02. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Setið á rúmstokki dauðvona manns – hugleiðingar læknanema. Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir

Læknablaðið hefur beðið nokkra lipra penna í læknastétt að senda blaðinu hugleiðingar sínar í dagsins önn.

Þegar komið var að máli við mig í lok síðasta árs og ég spurð hvort ég hefði hug á að skrifa stuttan pistil til birtingar í Læknablaðinu, fylgdi sú hugmynd máli að pistillinn gæti innihaldið ýmsar hugleiðingar mínar um læknishlutverkið – til dæmis um dagleg störf mín sem læknir.

Ég var komin langleiðina með slíkan pistil og meira að segja nokkuð ánægð með hann, þegar hið augljósa blasti við mér: Ég er ekki læknir.

Ég er hins vegar læknanemi. Í júní næstkomandi stend ég á tímamótum en þá mun ég útskrifast úr læknadeild Háskóla Íslands. Lýkur þar með 6 ára löngu tímabili og ég mun ekki lengur bera titilinn læknanemi, heldur læknakandídat. Enn reyndar ekki fullgildur læknir, notabene – en töluvert nær takmarkinu.

Stór tímamót hafa þann einkennilega eiginleika að fá okkur flest til að líta yfir farinn veg áður en haldið er á vit ókunnrar framtíðar og óneitanlega reikar hugur minn aftur í tímann þessa dagana.

Fyrsta skóladaginn minn í læknadeild man ég vel. Svo vel að mér er það raunar næstum ótrúlegt að síðan séu liðin tæp 6 ár. Ég var tvítug og nýútskrifuð úr Menntaskólanum, fannst ég vita þó nokkuð margt um ýmislegt en gerði mér þó grein fyrir því að á þessum nýja vettvangi sem ég hafði kosið mér, vissi ég ekki neitt. Magnús Karl Magnússon, þáverandi forseti læknadeildar, bauð okkur velkomin til námsins og ítrekaði hversu gríðarlega margt læknar framtíðarinnar myndu þurfa að kunna – ekki einungis það sem læknar nútímans kunna, heldur aukreitis allan þann hafsjó af fróðleik sem framtíðin myndi bera í skauti sér. Hannes Petersen, sem seinna þetta ár átti eftir að kenna okkur bæði anatómíu og fósturfræði af mikilli list, steig næstur í pontu og tilkynnti okkur að hér eftir heyrðu laugardagar, sunnudagar, jóla- og sumarfrí sögunni til – við hefðum valið að helga okkur læknisfræðinni og því fylgdu fórnir. Við kinkuðum öll ólm kolli.

Fram liðu síðan stundir og vart þarf að greina lesendum Læknablaðsins frá því hversu fjölbreytt og mörg verkefni læknanema eru á 6 ára ferli þeirra; það þekkja þeir flestir af eigin raun. Sum verkefnanna hafa verið flókin, önnur einfaldari. Sum gengu vel, önnur verr. Síðustu 6 ár hef ég eytt löngum eftirmiðdögum í að rækta bakteríur á petrídiskum. Ég hef tekið ótal blóðprufur og klúðrað fleiri æðaleggjum en ég kæri mig um að segja frá. Á skurðdeildunum hélt ég dauðahaldi í haka klukkutímunum saman, þar til handleggurinn var orðinn að fransbrauði og fingurnir dofnir. Ég hef tekið á móti fjórum börnum og fjarlægt einn eggjastokk í smásjáraðgerð, undir vökulli handleiðslu sérfræðings. Ég hef staðfest andlát. Ég hef leikið heilt brúðuleikhús fyrir skelkað barn meðan læknir saumaði saman á því skurð á höku, aðra skurði hef ég síðan fengið að sauma sjálf. Ég hef sett þrjár axlir í lið og rétt ótalmörg úlnliðsbrot. Ég hef horft í augu dauðvona manns og fundist ég gjörsamlega hjálparlaus – þar til hann hvíslaði lágt, með lokuð augun: „Þakka þér fyrir að sitja hjá mér“. Ég hef framkvæmt hjartahnoð í endurlífgun og spurt mig þegar ég kom heim: Var það mér að kenna að hann dó? Hefði hann lifað hefði ég hnoðað öðruvísi? Betur, hraðar eða hægar, dýpra? Nei, líklega hefði hann ekki lifað. Engu að síður lá ég andvaka þá nótt.

Ég hef skyggnst inn í líkama látins manns, í leit að dánarorsök. Hún fannst ekki. Ég hef setið kvöldlangt á rúmstokki manns sem nýlega missti konuna sína og rætt við hann skáldsögur Halldórs Laxness og ljóð Hannesar Péturssonar.

Einhverjum kann líklega að þykja sum þessara verka lítilvægari en önnur – vissulega læknaði ég ekki hinn dauðvona mann með því að sitja hjá honum stutta stund, hann lést tveimur dögum seinna. 19. aldar heimspekingurinn Ralph Waldo Emerson vissi hins vegar betur og orti þessar ljóðlínur: „Að vita að jafnvel einungis ein manneskja hafi dregið léttara andann, af því að þú lifðir. Það er að hafa tekist ætlunarverkið.“ Tveimur öldum seinna sagði bandaríski læknirinn Patch Adams: „Ef þú meðhöndlar sjúkdóm, þá ýmist vinnurðu eða tapar. En ef þú meðhöndlar manneskju, þá fullvissa ég þig um að þú vinnur, hver sem útkoman verður.“

Þessi orð hef ég valið mér sem leiðarljós, nú þegar vegferð minni sem læknanema lýkur senn og við taka fyrstu skref mín á braut læknisfræðinnar. Ég vona að ég beri gæfu til þess að gleyma þeim aldrei og óska bekkjarfélögum mínum í læknisfræðinni hins sama, nú þegar við stígum senn okkar fyrstu skref á kandídatsárinu.Þetta vefsvæði byggir á Eplica