06. tbl. 104. árg. 2018

Fræðigrein

Stjórnmálaþátttaka íslenskra lækna. Ólafur Þ. Harðarson

Íslenskir læknar hafa á stundum verið áberandi í íslensku stjórnmálalífi. Hér verður gerð grein fyrir setu lækna á Alþingi og í ráðherrastól. Þá verður fjallað um stjórnmálabombur sem læknar sendu Jónasi frá Hriflu. Loks verða tekin þrjú dæmi um lækna sem skiluðu merkilegu framlagi til íslenskra stjórnmála, ekki síst utan þings.                           

                

                   Snilldarteikning Tryggva Magnússonar á kápu 22. tölublaðs fjórða árgangs Spegilsins árið 1929
                   undir titlinum: Iatrophobia Jónasar. „Í læknablaðinu hefur Guðm. Hannesson getið sjúkdóms hjá Jónasi,
                   sem hann nefnir „Iatrophobia“. Meðan þetta var aðeins í læknablaðinu, gerði þetta ekkert til, því
                   enginn les læknablaðið, ekki einu sinni læknarnir sjálfir. En nú hefur Morgunblaðið tekið þessa ritsmíð
                   prófessorsins upp, og þar með komið henni út um allt land. Höfum vjer því ekki haft stundlegan frið síðan,
                   því alstaðar að af landinu drífa að fyrirspurnir um það, hvað þetta fjandans orð þýddi, og voru menn
                   órólegir mjög, sem von er, þar sem þetta snertir þjóðarinnar mesta mann. – Vjer snjerum oss því til
                   sjerfræðings Spegilsins í þesskonar sjúkdómum og fengum hjá honum eftirtalda skýringu, sem vjer
                   hjermeð flytjum lesendum vorum: „Iatrophobia þýðir læknishræðsla, og er nokkurskonar taugabilun,
                   sem að mestu kemur aðeins fyrir hjá smábörnum, en tæpast hjá fullorðnum nema þeir hafi gengið
                   með þessa bilun frá barnsaldri. Er bilunin þrálát og mjög vandfarið með sjúklinginn.““
                   Læknarnir sem skelfa Jónas: Helgi Tómasson geðlæknir, Guðmundur Thoroddsen kvensjúkdómalæknir,
                   Níels Dungal forstöðumaður rannsóknarstofu Háskóla Íslands í meinafræði, Guðmundur Hannesson
                   formaður Læknafélags Íslands og ritstjóri Læknablaðsins og Matthías Einarsson skurðlæknir frammi fyrir  
                   andstæðingi sínum, Hriflu-Jónasi dómsmálaráðherra. 

 Tæplega 30 þingmenn og einn ráðherra 1845-2018

Lausleg athugun á Alþingismannatali gefur til kynna að frá stofnun Alþingis 1845 hafi tæplega 30 læknar setið á þingi sem aðalmenn, en fáeinir til viðbótar hafa tekið sæti sem varamenn.1 Margir læknar hafa líka setið í sveitarstjórnum, sumir um árabil. Þá hafa ýmsir læknar tekið þátt í stjórnmálum með greinaskrifum og félagsstarfi – og sumir verið áberandi og áhrifamiklir.

Á 19. öld sátu innan við 10 læknar á þingi, ýmist konungkjörnir eða kjördæmakjörnir. Einn þessara lækna var Þórður Thoroddsen, sem reyndar sat fram yfir aldamót.

Fyrstu 8 áratugi 20. aldar (til 1978) voru tæplega 20 læknar kjörnir til þingsetu. Einn þeirra, Guðmundur Björnsson, var fyrst konungkjörinn en síðar landskjörinn. Meðal annarra í þessum hópi voru Alfreð Gíslason, Bjarni Snæbjörnsson, Guðmundur Hannesson, Jónas Kristjánsson, Katrín Thoroddsen og Vilmundur Jónsson. Síðustu 40 árin hafa einungis fjórir læknar verið kjörnir á þing í fyrsta sinn, þau Bragi Níelsson, Guðrún Agnarsdóttir, Katrín Fjeldsted og Ólafur Þór Gunnarsson, en Oddur Ólafsson sat á þingi 1971-79.

Flestir læknanna sátu stutt á þingi. Á 20. öld sátu einungis tveir meira en þrjú kjörtímabil, þeir Halldór Steinsen og Helgi Jónasson, sem varla teljast til stjórnmálaskörunga. Guðmundur Björnsson, Oddur Ólafsson, Magnús Pétursson og Vilmundur Jónsson sátu þrjú kjörtímabil. Aðrir sátu ýmist eitt eða tvö kjörtímabil, álíka margir í hvorum hópi.

Enginn þessara lækna gegndi formennsku í sínum flokki, en Guðrún Agnarsdóttir var forystukona og þingflokksformaður Samtaka um kvennalista. Hún er líka eini læknirinn sem hefur verið í kjöri til embættis forseta Íslands. Fæstir hinna voru meðal helstu forystumanna síns flokks, nema Vilmundur Jónsson.

Enginn þingmaður úr hópi lækna varð ráðherra. Eini læknirinn sem hefur gegnt ráðherraembætti er Jóhann Sæmundsson – sem var félagsmálaráðherra í utanþingsstjórninni 1942-44. Hann sagði reyndar af sér ráðherradómi 1943 vegna óánægju með afstöðu og aðgerðaleysi Alþingis gagnvart verðbólgunni.2 Jóhann var ekki kjörinn þingmaður.

Eftir að hinir fjórir hefðbundnu flokkar í íslenska stjórnmálakerfinu komu til á árunum 1916-30 hafa flestir læknar setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokk, 6 talsins. Þrír hafa setið fyrir Sósíal-istaflokk, Alþýðubandalag eða Vinstri græn, tveir fyrir Alþýðuflokk, einn fyrir Framsóknarflokk og einn fyrir Kvennalista.

Læknar varpa „stóru bombu“

Jónas Jónsson frá Hriflu varð dómsmálaráðherra 1927. Undir hann heyrðu heilbrigðismál. Fljótt kastaðist mjög í kekki milli Jónasar og lækna. Jónas hafði afskipti af ýmsum einstökum heilbrigðismálum og var sakaður um að stjórna að geðþótta og hefna sín á læknum sem honum væri illa við. En harðastar urðu deilurnar um það hvernig Jónas skipaði lækna í stöður.

Jónas var almennt herskár í embættaveitingum, skipaði gjarnan unga menn með „hreinar hugsanir“ í stöður en gekk fram hjá reyndari mönnum sem hann taldi part af spilltri elítu. 1928 skipaði Jónas tvo unga lækna í stöður í trássi við stjórn Læknafélags Íslands. Annar þeirra var Kristján Sveinsson, þá 29 ára, en honum höfðu borist undirskriftalistar úr Dalasýslu með áskorun um að sækja um héraðið. Reyndur héraðslæknir sótti líka, Kristmundur Guðjónsson, þá 38 ára, en hann var heilsuveill og andaðist fáeinum dögum eftir að Kristján var skipaður. Guðmundur Hannesson sagði í minningargrein um Kristmund í Læknablaðinu: „Þótti honum sem allt mundi breytast til batnaðar, ef hann fengi Dalahérað sem hann sótti um nýlega. Þessi von hefur brugðist honum rétt áður en hann dó, og það tel ég sennilegast að hafi verið sú raunverulega causa mortis [þ.e. dánarorsök] … En Dalirnir verða veittir eftir nýju reglunni, áskorendasmölun og því sem vænlegast þykir fyrir flokksfylgi stjórnarinnar.“3

1929 samþykkti aðalfundur Læknafélags Íslands að félagsmenn væru skyldugir til þess að senda allar umsóknir um stöður og embætti til sérstakrar nefndar félagsins. Félagsmönnum var jafnframt bannað að taka við setningu í embætti eða þiggja styrki til starfa nema með skriflegu samþykki nefndarinnar. Væri út af brugðið skyldi viðkomandi „rækur úr Læknafélagi Íslands“.3

Um haustið losnaði Keflavíkurhérað, sem var eftirsótt. 18 læknar sendu umsóknir til nefndar LÍ. Nefndin ákvað að senda einungis eina þessara umsókna til veitingavaldsins, frá Jónasi Kristjánssyni sem þá var þingmaður Sjálfstæðisflokks og hafði átt í hatrömmum deilum við ráðherrann á þingi 1927 og „þá látið að því liggja að nafni hans frá Hriflu væri geðveikur“.

Sigvaldi Kaldalóns, tónskáld og héraðslæknir í Flatey, var um þessar mundir sér til hvíldar og hressingar í Kaupmannahöfn og hafði ekki sótt um. En Jónas tilnefndi Sigvalda að honum forspurðum og staðfesti konungur skipunina. Hófst nú hatrömm og illvíg barátta um sál Sigvalda milli læknanefndarinnar og ráðherrans – og veitti ýmsum betur. En á endanum þáði Sigvaldi stöðuna – og var rekinn úr Læknafélagi Íslands.3

Jónas frá Hriflu efldi mjög fyrirgreiðslupólitík á Íslandi, en hún hafði reyndar orðið sterk strax með heimastjórninni 1904. Hann var rætinn í skrifum (eins og fleiri á þeirri tíð), oft yfirspenntur og hellti sér yfir menn af litlu tilefni. Morgunblaðið gat sér þess til árið 1929 að ráðherrann (sem drakk ekki vín) notaði eiturmeðöl. Kviksögur gengu um að Jónas væri geðveikur.3

Læknirinn Jónas Kristjánsson sagði í þingræðu 1930: „ … en ég ætla að segja þessi vitskerti maður. Jú, hann ofsækir í stað þess að vernda, hann ákærir í stað þess að rannsaka … Þannig hefir hann ofsótt bæði einstaklinga og heilar stéttir … Hann hefir í hótunum við menn um að reka þá frá embættum ef þeir gera þetta og hitt sem honum er ekki að skapi … Í greinum … gefur hann sjálfum sér svo greinilegt brjálsemisvottorð að slíkt tekur engu tali. Þar kemur fram hans sjúka sálarástand mjög greinilega, ofsóknar-ástríðan og hatrið.“3

Guðjón Friðriksson telur að eftir áramótin 1930 hafi stjórn Læknafélagsins, helstu geðlæknar landsins og prófessorar í læknisfræði við HÍ komist að þeirri niðurstöðu að Jónas „væri geðveikur og það þyrfti að koma honum úr ráðherrastól hvað sem það kostaði“.3 Pólitískir andstæðingar Jónasar og sumir samherjar hans voru sama sinnis. 19. febrúar 1930 gekk Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, á fund Jónasar á heimili hans og tjáði honum þann grun sinn að ráðherrann væri geðveikur. Jónas brást við með því að rita fáeinum dögum síðar eina frægustu grein í stjórnmálasögu Íslendinga, Stóru bombuna. Þar lýsti hann heimsókn geðlæknisins – og lét engan eiga neitt hjá sér. Jónas sýndi pólitísk klókindi með því að skýra sjálfur frá málinu – með sínum hætti. Sennilega styrkti málið hann í embætti. Og Hriflu-Jónas rak svo Helga Tómasson frá Kleppi og var talinn hafa komið í veg fyrir að Helgi fengi stöðu í Danmörku.3

                                

                                    Guðmundur Hannesson

                                                                                       

                                            
                                            Guðmundur Hannesson bjó í húsinu á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu
                                           sem hann hannaði og byggði  sjálfur. Í kjallara hússins var lengi
                                            Röntgenstofa Gunnlaugs Claessen og í viðbyggingunni var læknastofa
                                            Hannesar sonar Guðmundar. Í öllu húsinu eru nú seldar veitingar og í
                                            viðbyggingunni er Michelin-stjörnustaðurinn Dill.

Guðmundur Hannesson, prófessor og landlæknir, sat á þingi fyrir Húnvetninga 1914-15. En alla ævi skipti hann sér af stjórnmálum og hafði mikil áhrif. Hann var gáfaður eldhugi sem hafði brennandi áhuga á framfaramálum á mörgum sviðum þjóðlífsins.4 Guðmundur gat verið kappsamur og harðskeyttur í skrifum, eins og ummæli hans hér að framan sýna.

Árið 1906 varð Guðmundur einna fyrstur Íslendinga til þess að rökstyðja ítarlega að Íslendingar gætu og ættu að skilja alveg við Dani og stefna að sjálfstæði og fullveldi. Á þeim tíma töldu flestir það fásinnu að hin fámenna og fátæka þjóð gæti orðið sérstakt ríki. Guðmundur var þarna í hópi hinna róttækustu og studdi Landvarnarflokkinn, sem barðist harkalegast gegn Uppkastinu 1908. Uppkastið féll í kosningunum 1908, þó það hefði fært Íslendingum litlu minna sjálfstæði en sambandslagasamningurinn 1918. Það er afar athyglisvert að Guðmundur studdi Uppkastið. Hann taldi það að vísu ekkert fullnaðarmark í sjálfstæðismálinu, en hyggilegt væri að taka tilboði Dana og vinna að fullum skilnaði í skrefum.

Mest áhrif í stjórnmálum hafði Guðmundur kannski í húsnæðis- og skipulagsmálum, en hann var meðal helstu frumkvöðla Íslendinga á því sviði, skrifaði merk rit um húsagerðarlist og skipulag – og gerði meira að segja skipulagsuppdrætti. Guðmundur taldi að framfarir í húsagerð og skipulagi væru forsenda þess að heilbrigði þjóðarinnar gæti komist í skikkanlegt horf.

Guðmundur setti líka fram hugmyndir um stjórnskipan. Hann taldi að þingræðisstjórn væri sennilega „lélegasta og óviturlegasta stjórnskipulag, sem fundizt hefur“4 – það ýtti undir flokksræði og að flokkar ynnu kosningar með lýðskrumi. Í staðinn lagði hann til að Íslendingar tækju upp goðaveldi: Goðar (eða þingmenn) yrðu kjörnir ævilangt. Kjósendur gætu sagt sig úr þingi hjá sínum goða og valið sér annan og atkvæðavægi hvers goða á þingi færi eftir tölu þeirra kjósenda sem styddu hann.

Sannarlega frumlegar og róttækar tillögur.

 

                                           Katrín Thoroddsen

                         
                                                                                  Katrín árið 1956 að skoða tvíbura á fyrsta árinu.

Katrín sat á þingi fyrir Sósíalistaflokkinn 1946-49. Hún var dóttir Theódóru og Skúla Thoroddsen, svo róttækni var henni í blóð borin. Katrín lét til sín taka á mörgum sviðum þjóðlífsins og hafði mikil áhrif.5 Seta hennar á þingi skipti þar minna máli en margt annað.

Katrín sat á þingi þegar Keflavíkursamningurinn var gerður 1946 og Ísland gekk í NATO 1949. Hún var hvorutveggja afar andvíg, talaði með friði og á móti atómsprengju. Á þingi beitti hún sér auk þess fyrir málefnum kvenna og barna, meðal annars stofnun dagheimila.

En barátta Katrínar fyrir konur og börn stóð miklu lengur en þingseta hennar. Hún var brautryðjandi í fræðslu og umræðu um kynfrelsi kvenna, takmörkun barneigna og fræðslu um kynlíf. Fyrirlestur hennar, Frjálsar ástir – erindi um takmarkanir barneigna, vakti gríðarlega athygli og deilur árið 1931. Kristín Ástgeirsdóttir telur að barátta Katrínar og fræðsla um fóstureyðingar hafi skilað árangri þegar fyrstu lög um fóstureyðingar voru samþykkt á Alþingi 1935 og 1938.5 Auk þessa má nefna að Katrín barðist mjög fyrir bættri menntun kvenna og gagnrýndi stjórnvöld harkalega á millistríðsárunum fyrir að hafna umsóknum ofsóttra þýskra gyðinga um landvist.

Á þriðja áratug 20. aldar var víða rætt um „nýju konuna“, frjálsu konuna, sem væri félagi karlmannsins og réði sér sjálf, gæti gengið „í stuttum kjólum og jafnvel buxum“. Halldór Kiljan Laxness skrifaði fræga grein um „nýju konuna“ 1925, „Drengjakollurinn og íslenska konan“. Katrín var holdgervingur „nýju konunnar“. Hún var menntuð, „sá fyrir sér sjálf og var alla tíð ógift og barnlaus … Myndir sem til eru af henni eftir að hún varð fullorðin sýna hana stuttklippta og hún greiddi hárið frá enninu“. Systursonur Katrínar, Skúli Halldórsson tónskáld, segir að henni hafi fundist gott í staupinu, en ekki til vandræða. Hún hafi reykt þrjá pakka af tyrkneskum sígarettum á dag. „Þetta var lífsstíll nýju konunnar.“5

                                        Vilmundur Jónsson

                                                                     
Vilmundur var þingmaður Ísfirðinga 1931-33 og Norður-Ísafjarðarsýslu 1933-34 og 1937-41. Hann samdi eða „endursamdi mestalla heilbrigðislöggjöf landsins og átti einnig frumkvæði að eða þátt í lagasmíð um ýmis önnur efni. Hann var afkastamikill fræðimaður og rithöfundur, ritaði einkum um íslenzka lækningasögu og heilbrigðismál, en einnig fjölda greina um baráttumál, sem á baugi voru, eða önnur þau efni, sem honum voru hugleikin“.6

Eftir framhaldsnám í útlöndum varð Vilmundur héraðslæknir á Ísafirði. Hann skrifaði frá Osló 1919: „Því þegar ég er kominn vestur, bý ég fyrst til nýja bæjarstjórn og síðan nýjan spítala“.6 Þetta gekk eftir. Alþýðuflokkur fékk meirihluta í bæjarstjórn Ísafjarðar 1921 og var kallaður „rauði bærinn“ eins og Hafnarfjörður, þar sem kratar fengu meirihluta 1926. Á Ísafirði var Vilmundur í forystu fyrir lóðakaupum, stofnun elliheimilis, virkjunar, kúabús, útgerðar og sjúkrahúss sem tekið var í notkun 1926 og var þá stærsta sjúkrahús landsins utan Reykjavíkur með 50 sjúkrarúmum.6

Vilmundur varð einn helsti forystumaður Alþýðuflokksins. Hann var í vinstra armi flokksins og reyndi að sameina krata og kommúnista, en fór ekki í nýjan Sósíalistaflokk 1938 með Héðni Valdimarssyni þegar stuðningur við Moskvu varð skilyrði sameiningar. En 1940 flutti hann þrumuræðu á þingi og mælti gegn tillögu Hriflu-Jónasar og fleiri um skert lýðréttindi íslenskra kommúnista: „Þá geri ég engan veginn lítið úr þeirri hættu, sem lýðræðinu stendur af þeim, er beinlínis játast til ofbeldisflokkanna, staðráðnir í að kollvarpa lýðræðinu, og hirði ég aldrei, hve fagurt þeir mæla um að endurreisa það í fullkomnari mynd. Vísa ég um það bæði til Rússlands og Þýskalands. Í viðskiptum sínum við þessa flokka er lýðræðið vissulega statt í hættulegu öngþveiti og sjálfheldu. Annars vegar er að rétta þeim andvaralaust upp í hendurnar öll réttindi lýðræðisins og horfa á þá nota þau til að grafa undan því, og hins vegar sú bráða hætta, að lýðræðið verði gripið því hysteriska fáti geðæsingamanna, að það afnemi sjálft sig til þess að andstæðingunum gefist ekki tóm til að tortíma því. En þetta er að láta sér farast eins og manni, sem bjargar sér undan brennuvargi með því að brenna sjálfur upp býli sitt.“7

Vilmundur sagði af sér þingmennsku 1941 þegar þingið framlengdi kjörtímabil sitt út af stríðsástandinu (en það ástand kom reyndar ekki í veg fyrir tvennar kosningar 1942!). Sagt hefur verið að hann sé einn örfárra þingmanna Íslendinga sem sagt hafi af sér af prinsippástæðum. 1934 féll Vilmundur í Norður-Ísafjarðarsýslu en mun hafa ætlað það sitt síðasta kjörtímabil. Þegar hann bauð sig svo aftur fram 1937 – og náði kosningu – mun hann hafa sagt að hann vildi sjálfur ráða hvenær hann hætti!

Að endingu má nefna að Vilmundur var snillingur orðsins. Þórbergur Þórðarson og Halldór Kiljan Laxness voru vinir hans – og hann ráðlagði þeim margt um skriftir. Vilmundur er höfundur frasans „sósíalismi andskotans“ sem átti við þjóðnýtingu sem fól í sér að ríkið borgaði tap á atvinnurekstri í einkaeigu, en atvinnurekendur hirtu gróðann þegar vel gekk. Hann var líka mikilvirkur nýyrðasmiður. Greinin „Vörn fyrir veiru“ er betur skrifuð en flest annað á íslensku. „Trúin á lygina. Svar til prófessors Guðmundar Hannessonar“ fjallar um að læknar geti fæsta sjúkdóma læknað, en oft linað þjáningar. „Logið í stállunga. Ritað gegn auglýsingaskrumi lækna“ og „Stállungahernaðurinn. Ritað gegn hýenum lýðræðisins“ eru líka hvassar greinar.7 Ritsafn Vilmundar, Með hug og orði, er öllum áhugamönnum um íslenskar lækningar, stjórnmál og menningu holl og skemmtileg lesning.

 

Kleppsförin


Jónas vaknar af blíðum blundi,

brjálaður virtist ekki par;

í bælinu lengur ekki undi,

ók sjer og fór í brækurnar.

Í landhelgisbílinn brátt var náð

brunað svo upp í stjórnarráð.

 

Daníel, sem þar dyrnar passar,

dyrnar opnaði fljótt og vel.

Jónasar gerðust glyrnur hvassar

hann gaut þeim skáhalt á Daníel:

„Til setu boðið ei sýnist oss

sæk, Daníel, vort besta hross“.

 

„Inn að Kleppi er óravegur,

andskotastu því fljótt af stað;

ríddu eins hart og hrossið dregur,

–  Helga rjettirðu þetta blað. –

–  Flýttu þér nú og farðu vel“.

–  Þá fruktaði' og spýtti Daníel.

 

Óþverra fyltist loftið ljótum,

–   leðjurigning og malarjel. –

Veifandi' í bláinn báðum fótum

bykkjuna þandi Daníel.

Drótt öll á Kleppi dauðhrædd beið.

–  Daníel inn í húsið reið.

 

Helgi greip blaðið báðum mundum,

blekugur varð um hendurnar,

undirskriftirnar eru stundum

ekki meir' en svo þornaðar.

Við doktora Jónas dundar vart

og Daníel getur riðið hart.

 

Doktorinn varð sem dreyri' í framan,

Dungal var þar og studdi hann.

Nú sá hann eftir öllu saman

að ‘ann heimsótti ráðherrann.

Húsi og stöðu flæmdur frá.

–   Hann flutti með eina lyfjaskrá. –

 

Daníel svarsins drjúgur bíður,

Daníel tók í húfuna,

Daníel út um dyrnar ríður,

Daníel sló í merina.

–  Daníel tyggur drjúgum skro,

Daníel spýtir á við tvo.

 

Jónas vor húkti heima' á meðan

hugsandi stint um brjálæðið;

hefði' einhver normal sála sjeð hann

sú mundi hafa komist við.

–  Hófa-sköll dundu dimm og löng,

Daníel kom og spýtti' og söng.

 

Daníel frjetta flutti sóninn,

frísaði merin löðursveitt.

Jónas tvíhenti telefóninn,

við Thorlacius hann mælti greitt:

„Þú tekur við Kleppi, Tolli minn,

Tíkarbrand skaltu gefa inn“.

 

Lyfja-fargansins fræga miðann

flutti Helgi úr brúkunum.

Nú fá menn trauðla að tala við hann

þó tíkall hafi í lúkunum.

–  Hreldan og þjáðan huga ber,

og Hriflu-rjettlætið móti sjer.

 

Að þessu skaltu önd mín hyggja

yfirvöldunum geðjast þú,

á hnjánum báðum er best að liggja

og biðja um náð í sannri trú.

–  Hver veit nær sorgar hefjast jel.

Hver veit nær söðlar Daníel.

                                                               Z

Ljóð úr Speglinum 1930; 5: 9/67 af því tilefni þegar Jónas rak Helga frá Kleppi.

  

Heimildir

1. Alþingismannatal frá 1845 – . www.althingi.is Athugunin var lausleg, þannig að einhverju getur skeikað, en varla miklu.
 
2. "Merkir Íslendingar, Jóhann Sæmundsson", Morgunblaðið 9. maí 2018: 27.  
 
3. Friðriksson G. Dómsmálaráðherrann. Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu II. Iðunn, Reykjavík 1992.  
 
4. Dungal N. "Guðmundur Hannesson prófessor". Andvari 1958; 83: 3-36.  
 
5. Ástgeirsdóttir K. "Katrín Thoroddsen". Andvari 2007; 132: 11-68.  
 
6. Tómasson B. "Vilmundur Jónsson". Andvari 1984; 109: 3-59.  
 
7. Jónsson V. Með hug og orði. Af blöðum Vilmundar Jónssonar landlæknis. II bindi. Iðunn, Reykjavík 1985.  


Þetta vefsvæði byggir á Eplica