06. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Styrkir veittir úr sjóði Sigríðar Lárusdóttur
Það var bjart yfir styrkveitendum og styrkþegum þegar veitt var úr
sjóðnum. Þorvaldur Ingvarsson bæklunarlæknir, Engilbert Sigurðsson
forseti læknadeildar, Halldór Jónsson jr, María Sigurðardóttir,
Sigurbergur Kárason svæfingalæknir, Kristín Briem, Vigdís Pétursdóttir
meinafræðingur og Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands.
Mynd: Kristinn Ingvarsson.
Þrír styrkir voru nýlega veittir til rannsókna á sviði bæklunarlækninga með áherslu á stoðkerfissjúkdóma úr sjóði Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands. Styrkhafar eru Halldór Jónsson jr., prófessor og sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, Kristín Briem, prófessor við námsbraut í sjúkraþjálfun, og María Sigurðardóttir, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum Landspítala.
Rannsókn Halldórs Jónssonar jr. prófessors felst í að koma á fót klínísku matskerfi fyrir sjúklinga sem eru að fara í heildarmjaðmaliðaskipti. Markmið rannsóknarinnar er að þróa verklagsreglur til að styðja ákvörðun um tegund mjaðmagerviliðar.
Rannsókn Kristínar Briem, prófessors við námsbraut í sjúkraþjálfun, er hluti af stærri rannsókn sem snýr að nýgengi og orsakaþáttum ákveðinna alvarlegra hnémeiðsla og skurðaðgerðum í tengslum við þau meiðsli. Markmið rannsóknarinnar er að meta áhrif meiðslanna, skurðaðgerða og líkamsbyggingar á þróun slitgigtar í burðarliðum (hnjám og mjöðmum).
Rannsókn Maríu Sigurðardóttur, sérfræðings í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala, miðar að því að kanna áhrif langtímaundirbúnings og uppvinnslu sjúklinga sem bíða eftir liðskiptum á hné eða mjöðm, á aðgerðarferilinn og tíðni fylgikvilla. Rannsóknin er samvinnuverkefni Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Tilgangur Sjóðs Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands er að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga. Sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmarlið, svo sem ættgengi, tíðni og afleiðingum. Sjóðinn stofnaði Sigríður Lárusdóttir (f. 5. maí 1918) árið 2005 til minningar um þá sem hafa glímt við meðfædda sjúkdóma í mjöðm en Sigríður átti við þann sjúkdóm að stríða frá fæðingu.