01. tbl. 105. árg. 2019
Umræða og fréttir
Frá öldungadeild LÍ. Raunir læknanema við kjötskoðun árið 1965. Magnús Jóhannsson
Karlmenn við púnsdrykkju um 1910, sennilega á Patreksfirði segir
Ljósmyndasafn Reykjavíkur sem á þessa mynd. Talið f.v. Jón Markússon
Snæbjörnsson (1868-1941), Müller (skrifstofumaður hjá PAÓ), sennilega
Markús Snæbjörnsson (1832-1921) kaupmaður á Geirseyri, Guðmundur
Björnsson sýslumaður á Patreksfirði og Pétur A. Ólafsson (1870-1949)
athafnamaður. Sá síðastnefndi tók myndina um hálfri öld áður en
Magnús Jóhannsson skoðaði kjötið fyrir vestan.
Á þeim árum sem um ræðir voru gengnar í gildi reglur um skoðun, heilbrigðisvottun og stimplun á kjöti í sláturhúsum landsins. Þetta eftirlit var ætlað dýralæknum en var erfitt í framkvæmd vegna þess að dýralæknar voru mjög fáir í landinu og héraðslæknar vildu fæstir bæta þessu á sig. Á einhverju árabili voru læknanemar fengnir til þessara starfa, við haustslátrun, eftir að hafa fengið leiðsögn hjá Páli A. Pálssyni yfirdýralækni á Keldum.
Hannes Pálsson tók þessa mynd af Vatneyri við Patreksfjörð um 1965.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur veitti leyfi sitt fyrir birtingu myndarinnar.
Ég réð mig á Patreksfjörð og fór þangað með flugi í september. Það fyrsta sem kom á óvart var að ekkert sláturhús var á Patreksfirði heldur á Tálknafirði, í Örlygshöfn og á Barðaströnd en ég bjó lengst af á Patró. Þetta urðu því löng ferðalög og langir vinnudagar en ég fékk far á milli staða með hinum og þessum. Á þeim rúma mánuði sem ég var við störf þarna fyrir vestan gerðist margt eftirminnilegt og ætla ég í þessum pistli að rifja upp sumt af því, meðal annars var mér tvisvar hótað meiðingum eða lífláti.
Eitt sinn fékk ég far frá Barðaströnd út á Patró með Manga í Botni (Botn er innst í Patreksfirði). Það var komið fram í október og á Kleifaheiðinni var frost og snjófjúk. Á leiðinni upp á heiðina spurði Mangi mig um álit mitt á segularmböndum sem voru í tísku á þeim árum og áttu að lækna allt og rúmlega það. Ég hafði mjög ákveðnar skoðanir á þessum armböndum og hélt langa ræðu um hvers kyns húmbúkk og blekkingar þetta væru og einungis væri verið að plata peninga út úr sakleysingjum. Á meðan ég var að rasa út þagði Mangi en sýndi mér allt í einu að hann var með tvö armbönd á öðrum úlnlið og þrjú á hinum. Hann tjáði mér að armböndin hefðu bjargað bæði sér og mömmu sinni og svona stráklingar og hrokagikkir að sunnan eins og ég gætu bara étið það sem úti frýs. Því næst stöðvaði hann bílinn, uppi á miðri Kleifaheiði, og skipaði mér að fara út í frostið og hríðarmugguna. Ég var ekki klæddur fyrir svona útiveru og ekki var líklegt að fleiri ættu leið yfir heiðina þetta kvöldið og sennilega yrði ég úti. Ég reyndi að gera nafna mínum grein fyrir þessu og málið yrði örugglega flokkað sem morð. Auðvitað var Mangi vænsti maður og ferðin endaði í eldhúsinu í Botni þar sem við drukkum kaffi með brennivíni útí og ræddum tilgang lífsins og áhrif segulsviðs á líkama og sál.
Nokkru síðar gerði aftakaveður á norðan og í því veðri hraktist nokkur fjöldi sláturlamba á Rauðasandi út í sjó og drukknaði. Þessi lömb voru nánast öll frá einum bónda. Lömbin voru verkuð og skrokkarnir hengdir upp í aflögðu sláturhúsi skammt frá flugvellinum. Síðan var haft samband við mig en ég átti að skoða og stimpla skrokkana. Ég mætti á staðinn en skildi stimplana eftir heima. Við blöstu skrokkar með bláleitu köfnunarkjöti sem ekki kom til greina að stimpla. Þegar ég hafði tjáð bónda þessa niðurstöðu truflaðist hann alveg, ýtti mér út í horn, dró upp lítinn hnífkuta sem hann otaði í átt til mín með þeim skilaboðum að ef ég stimplaði ekki skrokkana skyldi ég hljóta verra af. Þetta var gamall, góðlegur karl og það hvarflaði aldrei að mér að hann mundi vinna mér mein. Eftir stutta samningalotu féllst karlinn á þá tillögu mína að ég legði málið fyrir yfirdýralækni og mundum við báðir samþykkja hans dóm. Ég hringdi svo í Pál sem sagði nákvæmlega það sem þurfti til að leysa málið. Þarna var ennþá sveitasími, ég lét fréttast hvenær ég mundi hringja, og til marks um að hálf sveitin hlustaði var ég aldrei spurður um hvað Páll sagði. Ég frétti reyndar nokkru síðar af því að Rauðasandsskrokkarnir væru komnir (óstimplaðir) í frysti á Patró og vel gæti verið að ég hafi étið eitthvað af þessu kjöti í pylsum um veturinn. Í framhaldi af þessu gerðust áhugaverðir hlutir. Karlinn á Rauðasandi átti afmæli og þá virkjaðist hið forna tryggingakerfi landsins. Bændurnir á svæðinu gáfu honum 1-2 lömb hver og þannig var honum bættur hinn fjárhagslegi skaði af óhappinu.
Síðustu 7-10 dagana var slátrun lokið nema á Barðaströnd. Þann tíma bjó ég í Haga hjá þeim merkishjónum Hákoni Kristóferssyni og Björgu Jónsdóttur en bæði skemmtilegt og lærdómsríkt var að kynnast þeim þó stutt væri. Þegar slátrun var lokið var bara eftir að komast heim sem reyndist þrautin þyngri. Ætlunin var að fara landleiðina með rútu. Björg í Haga útbjó mig með fínasta nesti og ég steig um borð í rútuna. Í þá daga lá leiðin yfir Þingmannaheiði, frá Vatnsfirði yfir í Vattarfjörð, en þar hafði snjóað talsvert. Í rútunni voru 14 skóflur sem ég og hinir farþegarnir mokuðum með hálfa nóttina en urðum að endingu að gefast upp. Það var sem sagt ófært landleiðina, enginn bátur gekk frá Brjánslæk og ekki var flogið vegna veðurs. Þess vegna lá leiðin aftur út á Patró. Þar fékk ég að dúsa í 5 daga, fór einu sinni í bíó, einu sinni á spilakvöld hjá ónefndum stjórnmálaflokki, hlustaði á endalausar kjaftasögur hjá fólkinu sem hafði mig í fæði og húsnæði, en þess á milli las ég meinafræði sem ég hafði verið svo forsjáll að taka með. Að lokum batnaði veðrið og ég komst með flugi til Reykjavíkur.