03. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Samkynhneigðir fá að gefa blóð, Már Kristjánsson rekur aðdraganda þess

Ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu hefur ákveðið að mæla með að samkynhneigðir karlmenn fái að gefa blóð 12 mánuðum frá nýjum bólfélaga.

                                          
                                           Már Kristjánsson yfirmaður smitsjúkdómalækninga segir að uppfylla
                                           verði ákveðin grunnskilyrði svo samkynhneigðir karlar geti gefið blóð.
                                           Mynd/gag

„Nefndin og blóðbankastjóri falla frá algjöru banni samkynhneigðra til blóðgjafar,” segir Már Kristjánsson, yfirmaður smitsjúkdómalækninga hjá Landspítala sem fer fyrir henni. Með þessari breytingu verði stigið skref að því fyrirkomulagi sem gildi á Norðurlöndunum. Samkvæmt Má er tímabilið fjórir mánuðir í Danmörku og 6 í Svíþjóð. Uppfylla verði nokkur grundvallarskilyrði svo breytingarnar geti gengið eftir.

„Í fyrsta lagi er mikilvægt að allt blóð sé skimað með kjarnsýruprófi,“ segir Már. „Í öðru lagi er mikilvægt að reglur Blóðbankans verði uppfærðar hvað varðar áhættu annarra hópa svo samræmi verði í öllum heilsufarsreglum sem lúta að blóðgjöfum,“ segir hann og vísar til dæmis til þeirra með tattú, íhluta í húð, maga- og ristilspeglunar og þeirra sem stunda kynmök við fólk í sérstakri áhættu. Már nefnir fleiri skilyrði.

Kynheilsan verði skoðuð

„Við teljum mikilvægt að fram fari einhverskonar könnun á kynheilsu Íslendinga,“ segir Már. Nefndin leggi til rannsóknarsamstarf við akademíska samfélagið. Miðstöð í lýðheilsuvísindum væri til að mynda vel til þess fallin eða sambærilegir rannsóknarhópar.

„Það eru fyrst og fremst þessi atriði sem þarf að uppfylla,“ segir Már í samtali við Læknablaðið. Gera þurfi kostnaðaráætlun fyrir þessar breytingar. „Við teljum að fara þurfi fram rækileg umræða um málið þannig að allir hagsmunaaðilar; almenningur, sjúklingasamtök sem og aðrir séu upplýstir um að þrátt fyrir þessa breytingu sé ekki verið að stefna blóðþegum í hættu.“

Spurður hvers vegna rannsaka þurfi kynheilsu landans svarar Már að bannið á sínum tíma hafi verið tilkomið vegna endaþarmsmaka og þeirrar vitneskju að tíðni blóðborinna sýkinga sé hærri meðal samkynhneigðra karlmanna í samanburði við aðra í samfélaginu.

„Rannsóknir myndu sýna fram á að kynhegðun almennings er með ýmsum hætti. Þegar liggja fyrir ýmis gögn um unglinga vegna rannsókna á árunum 2007-2009. Talsvert er um endaþarmsmök hjá gagnkynhneigðum unglingum,“ segir Már og að lítið sé vitað um kynhegðun Íslendinga frá tvítugu fram að sjötugu eða eldra.

Tólf mánuðir til öryggis

Már nefnir einnig áhuga á að taka saman upplýsingar um útbreiðslu blóðborinna sýkinga almennt. „Það er til slangur af gögnum um faraldsfræði blóðborinna sýkinga sem embætti sóttvarnalæknis hefur gefið út, en við vitum ekki nákvæmlega hvernig þetta dreifist á aldursbil eða hvert raunverulegt nýgengi er í hinu almenna þýði.“

Spurður hvers vegna miðað sé við 12 mánuði hér þegar tíminn sé enn styttri í Svíþjóð og Danmörku, bendir Már á að tíminn sé oft lengri en þessi sem horft sé til hér á landi.

„Ákveðið hefur verið að hafa árin 5 í Kanada. Þar er röksemdin sú að það tók um 7 ár frá því að AIDS kom fram þar til að menn uppgötvuðu hvað ylli og hvernig mætti skima fyrir veirunni. Nú segja menn að tækninni hafi fleygt fram og ef óþekktir smitvaldar smituðust áfram við kynmök tæki um 5 ár að komast fyrir þá. Það er röksemdafærslan í Kanada.“

Blóðgjöfunum treyst til sannsögli

Menn hafi hins vegar áttað sig á því að í sumum löndum, þar sem ákveðin tilslökun hefur verið leyfð, að traust eflist á milli þeirra sem koma og gefa blóð og þeirra sem að rannsaki blóðið.

„Það er að segja, einstaklingum er treyst til að segja satt og rétt frá heilsu sinni og kynhegðun. Við vitum að samkynhneigðir hafa gefið blóð en ekki upplýst um sína kynhegðun. Hvað eru margir í hópnum sem segja satt og rétt frá? Það vitum við ekki.“ Umdeilt sé að hafa mánuðina fjóra í Danmörku.

„Menn geta talað sig bláa í framan hvort þetta eigi að vera fjórir mánuðir, 6 ár eða 5 ár. Ólík sjónarmið liggja til grundvallar. Ástæðan fyrir því að Danir hafa mánuðina fjóra er að þrír mánuðir geta liðið frá smiti þar til það greinist hjá þekktum blóðbornum sýklum,“ segir hann. „Það getur vel verið að einhvern tímann í framtíðinni munum við ráðleggja styttri tíma, en við teljum traustast að taka frekar fleiri skref en færri í þessari vegferð.“

Kjarnsýruprófið eykur kostnaðinn

En er dýrt að senda gjafablóð í kjarnsýrupróf? „Það er klárt mál að kostnaður eykst ef þú skimar allt blóð með NAT (Nucleic acid test). En á móti eykst öryggi fyrir blóðþega. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst blóðgjöf ekki um rétt fólks til að gefa blóð heldur rétt þeirra sem þiggja að fá gott blóð.“

Sjónarmið nefndarmanna sé að hafa öryggi blóðþega að leiðarljósi. „Þetta skref er tekið í þá átt að gefa fleiri einstaklingum kost á að gefa blóð. Síðan kemur sá tími í krafti nýrrar þekkingar og tækni að allir geta gefið blóð óháð kynhegðun. Þannig tækni er innan sjóndeildarhringsins, en hve hratt hún nær fótfestu veit maður ekki.”


Hver skipa ráðgjafanefndina?

Már Kristjánsson
yfirlæknir smitsjúkdómalækninga

Kári Hreinsson
yfirlæknir svæfingadeildar

Ólöf Sigurðardóttir
sérfræðilæknir á rannsóknasviði
Landspítala og SAk

Vilhelmína Haraldsdóttir
sérfræðingur í lyflækningum
og blóðsjúkdómum


Kjarnsýrupróf ekki gerð hér á landi

Gjafablóð er kjarnsýruprófað víða erlendis en ekki hér á landi. Már Kristjánsson segir þorra þjóða í kringum okkur kjarnsýruprófa gjafablóð. Hann nefnir til að mynda Dani, einnig Bandaríkjamenn, Breta og Ástrali. Japanir geri svo enn meira, því þeir skimi fyrir fleiri veirum en þeim sem séu blóðbornar.

Már segir ástæðuna fyrir því að ekki sé kjarnsýruprófað hér að ekki hafi verið neitt um blóðbornar sýkingar í rúma þrjá áratugi, en í kringum 1990 hafi greinst lifrarbólgu C-smit.

„Núverandi kerfi er mjög árangursríkt. Blóð á Íslandi er mjög gott. Hins vegar ef menn ætla að gera tilslakanir á þeim forsendum sem gilda í dag er það ekki talið forsvaranlegt nema með því að taka upp næmari próf sem geta gripið sýkingar,“ segir Már.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica