04. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Búast þarf við breyttu landslagi sjúkdóma, segir Þórólfur Guðnason

                                         
                                          Þórólfur Guðnason á skrifstofu sinni eftir annasama mislingadaga.
                                          Mynd/gag

 

Læknar og heilbrigðisstarfsfólk þurfa að vera á tánum yfir sjúkdómum sem þau sjá ekki dags daglega, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Það sé nýr veruleiki sem fylgi loftslagsbreytingum og tíðum ferðalögum til fjarlægra landa. Aldrei áður hafi jafn margir landsmenn verið settir í einangrun eins og nú vegna mögulegra mislingasmita, eða 66 talsins.

Sóttvarnalæknir hefur staðið í ströngu og beitir því úrræði að setja fólk í sóttkví. Fólk í smithættu er úr leik í þrjár vikur og er treyst fyrir því að halda sig innandyra og án samneytis við aðra. Ástæða sóttkvíanna segir Þórólfur að sé hve margir smituðust í flugi milli Reykjavíkur og Egilsstaða. „Það krafðist þess að við myndum grípa til þessara ráðstafana.“ Breiði faraldurinn úr sér verði hætt að setja fólk í einangrun.

„Hugmyndafræðin er að kaupa okkur tíma til að bólusetja fjölskyldur þeirra og alla nákomna, þannig að fái fólkið mislinga sé nánasta umhverfi varið,“ segir hann. Tíminn hafi einnig verið nýttur til að bólusetja sem flesta í samfélaginu. Þórólfur veit ekki hvort þetta fólk verði fyrir fjártjóni vegna ákvörðunarinnar.

Þórólfur segir viðbragðsáætlanir í samvinnu við Almannavarnir hafa staðist. „Aðalmálið er að fólk þekki hlutverk sín og allir taki þátt,“ segir Þórólfur. „Galdurinn er að virkja kerfið hratt, allir séu með skýrar leiðbeiningar og sömu upplýsingar,“ segir hann.

Þórólfur segir 80.000 hafa greinst með mislingasmit í Evrópu í fyrra, 80 hafi látist. Þá hafi helmingurinn lagst inn á sjúkrahús og hópur upplifað alvarlega fylgikvilla. Þeir geta til að mynda verið eyrna-, lungna- og heilabólga. Sér hann fram á fylgikvilla hjá þeim 7 sem hafi smitast nú?

„Við höfum ekki séð það núna eftir því sem ég veit best,“ segir hann en það sé á þeim grunni sem svo hart sé brugðist við.

Þórólfur segir endurmenntun heilbrigðisstarfsfólks ganga út á að halda því á tánum. „Það þarf að vera meðvitað um að upp geta komið sjúkdómar sem það hefur ekki séð,“ segir hann. „Við lifum í breytilegum heimi, þannig að við förum að sjá mikið af nýjum sýkingum.“ Í suðurhluta Evrópu fjölgi sjúkdómstilfellum eins og Vestur-Nílarveiki, malaríu og öðrum sjúkdómum sem skordýr beri með sér.

„Við erum partur af alheiminum,“ segir hann. „Ég tel að þessi uppákoma núna sýni að allir þurfi að vera á varðbergi fyrir því að óvenjulegir, sjaldgæfir hlutir gerast.“

Lengra viðtal við Þórólf í hlaðvarpi á vefsíðu Læknablaðsins.

Hvað segir sagan?

Mislingar lögðu landsmenn á 19. öld

Mislingafaraldrar árin 1846 og 1882 voru mannskæðir. Fjórfalt fleiri létust í júní 1846 en reikna mátti með en um 1300 fleiri en búast mátti við í seinni faraldrinum. Staðbundinn faraldur geisaði á Austurlandi árið 1869. Alls 64% þeirra sem létust árið 1882 voru börn yngri en fjögurra ára. Dánarhlutfall kvenna á barneignaraldri var tvöfalt hærra en karla á sama aldri og fæðingartíðni 7-9 mánuðum eftir mislingafaraldurinn það ár lækkaði um 50%.

Þrír greindust með mislinga árið 2017 og árið 2014 greindust mislingar hér sem þá hafði ekki gerst allt frá árinu 1996.

Heimild: Grein Söndru Gunnarsdóttur, Haraldar Briem og Magnúsar Gottfreðssonar í 04. tbl. 100. árg. 2014



Þetta vefsvæði byggir á Eplica