs.

Reynir segist líta á þessa niðurstöðu sem traustsyfirlýsingu. – Auðvitað er ekki hægt að gera allt svo öllum líki en ég er þakklátur fyrir þau jákvæðu viðbrögð sem ég fékk frá félagsmönnum í kringum framboðið núna.

Meiri nánd

En hver er reynslan af þessu nýja skipulagi félagsins?

– Það jákvæða er að það endurspeglar betur en fyrra kerfi hvar hagsmunir félagsmanna liggja. Það eykur nándina milli félaganna og félagsmannanna, enda gefa nýju aðildarfélögin skýrari mynd af því hverjir hagsmunirnir eru og hvernig verkaskiptingin milli aðildarfélaganna og móðurfélagsins á að vera. Nú sitja formenn aðildarfélaganna í stjórn og það eykur upplýsingaflæðið milli þeirra. Ég hef haft þá stefnu að ýta verkefnum sem áður voru hjá LÍ út til félaganna.

Ekkert kerfi fæðist fullkomið og ýmislegt á eftir að laga í nýja skipulaginu. Mesta gagnrýnin hefur verið á stöðu eldri félagsmanna í félaginu. Við eigum eftir að ræða betur hvernig við tökum á því. Einnig þarf að efla LÍ sem fagfélag sem ég tel að gerist með nánara samstarfi við stærstu sérgreinafélögin, lyflækna, skurðlækna, barnalækna, rannsóknalækna og fleiri félög. Þar held ég að Fræðslustofnun lækna hafi miklu hlutverki að gegna.

Hún gegnir einnig stóru hlutverki í einu stærsta verkefni sem bíður okkar í stjórninni sem er símenntunin. Við gerðum könnun á stöðu símenntunar lækna í lok síðasta árs og komumst að því að læknar nýta ekki námsréttindi sín að fullu. Þegar læknar sjá sér ekki fært að nýta nema rétt um helming námsréttinda sinna er það alvarleg staða. Það hefur áhrif á starfsþróun lækna og þróun heilbrigðiskerfisins. Nú eru því miður ýmsar innbyggðar bremsur sem verka letjandi á lækna í að taka út námsleyfin sín. Þetta þurfum við að laga með stjórnvöldum, segir Reynir.

Jafnlaunavottun á villigötum

Nú blasa við þér tvö ný ár við stjórnvölinn, hvað er brýnast?

– Það sem nú er efst á dagskránni eru nýir kjarasamningar. Samningar eru laus-ir og við erum á kafi í viðræðum við ríkisvaldið, höfum verið að vinna í kröfugerðinni okkar. Annað stórmál er jafn-launavottun sem þarf að ljúka fyrir áramót hjá öllum heilbrigðisstofnunum. Landspítali ber að sjálfsögðu höfuð og herðar yfir aðrar stofnanir og því miður fór stjórn hans inn á braut sem við erum ekki sátt við. Spítalinn hyggst taka upp enskt kerfi sem ekki nær til lækna, þeir hafa hreinlega ekki verið með í því og tilraunir spítalans til að laga lækna að því hafa ekki tekist vel. Við höfum þurft að beita okkur til þess að fá störf lækna rétt metin, enda er ósanngjarnt að taka upp jafnlaunavottun sem ekki tekur tillit til eðlis og inntaks náms lækna sem eru ein mikilvægasta stétt heilbrigðiskerfisins.

Þriðja málið sem bíður nýrrar stjórnar eru samningsmál sjálfstætt starfandi lækna. Þau eru í höndum Læknafélags Reykjavíkur en LÍ þarf að styðja við bakið á samninganefnd lækna. Við teljum að ein ástæða þess að íslenska heilbrigðiskerfið er svo gott sem raun ber vitni sé þetta samspil milli sjálfstætt starfandi lækna og opinbera kerfisins. Fjórða málið er svo læknaskorturinn á landsbyggðinni. Hann hefur borið á góma í kjaraviðræðunum og við höfum gert tillögu um að heilbrigðis- og fjármálaráðuneyti ásamt LÍ skipi starfshóp til að leysa þann mikla vanda sem þar ríkir. Það er mjög alvarlegt að stór hluti læknisstaða á landsbyggðinni sé ekki setinn af föstum heimilislæknum. Verktökulækningar geta verið ágætar til að leysa tímabundinn vanda en þær duga ekki til að byggja upp lífvænlegt fyrirkomulag í heilbrigðismálum landsbyggðarinnar.

Fundað á Siglufirði í haust

Reynir segir að þessi mál muni bera á góma á aðalfundi LÍ á Siglufirði í haust þótt vonandi verði samningamál Lí og LR frá þegar hann verður haldinn. – Á síðasta aðalfundi var talsvert rætt um stefnu hins opinbera í heilbrigðismálum, enda lá þá fyrir skjal frá heilbrigðisráðherra sem umræðugrundvöllur. Það gekk mjög vel en nú finnst mér röðin komin að því að læknar líti í eigin barm og skoði hver stefna LÍ í heilbrigðismálum eigi að vera og hver séu helstu gildi lækna. Loks þarf að ræða um símenntunina. Þetta verða væntanlega stærstu málin, auk þess að slípa nýja skipulagið aðeins til, segir Reynir Arngrímsson formaður LÍ.

Stjórnarkjör á aðalfundi

Þann 15. maí rann út frestur til að tilkynna framboð til formanns í Læknafélagi Íslands. Sitjandi formaður, Reynir Arngrímsson, var sá eini sem sendi inn framboð og var hann því sjálfkjörinn formaður félagsins til næstu tveggja ára. Aðrir stjórnarmenn verða tilnefndir af aðildarfélögum sínum fyrir aðalfund sem haldinn verður á Siglufirði dagana 26. og 27. september. Ný stjórn tekur svo við á fyrsta fundi eftir aðalfund.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica