01. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Lögfræði 30. pistill. Samfélagsmiðlar og drög að leiðbeiningum LÍ um notkun þeirra

Á þessum vettvangi skrifaði pistlahöfundur um samfélagsmiðla í 3. tbl. 103. árgangs, sjá: laeknabladid.is/tolublod/2016/03/nr/5800. Þar kom fram að á vettvangi LÍ væri verið að vinna að leiðbeiningum um samfélagsmiðla.

Á aðalfundi LÍ 8. og 9. nóvember 2018 var lögð fram tillaga stjórnar um Leiðbeiningar Læknafélags Íslands um notkun samfélagsmiðla. Í greinargerð með tillögunni segir:

Fjölmörg læknafélög hafa samþykkt leiðbeiningar til félagsmanna sinna um notkun samfélagsmiðla. Stjórn LÍ ákvað að gera drög að slíkum leiðbeiningum og leggur hér fram til samþykktar á aðalfundi 2018. Við gerð draganna var horft til leiðbeininga annarra félaga og hliðsjón höfð af þeim.

Tillagan var rædd í vinnuhópi sem ákvað að vísa henni til stjórnar til frekari umfjöllunar og vinnu.

Hér á eftir er tillagan birt og kynnt félagsmönnum. Allar ábendingar eru vel þegnar og þess óskað að þeim sé komið á framfæri við skrifstofu félagsins.

 

Inngangur

Læknar (og læknanemar) nota samfélagsmiðla með sama hætti og aðrir, til að deila upplýsingum, hugmyndum, til upplýsinga og til gamans. Hugtakið samfélagsmiðlar er notað yfir netsamskipti. Algengustu netmiðlarnir eru fésbókin (Facebook), Twitter, Linkedin og YouTube. Læknafélag Íslands er virkt á fésbókinni.

Læknar (og læknanemar) sem bundnir eru ríkri trúnaðar- og þagnarskyldu, þurfa að gæta sín vel á samfélagsmiðlum þar sem þeir hafa tilhneigingu til að gera óljósari mörkin milli vinnu og einkalífs. Siðfræðileg álitamál geta risið upp. Óskynsamleg notkun samfélagsmiðla getur skapað áhættu sem má forðast með því að beita almennri skynsemi og fylgja þeim leiðbeiningum sem hér eru kynntar.

Einnig er skynsamlegt að athuga hvort vinnustaðurinn hafi sett starfsmönnum leiðbeiningar um notkun samfélagsmiðla.

Því má aldrei gleyma að færslur á samfélagsmiðlum geta haft afleiðingar fyrir lækna jafnt og aðra, bæði jákvæðar og neikvæðar. Vel undirbúin og fagleg þátttaka í samfélagsmiðlum getur verið árangursrík aðferð til að tengjast kollegum og upplýsa sjúklinga. Slíkar færslur geta aukið traust almennings á læknastéttinni. Með sama hætti þurfa læknar að vera meðvitaðir um það að framkoma þeirra á samfélagsmiðlum getur einnig haft neikvæð áhrif bæði á þá persónulega og á traust almennings til lækna. Það sem læknir setur á samfélagsmiðla getur haft áhrif á orðspor viðkomandi, bæði meðal sjúklinga og kollega.

Hér á eftir eru settar fram nokkrar leiðbeiningarreglur til félagsmanna Læknafélags Íslands um notkun samfélagsmiðla. Þær eru samdar með hliðsjón af sambærilegum reglum fjölmargra annarra læknafélaga.

 

1. Að gæta trúnaðar- og þagnarskyldu gagnvart sjúklingum

Læknar eru alltaf bundnir trúnaðar- og þagnarskyldu gagnvart sjúklingum. Sú skylda á við á samfélagsmiðlum eins og annars staðar. Ef læknir bloggar eða deilir frásögn eða skemmtisögu úr daglega lífinu þarf að gæta vandlega að því hvaða upplýsingum er deilt og hvort afla þurfi samþykkis sjúklings.

Sérstaklega þarf að gæta varúðar í umræðum um einstaklinga eða sjúkdómstilfelli. Jafnvel þó persónugreinanlegar upplýsingar séu fjarlægðar geta leynst í frásögninni upplýsingar sem benda til sjúklingsins þannig að hann eða fjölskylda hans þekkir hann af lýsingunni.

Aldrei skyldi nota samfélagsmiðla til að ræða einstaka sjúklinga eða þjónustu við þá, hvorki við þá sjálfa né aðra. Hafi sjúklingur samband við lækni um meðferð sína eða önnur fagleg málefni í gegnum samfélagsmiðla er mikilvægt að benda þeim á að hafa samband í gegnum vinnustaðinn.

Vilji læknir deila mynd af sjúklingi eða sjúklingum sem tengjast sérstöku tilfelli og birta á netinu þarf að fá leyfi sjúklingsins. Við myndatökur á vinnustað þarf ætíð að gæta þess að á myndinni leynist ekki eitthvað eða einhver sem myndbirting myndi brjóta trúnað gagnvart. Jafnframt þarf að kynna sér reglur og leiðbeiningar sem vinnustaðurinn hefur sett um mynda- og hljóðupptökur og gæta þess að fylgja þeim.

 

2. Að virða fagleg mörk

Notkun samfélagsmiðla gerir óljós mörkin milli vinnu og einkalífs. Mikilvægt er að læknar haldi faglegri fjarlægð frá sjúklingum sínum. Almennt er talið óskynsamlegt að læknar samþykki vinabeiðni frá sjúklingi þó kringumstæður geti verið þannig að það sé erfitt og jafnvel ómögulegt, t.d. í dreifbýli.

 

3. Að íhuga vel hvort skynsamlegt er að deila

Formleysi og rauntímaeðli samfélagsmiðla teljast til styrkleika þeirra en í þessu tvennu felast einnig hugsanlegar gildrur. Lækningar eru krefjandi og streituvaldandi starf. Það gæti verið freistandi að blása út eða segja hug sinn á samfélagsmiðlum en þeir eru alls ekki staðurinn til þess. Það er góð regla að setja aldrei neitt á samfélagsmiðla þegar maður er reiður, undir áhrifum áfengis eða viðkvæmur. Það á ekki heldur að segja frá neinu á samfélagsmiðlum sem maður mundi ekki vilja sjá á prenti í dagblaði eða rætt í beinum samskiptum.

Allir njóta tjáningarfrelsis og skoðanafrelsis en þessum mannréttindum eru takmörk sett. Meiðyrðalöggjöf nær til netsamskipta. Þess vegna er skynsamlegt að forðast athugasemdir um einstaklinga, félög eða stofnanir sem túlka má sem tilefnislaus eða óstaðfest og þar með mögulega meiðandi.

 

4. Að íhuga vel hvort póstað sé í nafnleysi sem læknir eða undir nafni

Það er álitið skynsamlegt, ef læknir kynnir sig sem lækni, að viðkomandi gefi einnig upp nafn sitt. Ef einstaklingur kemur með athugasemdir um málefni sem tengjast heilsufari eða heilbrigðisþjónustu og segist vera læknir þá er það talið gefa athugasemdunum meiri vigt en ella. Það er því mælt með því að setja fram athugasemdir af þessu tagi undir nafni.

Þá er vert að hafa í huga að efni sem er hlaðið niður í nafnleysi er mögulega hægt að rekja.

 

5. Að gæta varúðar við læknisráðgjöf á samfélagsmiðlum

Læknar eiga að forðast að veita einstaklingsbundna læknisráðgjöf á samfélagsmiðlum til almennings. Þá á aldrei að nota samfélagsmiðla til að ræða við sjúklinga um vandamál þeirra.

 

6. Að upplýsa ætíð um hagsmunaárekstra

Ef læknir skrifar eitthvað á samfélagsmiðla sem læknir eru meiri líkur en ella á því að upplýsingarnar séu taldar trúverðugar. Þess vegna er mikilvægt að vera hreinskilinn og forðast eða upplýsa um mögulega hagsmunaárekstra og möguleg fjárhagsleg eða viðskipaleg tengsl.

 

7. Að stýra persónuvernd og upplýsingum

Hver og einn ákveður sínar persónuverndarstillingar á samfélagsmiðlum. Engin samfélagsmiðill getur tryggt trúnað, sama hvernig þú stýrir persónuverndinni. Við stýringu persónuverndar og upplýsinga er þó mikilvægt að muna að á netinu er ekkert í raun öruggt. Það er alltaf möguleiki á því að það sem sett er á netið fái víðtækari útbreiðslu en til var ætlast. Eftir að upplýsingar eru komnar á netið getur reynst erfitt að eyða þeim þar sem aðrir geta dreift þeim eða gert við þær athugasemdir. Þá er vert að hafa í huga að upplýsingar um staðsetningu geta komið fram á myndum eða öðru efni og þannig orðið sýnilegar öðrum.

 

8. Siðareglur Læknafélags Íslands

Læknafélag Íslands setur félagsmönnum sínum siðareglur, Codex Ethicus – reglur um góða læknishætti sem reistar eru á Alþjóðasiðareglum lækna. Codex Ethicus er ætlaður öllum læknum sem starfa á Íslandi til leiðbeiningar og stuðnings í daglegu starfi. Mikilvægt er því að læknar hugi einnig að þeim í öllum samskiptum sínum á samfélagsmiðlum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica