10. tbl. 104. árg. 2018

Fræðigrein

ÚR LÆKNABLAÐINU 1919: Inflúensan fyrrum og nú

Þórður Thoroddsen (1856-1939) var sonur Jóns Thoroddsen sýslumanns og skálds í Haga á Barðaströnd. Hann var læknir í Reykjavík, prófdómari í Læknaskólann, þingmaður um skeið og gjaldkeri í Íslandsbanka.

Þórður skrifaði þessa grundvallarúttekt á inflúensum og spænsku veikinni sjálfri í Læknablaðið 1919 og var greinin birt í þremur hlutum. Að mestu eftir erindi fluttu í Læknafél. Rvíkur 12. jan. 1919.

Hún er nú birt að nýju 100 árum eftir að spænska veikin lagðist yfir land og þjóð haustið 1918 ásamt annarri óáran.

Greinin er í einu lagi og með myndum sem tengjast efninu. Stafsetningu hefur lítillega verið breytt og samræmd.

                                   

Um landfarsóttir á Íslandi hefir lítið verið ritað. Það er alt órannsakað mál að mestu. Jón Þorsteinsson* landlæknir og PA Schleisner** hafa ritað yfirlit yfir landfarsóttir, sem gengið hafa á Íslandi frá elstu tímum, Jón Þorsteinsson fram að árinu 1834, en Schleisner fram að 1845. Hafa þeir stuðst við ýmsa íslenska annála, einkum Espólíns árbækur, annál Björns á Skarðsá, ritgerð Hannesar Finnssonar biskups „um mannfækkun af hallærum á Íslandi“, íslensk sagnablöð, og fleiri rit, svo og ársskýrslur lækna, það sem þær ná. Yfirlit þetta er góð undirstaða fyrir þá, er síðar kynnu að vilja rannsaka landfarsóttarsögu landsins, en er eðlilega mjög ónógt og ófullkomið, sérstaklega að því er fyrri aldir snertir.

                                                
                                  Jón Þorsteinsson (1794-1855)                         Jón Hjaltalín (1807-1882) landlæknir,
                                  landlæknir á Seltjarnarnesi.                           forstöðumaður Læknaskólans.

 

Að því er inflúensu-sóttir snertir, er lítið á þessum ritum að græða. En það virðist engum efa undir orpið, að inflúensa hefir geisað hér á landi oft og tíðum á fyrri öldum, þó að sögur fari ekki af; því að það þykjast fræðimenn vita, að inflúensa er æfagömul sótt í heiminum. Víða í annálum er þess getið, að sóttir eða landfarsóttir, taksóttir eða þess konar, hafi gengið um landið, án þess nánar sé tilgreint hvers kyns þær sóttir hafi verið, og er ekkert efamál, að undir þeim nöfnum felast ýmsar sóttir, er vér nú vitum deili á, og þar á meðal inflúensa.

                                                  
                                    Schleisner (1818-1900). Dvaldi                         Árni Jónsson (1851-1897),
                                    hérlendis 1847-48 að rannsaka                       héraðslæknir héraðslæknir í
                                    heilsufar landsmanna.
                                      Skagafirði og síðan á Vopnafirði
                                                                                                                 frá 1892.
                                                                                                           

Schleisner segir í bók sinni, að telja megi víst, að inflúensa hafi fram að 1845 gengið sem almenn farsótt 6 sinnum yfir alt landið, svo að sögur fari af, og 7 sinnum yfir nokkra hluta þess. Segir hann, að sóttin hafi gengið hér á landi í fyrsta sinn árið 1706.

Jón Hjaltalín landlæknir hefir ritað um inflúensu-sóttir á Íslandi, sérstaklega um sótt þá, er gekk 1862, í Edinb. medic. Journal 1863. Telur hann, að inflúensa hafi fyrst gengið hér á landi árið 1627. En það er efasamt, hvort sótt sú, er þá gekk, hefir verið inflúensa. Í annálum stendur, að „landfarsótt“ hafi þá gengið á Norðurlandi og margir dáið. Sótt, sem aðeins heldur sér við part af landinu, getur naumast hafa verið inflúensa, enda telur Jón Þorsteinsson landlæknir í ritgerð sinni sótt þessa hafa verið „febris nevrosa maligna“.

                                        
                                        Botnía var farþega- og flutningaskip sem lengi þjónaði Íslendingum.
                                        Myndina tók Magnús Ólafsson af skipinu fánum prýddu í Reykjavíkurhöfn
                                        í kringum árið 1910. Birt með leyfi Ljósmyndasafns Reykjavíkur.

Hirsch telur í hinni stóru handbók sinni um landfarsóttir enga sönnun færða fyrir því, að inflúensa hafi gengið á Íslandi fyr en árið 1730. Sótt, er þá gekk um landið, byrjaði á Suðurlandi og færðist norður og austur. Inflúensa gekk þá sem alheims-sótt um alla Norðurálfu, og því líklegt, að hún hafi borist hingað þetta umrædda ár.

                                   
                                   Magnús Ólafsson tók myndina um 1918-1919 í rúgbrauðsgerðinni í
                                   Gasstöðinni við Hlemm. Þrír bakarar stilla sér upp: Þorgils Guðmundsson,
                                   Kristinn E. Magnússon og Kristján Hall. - Birt með leyfi Ljósmyndasafns
                                   Reykjavíkur.

En, eins og eg áður hefi tekið fram, eru öll líkindi til, að inflúensa hafi gengið miklu fyrr hér á landi, enda má af frásögnum ýmsra annála, bæði útlendra og innlendra, ráða, að svo hafi verið. Þannig má lesa í annálum um árið 1388: „Þá fór kynjasótt um landið og dóu margir“. Árið áður, 1387, gekk inflúensa um alla Norðurálfuna og sérstaklega er þess getið að hún hafi gengið í Hamborg og Lübeck*** það árið og er ekkert líklegra, en að sóttin hafi borist til Íslands frá þeim borgum, því að mikil mök höfðu Íslendingar við þá staði í þann tíð, svo sem kunnugt er. Það er og sannreynt, að sóttir, sem gengið hafa á meginlandi Norðurálfunnar á fyrri öldum, hafa ekki borist til Íslands fyr en árið eftir. Hinar strjálu samgöngur hafa verið þess valdandi.

Þá stendur í Espólíns árbókum við árið 1537 (III. 114): „Gekk kvefsótt mikil og dóu margir.“ Líklegt er, að það hafi verið inflúensa.

Loks er þess getið um árið 1580 í annálum að hér hafi gengið sótt um landið, sem kölluð var „engingar-sótt“ og dóu margir úr henni.

Schleisner segir, að inflúensa hafi þá víða gengið í útlöndum, en íslenska nafnið bendi á, að það geti ekki hafa verið sú veiki. Telur hann líklegra, að það hafi verið „Kriebel-krankheit“ (ergotismus). En að mínu áliti hefir það einmitt verið inflúensa. Þetta ár fór inflúensu-pandemi yfir alla Norðurálfu, Austurlönd og Suðurálfu. Er hennar fyrst getið á Sikiley og kölluð Lues epidemica, komst í júlí til Ítalíu, þaðan til Frakklands og Spánar. Í september var hún komin um alt Þýskaland, Holstein og Danmörk, og þaðan fluttist hún til Svíþjóðar og austur á bóginn til Rússlands. Er ekkert eðlilegra, en að hún hafi borist hingað til lands líka.

Sótt þessi var „en catarrhus eller Fluss, der faldt paa Brystet med Feber, som bragte mange i Graven.“* - Hún var af almenningi í hertogadæmunum dönsku kölluð spanska veikin („Spanske Sip“ eða „Tip“), og er sagt, að margir, jafnt ungir sem gamlir, hafi dáið úr henni. Á einum stað dóu t.d. 3000 manns úr henni, og var það  3. hluti allra íbúanna. Í Stokkhólmi og Uppsölum var sóttin svo mögnuð, að loka varð háskólunum.

Alt þetta virðist benda á, að inflúensa hafi gengið hér á landi snemma á öldum.

Á 19. öldinni fara að verða greinilegri fregnir um inflúensu-sóttirnar, einkum síðan læknar fóru að gefa skýrslur um heilsufarið í héruðunum. Galli er samt á, að allar skýrslur lækna eru glataðar fram að árinu 1835, og eftir þann tíma og alt til aldamóta vantar skýrslur úr fleiri eða færri héruðum, flest árin.

Fram að 1845 telur Schleisner, að inflúensa hafi gengið 9 sinnum á 19. öld, árin 1805, 16, 19, 21, 34, 42, 43 og 45. – Hjaltalín nefnir ekki inflúensu 1819, 21, 38, 42 og 45, en getur aftur um inflúensu 1825.

Í yfirliti yfir manndauða á Íslandi, sem Guðm. Hannesson prófessor hefir birt í aprílblaði Læknablaðsins 1917, og er að mestu tekið eftir ritgerð Páls Briems í Lögfræðingi, en aukið af Guðmundi prófessor, er inflúensu-sóttar oft getið á öldinni, að því er mér telst 26 sinnum.

Það er víst óhætt að fullyrða, að hér hefir ekki verið um reglulega inflúensu að ræða altaf; svona tíð hefir hún alls ekki verið. Oft og tíðum hefir verið blandað saman inflúensu og almennum kvefsóttum, sem oft ganga hér um alt land, eru næmar og líkjast að mörgu reglulegri inflúensu, en eru alt annars eðlis. Aðalmunurinn er sá, að inflúensa er útlend sótt, alt af innflutt, gangi hún hér sem landfarsótt; kvefsóttin innlend að eðli og uppruna. Inflúensan fer eins og logi yfir akur, séu engar hömlur lagðar fyrir hana er hún búin að ljúka sér af um alt landið eftir 1-2 mánuði. Oftast kemur hún á vorin eða fyrri part sumars, er bundin við samgöngur við útlönd og skiftir sér ekkert um veður né vind. Kvefsóttin er lengur á ferðinni um landið og fer oft ekki nema um nokkurn hluta þess; heldur sér helst við haust og vor og er miklu meir undirorpin veðrabrigðum. – Báðir eru illir gestir hjá hinni íslensku þjóð, inflúensan þó verri. –

Að öllu athuguðu virðist mér ekki geta verið að ræða um inflúensu nema 12 sinnum á 19. öldinni: 1804, 1816, 1825, 1834, 1843, 1855, 1862, 1864, 1866, 1890, 1894, 1900.

Um inflúensusóttirnar framan af 19. öldinni, fram að 1844, hefir Schleisner getið í bók sinni. Sleppi eg því að minnast á þær, enda eru allar skýrslur lækna fyrir þau árin glataðar. Sóttirnar eftir þann tíma, frá 1855-1900, hefi eg kynt mér nokkuð og skal nú stuttlega skýra frá þeim.

 

Inflúensan 1855

Hún byrjaði á Norðurlandi, að öllum líkindum á Akureyri, í júnímánuði. Hefir borist þangað með skipum, enda var inflúensa þá alment útbreidd um alla Norðurálfu. Héraðslæknirinn á Akureyri, Eggert Jónsson, lagðist í sóttinni og dó, og eru því engar fregnir um, hvernig sóttin hefir hagað sér þar. – Í miðjum júlí er hún komin um alt Hérað austur, að því er Gísli Hjálmarsson segir, og um sama leyti vestur í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslur. Seinni part júlímánaðar er hún komin til Reykjavíkur, eða 3 vikum eftir að hún kom í land á Eyjafirði, og um sama leyti austur um Árness- og Rangárvallasýslur. Á Vesturlandi kemur hún í byrjun ágústmánaðar. – Hún virðist vera um garð gengin alstaðar á landinu í ágústlok eða byrjun september, rúmum 2 mánuðum eftir að hún kom á land.

Sótt þessi virðist hafa verið væg og fátt dáið nema gamalt fólk og brjóstveikt. Hjaltalín telur, að ekki hafi dáið yfir 300 manns á öllu landinu af sóttinni, eða tæpt ½% allra landsbúa, og er það sennilegt.

Sóttin tók alla jafnt, unga sem gamla; þyngst lagðist hún á gamalt fólk, vægast á börn yngri en 16 ára. – Helstu einkenni voru: Hiti, höfuðverkur, hósti með særindum fyrir brjósti, þyngsli og tök hér og hvar um brjóstið, að aftan og framan, augnverkir, hlustarverkur. Hósti var oft ákafur og uppgangurinn rauðlitaður. Sumir fengu uppköst, aðrir magaverki og niðurgang. Sumir voru svefnlausir, aðrir láu í móki. Oft var útgangur úr eyrum. Máttleysi mikið á eftir og niðurgangur tíður. Sóttin lagðist misþungt á, sumir lasnir í 3 daga, sumir lágu 3 vikur eða lengur. Lengi á eftir voru margir óvinnufærir.

 

Inflúensan 1862

byrjaði í Reykjavík í maímánuði, og viku eftir að hennar varð vart, er hún komin um alla Reykjavík, nágrennið og suður með sjó. Berst svo með lokamönnum austur í sýslur, upp í Borgarfjörð og norður í land með svo miklum hraða, að segja má, að 14 dögum eftir að hún byrjaði er hún komin nálega um alt land.

Sótt þessi virðist hafa verið mjög illkynjuð og oft hafa fylgt henni lungnabólgur. Einkum voru það þó gamalt fólk og börn sem dóu. – Jón Finsen, héraðslæknir á Akureyri, safnaði skýrslum úr sínu héraði, Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, um dauðsföllin af sóttinni. Í Eyjafjarðarsýslu höfðu dáið 48 karlar og 70 konur, 118 manns alls, af 4479 íbúum. Verður það 2,6%. – Í Þingeyjarsýslu dóu 52 karlar og 71 kona, 123 manns alls, af 5462 íbúum. Verður það 2,4%. – Mestur var dauðinn á ungbörnum á 1 ári, í þessum sýslum. Það dóu 48 börn af 258, eða hér um bil 6. hvert barn (1860/00); þar næst á fólk yfir 60 ára, 95 af 986, eða hér um bil 10. hver (9,6%). – Léttust var veikin á aldrinum 5-40 ára.

Sóttin kom mjög misjafnt niður á héruðunum, var vægari í sumum en skæð í sumum. Í einu prestakalli Eyjafjarðarsýslu, Hvanneyrarprestakalli, dó t.a.m. 6,3% af öllum íbúum, í Saurbæjarprestakalli í sömu sýslu aftur á móti ekki nema 70/00.

Hjaltalín lýsir sótt þessari svo, að vanalega hafi hún byrjað með kuldatilfinningu í bakinu og á milli herðanna, svo hafi komið hiti, máttleysi og nokkur höfuðverkur. Allir kvörtuðu um sárindi í hálsi og þrengsli fyrir brjóstinu; mikið rensli hafi verið úr nefinu, miklir hnerrar, blóðnasir og harður og þurr hósti. Uppgangur var fyrst glær vökvi, síðar slímkendur. Andþrengsli urðu oft svo mikil að varirnar blánuðu. Andardrátturinn var tíður og stuttur. Alment einkenni hjá þeim, sem þyngst voru haldnir, var mikil ,,mental depression'', sem oft varð að ,,apathiu'', einkum hjá eldra fólki. Sumir þjáðust af svefnleysi, sem mest stafaði af hóstanum og andþrengslunum. Sóttinni fylgdu oft ýmiskonar taugaverkir: lumbago, otalgia, odontalgia, neuralgia intercostalis, hemicranias og neuralgia facialis. Blóðsókn (hyperæmia) mikil var að öllum slímhimnum líkamans, lungnanna, magans og enda þvagfæranna í hinum þyngri tilfellum. – Dauðratalan í sumum sóknum á landinu hafi verið mjög há, 4-6%. Í Reykjavíkursókn hafi ekki dáið meira en 1% af íbúunum, en sóttin hafi gripið meira kvenmenn en karlmenn, hafi og meira dáið af kvenmönnunum. Börn 1-2 ára hafi verið verst farin, svo gamalt fólk, enda hafi miklu meira dáið af þeim en miðaldra mönnum.

Í júlímánuði virðist sóttin hafa verið um garð gengin alstaðar á landinu, og hafði þá geisað um í 2 mánuði. Gerði hún mikið tjón um alt land. Hver áhrif hún hefir haft, má sjá af því, að þetta ár dóu á öllu landinu 2874 manns. Meðaltalið af þeim sem dóu á mánuði, þá mánuði sem inflúensan ekki gekk, var 136. En í maí dóu 242. Þ.e. 106 fram yfir meðaltalið; í júní 1053, eða 917 fram yfir meðaltalið og í júlí 346, eða 210 fram yfir meðaltalið. Dáið hafa því alls á landinu þessa 3 mánuði, sem inflúensan gekk, 1233 fleiri menn en við mátti búast eftir meðaltali hinna mánaðanna, og eru þá ótaldir þeir, sem síðar hafa dáið af hinum og þessum afleiðingum sóttarinnar.

 

Inflúensan 1864

byrjaði í Reykjavík í lok júnímánaðar. Í sama mánuði er hún komin austur um allar sveitir og í byrjun júlímánaðar til Vestmannaeyja. Um miðjan júlí er hún komin norður í land, í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslur. Frá Húnavatnssýslu barst hún til Ísafjarðar nær samstundis og svo um alt Vesturland. – Um miðjan ágúst var hún alstaðar um garð gengin. – Lind, héraðslæknir í Stykkishólmi, dó úr þessari sótt.

Sótt þessi var væg, miklu vægari en sóttin 1862. Nálega allir kendu hennar, en gátu margir verið á fótum, flestir lágu í 2-14 daga. Einkennin voru hin vanalegu: kvef, höfuðverkur, hósti, fyrst þurr, seinna laus, matarólyst. Oft var hlustarverkur. Lungnabólga sjaldgæf; Jón Finsen sá 3 tilfelli hjá 121 sjúkling. Þorvaldur Jónsson á Ísafirði getur um 2 lungnabólgusjúklinga.

Fáir dóu úr sótt þessari. Af sjúklingum Finsens dóu 5, Skaptasens í Hnausum 2, en í Vestmannaeyjum hjá Magnúsi Stephensen dó enginn.

Hjaltalín vill ekki kalla þetta inflúensu, en segir það hafa verið ,,epidemisk katarrhalsk Bronchitis''. Það hefir þó víst ekki verið, en væg inflúensa, enda gekk hún þá víða í útlöndum.

 

Inflúensan 1866

byrjaði 10. maí í Reykjavík, og barst þegar eftir nokkra daga út um alt land, líklegast með vermönnum. Þannig er hún komin vestur í Stykkishólm, og til Ísafjarðar, norður í Húnavatnssýslu, austur í sýslur og til Vestmannaeyja seinni part maímánaðar. Eftir rúman mánuð var hún um garð gengin á öllum þessum stöðum, þó að á eftirköstum hennar bryddi víða fram eftir sumrinu. Til Eyjafjarðar kom hún ekki fyrr en í miðjum júní og þar hélst hún við fram í ágúst.

Sóttin var mjög illkynjuð, að því er læknar segja. Margir dóu, einkum þó gamalt fólk. Börn sluppu nálega alveg. Hjaltalín segir, að margir hafi dáið í Reykjavík*, og víða á landinu hafi dáið 4-6%; sumstaðar þó ekki meira en 1-2%. – Hjörtur Jónsson í Stykkishólmi segir, að í sumum sóknum í sínu umdæmi hafi dáið alt að 3%. –

Einkenni sóttarinnar voru: Mikill hiti með höfuðþyngslum, stundum óráð í byrjun, kvef, hósti, oft ákafur, brjóstþyngsli; hóstinn fyrst þur, seinna laus með miklum uppgangi, graftrarkendum, stundum gulleitum og var hann oft blóði blandinn. Oft fylgdu uppköst, einkum í byrjun sóttar, stundum niðurgangur. Svefninn órólegur, mókandi. Lungnabólga var mjög tíð, að því er læknar segja, og af henni dóu þeir sem dóu. – Batinn var langvarandi, mikið máttleysi, og voru menn lengi að ná sér. Almennur eftirsjúkdómur var langvinnur niðurgangur. Mörgum sló niður aftur.

Sótt þessi hlýtur að hafa verið mjög skæð, ef dæma skal eftir fjölda dáinna þetta árið. Reiknað á sama hátt og gert er hér að framan, við árið 1862, hafa af þessari sótt dáið um 1290 á öllu landinu. Eru það 19 af hverju þúsundi landsbúa. Árið 1862 dóu þó ekki nema 18 af hverju þúsundi og var sú sótt þó talin nægilega ill.

 

Inflúensan 1890

barst til landsins á þrem stöðum. Færeyingar komu með hana til Austfjarða (Seyðisfjarðar), að því er virðist um mánaðamótin apríl og maí. Þaðan breiðist hún út um Austurland, sunnan Seyðisfjarðar, er t.a.m. komin á Norðfjörð og inn í Skriðdal 6. maí. – Í annan stað bera Færeyingar sóttina til Vopnafjarðar seinast í maí og verður fyrsti maður veikur þar 1. júní. – Í þriðja lagi kemur inflúensan með póstskipinu ,,Laura'' til Vestmannaeyja 29. apríl og með sama skipi til Reykjavíkur. Frá Reykjavík berst hún svo um alt Suðurland, suður með sjó, austur í sýslur og upp í Borgarfjörð, og um miðjan júní með skipi vestur í Barðastrandarsýslu. Til Skaftafellssýslunnar barst hún frá Vestmannaeyjum. – Ey-firðingar fá sína inflúensu í afmælisgjöf. 20. júní var haldin hátíð á Oddeyri í minningu 1000 ára byggingu Eyjafjarðar, þangað komu eðlilega menn úr fjarlægum héruðum og einhverjir þeirra með inflúensu. Berst hún svo með gestunum út um allar sveitir nyrðra. Skip frá Eyjaf. bar hana til Ísafjarðar.

Einkennin voru hin vanalegu við inflúensu og fylgifiskarnir hinir sömu: hiti og höfuðverkur, hálsilta, barkakvef, lungnakvef og lungnabólga, mikill hósti, eyrnaverkur, með bólgu oft, uppköst, niðurgangur, magnleysi, sumir altaf sofandi eða í móki, aðrir með svefnleysi. Tök hingað og þangað í baki, brjósti, undir síðunum. Sérstaklega þjáðust menn af barkakvefinu, þó þeir að öðru leyti væru ekki þungt haldnir, vegna særindanna, sem fylgdu fyrir öllu brjósti. Óvanalega margir fengu rautt útþot um líkamann, stundum um hann allan, stundum aðeins á andlit, brjóst eða kvið. Það líktist stundum mislingaútþoti, stundum skarlatsroða, og oft fylgdi því kláði. Það hvarf eftir 2-3 daga og stundum sá maður smáhreistur á hörundi á eftir.

Sótt þessi var ekki mjög illkynjuð yfirleitt, en lagðist jafnt á unga sem gamla. Eins og venja er til um inflúensu, virðist hún og í þetta sinn hafa lagst mjög misjafnlega að. Á sumum heimilum lögðust allir mjög þungt haldnir. Á næstu bæjum kom hún varla við fólk. – Sumir læknar tala um, að hún hafi lagst mjög þungt á ungbörn og gamalmenni, og sum börn enda sloppið alveg við veikina. Aftur segja aðrir, að helst hafi dáið ungbörn og gamalmenni. Mín reynsla var sú, að sóttin lagðist þyngst á gamalmenni. Af 417 sjúklingum, sem mín var vitjað til, höfðu 51 lungnabólgu; voru 15 af þeim yfir 50 ára og dóu 13 af þeim.

Allir læknar tala um, að þeir sem dáið hafi, hafi dáið af lungnabólgu. En ef litið er til dauðsfallanna á landinu þetta árið, er ljóst, að sóttin hefir verið ólíku vægari en sóttir þær, sem á undan höfðu gengið. – Í júní- og júlímánuðum, þegar inflúensan gekk, og vænta mátti dauðsfalla af henni, dóu 286 manns fleiri en sömu mánuðina árinu á undan, en það ár gekk engin sótt. Gera má því ráð fyrir, að hún hafi ekki orðið fleirum að bana. Eru það tæpir 5 af hverju þúsundi landsbúa. – Og þegar litið er á aldur dáinna þessa mánuði, árin 1889 og 1890, kemur það í ljós, að börn á 1. ári hafa árið 1890 dáið 42 fleiri en árið 1889 og eldra fólk en 40 ára 197 fleiri árið 1890, í júní og júlímánuðum. Þetta virðist benda á, að aðallega hafi það verið börn og gamalmenni, sem dáið hafa, meira þó af eldra fólkinu.

Á þungaðar konur lagðist sóttin mjög þungt. Zeuthen læknir getur um, að 2 konur hafi mist fangs í sínu héraði, 1 kona hafi fætt fyrir tímann og 3 þungaðar konur hafi dáið úr lungnabólgu. Í mínu héraði mistu 5 konur fangs og 2 þungaðar dóu úr lungnabólgu.

                                    
                                      Kort af Reykjavík 1920, Egill Hallgrímsson teiknaði. Varðveitt á
                                     Borgarsögusafni/Árbæjarsafni.

Inflúensan 1894

barst til Seyðisfjarðar með norska gufuskipinu ,,Waagen‘‘ um 20. janúar. – Sóttin breiddist skjótt út um Seyðisfjarðarhérað, enda var engum vörnum beitt. Hélt svo suður á bóginn til Eskifjarðar skömmu síðar og um alla firði sunnan Seyðisfjarðar; þá vestur í Skaftafellssýslu í lok febrúar og um líkt leyti til Rangárvallasýslu; þar sýktist fyrsti maðurinn 1. mars. Barst svo um Árnessýslu og kom þaðan hingað til Reykjavíkur í byrjun marsmánaðar. Um miðjan mars komst hún suður með sjó inn í mitt umdæmi; byrjaði þar á ýmsum stöðum nálega sömu dagana; fluttist með mönnum úr Reykjavík. – Upp í Borgarfjörð komst sóttin síðast í mars. Í aprílmánuði flutti pósturinn hana norður í Snæfellsnessýslu og um sama leyti komst hún í Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslur. Til Húnavatnssýslu fluttist hún fyrst í maí og litlu seinna í Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslur. Eftir þetta langa ferðalag náði sóttin loks Norðurmúlasýslu í júnímánuði. – Til Vestmannaeyja fluttist hún með vermönnum í marsmánuði.

Að sóttin tók þessa leið frá Seyðisfirði, suður um land og hring-inn í kring vestur um, var því að kenna, að Árni Jónsson, héraðslæknir á Vopnafirði, bandaði við henni. – Þegar hann frétti, að sóttin væri komin á Seyðisfjörð, bannaði hann allar samgöngur við Seyðisfjarðarhérað og fékk fulltingi hreppstjóra til þess að sjá um, að banninu væri hlýtt. Tókust þessar varnir svo vel, að sóttin komst ekki inn í Vopnafjarðarhérað sunnan að. Þegar hún svo seinna var komin vestan að inn í Þingeyjarsýslu, vildi Árni læknir enn beita vörnum, setja vörð við Jökulsá á Fjöllum, en amtmaðurinn fyrir norðan vildi ekki samþykkja ráðstafanir þar að lútandi og var sóttin því látin leika lausum hala. Þó komst hún ekki um alt Vopnafjarðarhérað. 2 bygðarlög fylgdu þeim ráðstöfunum, sem áður höfðu gerðar verið og sluppu alveg. Auk þess vörðust 2 heimili og var annað þeirra í miðri sveit. Í héraði Árna voru það um 120 manns, sem þannig vörðust veikinni. Fullyrðir hann, að engin alvarleg tilraun til verjast veikinni, hafi mishepnast.

Allir læknar eru sammála um, að sóttin hafi verið að mun verri en sóttin 1890. Þjáningar sjúklinganna voru meiri og lungnabólgur voru mjög tíðar sumstaðar á landinu. Annars var það með þessa sótt eins og aðrar inflúensu-sóttir, að hún lagðist mjög misjafnt á, var væg sumstaðar en skæð á öðrum stöðum. – Lungnabólgur voru ýmist bronchopneumoníur eða croupösar. Aðrir algengir fylgikvillar voru angina, otitis og sumir læknar tala um nefritis. Sjúklingarnir voru lengi að ná sér, og oft kom það fyrir, að mönnum sló niður aftur. Þeir, sem einhverntíma áður höfðu kent blóðspýtings, fengu hann nú aftur, og læknar þykjast hafa orðið varir við, að brjóstveiki (phitsis) hafi ágerst eftir sóttina.

Í öllum héruðum er getið um, að margir hafi dáið úr lungnabólgunni, enda var hún illkynjuð. Þannig er þess getið, að í Múlasýslu hafi 20 dáið af 29, sem lungnabólgu fengu.

Í mínu héraði var sóttin illkynjaðri en sú, sem gekk 1890. Þó dóu ekki fleiri. Af 817 sjúklingum, sem til mín leituðu, voru 95 með lungnabólgu (11,6%), en þar af dóu ekki fleiri en 12 (1,5%) af öllum inflúensu-sjúklingum, 12,6% af lungnabólgusjúklingum. Árið 1890 voru 51 með lungnabólgu af 417 sjúklingum (12,2%), en 15 dóu (3,6%) af inflúensusjúklingunum, 29,8% af lungnabólgusjúklingunum.

Landlæknir álítur, að sóttin hafi orðið fleiri þúsundum í landinu að bana. Það er þó án efa of mælt.

Eins og áður er sagt, gekk inflúensan um landið mánuðina janúar-júlí. Alls hafa samkvæmt dánarskýrslum, dáið þessa mánuði 1446 manns. Verður það 207 manns að meðaltali á mánuði. Hina mánuði ársins – en þá gekk engin sótt – hafa dáið 77 manns að meðaltali á mánuði. Ættu því ekki fleiri að hafa dáið af völdum inflúensunnar en 7 x 130 = 910 manns. Verður það 12 af hverju þúsundi landsbúa.

                                     
                                      Hjarta bæjarins hefur tekið stakkaskiptum gegnum aldirnar en það er
                                      þó alltaf á sama stað! Á myndinni eru Reykjavíkurapótek, Íslandsbanki,
                                      Stjórnarráðið, Lækjargata og Lækjartorg, og á Stjórnarráðstúninu
                                      standa Jón Sigurðsson forseti og Kristján 9. Danakonungur með nýju
                                      stjórnarskrána frá 1874 í framréttri hendi.

Inflúensan 1900

fluttist til Ísafjarðar með skipi, sem kom frá Noregi síðasta janúar. Læknir varð hennar fyrst var 9. febrúar, en þá var hún komin um alt héraðið. Skipið, sem flutti sóttina, hélt alla leið til Akureyrar, en sýkti engan þar.

Í febrúarmánuði komst sóttin til Eskifjarðar, og í marsmánuði með póstinum til Fáskrúðsfjarðar og Berufjarðar, svo og vestur á bóginn til Austur-Skaftafellssýslu. Þorgrímur Þórðarson reyndi að stemma stigu fyrir henni með samgöngubanni, en það mistókst. Umrenningur stalst á milli bæja og bar hana. Þetta samgöngubann tafði þó nokkuð fyrir sóttinni, svo að hún komst ekki í Vestursýslurnar fyr en í maí. Þaðan barst hún alla Rangárvallasýslu og til Vestmannaeyja.

Norður á bóginn fluttist sóttin frá Seyðisfirði í mars með strandferðaskipinu ,,Skálholt‘‘, bæði til Vopnafjarðar, Húsavíkur, Akureyrar og yfirleitt til allra hafna, sem skipið kom á, seinast til Reykjavíkur. Þangað kom hún í maí. Guðmundur Björnsson héraðslæknir segist hafa orðið var við fyrsta tilfellið 14. maí. 26-28. maí stóð sóttin hæst í Reykjavík; síðasta tilfellið kom fyrir 15. júní. – ,,Um miðbik sóttarinnar lá fólk í hrönnum. Veður var indælt en þó sáust ekki fleiri á ferli um miðjan dag, en ella gerist oft á vorum um miðja nótt; bærinn var sem auðn‘‘, segir hann í skýrslu sinni. Hann telur, að 90% af bæjarbúum hafi fengið sóttina.

Úr Reykjavík barst sóttin upp í Borgarfjörð, austur í Árnessýslu og suður með sjó. Í Keflavíkurhéraði kom fyrsta tilfellið fyrir 23. maí, í Garðinum. Var sóttin í umdæminu þann mánuð út og allan næsta.

Sótt þessi var yfir höfuð væg, og ekki mikið um lungnabólgur. Mín var leitað til 414 sjúklinga; voru 47 af þeim með lungnabólgu (38 bronchopnumóníur og 9 croupösar); dóu 12 af þeim. Guðm. Björnsson sá 509 sjúklinga, voru 52 með lungnabólgu og dóu 7. Alls telja læknar fram 4904 sjúklinga og segja 88 dána. Er það um 18 af þúsundi og má það ekki mikið kallast. Fleiri hafa auðvitað tekið sóttina, en lækna ekki til annara vitjað en þeirra, sem þyngst voru haldnir. – Sóttin virðist og lítil áhrif hafa haft á tölu dáinna þetta árið, lítið fleiri dáið en á sóttarlausum árum, og má því gera ráð fyrir, að ekki hafi dáið fleiri af hennar völdum en vanalega gerist í vægum inflúensu-sóttum, alt að 5 af þúsundi landsbúa eða 3-400 manns.

Þess má geta, að fleiri læknar á landinu en Þorgrímur Þórðarson reyndu að stemma stigu fyrir veikinni með samgöngubanni. Stefán Gíslason, læknir í Hróarstunguhéraði, reyndi að hepta hana eftir að hún var komin á 6 eða 8 bæi í héraðinu, og virtist það ætla að takast í fyrstu. En eftir ½ mánuð gaus hún upp aftur, hafði þá borist út með manni frá sýktu heimili, þar sem sóttinni hafði verið haldið leyndri. Gekk hún þá yfir mikinn hluta af því svæði, sem varið var. – ¼-1/5 héraðsins gat þó varist alveg.

Guðmundur Hannesson læknir á Akureyri, getur og um það í skýrslu sinni, að ýmsir bæir, bæði í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, hafi reynt að verjast veikinni og tekist það fyllilega með samgönguvarúð. Var þó gestum sint á bæjum þessum, kaffi og annar drykkur færður gestum út á hlað, uppbúin rúm og matur hafður í útihúsum handa næturgestum, og þess aðeins gætt, að heimafólkið hefði engin mök við gesti og gangandi. – Telur Guðmundur læknir það liggja í augum uppi, að verjast megi inflúensu, sem hefir svo örstuttan eyðingartíma, en til þess þurfi ,,samvinnu allra lækna landsins og eina skipun, sem allir hlýða.‘‘

                                          
                                           Líkfylgd í Reykjavík, myndina tók Sigfús Eymndsson 1882, - Kirkjustræti
                                           séð til austurs, Dómkirkjan og Alþingishúsið til hægri. Birt með leyfi
                                           Þjóðminjasafnsins.


Inflúensan 1918

eða ,,spanska veikin‘‘ svonefnda barst hingað fyrst til Reykjavíkur í júlímánuði. Hinn 9. kom íslenskur botnvörpungur frá Englandi. Eg var beðinn að koma út í skipið, og kom það í ljós, að 9 manns voru sjúkir af reglulegri inflúensu. Fleiri höfðu haft veikina á leiðinni frá Englandi, en var nú batnað. Allir voru þessir menn lítið veikir, en voru með talsverðum hita sumir, einn hafði rúm 40 stig. – Eg gerði þegar landlækni aðvart – héraðslæknirinn var veikur – en hann sá sér ekki fært að gera neinar sóttvarnarráðstafanir. – Um sama leyti kom annar botnvörpungur frá Englandi. Höfðu skipverjar verið lasnir á leiðinni, en einn var enn sjúkur og var hann fluttur á land til heimilis síns (Grettisgötu 30).

                                   
                                                 Magnús Ólafsson tók þessa mynd í anddyri Gamlabíós.

Eftir þetta fór að brydda á inflúensu hér og hvar í bænum í júlí, ágúst og september, og veikin var mjög væg á flestum, og hægt fór hún, tók óvíða nema mann og mann á stangli, einn eða tvo á heimili. Þó var það hjá þrem fjölskyldum, sem ég var sóttur til, að hún tók alla.

Að þetta var sama veikin og seinna barst hingað í októbermánuði, ber það atvik ljósan vott að mínu áliti, að enginn af þeim, sem veiktust um þetta leyti, fengu veikina þegar hún síðar komst í algleyming. Eg hefi gert mér far um að grenslast eftir þessu. – Á einu heimili t.a.m. fengu allir veikina í þetta eina sinn nema 1 piltur. Í seinna skiftið veiktist enginn nema þessi eini piltur. – Á öðru heimili lagðist enginn nema ein stúlka í fyrra skiftið, og varð mjög veik. Í seinna skiftið allir nema hún. – Á 3. heimilinu veiktist húsbóndinn sjálfur og 1 stúlka í fyrra skiftið. Í seinna skiftið sluppu þau, en konan, 2 börn og gamalmenni veiktust. – Í einu húsi eru 2 fjölskyldur. Í fyrra skiftið veiktust allir hjá annari fjölskyldunni nema 1 drengur, hjónin og 5 börn. Í seinna skiftið veiktist enginn hjá þessari fjölskyldunni nema drengurinn, og allir hjá hinni fjölskyldunni og urðu sumir þungt haldnir.

                                         
                                          Gosmökkurinn frá eldstöðinni Kötlu séður frá Reykjavík í október 1918.
                     

Hvort veikin hafi borist víðar að landinu um þetta leyti, er mér ókunnugt um. Allar skýrslur um það efni vantar og yfirleitt um gang þessa faraldurs hér á landi. Get ég því ekki annað um veikina sagt, en það, sem mér bar fyrir sjónir.

Aðalveikin barst hingað til Reykjavíkur, eins og kunnugt er, með ,,Botníu‘‘ 20. október. Eftir nokkra daga fer hún að breiðast út. Eg sá fyrsta sjúklinginn 28. október. Um sama leyti barst og sóttin hingað með íslenskum botnvörpung, sem kom til Hafnarfjarðar frá Englandi. Skipstjórinn er búsettur hér (í Bergstaðastræti) og var hann lasinn er hann kom heim og maður með honum. Á hans heimili var ég sóttur 29. október.

Eftir þetta fer sóttin að breiðast óðfluga út um bæinn og eftir viku má fullyrða, að hún sé komin um allan bæ. Ástæðan til þess hve fljótt sóttin breiddist út, er að mínu áliti sú, að vanrækt var að taka þá sjálfsögðu varúðarreglu þegar í byrjun sóttarinnar, að loka öllum almennum samkomustöðum. Margir, sem eg spurði um það, hvar þeir mundu hafa smitast, svöruðu mér á þá leið, að þeir gætu ekki hafa fengið veikina annarsstaðar en í ,,Bio‘‘. – Hæst stóð veikin dagana 10.-16. nóvember.

Eftir það fer hún smárénandi og um lok mánaðarins má segja, að hún sé um garð gengin, enda þótt maður og maður á stangli veikist fyrstu dagana af desember. Síðasta sjúkling sá eg 6. desember. Það, sem á eftir kom, voru annaðhvort recidiv eða eftirköst veikinnar, sem ekki eru horfin þann dag í dag.

Það hefði nú verið skemtilegt og fróðlegt, að geta athugað sótt þessa nákvæmlega og rita hjá sér hvernig hún hagaði sér bæði alment og á hverjum einstökum. En það var engin leið. Sérstaklega meðan sóttin stóð sem hæst, var enginn tími til nákvæmra athugana eða nokkurar bókfærslu svo í lagi væri. Þegar maður er önnum kafinn frá því kl. 6-7 á morgnana og fram til 2-3 á nóttunni, dag eftir dag, í sjúkravitjunum og allir kalla úr öllum áttum, gefst enginn tími til slíks, engin leið að fylgja nema örfáum sjúklingum alla leið á sjúkdómsbrautinni. Ekki einu sinni tími til að bókfæra alla þá sjúklinga, sem maður er kallaður til.

Eg gerði mér þó far um að rita hjá mér svo marga sjúklinga sem hægt var. Sérstaklega voru það þeir sem þyngst voru haldnir. Eru þannig bókfærðir hjá mér 1232 sjúklingar, og eru það aðallega þeir, sem eg gat nokkurn veginn stundað, komið til oftar en einu sinni. En til margra þessara sjúklinga gat eg ekki komið oftar en einu sinni, og voru þó sumir í byrjun veikinnar, sumir aftur í enda hennar.

Af þessum 1232 sjúklingum eru bókfærðir hjá mér dagana

28. okt. til 31. okt 13 sjúklingar
  1. nóv. til   5. nóv 146 -
  6.   - - 10.   - 329 -
11.   - - 15.   - 368 -
16.   - - 20.   - 195 -
21.   - - 25.   - 127 -
26.   - - 30.   - 46 -
  1. des. -   6. des. 8 -
                                     Samtals 1232 sjúklingarVirðist þetta yfirlit benda á, að sóttin hafi verið almennust í bænum dagana frá 6. nóv. til 16. nóv.

Af sjúklingunum voru 561 karlkyns og 671 kvenkyns. Bendir það á, að sóttin hafi lagst tiltölulega þyngra á konur en karla.

Aldur sjúklinganna var þessi:

      Karlar Konur Samtals
0 til   1 árs 15    8 23
1 10 ára 101 129  230
10 20  - 103 83 186
20 40  - 273 330 603
40 60  - 56 93 149
    Yfir 60 13 28 41
      561 671 1232

Þetta sýnir, að sóttin hefir lagst léttast á börn og gamalmenni, en þyngst á miðaldra fólk, og á þeim aldri þyngra á kvenfólkið en karlmennina.

Að því er dauðsföllin snertir, veit eg til að 77 af þessum 1232 sjúklingum hafa dáið. Verður það 63 af hverju þúsundi, í fyrsta áliti ótrúlega há tala, en við þetta er það athugandi, að eg hefi ekki bókfært nema þung sjúkdómstilfelli, öllum eða flestum léttum tilfellum er slept.

Aldur og kynferði hinna dánu var eins og hér segir:

    Karlar Konur Samtals
0 – 1 árs 3 2 5
1 – 10 ára  6  4 10
10 – 20 -  3 1 4
20 – 40 - 20 25 45
40 – 60 - 7 2  9
Yfir 60 - 2 2 4
    41 36 77

Kemur það hér fram, að flestir hafa dáið á besta aldrinum, 20-40 ára, enda var veikin þyngst á þeim aldri.

Að því er sjálfa veikina snertir, var hún mjög einkennileg og að mörgu leyti alt öðruvísi en þær inflúensu-sóttir, sem áður hafa gengið og eg hefi séð. Eg var alvanur við að sjá í fyrri sóttum barkakvef og hálsbólgur, lungnakvef og lungnabólgur, bæði bronco-pneumoníur og krúpösar, eyrnabólgur, taugaverki, uppköst og niðurgang, konur hafa misst fangs og sumir orðið hálf brjálaðir um tíma. En svo þungt lungnakvef, svo tíðar lungnabólgur sem í þessari sótt hefi eg aldrei séð. Og þessar blæðingar. Blóðið streymdi ekki aðeins úr nösum, stundum óstöðvandi, heldur og upp úr lungum, niður úr þörmum, upp úr maga og gegnum þvagrásina. Lungnabólgan kom þótt menn lægju kyrrir í rúmunum og gættu allrar varúðar. Og þótt lungnabólgan rénaði, fór hjartað að ólmast, hræðsla greip menn og kvíði, þyngsli komu og andarteppa, menn bólgnuðu í andliti, á höndum og fótum og köfnuðu að lokum. Og svo eftir alt saman urðu líkin helblá.

Þetta er það, sem gerði þessa inflúensa-sótt svo einkennilega og ægilegri en aðrar inflúensa-sóttir, sem eg hefi séð. Og að hér hafi verið um mikla septiska eitrun að ræða, samfara inflúensunni, tel eg efalaust. Blæðingarnar og hjartaveiklunin benda til þess.

Eins og kunnugt er, er inflúensan sjálf sem slík, sjaldnast banvænn sjúkdómur, nema hún þá hitti fyrir menn, sem eru að einhverju leyti sjúkir eða veiklaðir. – Í mörgum inflúenzu-sóttum hefir það verið rannsakað og dauðratalan af hreinni inflúenzu reynst = 0. Þó hafa Danir rannsakað þetta einhverntíma og þóst finna, að af 502 dauðsföllum eftir inflúensu hafi 46 verið hreinni inflúensu að kenna (9%). En einkanlega eru það fylgikvillarnir, sem dauða valda, en þeir eru orsakaðir af þeim bakteríum, sem eru í  för með inflúenzu-bakteríunni. Skæðasta bakterían í þeirri fylgd er vanalega pneumococcus og því eru lungnabólgur svo tíðar og valda flestum dauðsföllum. En þó er líka streptococcus skæð baktería, og mér virðist, að þessi mikla „hæmorrhagiska disposition“ og hjartaveiklun í þessari sótt benda til, að streptococcus hafi víða fengið yfirhöndina og að í mörgum tilfellum hafi um hreina streptococca-eitrun verið að ræða.

Eins og áður er sagt, voru lungnabólgur mjög tíðar. Eg gerði mér far um að athuga hvern sjúkling því viðvíkjandi, og kom það í ljós, að af þessum 1232 sjúklingum höfðu 292 lungnabólgu að meira eða minna leyti. Er það tæpur fjórði hver sjúklingur (23,7%). Geta hafa verið fleiri, og enda líklegt, því að marga sá eg ekki nema einu sinni, og geta þeir hafa fengið bólgur eftir það. Langflest voru lungnabólgutilfellin þegar sóttin stóð sem hæst.

Þjóðverjar segja, að gömul reynsla sér fyrir því, að lungnabólgu fái í inflúensu-sóttum vanalega 5-10% af öllum þeim, er sýkjast. Í sóttinni 1890 var það í Þýskalandi 6-8%, og seinni sóttir hafa gefið 10%. – Sumir telja lungnabólgur enn tíðari, 20-25% og enda 50%. En þá er ætíð um smáar tölur að ræða og ekki taldir aðrir en þeir, sem læknis er vitjað til eða eru lagðir á sjúkrahús. Af þeim t.a.m., sem árið 1890 voru lagðir á Friedrichshain sjúkrahús í Berlín höfðu 22% lungnabólgu, á sjúkrahús í Köln 24%. Kemur það heim við þá sjúklingatölu, sem nefnd er hér að framan. En lungnabólgan mun þó hafa verið tíðari hér, eins og áður er bent á.

Aldur og  kynferði lungnabólgusjúklinganna var svo sem hér segir:

    Karlar Konur Samtals
0 – 1 árs 5 3 8
1 – 10 ár 18 22 40
10 – 20 - 20 12 32
20 – 40 - 82 83 165
40 – 60 - 22 15  37
Yfir 60 - 4 6 10
    151 141 292

 Af þessu yfirliti má sjá, að meira en helmingur af lungnabólgusjúklingunum (56,5%) er fólk á aldrinum 20-40 ára, og er það enda meira en búast mátti við eftir sjúklingafjöldanum á þeim aldri, sem var tæpur helmingur (48,9%) allra sjúklinganna.

Eins og áður er um getið, dóu 77 af þessum mínum sjúklingum og höfðu þeir allir haft einhvern snert af lungnabólgu þegar eg skoðaði þá. Ekki svo að skilja, að þessir allir 77 hafi dáið af lungnabólgunni, því að eg veit til að 40 af þeim dóu af hinni „septisku infektion“, sem inflúensunni fylgdu, án þess að lungnabólgan út af fyrir sig væri banvæn. Auk þess voru 2 kvenmenn af þeim sem dóu með lungnatæring og dóu af henni, 1 með morbus cordis og 1 með febris typhoidea. Af sjálfri inflúensu-lunganbólgunni dóu því ekki fleiri en 33. - Aldur þeirra og kynferði var svo sem hér segir:

    Karlar Konur Samtals
0 – 1 árs 3 2 5
1 – 10 ára 6 4 10
10 – 20 -
20 – 40 - 10 3 13
40 – 60 - 3 3
Yfir 60 - 1 1 2
    23 10 33

Hrein inflúensa-lungnabólga hefir því orðið langtum fleiri karlmönnum en kvenmönnum að bana, og fleiri dáið af henni á barnsaldrinum en fullorðinsárunum. – Aftur á hinn bóginn hefir hin ,,septiska infektión´´ orðið fleiri kvenmönnum að bana og aldrei komið fyrir á barnsaldrinum, eins og sjá má af eftirfarandi yfirliti:

    Karlar Konur Samtals
10 til 20 ára 3 1 4
20 – 40 - 10 17 27
40 – 60 - 4 3 7
Yfir 60 - 1 1 2
    18 22 40

Samkvæmt þýskum skýrslum deyja vanalega af inflúensa- lungnabólgu 16-17% af þeim, sem hana fá, og er sagt, að í sumum sóttum hafi enda dáið alt að 26%. – Af mínum sjúklingum, sem lungnabólgu fengu, hafa dáið, eins og áður er sagt 77 af 292; það verður 26,3%. En séu þeir sjúklingar dregnir frá, sem dóu af öðrum orsökum en lungnabólgunni, verður dauðatalan ekki nema 11,3% af lungnabólgusjúklingunum, og er það ekki meira en það sem að jafnaði deyr úr vanalegri lungnabólgu.

Að því er eðli lungnabólgunnar snertir, þá var hún í öllum tilfellum hrein inflúensa-lungnabólga. Kroupösa lungnabólgu varð eg ekki var við, enda hafði optochin, sem eg reyndi við nokkra í byrjun, engin áhrif á lungnabólguna. Pleuritar voru tíðir með lungnabólgunni og ígerðir í lungum hjá nokkrum. Flestir hóstuðu greftrinum upp eftir skemmri eða lengri tíma. 3 af mínum sjúklingum varð að skera, til þess að ná í gröftinn.

Um aðrar komplíkatíonir verð eg að vera stuttorður, enda voru þær hinar sömu og vant er að vera við inflúensasóttir, en voru sumar mjög illkynjaðar, sem bar vott um, að hér var um þunga sótt að ræða. Þannig kom slæm parotitis fyrir, beggja megin, hjá sjúklingum, sem allir dóu, og mun það sjaldgæft í þessari sótt.

Á þungaðar konur, þær sem voru á fyrri helmingi meðgöngutímans, lagðist sótt þessi mjög þungt. Þær, sem voru komnar undir fæðingu, urðu aftur á móti tiltölulega miklu minna veikar. – Af mínum sjúklingum voru 27 konur þungaðar, og voru:

á 2.- 3. mánuði 5, þar af dóu  3
- 4.- 5. - 9, -     -     -    6
- 6.- 7. - 1, -     -     -    1
- 8.- 9. - 12 -     -     -    0

Dauðaorsökin var hjá öllum þessum konum ,,septisk infektion‘‘ samfara lungnabólgu. – Aðeins 1 kona, sem dó, fæddi fyrir tímann.

Margt fleira mætti án efa um þetta mál tala, en eg læt hér nú staðar numið. Aðeins vil eg minna á það, að þessi ,,spanska veiki‘‘ hér í bæ, hefir ekki verið skæðari en inflúenzu-sóttir oft áður, þegar þær hafa gengið yfir þetta land. – Eptir skýrslum, sem birst hafa, hafa hér í bæ dáið um 260 manns meðan inflúensan geisaði. Gera má ráð fyrir, að 20-30, segjum 25 hefðu dáið hér í bæ, þennan tíma, þó að inflúensan hefði ekki komið. Það eru þá 235 dauðsföll sem inflúensunni eru að kenna, eða sama sem tæpir 16 af hverju þúsundi bæjarbúa.

Schleisner telur, að árið 1843 hafi inflúensan drepið 1956 manns á öllu landinu. Það verða 34 af hverju þúsundi þálifandi landsbúa. Sóttin 1862 drepur 18 af hverju þúsundi og 1866 19 af hverju þúsundi, eins og áður er sagt, og nú síðast 1894 12 af hverju þúsundi. – Finsen skýrir frá því, að í sóttinni 1862 hafi dáið 15 af hverju þúsundi íbúa Akureyrar, líkt eins og hér nú, og það ár 63 af hverju þúsundi í Hvanneyrarprestakalli.

Ekki er þetta betra en nú. En það er blóðtaka fyrir hina íslensku þjóð, þetta. Það er ekki ofsagt, að inflúensu-sóttirnar á liðinni öld, hafa gert íslensku þjóðinni mestan skaða af öllum sóttum, sem gengið hafa yfir landið, bæði beinlínis og óbeinlínis, og staðið mest af öllum sóttum í vegi fyrir fólksfjölganinni.

Hjaltalín segir í skýrslu sinni til heilbrigðisráðsins 1866, að hann sé sannfærður um, að inflúensa-sóttirnar á 50 ára tímabilinu 1816-66 hafi drepið alt að 10 þús. manns á öllu landinu, og Jón Finsen telur þetta mjög nærri sanni í bók sinni um sjúkdóma á Íslandi. Ætla það sé þá ofsagt, að inflúensa-sóttirnar hafi orðið 15-20 þúsund manns að bana á allri 19. öldinni?

En þá ætti sú spurning að rísa upp hjá okkur læknunum, sem nú lifum, í byrjun 20. aldarinnar: Er ekki hægt að gera neitt til þess að varna því að inflúenza-sóttirnar útlendu geri Íslandi annað eins tjón eftirleiðis eins og þær gerðu á 19. öld?

Svarið hjá mér verður:

Það er auðvelt og það verður að gerast.

Saga íslensku inflúensa-sóttanna sýnir, að það er hægt að verjast sóttunum með samgöngubanni, ,,ef allir læknar og almenningur eru samtaka og allir hlýða einni skipun‘‘, svo að eg endurtaki orð Guðm. próf. Hannessonar.

Það eru einkanlega alheimsóttirnar, sem eru skæðastar og þeim þarf að verjast. Þegar fréttist um faraldur af slíkum sóttum í útlöndum, verður að sóttkvía hvert skip, sem kemur frá útlöndum, vissan tíma, meðan sóttin er í útlöndum. Sótt með svo stuttum eyðingartíma ætti að vera hægt að verjast. Það kostar mikið, en mannslífin kosta líka mikið fyrir þetta land, auk alls hins beina og óbeina kostnaðar, sem af sóttum leiðir. – Og ófriðarárin hafa sýnt oss, að við þolum sitt af hverju. Skipin, sem við höfum sent til Ameríku eftir matvörum, hafa orðið að liggja í amerískum höfnum aðgerðalaus langan tíma, og ekki höfum við soltið í hel fyrir það og ber ekki á öðru, en að vér höfum getað borið kostnað, er af því leiðir. Og hvers vegna skyldum vér þá ekki geta þolað sóttkvíun skipa stuttar stundir, til þess að verjast drepsóttum eitt ár eða svo?

En skilyrðið er, að stjórn heilbrigðismálanna sé vakandi, og að almenningur láti sér skiljast, að hér er um velferðarmál þjóðarinnar að ræða.

                                                  
                                                    Rithöfundurinn Sjón ræddi um bókina
Mánasteinn –
                                                    Drengurinn sem aldrei var til á Læknadögum 2018.

Rithöfundar samhliða læknum

Sjón nýtti fræðigreinar Þórðar Thoroddsen í Mánasteini

„Það sem mér fannst merkilegast við skrifin er hvað það hafði lítið verið fjallað um spænsku veikina í gegnum tíðina og áttaði mig á því að ég, eins og sjálfsagt aðrir, var með mjög óljósar hugmyndir um hvað hafði átt sér stað,“ segir rithöfundurinn Sjón sem studdist meðal annars við greinar Þórðar Thoroddsen við ritun bókarinnar Mánasteinn – Drengurinn sem aldrei var til. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki skáldverka fyrir hana árið 2013, hún hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál og Þjóðleikhúsið keypti nýverið réttinn til að setja hana á svið.

„Það kom mér mjög á óvart hvað þetta voru hryllilegir dagar og augljóslega mikið trauma fyrir bæjarbúa. Allir misstu einhvern og sennilega hefur fólk meðvitað eða ómeðvitað sameinast um að tala ekki of mikið um spænsku veikina. Þá spilar líka inn í að hún kemur á sama tíma og þjóðin verður fullvalda. Ég held að það hafi einnig haft sín áhrif. Fólk þurfti að minnast þess að þjóðin væri orðin fullvalda án þessara hörmunga.“

Sjón segir að hann hafi sí og æ rekist á sömu heimildirnar við undirbúninginn. „Ég þurfti að grafa aðeins dýpra og fann þá greinarnar í Læknablaðinu frá árinu 1919.“ Úttekt Þórðar er eina heildstæða heimildin í einhver sjötíu til áttatíu ár. Sjón lýsir því hvernig upplýsingarnar nýttust um leið og hann varð að leyfa sögunni að flæða. Einnig hvernig hann passaði sig á að horfa ekki á tímann með þeirri þekkingu sem við höfum í dag, heldur jafnhliða sögupersónunum.

„Við höfðum tíu lækna að sinna 10.000 sjúklingum og eina apótekinu var lokað vegna veikinda,“ segir hann. „Þetta væri viðlíka og 100.000 manns legðust fárveikir á næstu 6 til 7 dögum.“

Sjón segir að hann kjósi að vinna með heimildir við ritstörfin og þá skipti hann máli að fara rétt með. Hann hafi áður unnið með læknisfræði sér við hlið.

„Ég er með þá kenningu að ljóðskáld starfi samhliða náttúru- og líffræðingum, en skáldsagnahöfundar samhliða læknum. Það er svo margt í læknavísindum sem skýrir hvernig menn takast á við þessi fáu ár sem þeir fá á þessari jörð.“

                                      
                                       Myndin er af sjálfboðaliðum sem standa fyrir framan gamla
                                       Kennaraskólann við Laufásveg og eru til reiðu í Spænsku veikinni.
                                       Ljósmyndari óþekktur en myndin er varðveitt á Þjóðminjasafni og birt hér með
                                       leyfi safnsins.

                                                          

Úr frásögn Þorkels Jóhannessonar: Minning um spánsku veikina.

Stutt viðtal við Geir R. Tómasson tannlækni. Læknablaðið 2011; 97: 260.

„Geir ólst upp með einstæðri móður sinni, Kristínu Hansdóttur (1878-1971). Haustið 1918 bjuggu þau Geir og móðir hans í Pósthússtræti 6 að hann minnir. Þegar kom fram í nóvember og spánska veikin var í hámarki, lagðist móðir hans í veikina og var þungt haldin. Þótt Geir væri ekki nema á þriðja ári, er honum í lifandi minni hve móður hans leið illa og að hún missti mestallt hárið í veikinni. Læknir þeirra mæðgina var Matthías Einarsson (1879-1948). Geir man að Matthías kæmi heim til þeirra og léti flytja hann á barnaheimili sem komið hafði verið upp í Miðbæjarbarnaskólanum. Farið var með hann í stofu á annarri hæð hússins og var hann settur þar í rúm. Voru þar fyrir í rúmum mörg börn á hans reki, en eldri börn voru höfð annars staðar. Geir segir að mikill grátur og angist hafi fyrst verið í stofunni, en smám saman róaðist hópurinn og börnin fóru að leika sér. Þeim var færður matur í stofuna. Hann segist ekki hafa veikst og telur að hið sama hafi gilt um hin börnin. Geir man eftir að séra Jóhann Þorkelsson (1851-1944), dómkirkjuprestur, kæmi í heimsókn í stofuna og Matthías Einarsson hefði litið til hans. Hann segist ætíð hafa litið upp til Matthíasar og viljað verða læknir með hann að fyrirmynd, þótt það ætti raunar fyrir honum að liggja að verða tannlæknir. Dvölinni í Miðbæjarbarnaskólanum lauk svo þegar móðir hans var orðin heil heilsu á ný.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica