02. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Mikilvægt að halda áfram. Ísland meðal fyrstu ríkja til að útrýma lifrarbólgu C

Læknar vongóðir um að árangrinum verði viðhaldið, en framhaldið enn óákveðið

                                      
                                      Pallborð um lifrarbólgu C átaksverkefnið. Ragnheiður Halla Friðriksdóttir
                                      hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri, Sigurður Ólafsson læknir,
                                      Margaret Helland prófessor, Valgerður Rúnarsdóttir yfirlæknir á Vogi,
                                      María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga og Þórólfur Guðnason
                                      sóttvarnalæknir
.

Mikilvægt er að halda þeim árangri sem náðst hefur hér á landi síðustu þrjú ár við að útrýma lifrarbólgu C. „Það er auðvelt að hleypa þessu aftur upp í vitleysu. Það þarf að halda árvekni og heilmikil vinna er enn eftir,” segir Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnisstjóri þess að útrýma lifrarbólgu C hér á landi á þremur árum, 2016-2019. Síðustu sjúklingar þessarar þriggja ára áætlunar hefja meðferð nú í janúar og verða í henni næstu 6 mánuði. Aðrir verða meðhöndlaðir til ársloka, en framhaldið er óákveðið.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra benti á í málstofu um verkefnið á Læknadögum að árangurinn sem náðst hefur gæti leitt til þess að Ísland verði fyrst ríkja til að útrýma lifrarbólgu C. „Reynslan hér á landi mun nýtast alþjóðlega og hjálpa til við að meðhöndla lifrarbólgu C um allan heim.“

Sigurður Ólafsson læknir segir verkefnið hafa fengið öflugan stuðning frá heilbrigðisyfirvöldum. Hann óttist því ekki að yfirvöld láti staðar numið að því loknu: „Þau hafa stutt þetta kröftuglega frá upphafi,” sagði hann við Læknablaðið að lokinni málstofunni.

Um 800 hafa þegið endurgjaldslausa meðferð, meirihluti þeirra karlar eða vel þrefalt fleiri en konur. Lagðar voru 450 milljónir í verkefnið en ekki hefur verið tekið saman hvað íslensk heilbrigðisyfirvöld spara við að hindra frekari útbreiðslu lifrarbólgu C og koma í veg fyrir afleiðingar hennar á líf sjúklinga. „En það er eitt af því sem við munum skoða,“ segir Sigurður.

 

Ánægð með Ísland

                                

Ástralski prófessorinn Margaret Hellard frá Burnet Institute og The Alfred Hospital hvatti Ísland áfram á Læknadögum. „Eftir því sem unnið er hraðar að því að útrýma lifrarbólgu C, þeim mun árangursríkara og ódýrara,” sagði hún þar. Mikilvægt sé að hætta ekki átakinu of snemma.

Í viðtali við Læknablaðið sagði hún: „Áhrifamikið hefur verið að sjá Ísland meðal þeirra fyrstu til að ráðast í verkið. Það hefur verið vel stutt og fjármagnað, sem eru lykilþættir í árangrinum. Sérsníða þarf hvert svona verkefni að aðstæðum í hverju landi og ég tel að Ísland hafi staðið afar vel að verki.”



Þetta vefsvæði byggir á Eplica