06. tbl. 105. árg. 2019

Fræðigrein

Nýsköpun: Getur gervigreind gert endurhæfingu skilvirkari?

Novel Innovation: Can Artifical Intelligence make Rehabilitation more Efficient?

doi: 10.17992/lbl.2019.06.236

ÁGRIP

Eftirspurn eftir starfsendurhæfingu á Íslandi hefur aukist síðastliðin ár og aðsókn ungs fólks þar hlutfallslega mest. Miklu máli skiptir að fjármunum samfélagsins sé vel varið án þess að gæði og þjónusta skerðist. Sú spurning vaknar því hvort gervigreind geti stuðlað að aukinni skilvirkni þessa geira. Nýsköpunarverkefni um þróun, prófun og innleiðingu á gervigreindarhugbúnaðinum Völvunni var innleitt í starfsemi Janusar endurhæfingar. Spár Völvunnar gefa meðal annars vísbendingar um hvar einstaklingur gæti hugsanlega þurft aðstoð og gefa sérfræðingum tækifæri til að bregðast við og gera viðeigandi ráðstafanir í meðferð. Nákvæmni, næmi og hittni Völvunnar hefur reynst vera framúrskarandi í tveimur rannsóknum þar sem tekist hefur að koma auga á dulin mynstur í aðstæðum skjólstæðinga sem gætu haft áhrif á endurhæfingarferlið. Völvan virðist því lofa góðu sem verkfæri í einstaklingsmiðaðri endurhæfingu þar sem fólk glímir við þung og flókin vandamál. Innan Janusar endurhæfingar er verið að innleiða Völvuna sem hlutlausan teymismeðlim. Markmið greinarinnar er að kynna Völvuna og rannsóknir tengdar henni.

Barst til blaðsins 21. janúar 2019, samþykkt til birtingar 26. apríl 2019.


Inngangur

Janus endurhæfing hefur sinnt starfsendurhæfingu á Íslandi frá árinu 2000 og hefur frá stofnun lagt áherslu á tækninýjungar, nýsköpun og þróun. Þetta hefur komið sér vel, ekki síst vegna samfélagslegra breytinga eins og fjölgunar öryrkja hér á landi síðastliðin ár. Til að mynda voru 8% einstaklinga á aldursbilinu 18-66 ára á örorkulífeyri árið 20171 og voru geðraskanir þar algengasta orsökin.2

Síðustu tvo áratugi hefur starfsendurhæfing skipað mikilvægan sess í íslensku samfélagi og fjöldi þeirra sem leita eftir þjónustu eykst með hverju árinu sem líður. Í desember 2017 höfðu alls 12.856 einstaklingar leitað til Virk starfsendurhæfingarsjóðs frá stofnun hans, en það ár var metfjöldi nýrra einstaklinga í þjónustu á vegum sjóðsins.3,4 Ávinningurinn af starfsendurhæfingu er margfaldur, því auk bættra lífsgæða einstaklinga þá hagnast samfélagið í heild við það að einstaklingar fari út á hinn almenna vinnumarkað.3

Í ljósi aukinnar eftirspurnar eftir starfsendurhæfingu á Íslandi í dag,3 er þörf á að veita skilvirkari þjónustu. Rannsókn var því framkvæmd með því markmiði að nýta gervigreind til að finna þætti sem hugsanlega hafa áhrif á starfsendurhæfingu einstaklingsins.5 Gervigreind er samansafn reiknirita sem gera tölvum kleift að bregðast við utanaðkomandi upplýsingum með hámarks gagnsemi. Vonast var til að með því að nýta gervigreind og finna áhrifaþætti starfsendurhæfingarinnar opnaðist möguleiki til íhlutunar sérfræðinga fyrr en ella.5 Það er hins vegar hægara sagt en gert að auka skilvirkni starfsendurhæfingar, þar sem mikið álag er á endurhæfingarhluta heilbrigðiskerfisins í dag. Langir biðlistar hafa að geyma einstaklinga sem glíma við fjölþætt geðræn og líkamleg vandamál. Önnur vandamál geta einnig haft áhrif á gæði og skilvirkni heilbrigðisþjónustunnar, eins og til dæmis skortur á starfsfólki og fjármagni.5-7 Ætla má að hluti þeirra einstaklinga sem ekki næst að þjónusta í tæka tíð eða þannig að vel til takist fari á örorku.

Á síðustu árum hefur Janus endurhæfing skapað sér orðstír utan sem innan landsteinanna fyrir framsækni í notkun og þátttöku í þróun nýrra tæknilegra lausna í starfsendurhæfingu. Fyrst með sérsniðnu utanumhaldskerfi fyrir endurhæfingu og síðar með aðkomu að þróun á lifandi gervigreindarhugbúnaði sem kallast Völvan og er efniviður þessarar greinar. Þessi grein byggist á samantekt á tveimur frumrannsóknum varðandi Völvuna sem hafa verið birtar í erlendum ritrýndum ráðstefnuritum.5,7

Til þess að fyrirbyggja varanlega örorku er nauðsynlegt að veita einstaklingum rétta aðstoð strax frá upphafi. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að sérfræðingum yfirsjáist undirliggjandi vandamál (diagnostic overshadowing) en það getur reynst snúið ef einstaklingar glíma bæði við geðræn og líkamleg einkenni.8 Af þessum sökum er mikilvægt að sérfræðingar úr ólíkum starfsstéttum vinni náið saman. Jafnvel þó að sterkt sérfræðiteymi sé til staðar má ekki gleyma að erfitt getur reynst að koma auga á og hafa yfirsýn yfir alla áhrifaþætti í endurhæfingarferli einstaklingsins. Innleiðing gervigreindar í heilbrigðiskerfið í þessum tilgangi gæti því verið góð viðbót fyrir starfandi sérfræðinga.5 Með innleiðingu gervigreindar sem hefur hag einstaklingsins að leiðarljósi, ásamt reynslu og þekkingu sérfræðinga, er líklega hægt að veita skilvirkari og einstaklingsmiðaðri þjónustu allt frá upphafi.

Notkun gervigreindar og spálíkana á heilbrigðisgögn

Flestar heilbrigðisstofnanir geyma í dag upplýsingar um skjólstæðinga sína á rafrænu formi, enda fljótlegra að leita í rafrænum gögnum heldur en á pappír.9,10 Ógrynni af mismunandi gögnum safnast saman og eru þau yfirleitt á ólíkum formum eins og til dæmis í myndum, tölum og texta. Þar af leiðandi er nánast ómögulegt fyrir sérfræðinga að sjá gagnleg mynstur í heilbrigðisgagnasafni, þrátt fyrir að mannsaugað hafi þann hæfileika að geta séð mynstur í flóknum gögnum.11 Með aðstoð gervigreindar og reiknigreindar er hægt að bera kennsl á flókin mynstur til þess að varpa upp hugsanlegum áhrifaþáttum eins og er gert með spálíkönum.5

Spálíkön eru ekki ný af nálinni en nýting gervigreindar við spár hefur aukist talsvert samfara rafrænni skráningu upplýsinga og er ennþá í stöðugri þróun.12-14 Þau hafa reynst vel til að spá fyrir um ólíka þætti eins og til dæmis starfsendurhæfingu hjá einstaklingum með heilaæxli12 og við að skipuleggja heimahjúkrun,15 ásamt því að spá fyrir um árangur þunglyndismeðferðar.16 Janus endurhæfing er fyrsta starfsendurhæfingin á Íslandi og í Evrópu, að því er höfundar best vita, sem hefur innleitt gervigreind í almenna þjónustu sína.

Efniviður og aðferðir

Janus endurhæfing

Janus endurhæfing er fyrirtæki sem stofnað var árið 2000, þá aðeins með örfáa skjólstæðinga og starfsmenn.17 Í dag eru um það bil 150 virkir skjólstæðingar í þjónustu á hverjum tíma og hefur sniðmengi hópsins einnig tekið breytingum. Til að mynda var meðalaldur fyrstu 10 árin 35,8 ár (SF 10,32) og hlutfall einstaklinga á aldrinum 18-30 ára 37,5% en er árið 2018 73% og meðalaldur 27,8 ár (SF 7,8). Flestir skjólstæðinganna 2018, eða 92%, voru greindir með geðrænan sjúkdóm.b Starfsemin hefur þar af leiðandi aðlagast samfélagslegri þörf og í dag eru á bilinu 30 til 35 fastráðnir starfsmenn. Ólíkar fagstéttir vinna saman, eins og læknar, iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, félagsráðgjafar, og sálfræðingar, svo fátt eitt sé nefnt. Þessir sérfræðingar vinna í þverfaglegum teymum við að aðstoða skjólstæðingana út í atvinnulífið. Árangur Janusar endurhæfingar hefur haldist frekar stöðugur í gegnum árin, til dæmis útskrifaði 51% skjólstæðinga á tímabilinu frá ársbyrjun 2013 til ágústloka 2018 í atvinnu, nám eða virka atvinnuleit og er árangurinn svipaður fyrir árið 2018 eða 54%.

Til þess að veita sérfræðingum góða yfirsýn yfir skjólstæðingahópinn var þróað og innleitt utanumhaldskerfi sniðið að þörfum starfseminnar, sem innandyra er kallað Janus Manager. Utanumhaldskerfið var tekið í notkun í mars 2016 og hefur þróast í rauntíma samhliða starfseminni. Í dag heldur Janus Manager utan um allt skipulag í kringum starfsemina, ásamt því að uppfylla allar ströngustu kröfur varðandi persónuvernd sem nýlega hafa verið uppfærðar í Evrópu.

Byrjað var á nýsköpunarverkefninu Völvunni í júní 2016 með það að markmiði að innleiða gervigreindarspálíkön í utanumhaldskerfið og starfsemina til þess að bera kennsl á hugsanlega áhrifaþætti endurhæfingarinnar hjá hverjum og einum skjólstæðingi. Þróun Völvunnar hefur skipst í þrjú stig: Þróun, prófun og innleiðingu.

Þróun

Völvan var upphaflega þjálfuð á 4300 gagnapunktum frá 951 einstaklingi. Hver gagnapunktur inniheldur um 180 breytur ásamt upplýsingum um niðurstöðu og lengd endurhæfingarinnar. Mynd 1 5 er flæðirit sem sýnir hvernig Völvan uppfærist með nýjum gögnum sem bætast við grunninn í hvert sinn sem skjólstæðingur útskrifast úr endurhæfingunni. Völvan er frábrugðin hefðbundinni notkun á spálíkönum að þessu leyti þar sem hún uppfærir spálíkönin sín sjálfvirkt þegar breyting á sér stað í gagnasafni hennar.

Markmið Völvunnar er að gefa sérfræðingum ábendingar um hvar og hvenær þurfi að grípa til aðgerða til þess að auka líkur á árangursríkri endurhæfingu. Sérfræðingar fá eftirfarandi þrjár mismunandi spár í hvert skipti sem beðið er um nýja spá fyrir hvern skjólstæðing:

Líkur á því að viðkomandi nái árangri í endurhæfingunni.

Líkur á því að viðkomandi hverfi úr endurhæfingunni.

Líkleg endurhæfingarlengd í mánuðum.

Þessum spám er varpað upp með þeim 10 áhrifaþáttum sem hafa mest áhrif á spána hjá hverjum einstaklingi á hverjum tíma. Ekki er endilega um sömu þætti að ræða við hverja spá en oftast eru þetta þættir tengdir andlegri og líkamlegri heilsu. Sérfræðingur getur síðan nýtt sér niðurstöðurnar til að meta hvort og hvernig hægt sé að aðstoða skjólstæðinginn betur.

Prófun

Frammistaða Völvunnar var metin á raungögnum í rauntíma á 10 mánaða tímabili. Þá urðu til 73 útgáfur af Völvunni sem vörpuðu upp um það bil 400 spám. Mynd 2 5 sýnir nákvæmni Völvunnar á þessu tímabili en það tók hana aðeins þrjár vikur að þjálfa nákvæmnina og hittnina upp í 97-100% rétta spá varðandi það hvort endurhæfing skjólstæðings verði árangursrík eða hvort hann hverfi úr henni.

Fyrir tímalengd starfsendurhæfingarinnar var búist við að spáin yrði ekki jafn nákvæm. Mynd 3 5 sýnir hversu einstaklingsbundin tímalengdin er sem spannar frá 2 til 47 mánaða. Hins vegar var reyndin sú að hægt var að spá fyrir um tímalengd stafsendurhæfingarinnar með að meðaltali tveggja til þriggja mánaða skekkjumörkum frá því sem raunverulega gerðist. Í ljósi þess hversu einstaklingsbundin þjónustan er þá er þetta talinn góður árangur og eðlileg óvissa og frávik í langtímaþjónustu.

Vegna framúrskarandi árangurs Völvunnar var ákveðið að leggja fyrir hana annað krefjandi verkefni. Rannsakað var hvort hún gæti spáð fyrir um næstu útkomu íslenska mælitækisins „Heilsu-tengdra lífsgæða“ 3-6 mánuðum áður en mælingar voru teknar.7 Heilsutengd lífsgæði hafa verið mikið notuð af sérfræð-ingum í íslenska heilbrigðiskerfinu. Mælitækið hefur reynst vel þar sem það gefur til kynna stöðu skjólstæðingsins þá stundina sem hann svarar. Heildarlífsgæði hans eru reiknuð út frá svörum hans við 32 spurningum. Eftirfarandi 12 undirflokkar eru einnig reikn-aðir út: heilsufar, sjálfsstjórn, líðan, svefn, líkamleg heilsa, kvíði, ein-beit-ing, verkir, þrek, fjárhagur, depurð og samskipti. Lífsgæðin og all-ir undir-flokkarnir eru síðan borin saman við niðurstöður sem feng-ist hafa hjá hinum almenna Íslendingi með tilliti til aldurs og kyns.18-21

Sérfræðingar í Janusi endurhæfingu hafa í gegnum tíðina tekið eftir miklum sveiflum hjá skjólstæðingum sínum varðandi niðurstöður „Heilsutengdra lífsgæða“.22 Því var búist við að Völvan gæti átt erfitt með að spá fyrir um næstu mælingu skjólstæðinganna. Það reyndist hinsvegar vera rangt.

Tafla 1 7 sýnir hvernig Völvan réð við að spá fyrir um niðurstöðu „Heilsutengdra lífsgæða“. Í heildina var nákvæmnin, næmið (recall) og hittnin á bilinu 95-100% í öllum undirflokkum. Aðeins undirflokkurinn depurð fór niður í 92% í einu tilfelli. Niðurstöðurnar gefa til kynna að Völvan geti spáð fyrir með 95-100% vissu 3 til 6 mánuðum áður en mæling er gerð um hvort „Heilsutengd lífsgæði“ einstaklingsins muni batna, versna eða standa í stað í næstu mælingu. Myndræn framsetning á þessu er sýnd í pólargrafi ( mynd 4 ) sem er heildræn lífsgæðaspá fyrir einstaklinginn. Þessi framsetning gerir sérfræðingnum kleift í einni sviphendingu að sjá framvindu einstaklingsins frá síðustu mælingu fyrir alla undirflokka mælitækisins. Höfundar telja að þessar upplýsingar geti nýst sérfræðingum til þess að grípa til aðgerða áður en hugsanleg lækkun á ákveðnum undirflokkum gæti orðið og undirstriki mikilvægi notkunar gervigreindar umfram mannshugann.

Innleiðing

Sérfræðingar fengu enga vitneskju um frammistöðu Völvunnar fyrr en eftir prófanir og gátu því ekki vitað hvort spárnar væru marktækar. Voru þeir því beðnir um að taka öllum spám með fyrirvara og hvattir til að vinna gegn þeim ef þær gæfu til kynna að skjólstæðingur væri ekki líklegur til að ná árangri. Sérfræðingar voru hvattir til að nota Völvuna þegar þeim hentaði til þess að öðlast hlutlausa sýn á stöðu einstaklings. Þeim var leiðbeint að skoða áhrifaþættina með tilliti til aðstæðna skjólstæðings og leita leiða til að aðlaga þjónustuna betur að þörfum hans. Þar sem Janus endurhæfing býður upp á einstaklingsmiðaða þjónustu hefur Völvan verið notuð á fjölbreyttan hátt í innleiðingarferlinu. Sem dæmi hefur Völvan nýst í viðtölum við skjólstæðinga, aðstoðað við ákvarðanatöku og hjálpað til við markmiðssetningu. Ennþá er verið að innleiða notkun Völvunnar í starfsemi Janusar endurhæfingar í samvinnu við sérfræðinga. Eftirfarandi eru þrjú raunveruleg og nýleg dæmi um mismunandi notkun Völvunnar í starfi.

Dæmi 1: Völvan beinir athygli að skjólstæðingi sem þarf meira aðhald.

Sérfræðingur hafði yfirumsjón með hópi skjólstæðinga og glímdi við tímaskort í starfi sökum erfiðra málefna sem voru í forgangi. Einum skjólstæðingi var farið að vegna verr án þess að sérfræðingur tæki sérstaklega eftir því þar sem lítið fór fyrir honum. Sérfræðingur tók eftir þessari breytingu í Völvunni og ræddi þetta í framhaldinu við skjólstæðinginn. Í kjölfarið fylgdist sérfræðingurinn nánar með andlegri líðan skjólstæðingsins og breytti nálgun í endurhæfingu hjá viðkomandi. Breytingarnar fólu í sér endurskoðun á áherslum í viðtölum, inngripi geðlæknis og sálfræðings. Árangur kom í ljós á nokkrum vikum Skjólstæðingi fór að líða og vegna betur í endurhæfingunni, sem endurspeglaðist líka í Völvuspá hans.

Dæmi 2: Völvan varpar ljósi á áhrifaþætti sem hindra
árangursríka meðferð.

Völvan spáði afgerandi líkum á því að skjólstæðingur næði ekki árangri. Sterkustu áhrifaþættirnir voru andlegir. Kvíði og þunglyndi voru mögulega að versna. Sérfræðingurinn ráðfærði sig við þverfaglegt teymi Janusar endurhæfingar. Í framhaldinu ræddi sérfræðingur og sálfræðingur við skjólstæðinginn þar sem farið var yfir Völvuspána, andlega líðan og hvort Janus endurhæfing væri viðeigandi úrræði. Skjólstæðingur lýsti vilja til að halda áfram í Janusi endurhæfingu og í sameiningu var ákveðið að leita til geðlæknis sem í kjölfarið gerði breytingar á lyfjagjöf. Áhrif inngripsins komu síðan í ljós í viðtölum við sérfræðinga og í niðurstöðum mælitækja. Breytingarnar endurspegluðust einnig í Völvuspá skjólstæðingsins og hækkuðu árangurslíkurnar umtalsvert nokkrum vikum eftir inngrip.

Dæmi 3: Völvan nemur óvæntan áhrifaþátt hjá skjólstæðingi.

Völvan spáði lækkandi líkum á árangri í meðferð. Við nánari skoðun sérfræðings á áhrifaþáttum spárinnar kom í ljós umtalsverð lækkun í líkamlegri heilsu og stöðnun í félagslegum þáttum mælitækisins „Heilsutengdra lífsgæða“ hvað varðar samskipti. Sérfræðing hafði grunaði að líkamleg heilsa væri vandamál hjá skjólstæðingi en umrædd stöðnun í félagslegri færni kom honum á óvart. Í viðtali var farið yfir niðurstöður matstækja og Völvuspá með skjólstæðingi. Sérfræðingurinn lýsti aukinni séðri færni skjólstæðingsins í samskiptum á gólfi og ósamræmi við Völvuspána. Í viðtalinu kom í ljós að sú færni sem sérfræðingur sá var ekki sú sama og ósk skjólstæðings sem snérist um dagleg samskipti utan endurhæfingarinnar. Völvuspáin var þannig staðfest.

Sérfræðingur og skjólstæðingur gerðu í framhaldinu saman meðferðaráætlun til þess að bæta félagslega þáttinn utan endurhæfingarstöðvarinnar og vinnu með líkamlega heilsu undir handleiðslu sjúkraþjálfara.

Samantekt

Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum undanfarin 20 ár, sem hefur endurspeglast í skjólstæðingahópi Janusar endurhæfingar. Skjólstæðingar eru orðnir yngri og með fjölþættari og þyngri geðræn vandamál en áður. Mikilvægt er að koma auga á hvernig hægt er að aðstoða einstaklingana eins fljótt og hægt er og hjálpa þeim út á vinnumarkaðinn eða í nám. Starfsemi Janusar endurhæfingar hefur lagt sig fram um að laga sig að þörfum skjólstæðingahóps síns, meðal annars með því að nýta sér nýjungar innan ýmissa fræðasviða, til dæmis verkfræði og tölvunarfræði. Hluti af þeim nýjungum hefur verið að þróa Völvuna og er nú stefnt að því að innleiða hana að fullu í alla daglega þjónustu starfseminnar. Mikilvægt er að halda til haga að allar ákvarðanir eru teknar af sérfræðingum og/eða þverfaglegu teymi sérfræðinga sem þeir hafa á bak við sig. Völvuna á því eingöngu að nýta sem leiðbeinandi stuðningsverkfæri. Mikilvægt er að sérfræðingar skoði niðurstöður Völvunnar í ljósi sérfræðiþekkingar sinnar og taki þær ekki bókstaflega eða oftúlki. Sé það gert gæti það haft óæskileg áhrif á meðferð þar sem Völvan er aðeins þróuð til að vera hlutlaus stuðningur fyrir sérfræðinga. Þekking og reynsla þeirra þarf ávallt að liggja til grundvallar.

Höfundar telja að Völvan geti orðið ómetanlegt stuðningsverkfæri í endurhæfingu enda auðvelt að aðlaga og bæta við ólíkum þáttum ásamt því að koma auga á hvort og hvar skjólstæðingurinn gæti þurft aðstoð. Niðurstöður rannsókna á Völvunni gefa til kynna:

Nákvæmni og hittni Völvunnar eru framúrskarandi.

Völvan veitir hlutlausa yfirsýn og gæti sparað sérfræðingum tíma með því að benda á hvar og hvenær skjólstæðingar gætu þurft aðhald og aðstoð.

Telja má líklegt að gervigreind verði í framtíðinni mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu, meðal annars með verkfærum eins og Völvunni sem geta aðlagað sig sjálfkrafa að flókinni þjónustu.

Þakkir

Höfundar þakka sérstaklega Lenu Rut Olsen iðjuþjálfa fyrir mikilvægt framlag við útfærslu á notkun Völvunnar í starfi.

Heimildir

1. tr.is/tryggingastofnun/tryggingastofnun_i_tolum/rafraenar-stadtolur/- apríl 2018
 
2. Tryggingastofnun. Helsta orsök örorku eftir sjúkdómaflokkum 2015. Tryggingastofnun, Reykjavík 2015.  
 
3. Virk starfsendurhæfingarsjóður. Ársrit um starfsendurhæfingu 2018, Virk starfsendurhæfingarsjóður, Reykjavík 2018.  
 
4. virk.is/is/virk/frettir/aldrei-fleiri-nyir-hja-virk - febrúar 2018.  
 
5. Haraldsson SO, Brynjolfsdottir RD, Woodward JR, Siggeirsdottir K, Gudnason V. The Use of Predictive Models in Dynamic Treatment Planning. Proc - IEEE Symp Comput Commun 2017.
https://doi.org/10.1109/ISCC.2017.8024536
 
 
6. Siggeirsdottir K, Brynjolfsdottir RD, Haraldsson SO, Vidar S, Gudmundsson EG, Brynjolfsson JH, et al. Determinants of outcome of vocational rehabilitation. Work 2016; 55: 577-83.
https://doi.org/10.3233/WOR-162436

PMid:27792034

 
 
7. Haraldsson SO, Brynjolfsdottir RD, Gudnason V, Tomasson K, Siggeirsdottir K. Predicting Changes in Quality of Life for Patients in Vocational Rehabilitation. Proc - IEEE Conf Evol Adapt Intell Syst (EAIS 2018) 2018.
https://doi.org/10.1109/EAIS.2018.8397182
 
 
8. Shefer G, Henderson C, Howard LM, Murray J, Thornicroft G. Diagnostic overshadowing and other challenges involved in the diagnostic process of patients with mental illness who present in emergency departments with physical symptoms - a qualitative study. PLoS One 2014; 9: e111682.
https://doi.org/10.1371/journal.pone.0111682

PMid:25369130 PMCid:PMC4219761

 
 
9. Uragaki K, Hosaka T, Arahori Y, Kushima M, Yamazaki T, Araki K, et al. Sequential Pattern Mining on Electronic Medical Records with Handling Time Intervals and the Efficacy of Medicines. Í: Proceedings - IEEE Symposium on Computers and Communications. IEEE 2016: 1-6.
https://doi.org/10.1109/ISCC.2016.7543708
 
 
10. Soares E, Oliveira C, Maia J, Almeida R, Coimbra M, Brandao P, et al. Modular Health Kiosk for health self-assessment. Í: Proceedings - IEEE Symposium on Computers and Communications. IEEE 2016: 278-80.
https://doi.org/10.1109/ISCC.2016.7543754

PMid:26565394

 
 
11. Wang Y, Kung LA, Byrd TA. Big data analytics: Understanding its capabilities and potential benefits for healthcare organizations. Technol Forecast Soc Change 2018; 126: 3-13.
https://doi.org/10.1016/j.techfore.2015.12.019
 
 
12. Rusbridge SL, Walmsley NC, Griffiths SB, Wilford PA, Rees JH. Predicting outcomes of vocational rehabilitation in patients with brain tumours. Psychooncology 2013; 22: 1907-11.
https://doi.org/10.1002/pon.3241

PMid:23355502

 
 
13. Rahimian F, Salimi-Khorshidi G, Payberah AH, Tran J, Ayala Solares R, Raimondi F, et al. Predicting the risk of emergency admission with machine learning: Development and validation using linked electronic health records. PLOS Medicine 2018; 15: e1002695.
https://doi.org/10.1371/journal.pmed.1002695

PMid:30458006 PMCid:PMC6245681

 
 
14. Kakadiaris IA, Vrigkas M, Yen AA, Kuznetsova T, Budoff M, Naghavi M. Machine Learning Outperforms ACC/AHA CVD Risk Calculator in MESA. J Am Heart Ass 2018; 7: e009476.
https://doi.org/10.1161/JAHA.118.009476

PMid:30571498 PMCid:PMC6404456

 
 
15. Zhu M, Zhang Z, Hirdes JP, Stolee P. Using machine learning algorithms to guide rehabilitation planning for home care clients. BMC Med Inform Decis Mak 2007; 7: 41.
https://doi.org/10.1186/1472-6947-7-41

PMid:18096079 PMCid:PMC2235834

 
 
16. Chekroud AM, Zotti RJ, Shehzad Z, Gueorguieva R, Johnson MK, Trivedi MH, et al. Cross-trial prediction of treatment outcome in depression: A machine learning approach. Lancet Psychiatr 2016; 3: 243-50.
https://doi.org/10.1016/S2215-0366(15)00471-X
 
 
17. Siggeirsdottir K, Alfredsdottir U, Einarsdóttir G, Jonsson BY. A new approach in vocational rehabilitation in Iceland: preliminary report. Work 2004; 22: 3-8.  
 
18. Geirsdottir OG, Arnarson A, Briem K, Ramel A, Tomasson K, Jonsson P V., et al. Physical function predicts improvement in quality of life in elderly icelanders after 12 weeks of resistance exercise. J Nutr Health Aging 2012; 16: 62-6.
https://doi.org/10.1007/s12603-011-0076-7

PMid:22238003

 
 
19. Helgason T, Björnsson JK, Tómasson K, Ingimarsson S. Heilsutengd lífsgæði. Læknablaðið 1997; 83: 492-502.  
 
20. Helgason T, Björnsson J, Tómasson K, Grétarsdóttir E, Jónsson HJ, Zoëga T, et al. Heilsutengd lífsgæði sjúklinga fyrir og eftir meðferð. Læknablaðið 2000; 86: 682-8.  
 
21. Gudmundsson OO, Tomasson K. Quality of life and mental health of parents of children with mental health problems. Nord J Psychiatry 2002; 56: 413-7.
https://doi.org/10.1080/08039480260389325

PMid:12495535

 
 
22. Brynjólfsson JH. Heilsutengd lífsgæði: Starfsendurhæfing og geðræn vandamál [master's thesis]. Háskóli Íslands, Reykjavík 2016.  


Þetta vefsvæði byggir á Eplica