02. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Stétt með stétt

                                 

Við erum stödd á skurðstofu Landspítalans. Klukkan er að verða tólf á hádegi laugardaginn 8. nóvember 1958. Það er mollulegt innandyra, hitinn 26 gráður. Stórri aðgerð er lokið. Búið er að fjarlægja 80% af maga sjúklings með sár á skeifugörn. Viðstaddir aðgerðina voru Njörður P. Njarðvík blaðamaður og Andrés Kolbeinsson ljósmyndari sem síðar lýstu aðgerðinni í máli og myndum á síðum Vikunnar 1959; 21/24: 4-7.

Fjölgun maga- og meltingarsjúkdóma virðist hafa verið töluverð því blaðamaður kallar þá tískusjúkdóma sem valdi geðvonsku og taugaóstyrk. Sagt í kerskni en þó í takt við tímann. Þökk sé framförum í tækni og vísindum voru fleiri sjúkdómar greinanlegir og læknanlegir en áður. Þökk sé bættum efnahag og efldu almannatryggingakerfi hafði aðgengi almennings aukist að heilbrigðiskerfi sem (þá sem endranær) stóð á tímamótum. Deildum spítalans fjölgaði sem og menntuðu og sérhæfðu starfsfólki. Framtíðin var björt. 

Flestum er ljóst að við hlið skurðlæknanna starfar hópur sérhæfðra lækna og annars fagfólks sem greinir sjúkdóminn, undirbýr og framkvæmir aðgerðina og hjúkrar sjúklingnum og styrkir. Í Vikunni
er fókusinn þó á skurðlæknunum sem er líkt við hermenn: „Harður glampi skín úr augum þeirra, og eftir þrjár klukkustundir eru handtökin jafnhröð og í fyrstu, þótt aldrei hafi verið hlé. Eftir uppskurðinn breytast þeir aftur í venjulega menn, en þegar næsta kall kemur íklæðast þeir aftur einkennisklæðum hermannsins, hins eina hermanns, sem berst fyrir Iífi, ekki dauða.“

Minni dramatík er í kringum störf allra hinna. Nú þegar skurðlæknarnir eru horfnir á braut hugar eini svæfingalæknir spítalans að sjúklingnum. Til aðstoðar Valtý Bjarnasyni eru tvær ónafngreindar (hjúkrunar)konur. Önnur heldur á flösku með blóði. Öll eru klædd drifhvítum sloppum, með hvítar húfur og maska. Svæfingavélin, fremst á myndinni, er einföld að gerð og tengd súrefnis- og glaðloftskútum. Sjúklingurinn mun sofa áfram. Framundan er tveggja vikna lega á sjúkrahúsinu og aðlögun að lífi án hringvöðvans sem stýrir því að maturinn berist of fljótt niður í þarmana.

 

Læknablaðið hefur fengið Önnu Þorbjörgu Þorgrímsdóttur til liðs við sig til að velja og skrifa um kápumyndir á 104. árgangi blaðsins í tilefni 100 ára afmælis Læknafélags Íslands. Myndirnar tengjast þeim efnum sem eru í brennidepli afmælisgreina hvers tölublaðs.

Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir er sagnfræðingur og safnafræðingur og fyrrum stjórnandi Lækningaminjasafnsins.Þetta vefsvæði byggir á Eplica