01. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Vilja meiri áherslu á heilsugæslu í klínísku læknanámi, rætt við Jón Steinar Jónsson og Guðjón Hauksson

                                         
                                          Jón Steinar Jónsson heimilislæknir segir of litla áherslu á landsbyggðina
                                          í læknanámi. Mynd/gag

Það er samfélagsleg ábyrgð þeirra sem mennta heilbrigðisstéttir að hafa þarfir samfélagsins í huga, segir Jón Steinar Jónsson heimilislæknir og lektor á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Jón Steinar benti meðal annars á vanda landsbyggðarinnar á heilbrigðisþingi velferðarráðuneytisins í upphafi nóvembermánaðar. Hann nefndi að þrátt fyrir að einn þriðji hluti landsmanna byggi utan höfuðborgarsvæðisins væri of lítil áhersla á þarfir landsbyggðarinnar í læknanáminu og það þótt heilsugæslan og heimilislækningar séu grunnstoð heilbrigðisþjónustunnar. Undir þetta tekur Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

„Af þremur árum í klínísku námi í læknadeild eru aðeins 5 vikur helgaðar heimilislækningum. Það er ansi lítið þegar kemur að því að mennta lækna með þarfir samfélagsins í huga, sérstaklega landsbyggðarinnar,“ segir Jón Steinar í viðtali við Læknablaðið. Hann nefnir einnig viku á landsbyggðinni.

                                          
                                          Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, segir
                                          auðveldara að fá þær fagstéttir til starfa á landsbyggðinni sem séu
                                          menntaðar þar. Mynd/aðsend

Brotin þjónusta á landsbyggðinni

Guðjón segir mörg svæði landsbyggðarinnar „einmenningshéruð“ þegar komi að skipun lækna. „Það eru innbyggðar krísur í þjónustunni þegar aðeins einn læknir er á heilsugæslustöð og svo á vakt eftir lokun dagvinnutíma. Læknirinn þarf ekki annað en að hætta svo þjónustan sé í uppnámi,“ segir hann og bendir á að strembið sé að manna stöður á landsbyggðinni. „Þjónustan er því mjög brothætt.“

Guðjón segir Háskólann á Akureyri einn lykilþátta þess að fólk taki séns á landsbyggðinni. „Okkur gengur betur að fá fólk til starfa innan þeirra fagstétta sem þar eru menntaðar, bæði hjúkrunarfræðinga og iðjuþjálfa.“ Hann telur framboð fjarnáms þar eina helstu ástæðu þess að Háskólinn á Akureyri standi framar Háskóla Íslands þegar kemur að menntun íbúa landsbyggðarinnar. „Háskóli Íslands þarf að taka sig á.“

 

Læknanámið móti þjónustuna

Guðjón nefnir að læknanemar hér á landi séu sterkt mótaðir af sjúkrahúsþjónustunni. „Þar sem læknastéttin er svo mikilvæg fyrir heilbrigðisþjónustuna getur þessi mótun haft áhrif á umræðu um heilbrigðismál og að endingu á það hvert fjármagnið flæðir,“ segir hann. „Það er skoðun mín að það þurfi að hafa þetta í huga við skipulag læknanámsins, því heilsugæslan er grunnstoð heilbrigðiskerfisins.“

Hann segir mikla áherslu á sérgreinar í náminu veikja stöðu landsbyggðarinnar. „Það er aðgengismunur milli landsmanna að heilbrigðisþjónustu. Íbúar á Austurlandi nota þjónustu sérfræðilækna þrefalt minna en íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er eins á Vestfjörðum. Eftir því sem þú kemur nær höfuðborgarsvæðinu fjölgar heimsóknum til sérfræðilækna,“ segir Guðjón.

„Þessi aðgengismunur er óheppilegur þar sem íbúar þessara landssvæða meta heilsu sína marktækt verri en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Þetta fær mann til að hugsa hvort landsbyggðinni sé sinnt og hvort henni sé gefinn nægilegur gaumur.“

 

Fólk aftur á heimaslóðir

Bæði Jón Steinar og Guðjón benda á að miklu líklegra sé að þeir sem komi til starfa á landsbyggðinni eiga rætur þar. „Það er mun líklegra að þeir sem eiga tengsl við Austurland komi hingað,“ segir Guðjón. „Þess vegna er mikilvægt að tryggja að þeir sem eru úti á landi hafi aðgengi að læknanámi,“ segir hann.

„Í komandi kjarasamningagerð fyndist mér að Læknafélagið ætti að taka mið af þessari stöðu og gera kjörin betri fyrir þá sem vinna á landsbyggðinni. Eins og staðan er núna vantar þennan hagræna hvata sem áður var.“

Jón Steinar segir að það þekkist í dreifbýlum löndum að nemar af landsbyggð fái vissan forgang inn í læknisnám. „Það er flókin umræða og margar lagalegar, siðfræðilegar og fleiri hliðar á því. Engu að síður þekkjum við að þeir sem fara til starfa langtímum saman úti á landi eiga mjög oft einhverjar rætur þar.“

Guðjón segir að breytt áhersla myndi auka heilbrigði þjóðarinnar. „Ég held að við náum betri árangri með því að efla heilsugæsluna verulega í staðinn fyrir að einblína svona mikið á sérgreinar. Við erum komin tiltölulega langt þar en það eru svo mikil sóknarfæri í heilsugæslunni til að hafa áhrif á heilsufar þjóðarinnar.“

 

Flutti með fjölskylduna austur

Guðjón Hauksson mælir með landsbyggðinni

 

Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, og fjölskylda hans eru ein af undantekningunum sem sanna regluna. Hjónin eru bæði heilbrigðismenntuð og alin upp á höfuðborgarsvæðinu en ákváðu að flytja út á land og freista gæfunnar. Þau mæla heilshugar með því skrefi.

„Okkur líkar mjög vel. Ótrúlega mörg tækifæri fylgja því að flytja. Maður fæst við fjölbreyttari verkefni en á heilbrigðisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu. Það er grundvallarmunur á heilbrigðisþjónustunni, sem er hér öll á einum stað. Konan mín vinnur til að mynda við blóðskilun en er einnig með stuðningsviðtöl við geðræðum vanda. Menn verða sérfræðingar í breiddinni,“ segir Guðjón sem tók við stöðu forstjóra um áramótin 2016 eftir að hafa starfað sem deildarstjóri við stofnunina frá árinu 2013.

Hjónin eiga fjögur börn. „Við vorum að borga himinháa leigu í Reykjavík og vildum prófa, safna peningum og einfalda lífið. Flutningarnir hafa fært okkur gæfu,“ segir Guðjón.

Eins og fram kom við ráðningu Guðjóns í forstjórastólinn lauk hann BS-gráðu í hjúkrun frá Háskóla Íslands árið 2006, meistaragráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og útskrifaðist með meistaragráðu frá Boston University School of Public Health á sviði rannsókna tengdum heilbrigðisþjónustu tveimur árum síðar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica