11. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Furðulega illa undir búin í margvíslegu tilliti – svar við athugasemd sóttvarnalæknis
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skrifar sérstaka athugasemd við leiðarann „Aldarafmæli spænsku veikinnar og viðbrögð við skæðum farsóttum á 21. öld“ sem birtist í októberhefti Læknablaðsins.1 Það er ánægjulegt að þessi stuttu skrif mín hafi vakið athygli sóttvarnalæknis. Það er þó nauðsynlegt í málefnalegum skoðanaskiptum að rétt sé eftir manni haft. Í athugasemdum sínum hér í blaðinu og á heimasíðu Embættisins leggur hann undirrituðum fyrst orð í munn en beinir síðan athugasemdum sínum (og „leiðréttingum“ eins og það er orðað á heimasíðu Embættisins) að eigin orðum: Hann segir að ég „láti að því liggja að viðbúnaður í dag hér á landi sé lítill sem enginn“. Þetta er rangt. Ég skrifaði hins vegar að við séum „furðulega illa undir slíka vágesti búin í margvíslegu tilliti“. Þetta eru ekki fullyrðingar sem leggja má að jöfnu.
Í framhaldi af þessu telur sóttvarnalæknir upp nokkur mikilvæg atriði úr viðbragðsáætlun gegn heimsfaraldri inflúensu sem endurskoðuð var 2016. Mér er ljúft að segja það hér að ég hef gott eitt að segja um viðbragðsáætlunina og geri hvergi lítið úr henni. Leiðarinn fjallar þó ekki aðeins um inflúensu heldur einnig skæða smitsjúkdóma, til dæmis Ebola eins og ljóslega má sjá af yfirskrift hans og efni. Fullnægjandi aðstaða til að taka á móti slíkum sjúklingum á Landspítala er einfaldlega ekki til staðar, enda þótt starfsfólk hafi reynt að gera eins gott úr stöðunni og kostur er í síðasta stóra faraldri.2
Í annan stað ýja ég að þeirri spurningu hversu vel Landspítali, þar sem langflestum af veikustu sjúklingum landsins er sinnt í dag, sé fær um að takast á við viðbótarálag þegar spítalinn er á viðbúnaðarstigi langtímum saman, jafnvel í venjulegu árferði þegar engin óvenjuleg veikindi eru á sveimi í þjóðfélaginu.
Í þriðja lagi liggur það í eðli skæðra sýkinga að oft þurfa sjúklingar á einangrun og gjörgæslumeðferð að halda. Ísland er meðal þeirra landa í Evrópu sem hafa hlutfallslega fæst gjörgæslurúm.3 Ætti þessu ekki að vera öfugt farið í fámennu eyríki (með einna hæstu þjóðartekjur á mann í heimi) sem ekki getur leitað yfir landamærin með aðstoð og sjúkraflutninga þegar þörfin er brýnust? Reynslan á Íslandi af síðasta heimsfaraldri inflúensu 2009 sýnir að af þeim sem lögðust inn á sjúkrahús þurfti hátt hlutfall meðferð á gjörgæslu.4 Þrátt fyrir þetta hefur rúmum á gjörgæsludeildum hérlendis fækkað frá þeim tíma og þar skortir mannskap eins og víðar.3
Í leiðara mínum voru lyf einnig nefnd til sögunnar: „Aðrir veikleikar hjá okkur lúta að takmörkuðu birgðahaldi margra helstu nauðsynja og má þar nefna bæði lífsnauðsynleg lyf og ýmsa einnota hluti sem notaðir eru í meðferð fjölveikra.“ Hér er undirritaður að vísa til þess að reynslan af Ebolafaraldrinum sem hófst árið 2014 sýnir að veruleg töf (hálft ár) getur skapast á að fá ýmiss konar búnað þegar margar þjóðir eru samtímis um hituna.2 Það er ekki alltaf augljóst eða fyrirsjáanlegt hvaða búnað þarf næst.
Hvað lyfin varðar eru fylgisýkingar af völdum baktería algengar í sjúklingum með inflúensu. Læknar hafa oft mátt búa við það undanfarin ár að hafa ekki aðgang að mjög mikilvægum sýklalyfjum handa skjólstæðingum sínum, jafnvel vikum og mánuðum saman. Sem dæmi má nefna kloxacillín, trimetoprím-sulfametoxazól og nítrófúrantoín, - allt algeng og mikilvæg lyf. Sá skortur er viðbragðsáætlun gegn heimsfaraldri óviðkomandi eftir því sem ég best veit, en jafnraunverulegur fyrir sjúklinga engu að síður og því gerður að umtalsefni.
Vonandi verður þetta aldarafmæli hörmunganna frá 1918 okkur hvatning til að bæta þá umgjörð sem bæta þarf.
Magnús Gottfreðsson
ritstjóri Læknablaðsins
Heimildir
1. Gottfreðsson M. Aldarafmæli spænsku veikinnar og viðbrögð við skæðum farsóttum á 21. öld. Læknablaðið 2018; 104: 435. https://doi.org/10.17992/lbl.2018.10.198 PMid:30256212 |
|
2. Guðlaugsson Ó, Elfarsdóttir Á, Helgadóttir H, Guðmundsson. Landspítalinn og ebóla, lærdómur og framtíðin. Læknablaðið 2016; 102: 306-9. | |
3. Kárason S. Tólf gjörgæslurúm á Landspítala - dugar það til? Læknablaðið 2018; 104: 333. https://doi.org/10.17992/lbl.2018.0708.191 PMid:29972133 |
|
4. Sigurðsson GH, Möller AD, Kristinsson B, Guðlaugsson Ó, Kárason S, Sigurðsson SE, et al. Gjörgæslusjúklingar með inflúensu A (H1N1) á Íslandi 2009. Læknablaðið 2010; 96: 83-90. https://doi.org/10.17992/lbl.2010.02.09 |
|