04. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Væntingar og vonbrigði um norrænu heilbrigðiskerfin: svör læknafélaga við spurningum læknablaða í Skandinavíu

Norræn fagtímarit lækna hafa tekið höndum saman og sent sameiginlega spurningar til læknafélaganna í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi. Spurt er um helstu breytingar innan heilbrigðiskerfisins um þessar mundir, hvernig þær snerti lækna og um líðan þeirra.

Áskoranir

Það er ljóst að áskoranir norrænu læknafélaganna eru margar. Þau nefna vanda af ólíkum toga. En danska, norska og finnska félagið nefna öll bága stöðu upplýsingatækni innan sjúkrahúsa, þar skorti samhæfingu. Norska læknafélagið gengur svo langt að telja það ógna öryggi sjúklinga. Danska félagið segir lækna hátæknisjúkrahúsanna í Kaupmannahöfn og á Sjálandi neydda til að eyða meiri tíma í skráningarvinnu en áður vegna lélegs kerfis. Staða þessara sjúkrahúsa sé hörmuleg. Félagið nefnir líka skort á fókus innan geirans.

Íslenska læknafélagið hefur áhyggjur af heilsu lækna, en þær áhyggjur eru víðar. Danir segja álagið hafa aukist meðal lækna. Þeir séu margir aðframkomnir. „Æ fleiri skipta um kúrs. Nýjasta dæmið er 42ja ára hjartaskurðlæknir sem hefur ákveðið að yfirgefa sjúkrahúsið og verða heimilislæknir,“ segir í svari danska félagsins.


DANSKA LÆKNAFÉLAGIÐ

Heilbrigðismál á oddinn hjá dönsku þjóðinni


Danskir kjósendur setja heilbrigðismál í annað sæti mikilvægasta málefnisins í komandi kosningum, en Danir, rétt eins og Finnar, fá nýtt þing í sumar. Innflytjendamál víkja nú í fyrsta sinn í áratugi úr efsta sæti áhugasviðs landsmanna fyrir umhverfis- og heilbrigðismálum. Þetta kemur fram í svörum Danska læknafélagsins sem segir kosningaloforðin vera uppblásnar helíumblöðrur þegar komi að heilbrigðisgeiranum. Danskir stjórnmálamenn yfirbjóði nú sjálfa sig.

Félagið segir áralangan sparnað í heilbrigðiskerfinu hafa leitt til þess að nú þyki eðlilegt að læknar vinni yfirvinnu á yfirfullum spítölum. Það valdi læknum sívaxandi gremju. Þeir vilji fá að forgangsraða en stjórnmálamenn hindri það.

„Mörg mál eru í skoðun en fá í framkvæmd,“ segir í svari danska félagsins við spurningum norrænu læknablaðanna um breytingar í farvatninu.

Félagið segir að sett hafi verið bæði skammtíma- og langtímamarkmið að umbótum, sem eigi að styrkja grunnþjónustuna svo langveikir geti sótt þjónustu utan stóru spítalanna. Enda sé staðan sú að á meðan hátæknisjúkrahúsin stækki og sérhæfing þeirra verði meiri, aukist þörf fyrir sérhæfðari þjónustu í nærumhverfi fólks. Því sé stefnt að því að heimilislæknar vinni í teymum sem teygi sig til sveitarfélaganna.

Félagið gagnrýnir þó stöðu sveitarfélaganna. Þau séu misburðug og standi ólíkt þegar komi að því að reka slíka þjónustu. Fæst séu hæf til þess. „Þau hafa enga þekkingu á málinu,“ segir félagið.

Danska læknafélagið segir vanda danska heilbrigðiskerfisins ekki liggja í formi þess heldur innviðum: „Við þurfum fleiri lækna. Við þurfum betri aðbúnað og við þurfum að efla forvarnir.“ Verið sé að taka á skorti á heimilislæknum en ekki annarra.

Danska læknafélagið gagnrýnir stefnuleysi stjórnvalda. Tóbak sé til að mynda svo ódýrt að reykingar hafi aukist milli ára í fyrsta sinn í áraraðir. Unga fólkið sé farið að reykja. „Verð á bæði alkóhóli og tóbaki er afar lágt og enginn vilji meðal stjórnmálamanna að breyta því.“


LÆKNAFÉLAG ÍSLANDS

Fleiri læknar á landinu en við hrunið


Ríflega 70 fleiri læknar starfa nú á Íslandi en gerðu í aðdraganda hrunsins. Fjölmargir læknar fluttu úr landi eftir hrun. Þeim fækkaði um 90 milli áranna 2008 og 2009. Fæstir voru þeir árið 2012, rétt um 1060 en síðan þá hefur þeim fjölgað ár frá ári. Þeir eru nú um 1230.

Þrátt fyrir þessa fjölgun segir Læknafélag Íslands þá of fáa í flestum deildum, enda hafi landsmönnum fjölgað um 30.000 á þessum sama tíma. Sérstaklega sé skortur á heimilislæknum á landsbyggðinni og hafi til að mynda læknum á Austfjörðum fækkað um 47% frá árinu 2010.

Í íslensku svörunum segir að fjárframlög til íslenska heilbrigðiskerfisins hafi lækkað árlega um 3% á föstu verðlagi frá hrunárinu 2008 til ársins 2013. Ekkert hinna Norðurlandanna sýnir álíka samdrátt í fjárframlögum til heilbrigðiskerfisins í svörum sínum til norrænu læknablaðanna, þótt Danir greini einnig frá bágri stöðu miðað við aukinn kostnað. Frá árinu 2013 hafi hækkunin hér á landi verið að jafnaði 3,5% og vöxtur þjónustunnar því að jafnaði 0,5% á þessum áratug.

Læknafélag Íslands segir frá nýrri heilbrigðisstefnu stjórnvalda, frá nýjum Landspítala, samningsbrotum á rammasamningi og frá auknum heimildum ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga þegar komi að lyfjaávísunum. Einnig frá auknum áherslum á sjúkrahúsið í stað einkaþjónustu lækna. Hins vegar skorti á innviði til að mæta þeirri breytingu.

Félagið telur að þessi aukna áhersla á sjúkrahúsin geti jafnvel breytt landslagi heilbrigðisþjónustunnar hér á landi á þá leið að það myndist þörf fyrir almennar sjúkratryggingar til að sækja einkaþjónustu. Þessi óvissa nú geti þó valdið því að færri læknar komi heim næstu misseri.

Félagið gerði könnun á heilsufari lækna árið 2018 og þar kemur fram að þótt 86% lækna séu ánægðir með starfsval sitt hafa 65% stéttarinnar upplifað mikið stress og álag síðustu 6 mánuði. 57% vinna yfirvinnu og rúmur fjórðungur meira, milli 61-80 klukkutíma á viku.

Milli áranna 2010 og 2013 fækkaði heimilislæknum um 13% að jafnaði, en að meðaltali voru 1732 landsmenn á hvern heimilislækni á árinu 2015. Heimilislæknum fjölgar nú hér á landi og fylla 67% stöðugilda. Misjafnt er hve hátt hlutfallið er eftir landshlutum, allt frá frá 34% til 100%.


FINNSKA LÆKNAFÉLAGIÐ

Ríkisstjórn Finna sprakk vegna heilbrigðiskerfisins


Svör finnska læknafélagsins úreltust að hluta föstudaginn 8. mars þegar finnska ríkisstjórnin sagði af sér í kjölfar þess að hafa ekki náð fram veigamiklum breytingum á heilbrigðiskerfinu.

Stjórn finnska forsætisráðherrans Juha Sipila sem haldið hafði um stjórnartaumana frá árinu 2015 stefndi samkvæmt frétt miðilsins DW.com að því að færa heilbrigðiskerfið frá sveitar-félögum til sýslna. Var það sagður liður í að ná tökum á stigvaxandi kostnaði við kerfið vegna öldrunar þjóðarinnar. Stjórnin taldi að þannig mætti koma árlegum kostnaðarauka á árabilinu 2019-2029 í 0,9% í stað 2,4%.

Finnska læknafélagið segir veika grunnþjónustu helstu áskorunina í finnsku samfélagi. Biðin eftir tíma hjá heimilislæknum sé svo löng að stór hluti Finna noti ekki opinbera grunnþjónustu heldur stóli á einkalæknisþjónustu.

Finnska læknafélagið telur ekkert eitt mál stærra en annað þegar kemur að daglegu amstri í störfum lækna. Það nefnir einnig að ekki sé skortur á læknum í landinu, þótt þá skorti í sumum sérgreinum. Þá sé erfitt að ráða lækna í strjálbýli sem skýrist fyrst og fremst af því að þar vilji fáir búa og þar sé enga vinnu að hafa fyrir maka læknanna.

1200 Finnar stunda nú læknisnám erlendis. Þá hefur nýnemum fjölgað úr 600 í 750 á síðustu árum. Finnska læknafélagið telur því ekki útilokað að offramboð verði á finnskum læknum í náinni framtíð.


NORSKA LÆKNAFÉLAGIÐ

Telur ólíka gagnagrunna ógna öryggi sjúklinga


Norska læknafélagið hefur áhyggjur af stöðu upplýsingatækni á sjúkrahúsum í Noregi. Staðan sé svo slæm að á sumum heilsugæslustöðvum lími starfsmenn áherslumiða, svokallaða post-it miða, inn í skýrslur í stað þess að slá upplýsingar inn í úrelt forrit. Ekki sé óalgengt að læknar þurfi að opna mörg kerfi með úreltum innskráningaraðferðum sem auki hættu á mistökum og að upplýsingar glatist.

Félagið telur norska heilbrigðiskerfið eftirbát annarra Norðurlandaþjóða í stafrænum lausnum. Samhæfingu lausna vanti. Það nefnir að árið 2015 hafi 9 af hverjum 10 læknum talið slaka upplýsingatækni hindra þá í starfi. Hver stofnun og einkaklíník kjósi sína lausn og yfir 1000 ólíkar útfærslur á læknaskýrslum finnist á sjúkrastofnunum landsins. Það leiði til þess að flæði upplýsinga milli stofnana og stiga þjónustunnar skerðist og ógni öryggi sjúklinga.

Norska félagið segir heimilislækna í Noregi kvarta yfir auknu álagi í kjölfar þess að kerfinu var breytt og hver fékk sinn lækni. Álagið hafi aukist án þess að umbun hafi fylgt. Vinnutíminn hafi lengst, bið eftir viðtalstíma lengst og læknar sem hafi sinnt starfinu tímabundið hafi hætt því.

Afleiðingar þessa séu að fleiri hafi boðið sérfræðiþjónustu sína á einkastofum, svokallað drop-in eða fjarlækningar. Þar skorti hins vegar á regluverkið. Þjónustan bíði því endurskipulagningar frá haustinu en þá mun birtast skýrsla um hana.

Norska læknafélagið bendir á að álagið á heilbrigðiskerfið aukist í framtíðinni. Þrír þættir séu grundvöllur þess að hægt sé að takast á við vandann á fjárhagslega skynsamlegan máta. Í fyrsta lagi að taka í notkun notendavæna upplýsingatækni. Mikilvægt sé að hafa spítalana passlega stóra og loks að hafa rétta samsetningu starfsfólks innan þeirra. Nú skorti bæði læknaritara og aðstoðarfólk á spítölum með þeim afleiðingum að læknar og hjúkrunarfræðingar hafi of lítinn tíma í meðferð sjúklinga.

Norska læknafélagið nefnir að geðheilsa hafi fengið aukið vægi í stefnu norskra stjórnvalda og yfirvöld lofað auknu fé í málaflokkinn. Þrátt fyrir það segir norska læknafélagið að ekki hafi verið staðið nægilega við það loforð og ekki tekist sem skyldi að ráða geðheilbrigðisstarfsfólk.

Í dag læra 47% norskra læknanema utan Noregs, flestir í Austur-Evrópu og Danmörku. 43% allra starfandi lækna undir sjötugsaldri fengu grunnmenntun sína annars staðar en í Noregi.


SÆNSKA LÆKNAFÉLAGIÐ

Hver landsmaður fái sinn heimilislækni


Tæknin er talin geta umbylt sænsku heilbrigðiskerfi og aukið möguleika sjúklinga. Langtímamarkmiðið er að styrkja grunnþjónustu kerfisins og að hún verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga í kerfinu, segir í svari sænska læknafélagsins.

Sænska félagið segir breytingarnar verða þær að landsmenn verði skráðir hjá lækni en ekki heilsugæslustöð. Þegar landsmenn fái sinn eigin heimilislækni verði meiri þörf á sérhæfðum læknum innan grunnþjónustunnar. Með þessum breytingum verði aðgengi þeirra betra og meiri samfella í þjónustunni.

Afar mikilvægt sé að þak verði sett á hversu mörgum sjúklingum hver læknir sinni. Einnig að huga að launum sérfræðinga sem stígi inn á þetta svið. Þá þurfi að vera hægt að skrá sig hjá sérfræðingum þar til nægilega margir heimilislæknar séu til staðar. Hvetja þurfi annað sérhæft heilbrigðisstarfsfólk, eins og ljósmæður og sjúkraþjálfara, til að stofna eigin rekstur og vinna saman í heilsumiðstöðvum í þágu sjúklinga.

Spurt um daglegt amstur lækna segir sænska félagið meðal annars siðferðilegt stress vegna tímaskorts hrjá þá, einnig valdi skortur á hjúkrunarfræðingum vandræðum. Þá séu annmarkar á eftirliti og þróun.

Um læknaskort segir sænska félagið hann til staðar, en ekki sé vitað hver staðan nákvæmlega sé innan hverrar sýslu eða stofnunar. Þó sé almennt talað um að það skorti bæði almenna lækna og geðlækna. Víða sé einnig talað um að það vanti skurðlækna, krabbameinslækna, bráða- og bæklunarlækna og meinasérfræðinga.

Sænska félagið vill sjá setta starfsmannastefnu til þess að stýra vinnuálaginu, launaþróun, símenntun og rannsóknum lækna.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica