12. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Læknar sem stjórnendur. Björn Gunnarsson

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir sínar eigin skoðanir en ekki félagsins.

Á nýafstöðnum aðalfundi Læknafélags Íslands (LÍ) dagana 8.- 9. nóvember var auk venjulegra aðalfundarstarfa haldið málþing eða málstofa um stefnumótun Læknafélagsins í heilbrigðismálum. Var þessi málstofa haldin í framhaldi af kynningu heilbrigðisráðuneytisins á drögum að heilbrigðisstefnu sem lögð var fram á heilbrigðisþingi sem haldið var 2. nóvember síðastliðinn. Á þessu málþingi Læknafélagsins var þátttakendum skipt niður í nokkra vinnuhópa og voru þar teknir fyrir mismunandi málaflokkar. Sjálfur sat ég í vinnuhópi sem fjallaði um vinnubrögð, samráð og aðferðafræði stefnumótunar heilbrigðisráðuneytisins. Höfðu menn svo sem ýmislegt út á þau vinnubrögð að setja. Í öðrum vinnuhópi átti auk annarra þátta að fjalla um stjórnun og komu þar fram nokkur atriði sem vöktu áhuga minn því þau ríma vel við margt það sem til að mynda sænska læknafélagið hefur sett fram um lækna og stjórnun. Um þetta má lesa í sænska læknablaðinu, Läkartidningen.

Í greinargerð þessa vinnuhóps á málþingi LÍ var lögð áhersla á að læknar hafi stjórn á eigin vinnuumhverfi, vinnutíma og skipulagi, nokkuð sem Læknafélagið og undirfélög þess hafa barist fyrir í mörg ár. Einnig var það sjónarmið hópsins að það vantaði miklu fleiri lækna í stjórnunarstöður, það þyrfi að fækka millistjórnendum og stytta boðleiðir frá og til yfirstjórnenda. Skilgreina þyrfi betur ábyrgðarsvið heilbrigðisstétta og svo var minnt á að læknar væru mikilvægir stjórnendur í teymisvinnu því þeir bæru að jafnaði lokaábyrgðina og þyrftu að geta tekið erfiðar ákvarðanir hratt og örugglega.

Síðasta atriðið í þessu vinnuplaggi fjallaði svo um stjórnunarnám lækna og að það þyrfti að styrkja. Í nýlegu tölublaði sænska læknablaðsins er einmitt fjallað um þetta og þar kemur fram að eitt af undirfélögum sænska læknafélagsins hefur komið á fót námskeiði fyrir lækna í yfirmannsstöðum. Eða eins og einn stjórnarmaður félagsins orðaði það: „við bjuggum til námskeið sem við sjálfir hefðum viljað fara á en höfðum ekki fundið“. Ég held að þessi orð séu einmitt lýsandi því ég hef oft heyrt kollega mína skýra frá námskeiði í „stjórnun“ þar þeim fannst mjög vanta praktíska og klíníska tengingu við heilbrigðiskerfið.

Sænska læknafélagið hefur það að markmiði að fjölga yfirmönnum í hópi lækna um að minnsta kosti helming fram til ársins 2020. Takmarkið er sömuleiðis að fá fleiri lækna til að sitja lengur í stjórnunarstöðum en nú er raunin. Því miður er það staðreynd að margir læknar hætta sem yfirmenn, ekki vegna þess að þeir valdi ekki starfinu, síður en svo, heldur gefast þeir upp. Finnst þeir eiga við frumskóg skriffinnsku að etja. Með betri námskeiðum, meiri samheldni og stofnun tengslanets lækna í stjórnunarstöðum er það von sænska læknafélagsins að fleiri læknar haldi áfram sem yfirmenn. Kannski er þetta eitthvað sem Læknafélag Íslands gæti beitt sér fyrir. Eins og áður sagði hefur mörg námskeið í stjórnun skort klíníska tengingu og úr því þyrfti að bæta. Mögulega þyrfti LÍ að koma á fót slíku námskeiði. Læknar eru vanir að stjórna en auðvitað eru alltaf hlutir sem þarf að skoða og læra. Þú þarft samt ekki að hafa lokið námi í viðskiptafræði eða lögfræði til þess að geta stjórnað í heilbrigðiskerfinu eða jafnvel veitt því forystu. Það er meinloka sem þarf að leiðrétta. Læknar hafa mestan „kompetens“ í heilbrigðiskerfinu og því er það í raun skylda þeirra að taka þátt í að stýra því. Að sama skapi er það skylda heilbrigðisyfirvalda að nýta sér margra ára nám lækna, notfæra sér framhaldsmenntun sem læknar hafa sótt sér til útlanda, í raun ríkisvaldinu að kostnaðarlausu. Það þurfa ekki allir yfirmenn að vera læknar en það er dagljóst að þeir þurfa að vera nægilega margir til að halda uppi læknisfræðilegum „kompetens“.

Oft getur verið erfitt fyrir lækna í stjórnunarstöðum að útskýra í hverju starf þeirra felst því að niðurstöður eða árangur kemur oft seinna í ljós. Stjórnunarstöðum fylgja margir fundir og ýmsum kann að þykja sem mál gangi fremur hægt og undrast þann fjölda funda sem taka þarf þátt í. Það er því mikilvægt fyrir lækna í stjórnunarstöðum að miðla upplýsingum og útskýra sín sjónarmið. Þar kemur klíníska tengingin aftur inn í. Kannski er samt viðhorf yngri lækna til yfirlækna og annarra lækna í stjórnunarstöðum orðið breytt miðað við það sem áður var. Þegar ég var í námi var ríkjandi það viðhorf að það væri erfitt að stýra læknum og stundum var talað um smákóngaveldi.

Að lokum og kannski meira í gamni en alvöru. Hvernig væri nú að við auglýstum Læknaþing 2019, með undirtitlinum Þú hefur valdið – leiðtogafærni og forysta. Svona svipað og önnur ónefnd heilbrigðisstétt gerði nýlega, ég bara spyr!



Þetta vefsvæði byggir á Eplica