04. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Málþing Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar um berkla og menningu

                                                          

                                         
                                         María Pálsdóttir leikkona og frumkvöðull sem er að koma skikki á gamla
                                         Kristneshælið, það verður menningarsetur og safn um sögu
                                         berklaveikinnar þar í húsi. Gamli hjúkrunarkvennabúningurinn var mjög
                                         passandi við tilefnið.

Berklar (Hvíti dauðinn) höfðu gífurleg áhrif á íslenskt samfélag á síðustu öld. Þeir voru banvænir og mjög raunverulegur ógnvaldur sem allir óttuðust og engin örugg meðferð var til fyrr en um miðja öldina. Þeir lögðu að velli fjölmargt ungt fólk og sú fjölskylda var vandfundin sem ekki átti um sárt að binda eftir sjúkdóminn. Spítala- og hælisvist var löng og ströng og þungbær en jafnframt spruttu af henni ýmsir menningarkimar, vinátta og jafnvel hjónabönd.

Félag áhugamanna um sögu læknisfræðingar er eitt öflugasta félag sinnar tegundar og er vakið og sofið yfir nýjum og nýjum umfjöllunarefnum og sóknarfærum sem svo eru kölluð. Jóhann Sigurjónsson skáld frá Laxamýri auðgaði íslenska menningu með leikritum sínum um Galdra-Loft og Fjalla-Eyvind og gaf okkur ljóðið Sofðu unga ástin mín. Í sumar eru 100 ár liðin síðan hann dó úr berklum tæplega fertugur að aldri. Af þessu tilefni efndi félagið í samvinnu við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands til málþings um berkla og menningu í Þjóðminjasafninu og stýrði Torfi Tulinius samkomunni.

Helgi Sigurðsson prófessor í krabbameinslækningum rakti ítarlega sögu berkla og berklahæla á Íslandi einkum þó Vífilsstaða í stórfróðlegu erindi. Hælið var það fyrsta sinnar tegundar hér heima, reist með tilstyrk norskra frímúrara og um flest sjálfbært í upphafi. Þar voru híbýli fyrir starfsmenn, rekinn myndarbúskapur og sjúklingar stóðu fyrir mikilli menningarstarfsemi. Því miður er nú öll sú Snorrabúð stekkur. Rögnvaldur Ólafsson var fyrsti íslenski arkitektinn en þurfti að hverfa frá námi í Kaupmannahöfn vegna berklaveiki. Hann teiknaði meðal annars berklahælið á Vífilsstöðum, þar sem hann lést árið 1917.

María Pálsdóttir leikkona og drifkraftur fyrir Kristneshæli í Eyjafirði sagði sögur að norðan sem voru bæði hjartaskerandi og hugljúfar í senn. María er að endurreisa Kristnes sem menningarsetur og sýningarstað fyrir sögu berklanna og hefur komist í færi við fjölda fólks sem getur miðlað af eigin reynslu þegar kemur að berklum. Kristnes hefur nú fengið að gjöf alls kyns frásagnir, ljóð, myndir, bréf og muni meðal annars rifbein sem eiga rót sína á berklahælinu.

Fyrir hlé stilltu Óttar Guðmundsson og Jóhanna Þórhallsdóttir stemmninguna alveg í botn með því að spila þrjú tóndæmi úr óperusögunni þar sem söguhetjan er að veslast upp úr berklum.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum, hélt erindi um Jóhann Sigurjónsson og hans feril. Í leikriti hans um Doktor Rung er eitt aðalviðfangsefnið lækningar á banvænum sóttum einsog berklum. Síðastur á mælendaskrá var Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum síðari alda. Hann bar saman og rakti örlög þriggja mikilhæfra skálda sem öll dóu ung úr berklum, voru að sönnu óskabörn ógæfunnar, og hétu Jóhann: Sigurjónsson, Jóhann Jónsson og Jóhann Gunnar Sigurðsson.

Sofðu unga ástin mín,

- úti regnið grætur.

Mamma geymir gullin þín,

gamla leggi og völuskrín.

Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.


Það er margt, sem myrkrið veit,

- minn er hugur þungur.

Oft ég svarta sandinn leit

svíða grænan engireit.

Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.


Sofðu lengi, sofðu rótt,

seint mun best að vakna.

Mæðan kenna mun þér fljótt,

meðan hallar degi skjótt,

að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.


Úr Fjalla-Eyvindi eftir Jóhann SigurjónssonÞetta vefsvæði byggir á Eplica