02. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Gefa þarf starfsfólki sjálfstraust í starfi, segir Per Skaugen Bleikelia, forstjóri Martina Hansens sjúkrahússins í Osló

                                        
                                        Per Bleikelia forstjóri hefur vakið mikla athygli fyrir góða stjórn og hlotið
                                        fjölda verðlauna fyrir. Mynd/gag

„Sjálfstraust er lykillinn að góðu starfsumhverfi. Ég vil sjá sjálfstraust hjá hverjum einasta starfsmanni stofnunarinnar. Ég trúi því að við vinnum öll í sama liði og ef stjórnandi ákveði að stýra fólki, missi það sköpunargáfu sína. Það mun aðeins vinna innan rammans sem þú setur. Alltaf,“ sagði Per Skaugen Bleikelia, forstjóri Martina Hansens sjúkrahússins í Osló í upphafi Læknadaga 2019. Þeir voru haldnir í Hörpu dagana 21.-25. janúar. Hann sagði góð sambönd grundvöll góðs árangurs.

„Við þurfum sambönd. Við þurfum að tala við hvert annað,“ segir Bleikelia sem ferðast gjarna um á hlaupahjóli innan stofnunar sinnar „og segir hæ“ svo fólkið viti að hann sé á staðnum. „Bein samskipti fara aldrei úr tísku. Þeim verður ekki skipt út fyrir samfélagsmiðla.”

Fyrrum ráðuneytisstjóri

Bleikelia stýrði heilbrigðisráðuneyti Noregs á árum áður á tíma 6 heilbrigðisráðherra. Hann kom að stjórn við björgun á ungmennunum sem urðu fyrir hryðjuverki Breiviks 22. júlí 2011 og stýrði björgunarsveit Norðmanna þegar flóðbylgjan skall á Asíu um jólin 2004.

„Treystu böndin,“ sagði hann. „Gefðu fólki tækifæri til að tala frjálslega og vertu viss um hvert þú vilt stefna,“ sagði Per. „Og ef þú vilt verða leiðtogi, þarftu að hafa margt fram að færa. Ekki verða leiðtogi ef þú hefur ekkert að bjóða.“

Bleikelia sagði mikilvægt að hlusta á ólík sjónarmið. „Fólk sem tjáir sig óheft er mikilvægast innan spítalans.“ Hann fari að ráðum föður síns: „Ég hlusta á fólk sem hefur aðrar skoðanir en ég. Faðir minn sagði mér að ég yrði að hlusta. Ef ég væri leiðtogi þyrfti ég að taka ákvarðanir sem yrðu betri ef ég þekkti öll sjónarmið.“

Allir hlekkir í mikilvægri keðju

Bleikelia sagði hvert starf innan spítalans skipta máli. Öll væru þau hlekkir í að lækna fólk. Markmið hans væri að starfsfólk sæi að það væri partur af liðsheild sem þyrfti að skilja hvert grundvallarmarkmiðið væri: Að líkna sjúkum.

Hann sagði mikilvægt að mæla árangurinn. Sýna fólki hvernig það stendur sig. „Fólk tekur ríkari þátt ef þú segir þeim hver árangurinn er. Ef þú segir þeim það ekki mun það ekki vinna með þér. Þú verður að eiga samskipti. Ef þú gerir það ekki, vinnur fólk ekki fyrir þig,“ sagði hann.

„Virðið hvert annað og vinnið saman. Búið til sambönd og hafið skýr markmið. Gerið einfalda hluti,” sagði Per sem hefur hlotið verðlaun sem stjórnandi. „Ég stjórna ekki til þess að vera vinsæll, ég stjórna vegna þess að ég hef trú á verkefninu og tel að ég vinni í mikilvægasta geira heimsins: að hjálpa fólki. Læknar vinna gullfallegt starf,“ sagði Per Bleikelia að lokum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica