04. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Ráp og farsímar trufla lækna á skurðstofum, það er niðurstaða Ólafs G. Skúlasonar hjúkrunarfræðings

Erill og hraði. Truflanir eru tíðar á skurðstofum og þróa þarf aðferðir til að kenna starfsfólki að takast á við óhjákvæmilegar truflanir. Þær helstu í vinnuumhverfi skurðstofa voru ráp inn og út af skurðstofunni, samskipti, símar og boðtæki, truflanir tengdar tækjabúnaði, kennsla og hávaði. Þetta sá Ólafur G. Skúlason, hjúkrunardeildarstjóri á Landspítala og fyrrum formaður Félags hjúkrunarfræðinga, þegar hann rýndi í 14 erlendar rannsóknir um truflanir, í meistaranámi sínu sem lauk á vormánuðum í fyrra. Kveikjan að verkefninu var erillinn á skurðstofum Landspítala.

                                          
                                          Ólafur G. Skúlason við störf á Landspítala. Hann segir það hafa komið á
                                          óvart hvað er mikið um truflanir á skurðstofum, en þeim megi venjast.
                                          Mynd/gag

hlusta

„Mér brá að sjá hversu mikið var um að vera þegar ég steig inn í skurðstofur spítalans í sérnámi mínu árið 2010. Það kom mér á óvart hvað fólkið var að sinna mörgum hlutum í einu og hvað það var mikið áreiti utan frá. Þetta var annað en ég hafði gert mér í hugarlund að fram færi inni á skurðstofunni,“ segir Ólafur. Hann hafi fengið nett sjokk.

„Það var mikið um að vera, mikil læti og mikið talað um aðra hluti auk þess sem margir voru að koma inn á skurðstofuna. Þessu umhverfi venst maður þegar fram í sækir,“ segir Ólafur. Í meistaranáminu hafi hann rekist á grein um vandann og áhuginn hafi verið kveiktur. Hann sé líka með gráðu í stjórnun, sem nái inn á þetta svið. „Þetta er spurning um flæði skrifstofunnar og skipulag,“ segir hann.

Mælingar rannsóknanna sýndu að tíðni truflana á skurðstofum sé 20,17 að meðaltali í hverri aðgerð. „Sumar eru nauðsynlegar og gagnlegar fyrir sjúklinginn, en flestar eru óþarfi,“ segir Ólafur. Lokaverkefni hans hafi haft áhrif á reglur á Landspítala.

„Það má til að mynda ekki lengur vera með síma uppivið,“ segir hann. Oft séu óþarfar símhringingar milli stofa og fólk hafi ekki talið sig geta sleppt símanum úr vasanum.

Ólafur segir rannsóknirnar hafa sýnt að teymi sem sé vant að vinna saman truflist síður en þau óvönu við utanaðkomandi áreiti. „Reyndara fólk venst utanaðkomandi truflunum eins og hljóði, hita, kulda og öðrum truflunum og hættir að bregðast við þessum þáttum. En unga nýja fólkið er ekki með þessa síu. Það bregst við öllu og horfir á allt.“

Ólafur segir áhugavert hvernig teymi læri að þekkja hvert annað og hætti að velta fyrir sér truflunum sem aðrir valdi. „Þetta styður það sem við erum að gera á Landspítala. Við vinnum í teymum. Sama fólkið vinnur saman. Það þekkir þarfir hvers annars.“

Ólafur svarar játandi að setja þurfi ferla og reglur til að minnka truflanir. Einn hængur sé þó á því hér á landi. „Við erum ekkert rosalega reglufylgin. Við förum okkar eigin leiðir,“ segir hann. Öryggi sjúklinga sé þó alltaf í fyrirrúmi.

Hann nefnir einnig að minnka megi truflanir með því að fólk velti fyrir sér hvort samskipti megi bíða þar til aðgerðinni sé lokið? „Þá þurfum við að taka tillit til þess þegar nýtt fólk er í aðgerðum, þegar við erum að þjálfa upp nýja skurðhjúkrunarfræðinga og skurðlækna.“ Hann nefnir til að mynda að í flugtaki og lendingu megi ekki trufla flugmenn. Ljóst sé að starfsfólk upplifi mestu truflunina þegar það þurfi að einbeita sér.

„Svo er hægt að þjálfa fólk svo það venjist truflunum sem við getum ekki útrýmt, eins og þegar tækin pípa eða eitthvað kemur upp á. Hægt væri að gera það í herminámi, þar sem innleiddar eru truflanir.“

Ólafur segir líka mikinn hávaða á skurðstofum, frá tækjum, sogi og viftum. „Svo erum við að negla og hamra, þannig að við þurfum að huga að því hvernig við minnkum lætin, eins og með heyrnarhlífum, en heyrum þó enn í hvert öðru,“ segir Ólafur. „Klárlega getum við þó strax minnkað óþarfa samskipti,“ segir hann.

Ólafur segir að áhugavert væri að rannsaka hversu margar truflanir væru á skurðstofum Landspítala að meðaltali og einnig að kafa betur ofan í hvaða truflanir hafi neikvæðustu áhrifin inni á þeim.

„Reyndara fólk venst utanaðkomandi truflunum eins og hljóði, hita, kulda og öðrum truflunum og hættir að bregðast við þessum þáttum. En unga nýja fólkið er ekki með þessa síu. Það bregst við öllu og horfir á allt.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica