02. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Skipulag byggðar er lýðheilsa

                                    

Dagur B. Eggertsson læknir og borgarstjóri minntist frumkvöðulsins Guðmundar Hannessonar læknaprófessors á Læknadögum. Guðmundur ýtti bæði Læknablaðinu og Læknafélagi Íslands af stokkunum, og erindið hélt Dagur í tilefni aldarafmælis LÍ.

Guðmundur var einsog kunnugt er ekki bara læknir, heldur var samfélagið sjálft honum hugleikið. Ritgerð hans: Um skipulag bæja, kom út árið 1916, og er nýlega endurútgefin. Dagur fjallaði um tengsl lýðheilsu og borgarskipulags og vitnaði þar til Guðmundar sem kynnti nýjustu hugmyndir um skipulagsmál fyrir Íslendingum í upphafi síðustu aldar. Guðmundur sat í skipulagsnefnd með Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins og höfðu þeir mikil áhrif á skipulag þéttbýlis þegar íslenskt samfélag breyttist úr sjálfsþurftabúskap á landsbyggðinni í borgarsamfélag með gatnakerfi, frárennsli, hitaveitu og stofnunum margvíslegum.

Guðmundur hugsaði ekki eingöngu um líkamlega heilsu borgaranna heldur einnig andlega vellíðan. Hann lagði mikla áherslu á fagurfræði skipulags og bygginga þannig að fólki liði vel í almenningsrýmum borgarinnar. Dagur brá upp alls kyns fróðleik um stöðu skipulagsmála nú 100 árum eftir stofnun LÍ, - og ekki víst að Guðmundur þótt framsýnn væri hefði getað séð fyrir allar þær vendingar. Og til dæmis þá staðreynd að við Íslendingar ferðumst í bíl til og frá vinnu mun meira en okkar nágrannaþjóðir sem bæði ganga, hjóla og nota almenningssamgöngur miklu frekar en við. - Allt er það spurning um skipulag og pólitík, og Dagur vitnaði til orða Virchows: Politics is public health in the most profound sense.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica