12. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Svandís heilbrigðisráðherra ætlar að breyta heildarmyndinni

Heilbrigðisráðherra hefur stýrt í eitt ár. Hún segir mikilvægt að hafa skýra sýn svo dagsverkið fari ekki aðeins í að slökkva elda sem blossi upp í fjölmiðlum landsins

                                            
                                            Svandís Svavarsdóttir ætlar að taka til í heilbrigðiskerfinu en segir einnig
                                            að það sé langþreytt og þurfi virkilega á fjárhagslegri innspýtingu að
                                            halda. Mynd/gag

Stundum er maður uppteknari af fyrirsögn dagsins en stefnumótuninni, segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem hefur skorið upp herör gegn slíku vinnulagi og vill setja heilbrigðisstefnu um málaflokkinn svo ákvarðanir séu teknar á faglegum grunni.

„Það er auðveldara að hlaupa á milli og slökkva elda og vera í því að fækka fyrirsögnunum í stað þess að horfa til lengri tíma. Ég tel hins vegar að það sé svo löngu tímabært að reyna að ná utan um kerfið í heild sinni og skapa heilbrigðisstefnu sem við getum sem flest verið stolt af. Stefnu sem getur verið grundvöllur úrlausna,“ segir hún. „Heilbrigðisstefna er grundvöllur þess að við getum náð betur utan um íslensku heilbrigðisþjónustuna.“ 

Það hefur gustað um Svandísi í gegnum árin. Hún er þaulvön pólitískum átökum og styrkur hennar sést á því að henni hefur verið treyst fyrir umdeildustu og veigamiklum embættum nútíma pólitíkur; náttúruvernd og heilbrigðismálum. „... svo er ég femínisti, sem skiptir mig miklu máli sem stjórnmálakona og uppalandi í samfélaginu,“ segir þessi fjögurra barna móðir sem kom með krafti inn í landsmálin fyrir tæpum áratug og settist beint í stól umhverfisráðherra.

                                                                       
                                                                       Svandís hefur nú vermt stól
                                                                       heilbrigðisráðherra í eitt ár. Hún segir
                                                                       umtalsvert skemmtilegra að gefa í eins
                                                                       og nú um stundir en að sitja í ríkisstjórn
                                                                       sem þurfi að skera niður.
                                                                       Mynd/gag

Læknar upplýstir um breytingar

Breytingar liggja í loftinu en Svandís gerir ekki mikið úr þeim. „Ég vil segja og ég hef sagt við lækna á fundum: Það verða engar breytingar gerðar nema að þeir séu upplýstir um það sem stendur til,“ segir hún og leggur áherslu á að breytingarnar í heilbrigðisstefnunni sem snúi að læknum séu tengdar starfsumhverfi þeirra. Stefnt sé að frekara samspili heilbrigðisstofnana og aukinni áherslu á teymisvinnu. Þá verði lögð meiri áhersla á gæði og vísindastarf. 

„Þetta er allt eitthvað sem læknar brenna fyrir og vilja sjálfir. Viðkvæmi þátturinn snýst um samninga og lúta að kaupum á heilbrigðisþjónustu. Ég hef engar áhyggjur af því að við náum ekki til lands í því með einhverju móti. Ég held að læknar geti verið alveg rólegir yfir mér í embætti,“ svarar Svandís og brosir yfir staðhæfingu blaðamanns um óróleika og ótta innan stéttarinnar yfir að nú eigi öllu að breyta.

 

Óljóst hvað ríkið kaupi af læknum

Rekstrarformið virðist ansi heit kartafla, staðhæfir blaðamaður og hún svarar:

„Já, en það er að mínu mati ekki grundvallaratriði í umræðunni. Mér finnst ekki að við eigum að dvelja of lengi við þann part. Auðvitað er ég þeirrar skoðunar að sterkt opinbert heilbrigðiskerfi sé gríðarlega mikilvægt. Einnig að það sé samfellt, fjármagnað og jafnræðis gætt og að gjaldtaka sé í algjöru lágmarki,“ segir hún. „En aðalatriði er að við vitum hvaða heilbrigðisþjónustu við viljum kaupa af viðkomandi aðila. Það sé gagnsætt og skýrt og í samræmi við þarfir almennings og að þar gildi sömu reglur um árangur og annars staðar.“

En er það þá ekki nægilega skýrt núna að mati ráðherrans? „Nei, alls ekki,“ segir Svandís. „Við erum að fá athugasemdir frá Ríkisendurskoðun, McKinsey og fleiri aðilum. Ríkisendurskoðun orðar það meira að segja þannig að það þurfi að skýra verulega kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu, að það sé ekki nógu afgerandi hvað ríkið vilji kaupa. Ég tel að það þurfi að liggja fyrir hvaða þjónustu ríkið þurfi að bæta inn í það kerfi sem fyrir er og samkvæmt hvaða reglum.“

Spurð um Klíníkina í þessu sambandi segir Svandís málið endurspegla þetta en einnig að álitamál sé um þörfina fyrir þjónustu hennar. „Því spyr ég: Erum við að raða eftir nægilega gagnsæjum hætti á biðlista hér heima? Er það þannig að þeir sem eru í mestri þörf, eru sárkvaldir og eru á verkjalyfjum mánuðum saman, njóti þjónustunnar eins hratt og mögulegt er? Ég er ekki enn sannfærð um að þetta sé allt saman í lagi,“ segir hún. 

 

Af einum biðlasta á annan

Ráðherra segir að 840 milljónum sé nú árlega ráðstafað til að saxa á biðlista. „Upphæðinni er ætlað að stytta biðina og koma okkur á svipaðar slóðir og í löndunum í kringum okkur.“ Staðan nú sé sú að fólk færist af einum biðlista á annan. 

„Þannig að það er eitthvað þarna sem lýtur að heildarskipulagi og stjórnun. Þetta verkefni er ekki þannig að hægt sé að leysa það með einum samningi við Klíníkina eða með einhverjum slíkum hætti. Þetta er allt undir og allt til skoðunar og hvílir á heilbrigðisstefnu.“

Á heilbrigðisþinginu í nóvemberbyrjun talaði aðstoðarmaður þinn, Birgir Jakobsson, um að útrýma áhrifum kunningsskapar og sagði biðlistana ekki sanngjarna. Er það svo?

„Ég hef engar forsendur til að meta það. Ég veit ekkert um það. Að minnsta kosti er það þannig að það má ekki vera svo, þegar um heilbrigðisþjónustu er að ræða sem greidd er úr sameiginlegum sjóðum, að það séu einhverjar aðrar reglur en faglegt mat sem liggi til grundvallar. Það er ekki lögmætt. Það væri óásættanlegt.“

En þá að rammasamningnum við sérfræðilækna. Telur ráðherrann hann hafa verið opinn tékka? „Ég vil ekki orða það þannig hann hafi verið opinn tékki. Ég held að það skipti kannski ekki öllu máli hvernig við orðum það. Hann hefur í það minnsta verið óeðlilega opinn þangað til honum var lokað – sem síðar reyndist ólögmætt. Við fengum niðurstöður frá dómstólum að það hefði verið ólögmætt að loka samningnum einhliða en í reifun málsins kemur líka fram að það hafi verið jafn vafasamt, óeðlilegt, að ekkert mat var lagt til grundvallar því hverjir fóru inn á samninginn. Þannig að það var á báða bóga. Samningurinn var þannig að hann var opinn, sem getur ekki verið fyrirkomulag til framtíðar.“

 

Langþreytt heilbrigðiskerfi styrkt

Mikið hefur verið rætt um bága stöðu heilbrigðiskerfisins og fjárþurrð síðustu ár og sagði forysta Vinstri grænna í Læknablaðinu fyrir síðustu kosningar að hækka þyrfti fjárframlögin. Miða ætti við tæp 10,6% af vergri landsframleiðslu árið 2020. Svandís segir ljóst að heilbrigðiskerfið sé langþreytt.

„Það þarf virkilega á fjárhagslegri innspýtingu að halda, en það þarf líka á því að halda að við vitum betur hver gerir hvað og að við skiptum með okkur verkum,“ segir hún. „Nú erum við bæði með eyður í þjónustunni og tvíverknað. Við þurfum því að taka til í kerfinu. Það dugar ekki bara að ráðstafa þangað meira fé, þótt það sé eitthvað sem við þurfum sannarlega að gera – og við erum að því.“ Erfitt sé hins vegar að miða við verga landsframleiðslu, því sú tala breytist hratt hér á landi. 

„Stór verkefni eins og uppbygging Landspítala geta skapað kúf í framkvæmdaliðum sem hefur áhrif á þetta hlutfall,“ bendir hún á og einnig að það sé verið að gefa í. Til að mynda hafi verið samþykkt að eyrnamerkja inn í áætlunina fé til að mæta greiðsluþátttöku sjúklinga. Sérstaklega verði horft til tannlækninga öryrkja og aldraðra, ferðakostnaðarreglugerðarinnar, gjaldtöku í heilsugæslunni og fleiri þátta sem taka verði afstöðu til og forgangsraða.

„En hópar sem standa höllustum fæti eru mér efstir í huga,“ segir Svandís. „Svo líka að styrkja framlínu heilbrigðisþjónustunnar, sem er heilsugæslan.“ Þá komi til greina að lækka komugjöldin þar. „Já, ég hef lagt mikla áherslu á að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga,“ segir Svandís.

 

Á fimmtugsaldri í stjórnmálin

Svandísi skortir ekki reynsluna. Hún hafði gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og verið í fararbroddi í borgarmálunum. Hún hafði meðal annars verið framkvæmdastjóri flokksins og formaður í Reykjavík. Þá var hún varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga áður en hún steig inn á þing. Einhverjir gætu talið að hún hafi alltaf verið í pólitík, en svo er alls ekki.

„Ég er alin upp við stjórnmál og pólitíska umræðu á heimilinu en ég fer ekki í hefðbundna pólitík fyrr en ég er 42 ára gömul,“ segir Svandís en eins og flestir vita er hún dóttir Svavars Gestssonar, fyrrum ráðherra og sendiherra, og fetar nú í fótspor hans. Hann var viðskipta-, heilbrigðis- og félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra, já og þingflokksformaður. Svandís var menntamálaráðherra í fjarveru Katrínar Jakobsdóttur og umhverfisráðherra á árunum 2009-2013 áður en hún varð heilbrigðisráðherra. Hún hefur einnig verið þingflokksformaður. En af hverju svona seint?

„Ég hugsa að það hafi haft áhrif að pabbi tók mikið pláss sem pólitíkus og var mjög áberandi,“ segir hún. „Ég upplifði það að vera í fjölskyldu með stjórnmálamanni. Svo líða árin og dálítið mörgum árum síðar feta ég þessa braut og nýt góðs af því að hann er reyndur stjórnmálamaður og einn af mínum bestu vinum. Ég get því oft ráðfært mig við hann og notið hans reynslu við það sem ég er að gera.“

 

Spennt fyrir heilbrigðismálum

Svandís segir að þótt tímarnir hafi breyst séu grunngildi stjórnmála þá og nú þau sömu. „Þetta snýst um að taka ákvarðanir um líf fólks, hvernig við viljum haga opinberri þjónustu og hvernig við viljum safna fjármagni í sameiginlega sjóði og ráðstafa því,“ segir hún. 

„Ég geri ráð fyrir því að þetta sé að sumu leyti svipað þótt það séu ákveðnar áskoranir sem nútíminn leggur okkur á herðar, sem eru loftslagsmálin og umhverfismálin, sem voru minna á dagskrá hér á árum áður. Þau voru þó til og umhverfisráðuneytið varð til á þeim tíma sem pabbi var í ríkisstjórn,“ segir hún. „En í grunninn snýst þetta um að taka sér stöðu með heildarhagsmunum.“ Það sé stefna hennar einnig í heilbrigðismálum. Þann 30. nóvember hefur Svandís verið ár í embætti. Hvernig hefur árið verið?

„Alveg ótrúlega spennandi. Þetta er þvílíkur málaflokkur. Mjög umfangsmikill og miklar áskoranir. Mjög margt þarf að gera. Það þarf að taka til hendinni. Það er frábært að sitja undir stýri þegar við erum að auka við fjármagn á öllum sviðum,“ segir Svandís og bætir við:

„Sögulega erum við að bæta meiru við á milli ára en áður hefur verið gert. Bygging nýs Landspítala við Hringbraut er að byrja. Við erum að styrkja heilsugæsluna umtalsvert með því að búa þar til þróunarmiðstöð; bæta við sálfræðingum, styrkja geðheilsuteymin. Við fjármögnum nú geðheilbrigðisáætlun og sækjum fram á öllum sviðum. Það er umtalsvert skemmtilegra heldur en að vera í ríkisstjórn sem þurfti bara að skera niður,“ segir Svandís og vísar í fyrra ríkisstjórnarsamstarf flokksins, árin eftir hrun.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica