11. tbl. 104. árg. 2018

Fræðigrein

Lækningar í Íslendingasögum. Óttar Guðmundsson

Forsaga

Læknisfræði Vesturlanda á miðöldum átti rætur að rekja til  Grikklands og hins svokallaða Hippókratesar-skóla. Þaðan kemur fjórvessakenningin, sem var einhver lífseigasta tilgáta í lækningum fyrri alda. Samkvæmt henni réðist heilsa og óheilsa manna af jafnvæginu milli fjögurra líkamsvessa, blóðs, svarta gallsins, slíms og gula gallsins. Vessarnir áttu upptök sín í ákveðnum líffærum og tengdust svo aftur frumefnunum fjórum, eldi, vatni, jörð og lofti. Eiginleikar efnisins skiptu auk þess máli, rakt eða þurrt, heitt eða kalt. Þetta kenningakerfi var flókið en nýmælið var að sjúkdómar ættu sér líffræðilega skýringu en ekki yfirnáttúrulega.

                                         
                                         Úr Sturlungu, upphaf þess kafla sem kallaður er Hrafns saga
                                         Sveinbjarnarsonar, - úr skinnhandritinu AM 122 a fol, Króksfjarðarbók,
                                         sem er ritað á árunum 1350-1370. Birt með leyfi Stofnunar Árna
                                         Magnússonar í íslenskum fræðum. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir.

Fyrir daga Hippókratesar var orsök allra sjúkdóma talin vera fyrir galdur eða áhrif góðra eða vondra afla. Fyrstu læknarnir voru venjulega galdramenn sem reyndu að reka sjúkdóma út með galdri. Talið er að frummerking orðsins læknir sé einmitt særingamaður.

                                       
                                       Upphaf Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar í útgáfu Svarts á hvítu, Reykjavík
                                       1988.

Læknar sem störfuðu eftir fjórvessakenningunni viðhöfðu önnur vinnubrögð. Þeir áttu margs konar ráð til að leiðrétta ójafnvægi vessanna: blóðtökur, niðurgangs- og uppsölulyf, sárameðferð til að losa líkamann við slím og fleira.

Hippókratesar-læknisfræðin vissi lítið um líffæra- eða lífeðlisfræði. Krufningar á mönnum voru ekki stundaðar svo að einungis var stuðst við athuganir á dýrum. Með falli Rómaveldis og þeirri almennu hnignun siðmenningar sem fylgdi í kjölfarið fór vísindaleg læknisfræði halloka og vék á nýjan leik fyrir ýmiss konar hjátrú og göldrum.

Með kristninni upphófst tími kraftaverkalækninga þar sem treyst var á guðlega forsjón. Gömul þekking varðveittist þó í Arabalöndunum þar sem grísk menning naut mikillar virðingar.

Með stofnun háskóla hófst læknisfræðin aftur til virðingar. Fyrir áhrif kirkjunnar var þó litið á læknisfræðina sem hugvísindi og skilið á milli handlækninga og bóklækninga. Þetta þýddi að almennar handlækningar og sárameðferð voru í höndum ómenntaðra sáralækna sem studdust við kunnáttu og reynslu kynslóðanna. Meðferð annarra veikinda átti helst að vera í höndum menntaðra lækna.

Íslendingasögur gera greinarmun á handlækningum og lyflækningum. Talað er um „sár“ þegar orsök veikindanna er augljós en „sótt“ þegar ekki er vitað um uppruna veikindanna. Venjulega var þó talið að „sótt“ ætti sér yfirnáttúrulega skýringu og örlögin lékju stórt  hlutverk. Í sóttlækningum var aftur gripið til galdra eins og í árdaga en sáralækningar voru mun einfaldari og nútímalegri. Lítið fer fyrir áhrifum fjórvessakenningarinnar í lækningum Íslendingasagna en hún mótar lækningar Hrafns Sveinbjarnarsonar sem sagt er frá í Sturlungu.

                                           
                                            Altaristafla úr Selárdalskirkju í Ketildölum við Arnarfjörð, á slóðum
                                           Hrafns Sveinbjarnarsonar. Taflan er gerð úr alabastri, sennilega frá
                                           Nottingham á Englandi og mun vera frá því um 1400. Þjóðminjasafnið
                                           varðveitir myndina og veitti góðfúslegt leyfi fyrir birtingu.

Orsök sjúkdóma

Hvað uppruna sjúkdóma snerti trúðu menn á forlög eða sköp samanber gamla máltækið: Enginn má sköpum renna. Örlaganornirnar þrjár Urður, Verðandi og Skuld skópu og þekktu örlög hvers og eins. Maðurinn er vanmegna gagnvart örlögum sínum eins og kemur fram í Grettissögu þegar Ásdís á Bjargi kveður syni sína í hinsta sinn og segir: „Og má engi renna undan því sem honum er skapað.“

Sumir sjúkdómar eiga sér yfirnáttúrulega skýringu. Gömlu goðin birtast í draumi og hóta veikindum eða dauða ef dreymandinn hlýðir ekki. Fróðárundrin eru augljóslega af völdum Þórs með öllum sínum fyrirboðum.

                                         
                                         Mynd af glugga sem Steinþór Sigurðsson gerði fyrir Læknafélag Íslands
                                         og prýðir kapelluna á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Fyrsti íslenski læknirinn,
                                        Hrafn Sveinbjarnarson sem Hrafnseyri er kennd við, mundar skurðarhnífinn.

Áhrif kristninnar

Með kristnitökunni breytist afstaða manna til sjúkdóma og lækninga. Kristur er læknir eins og víða kemur fram í Nýja testamentinu og hans er getið sem læknis í sögunum. Sjúkdómar og lækningar verða hluti af átökum milli kristni og heiðni þar sem Kristur hefur venjulega betur. Gott dæmi um þetta er að finna í Egils þætti Síðu-Hallssonar. Knútur Danakóngur kaupir þjónustu finnsks galdrakarls til að hefna sín á Ólafi konungi helga. Ekkert verður af kaupunum. Finninn kastar þá hönskum á skip konungs og rýkur úr þeim duft. Ekki er að orðlengja það að sótt mikil kemur upp á skipinu og veikist Egill eins og aðrir. Hann er dauðvona þegar Ólafur konungur kemur og leggur hendur á brjóst honum og læknar hann. Þarna eigast við gömul galdratrú og hin nýja kristna trú sem sigrar í þessum átökum.

Víða í sögunum er getið um lækningar þar sem Kristur er með í för. Höfundar sagnanna vilja fullvissa alþýðu manna um að Kristur sé summus medicus, æðstur allra lækna, og trúin á hann hafi yfirburði gagnvart öllu öðru. Gott dæmi er að finna í Eyrbyggju þar sem fjallað er um lækningar Snorra goða. Í lok Fróðárundra lætur hann prest veita tíðir, vígja vatn og skrifta mönnum. Við þetta lýkur hinum eiginlegu veikindum. Snorri er  einungis verkfæri hins raunverulega yfirlæknis, Krists.

                                          
                                           Óttar Guðmundsson á málþingi um vananir í Þjóðmenningarhúsinu um
                                           daginn sem Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar stóð fyrir.

Galdur og rúnir

Víða í sögunum er sagt frá sjúkdómum eða böli sem stafaði af galdrafólki. Þetta fólk var fjölkunnugt og kunni rúnagaldur sem það beitti til að kalla bölvun yfir ákveðna menn. Þuríður í Grettissögu magnar galdur með rúnum yfir trjábol nokkurn sem hún sendi út í Drangey. Grettir hjó í trjádrumbinn en ekki tókst betur til en svo að öxin hljóp í læri hans og varð úr sár sem dró hann til bana. Egill Skallagrímsson læknaði unga stúlku sem var rúmföst í veikindum og óyndi. Hún hafði orðið fyrir rúnagaldri ungs ástfangins manns sem sendi henni manrúnir. Egill brenndi sendingu unga mannsins og risti aðrar sem læknuðu stúlkuna. Þarna má reyndar greina áhrif frá Hippókratesar-læknisfræðinni þar sem kennt var að með líku skyldi líkt út reka: beita galdri á galdur. Þegar rætt er um lækningagaldur má nefna hinn svokallaða lyfstein sem fylgdi mörgum afburðasverðum. Væri einhver særður svöðusári með viðkomandi sverði mátti nota lyfsteininn til að lækna sárið. Dæmi um þetta er að finna í Laxdælu. Sverðið Sköfnungur átti sér lyfstein sem Þorkell Eyjólfsson notaði til að lækna sár mikið sem hann veitti Grími útilegumanni.

 

Læknar í sögunum

Flestir sem lækningar stunda í sögunum starfa þó án tilstyrks kristinnar trúar. Þetta eru venjulega sára- eða bráðalæknar úr alþýðustétt. Þekkingu sína byggir þetta fólk á reynslu og samskiptum sínum við særða menn. Ekki er að sjá að menn hafi mikla þekkingu á jurtum eða lækningamætti þeirra eða annarri skólalæknisfræði. Þeir veita fyrstu hjálp og eru kallaðir læknar í sögunum. Þetta fólk er ekki menntaðir læknar samkvæmt skilningi skólalæknisfræðinnar enda var enga bókmenntun að fá.

Eftirtalin eru kölluð læknar í sögunum: Bersi (Fóstbræðrasaga), Þorvarður á Svalbarði (Ljósvetningasaga), Þorvarður á Síðreksstöðum (Vopnfirðingasaga) og Þorvaldur (Þórðar saga hreðu), Gríma (Fóstbræðrasaga), Álfgerður (Droplaugarsonasaga), Hildigunnur (Brennu-Njálssaga), Helga (Harðar saga og Hólmverja) og Ólöf (Þórðar saga hreðu). Þetta fólk stundar sáralækningar og mistekst sjaldnast. Undir því er komið hversu fljótt og hvort hetjan verður aftur vígfær eða lifir af meiðsl sín. Þessir læknar eru aldrei aðalhetjur sagnanna heldur eru sóttir á örlagastund til að sinna störfum sínum en hverfa síðan jafnharðan inn í skuggann á nýjan leik. Það er athyglisvert að sjaldnast er getið um föðurnöfn þessa fólks, sem er óvenjulegt. Ólöf læknir giftist Þórði hreðu í samnefndri sögu en hverfur algjörlega sjónum eftir það.

Í Egilssögu og Hávarðar sögu Ísfirðings er getið um konur sem stunda eiginlegar sállækningar eða samtalsmeðferð. Þeim tekst að tala söguhetjurnar uppúr alvarlegu þunglyndi. Bæði Egill og Hávarður taka sinnaskiptum fyrir tilstilli þessara samtala. Hávarður rís úr rekkju eftir langvarandi kararlegu og hefnir sonar síns. Egill rís upp og yrkir Sonatorrek. Þessar konur eru ekki kallaðar læknar þótt höfundur sagnanna geri þeim báðum og klókindum þeirra hátt undir höfði.

 

Útlit og laun

Læknar bera engin ytri einkenni starfa síns heldur eru klæddir að alþýðusið. Þeir líta á það sem skyldu sína að hjálpa nauðstöddum sem kannski minnir á starfsreglur lækna í Hippókratesar- eiðnum.

Laun fengu læknar ekki fyrir störf sín. Enginn lagabókstafur virðist til um laun lækna svo að sjúklingum var í sjálfsvald sett hvort hann vildi borga lækninum. Egill leysti Þorgerði dóttur sína út með gjöfum þegar hún reið heim til Hjarðarholts og Þormóður Kolbrúnarskáld gaf lækni sínum að Stiklastöðum gullhring. Læknirinn gat fremur búist við velvilja og vináttu en beinum greiðslum fyrir störf sín.

 

Greining og meðferð

Læknarnir beita fyrst og fremst skynfærum sínum til að greina umfang sáranna; kenna eða finna á hinum sára og horfa á skaðann. „Sjá vil ég sár þín,“ segir Þorvarður læknir í Vopnfirðingasögu. Snorri goði þreifar eftir sárum og aðskotahlutum hjá hinum sáru eftir bardagann í Vigrafirði. Bragðskynið notuðu menn til að greina holsár. Snorri goði smakkar á blóðflekk í snjón-um þar sem Bergþór Þorláksson hafði legið í Vigrafirði. Hann segir að þetta sé holblóð og maðurinn sé feigur og það gekk eftir. Sennilega hefur Snorri fundið bragð af galli eða garnainnihaldi og metið sárið útfrá því. Sama gerir læknirinn að Stiklastöðum sem vill gefa mönnum laukgraut að eta. Hún gat síðan fundið lyktina úr sárinu hvort magi eða görn voru sköðuð. Í Fóstbræðrasögu er sagt að hátt hafi látið í holsárum manna eftir bardagann að Stiklastöðum „sem náttúra er til sáranna“. Hér er sennilega átt við blásturshljóð sem berast frá brjóstkassa eftir mikil sár.

Sárin eru svo skilgreind sérstaklega í sögunum og lögbókum. Alvarlegustu sárin eru kölluð heilund, holund og mergund. Þessi sár voru venjulega banvæn og þurfti ekki um þau að binda. Í lagatextunum ráðast bótakröfur eftirlifenda af umfangi sáranna.

Menn nota vatn til lækninga og „fægja“ sár manna. Í Þórðar sögu hreðu bjó Þorvarður læknir Indriða kerlaug og fægði sár hans og er sagt að hann hafi ekki haft banvænleg sár. Menn bundu síðan um sárin eins og Þormóður Kolbrúnarskáld gerði þegar hann risti sundur línbrók sína og notaði til að stöðva blóðrás. Mestu skipti í lækningum að koma í veg fyrir að mönnum blæddi út enda er þess oft getið í sögunum að hetjuna mæddi blóðrás. Menn kunnu að binda þannig um sár að blæðingin stöðvaðist.

Alþýða manna hefur kunnað margs konar aðgerðir til að bæta heilsu sína eins og heit böð og að verma sig við eld. Grettir baðaði sig í lauginni að Reykjum eftir sundið úr Drangey enda var hann mjög þrekaður.

 

Verkfæri

Menn áttu ekki mörg verkfæri til lækninga. Í sögunum er getið um spennitöng og hnífa sem menn notuðu til að skera í sárin. Bæði í Eyrbyggjasögu og Fóstbræðrasögu er einmitt getið um lækna sem áttu og notuðu spennitöng við lækningar sínar. Lítið er fjallað um jurtir í sögunum. Þorgerður notar söl til að æsa upp þorstann hjá föður sínum svo að hann hætti við að svelta sig til bana. Læknirinn á Stiklastöðum notar lauk og önnur grös í greiningarskyni en ekki lækningaskyni. Í nokkrum sögum er getið um lækningamátt mjólkur, svo sem í Fóstbræðrasögu og Finnboga sögu ramma og fleiri sögum.

 

Helgir menn

Í biskupasögum er víða getið um jarteiknir eða kraftaverkalækningar þeirra Þorláks helga Þórhallssonar og Guðmundar góða Arasonar. Þar má finna margar lýsingar á ýmsum sjúkdómum eins og flogaveiki, augnsjúkdómum og kviðarholssjúkdómum. Lækningin er venjulega fólgin í áheiti á hinn helga biskup en er ekki lýst að öðru leyti. Þessar sögur sýna vel úrræðaleysi manna gagnvart öllum sjúkdómum sem ekki voru sýnilegir og áþreifanlegir.

 

Hrafn Sveinbjarnarson

Frægasti læknir sögualdar er Hrafn Sveinbjarnarson sem getið er um í Sturlungu. Í frásögnum um Hrafn eru áhrif Hippókratesar-læknisfræðinnar mjög áberandi. Hann læknar hugarvíl konu með því að taka úr henni blóð eins og alsiða var í fjórvessakenningunni.

Lækningar í Íslendingasögum eru stundaðar af alþýðufólki sem studdist ekki við annan lærdóm en þjóðtrú og eigið hyggjuvit. Miklum sögum fer af mörgum þessara lækna en þeir eru sjaldnast aðalpersónur sagnanna. Undantekning frá þeirri reglu er Snorri goði í Eyrbyggjasögu. Þessir læknar eru fyrst og síðast sára- eða bráðalæknar og geta búið um sár, greint umfang þeirra og stillt blóðrás.

Þegar kom að öðrum sjúkdómum skorti menn þekkingu og leita frekar til trúarinnar og heita á helga menn. Þetta er sérlega áberandi í lækningum Snorra goða í Eyrbyggju. Hann meðhöndlar sár og meiðsli af öryggi en gagnvart farsóttinni í Fróðárundrum beitir hann yfirnáttúrulegum aðferðum kristninnar.

 

Helstu heimildir

1. Íslendingasögur.
 
2. Samúelsson S. Sjúkdómar og banamein íslenskra fornmanna. Háskólaútgáfan, Reykjavík 1998.  


Þetta vefsvæði byggir á Eplica