12. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Læknablaðið 2019 – tilkynning frá útgáfustjórn

Eins og fram hefur komið gengu í gildi skipulagsbreytingar eftir aðalfund LÍ 8.-9. nóvember síðastliðinn sem aðalfundur LÍ 2017 samþykkti. Á aðalfundinum 2018 voru til viðbótar samþykktar lagabreytingar sem hafa í för með sér að LR hættir þátttöku í útgáfu Læknablaðsins. Sú breyting var gerð að ósk aðalfundar LR síðastliðið vor sem samþykkti að LR hætti þátttöku sinni í útgáfunni. Samþykkt var á aðalfundinum að LÍ héldi útgáfu Læknablaðsins áfram.

Eftir þessa breytingu er útgáfustjórn Læknablaðsins skipuð formanni LÍ og ábyrgðarmanni blaðsins, auk formanna aðildarfélaganna fjögurra. Stjórn LÍ ræður ritstjóra, einn eða fleiri, til tveggja ára í senn og skipar ábyrgðarmann blaðsins úr þeirra hópi. Ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins verður áfram Magnús Gottfreðssson læknir og ritstjórnarfulltrúi Védís Skarphéðinsdóttir.

Á aðalfundi LÍ 2017 var ákveðið að áskrift að Læknablaðinu væri innifalin í félagsgjaldi félagsmanna LÍ. Félagsmenn sem mega lögum samkvæmt hætta að greiða félagsgjald hætta á hinn bóginn að fá Læknablaðið nema þeir gerist áskrifendur að því og greiði áskriftargjald. Vaxandi kostnaður við útgáfustarfsemina er ein ástæða þess að lagabreytingin var gerð. Stjórn LÍ ákvað að fresta gildistöku þessarar samþykktar til 1. janúar 2019 þannig að félagsmenn sem ekki greiða félagsgjald fengju Læknablaðið endurgjaldslaust á aldarafmælisárinu.

Þessi lagabreyting frá 2017 tekur þar með formlega gildi frá 1. janúar 2019. Útgáfustjórn Læknablaðsins hefur ákveðið að áskriftargjald Læknablaðsins fyrir 2019 verði 16.900 kr., sem gerir 1.408 kr. á mánuði og er það eins og áður segir innifalið í félagsgjaldi til LÍ. Þeir sem ekki greiða félagsgjald LÍ verða því að greiða þetta áskriftargjald til að fá blaðið.

Læknablaðið verður eftir áramót sent til allra þeirra sem hafa fengið það á árinu 2018. Þeim læknum sem ekki greiða lengur félagsgjald LÍ verður sendur greiðsluseðill fyrir áskriftargjaldi ársins 2019. Útgáfustjórn Læknablaðsins vonar að allir læknar sem ekki greiða lengur félagsgjald til LÍ kjósi engu að síður að halda áfram að vera áskrifendur að Læknablaðinu. Kjósi einhverjir læknar frekar að hætta að fá blaðið, nú þegar þeir þurfa að greiða fyrir það, eru þeir vinsamlega beðnir um að tilkynna það til skrifstofu LÍ eigi síðar en 20. janúar 2019, annaðhvort símleiðis í 564 4100 eða á netfangið lis@lis.is.Þetta vefsvæði byggir á Eplica