05. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Epi-penninn er fyrsta úrræðið við bráðaofnæmiskasti

Hjalti Már Björnsson bráðalæknir og Unnur Steina Björnsdóttir ofnæmislæknir hafa undanfarið unnið í starfshópi að þýðingu og útgáfu á íslensku á alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum við bráðaofnæmiskasti. Þau segja mikilvægt að allir læknar kynni sér leiðbeiningarnar þar sem bráðaofnæmiskast sé sjúkdómur sem flestir læknar þurfi einhvern tíma að fást við.

                                           
                                                         Mynd úr klínísku leiðbeiningunum um bráðaofnæmi

„Að baki þessum leiðbeiningum liggur sú staðreynd að nánast allir læknar lenda einhvern tíma í því að meðhöndla einstakling með bráð ofnæmiseinkenni. Hér hafa verið í notkun leiðbeiningar sem voru unnar í kringum síðustu aldamót en árið 2011 tók Alheimssamband ofnæmislækna (World Allergy Organization – WAO) sig saman og skrifaði leiðbeiningar sem voru síðan samþykktar af sennilega öllum landsfélögum í ofnæmisfræðum í heiminum. Við höfum nánast aldrei sé slíka breiðfylkingu landsfélaga sem hefur sett nafn sitt við sömu leiðbeiningarnar. Okkur hér á Íslandi í Félagi íslenskra ofnæmis- og ónæmislækna og Félagi bráðalækna þótti því nauðsynlegt að þýða þessar leiðbeiningar og kynna þær hér á landi, að fengnu leyfi WAO,“ segir Hjalti Már.

„Leiðbeiningarnar eru dálítið öðruvísi uppsettar en aðrar leiðbeiningar vegna þess að þær eru eiginlega tvískiptar. Annars vegar er fjallað um hvernig maður greinir bráðaofnæmiskast og hins vegar hvernig það er meðhöndlað. Þetta er dálítið snúinn sjúkdómur og það er auðvelt að þekkja dæmigerðu einkennin en til eru óvenjulegar birtingarmyndir sem geta samt verið hættulegar. Með þessum leiðbeiningum vonumst við til að betur gangi að finna þá sem eru með bráðaofnæmiskast en hins vegar líka að forða þeim frá meðferð sem eru með svipuð einkenni en af öðrum toga, til dæmis vegna þinu eða ofsabjúgs. Bráðaofnæmiskast þarf að uppfylla ákveðin skilmerki sem er lýst nánar í leiðbeiningunum en byggir yfirleitt á að einkenni séu frá að minnsta kosti tveimur líffærakerfum. Í þessum leiðbeiningum er lögð enn meiri áhersla en áður á að auka notkun adrenalíns við bráðaofnæmiskasti. Á adrenalín ávallt að vera fyrsta úrræði þegar brugðist er við bráðaofnæmiskasti. Það hefur tíðkast hér sem annars staðar að nota antihistamín og stera sem fyrstu meðferð en þessar leiðbeiningar leggja áherslu á notkun adrenalíns sem fyrstu meðferð.

Við höfum séð nýleg dæmi þar sem einstaklingar í bráðaofnæmiskasti koma í sjúkrabíl þar sem ekki er til adrenalínpenni eða bráðaliðarnir hafa ekki treyst sér til að nota pennann sem fyrstu meðferð við bráðaofnæmiskasti. „Einnig er minni áhersla lögð á að gefa andhistamín eða stera við bráðaofnæmiskasti, enda hefur ekki verið sýnt fram á að sú meðferð bæti horfur eða einkenni sjúklinga með bráð einkenni,“ segir Unnur Steina.

„Í leiðbeiningunum er einnig búið að endurskíra sjúkdóminn anaphylaxis á íslensku og hann heitir nú bráðaofnæmiskast í stað eldra heitisins bráðaofnæmislost. Að okkar mati er rangt að nota heitið bráðaofnæmislost sem samheiti yfir „anaphylaxis“ þar sem lost er sérstakt ástand sem getur stafað af ýmsum ástæðum og einkennist af ónógu blóðflæði til að viðhalda líkamsstarfseminni. Til þess aðgreina þetta þá tölum við um bráðaofnæmiskast sem „anaphylaxis“ en ef það veldur síðan losti er það orðið bráðaofnæmislost,“ segir Hjalti Már.

„Leiðbeiningarnar eru settar fram á mjög myndrænan hátt svo það á að vera auðvelt fyrir alla heilbrigðisstarfsmenn að kynna sér bæði hvernig greina á bráðaofnæmiskast og hvernig á að meðhöndla það. Leiðbeiningarnar verða settar á vef bæði Embættis landlæknis og Landspítala og við viljum hvetja allt heilbrigðisstarfsfólk til að kynna sér þessar leiðbeiningar og mælumst til þess að þær séu hengdar upp þar sem líklegt er að þetta geti komið fyrir. Einnig ættu allir heilbrigðisstarfsmenn sem geta þurft að sinna þessu bráðavandamáli að fara yfir einu sinni á ári hvernig bregðast skuli við. Við viljum líka auka útbreiðslu á þessari þekkingu með því að útbúa fyrirlestur um þetta efni sem heilbrigðisstarfólk getur hlaðið niður og notað til kynningar og fræðslu á sínum vinnustað,“ segir Unnur Steina.

„Við höfum einnig útbúið skriflegar leiðbeiningar til sjúklinga sem er handhægt að prenta út og afhenda sjúklingi við útskrift og hann getur þá lesið þær í ró og næði heima og kynnt sér hvernig bráðaofnæmiseinkenni lýsa sér og hvað á þá að gera. Frumskilyrði þess að þessar leiðbeiningar nái tilgangi sínum er að notkun adrenalínpenna verði skilyrðislaust fyrsta meðferð og að sjúklingar sem fengið hafa bráðaofnæmiskast séu útskrifaðir með adrenalínpenna og kennt að nota þá rétt. Heilbrigðisstarfsmenn þurfa einnig að fá þjálfun í notkun þeirra og þeim uppálagt að nota frekar einum penna of mikið en einum of lítið og ekki tefja gjöf með penna ef einkennin eru komin af stað. Þar sem sjúklingur getur verið í slíku ástandi að hann er ófær um nota pennann sjálfur  þurfa ættingjar að kunna notkun hans. Adrenalínpennar eiga einnig að vera til staðar í leikskólum og grunnskólum og starfsmenn þar eiga að þekkja notkun pennans,“ bætir Unnur Steina við.

„Það má einnig árétta að ef adrenalínpenninn er notaður rétt, með sprautun í lærvöðva, veldur hann ekki hættulegum aukaverkunum. Við mælum þó ekki með því að allir sem telja sig vera með ofnæmi af einhverju tagi gangi með adrenalínpenna á sér en allir sem greindir hafa verið með bráðaofnæmi og/eða fengið bráðaofnæmiskast eiga skilyrðislaust að hafa hann innan seilingar. Það er rétt að taka fram að ekki á að gefa adrenalín í æð við bráðaofnæmiskasti nema í algjörum undantekningartilfellum þar sem því geta fylgt lífshættulegar aukaverkanir. Það eru væntanlegir á markaðinn nýir pennar með lengri nál sem gera þá enn öruggari í notkun en áður og það er í rauninni lítið mál að nota adrenalínpennann þegar búið er að komast yfir óttann við að beita honum,“ segir Hjalti Már að lokum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica