03. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Þegar langafi missti löppina. Magnús Jóhannsson

                                          
                                                                        Brúnastaðir í Tungusveit 1936

                                                                         
                                                                             Jón Þorvaldsson í Stapa 79 ára.

Áður hefur verið fjallað um þessa aflimun á prenti og má þar helst nefna Læknablaðið 2014 og bók frænda míns Hannesar Péturssonar, Frá Ketubjörgum til Klaustra, 1990. Málið er mér skylt þar sem sjúklingurinn var langafi minn og get ég bætt ýmsu við fyrri frásagnir. Þessi langafi minn lést ári áður en ég fæddist en ég ræddi þennan atburð mörgum sinnum við föður minn og afa.

Faðir minn var Jóhann Jón Þorvaldsson (1915-2007; varð 92 ára), afi var Þorvaldur Jónsson (1884-1989; varð tæplega 105 ára) og langafi Jón Þorvaldsson varð 83 ára (1857-1941). Þetta voru langlífir karlar og afi var meðal elstu Íslendinga. Þorvaldur afi minn hætti að reykja 95 ára gamall þegar hann las í blaði að reykingar væru óhollar; hann hætti að drekka áfengi tveimur árum síðar og sagði að það færi ekki vel í sig lengur. Í 100 ára afmælisveislunni 31. desember 1984 gleymdi hann þessu, varð nokkuð blekaður og endaði í hjólastól heimilisins. Kannski hefði hann orðið enn eldri ef hann hefði hætt reykingum fyrr, en hann reykti nú aldrei mikið. Þorvaldur var bóndi í Hjaltastaðakoti (nú Grænamýri) í Blönduhlíð þar sem faðir minn fæddist. Síðar bjó hann á Íbishóli en brá búi 1928 og gerðist verkamaður á Sauðárkróki og síðar Reykjavík. Hann vann í mörg ár við vitabyggingar sem var í þá daga einhver erfiðasta vinna sem þekktist. Eftir að hann flutti til Reykjavíkur bjó hann lengst af með dóttur sinni og tengdasyni, allt til dauðadags.

Langafi minn var gjarnan kallaður Jón í Stapa en hann bjó í Stapa í Tungusveit (Skagafirði). Hann fékk sýkingu í vinstri fót sem sennilega hafa verið berklar. Sýkingin breiddist út og þegar hún var komin frá fæti og upp fyrir hné var karlinn orðinn rúmfastur og augljóst hvert stefndi. Þegar þarna var komið sögu, árið 1891, var hann 33 ára gamall. Hann hafði misst fyrri konu sína og átti 6 ára son (afa minn) frá því hjónabandi og sama sumar og fóturinn var tekinn af honum eignaðist hann son með síðari konu sinni.

Þrír menn komu að þessari aflimun: héraðslæknirinn Árni Jónsson, þá fertugur; læknaneminn Guðmundur Hannesson, þá 25 ára og sóknarpresturinn Jón Ó. Magnússon, þá 35 ára. Guðmundur hafði um vorið lokið fyrrihlutaprófi í læknisfræði við Kaupmannahafnarháskóla og lauk læknaprófi þar þremur árum síðar. Svo virðist sem Guðmundur hafi verið fenginn til að aðstoða Árna við aðgerðina en þegar þeir fóru að bera saman bækur sínar kom í ljós að Guðmundur hafði talsvert meiri reynslu af skurðaðgerðum og endirinn varð því sá að Guðmundur gerði aðgerðina en Árni aðstoðaði. Þáttur Guðmundar Hannessonar í þessari aflimun skipti sköpum. Presturinn, séra Jón, sá um svæfinguna en hann hafði ætlað sér að verða læknir. Ljóst er að Guðmundur tók allnokkra áhættu með þessu vegna þess að hann var enn læknanemi og hefði getað lent í vondum málum ef sjúklingurinn hefði ekki lifað þetta af. Ef illa hefði farið má samt ætla að Árni hefði haldið yfir honum hlífiskildi og í skýrslu hans til landlæknis um þessa aðgerð er Guðmundar og hans þáttar ekki getið.

Ýmislegt er á huldu varðandi þessa aðgerð. Fyrst má nefna svæfinguna en hún hefur verið framkvæmd annaðhvort með klóróformi eða eter. Svæfingar með þessum efnum í opnum maska voru orðnar algengar í Evrópu um miðja 19. öld en engar heimildir eru til um etersvæfingar á Íslandi fyrr en eftir aldamótin 1900; því má gera ráð fyrir að þarna hafi verið svæft með klóróformi. Hvergi er minnst á saumaáhöld en Árni héraðslæknir hlýtur að hafa átt nálar og girni. Ekki er heldur ljóst hvernig þeir söguðu lærlegginn í sundur en samkvæmt einni heimild var notast við grindarsög úr smiðjunni á bænum; hvernig sögin var sótthreinsuð er nokkur ráðgáta. En útkoman var góð og sárið greri án teljandi vandræða.

Langafi var smiður góður og smíðaði sér gervifót úr tré og leðri. Hann gekk til flestra verka en gat þó hvorki rist torf né höndlað heybagga. Hann missti síðari konu sína 1899 og var því einn með börn sín 5, eins fatlaður og hann var. Þetta var fyrir nálægt 120 árum og eins og heimurinn hefur breyst er erfitt að gera sér í hugarlund líf fólks í þá daga, hvað þá heldur hlutskipti fatlaðs fólks.

Árið 1936 tók faðir minn meðfylgjandi myndir á kassavél. Síðustu 14 árin sem langafi lifði dvaldi hann sem húsmaður hjá góðu fólki á Brúnastöðum í Tungusveit og andaðist þar 5 árum eftir að myndin var tekin. Tveimur árum eftir að hann dó leitaði faðir minn að gervifætinum en hann hafði þá sennilega verið notaður í eldivið.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica