12. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Fjölgun læknisefna á Íslandi á 18. og 19. öld. Páll Ásmundsson

Í greinarkorni þessu er rýnt svolítið í fjölgun lækna á Íslandi á 18. og 19. öld, einkum þó seinni hluta hinnar síðari. Litið er til dreifingar fæddra læknisefna eftir landsvæðum og vekur Húnaþing sérstaka athygli.

                                    
                                    Málverk af Kristínu Ólafsdóttur sem Félag kvenna í læknastétt, Læknafélag
                                    Íslands, Læknafélag Reykjavíkur og Félag áhugamanna um sögu
                                    læknisfræðinnar gáfu Háskóla Íslands 2011, á aldarafmæli skólans og
                                    læknadeildar. Myndina málaði Guðmundur Karl Ásbjörnsson árið 2008 eftir
                                    ljósmynd af Kristínu tvítugri.

Þessar aldir voru um margt erfiðar Íslendingum. Kuldatímabil það sem nefnt hefur verið Litla ísöldin er talið hafa staðið frá 1450 (sumir segja allt frá 1100) til 1900. Ísland fór ekki varhluta af þessum loftslagsbreytingum og einkenndist tímabilið hér af tíðum vetrarhörkum. Eldgos voru einnig tíð á þessu tímabili hér sem víðar og má nefna Skaftárelda 1783 með Móðuharðindum og Öskjugosið 1875. Þau umhverfisspjöll er hlutust af hinu síðarnefnda þrengdu enn svo hag landsmanna að fjöldi manns yfirgaf landið á síðustu áratugum 19. aldar og leitaði betra lífs, einkum í Norður-Ameríku. Giskað hefur verið á að fjöldi „Vesturfara“ hafi verið hátt á sjöunda þúsund, sem var veruleg blóðtaka. Enn má nefna hættulega smitsjúkdóma á borð við mislinga, kíghósta og barnaveiki er gengu margsinnis um landið og urðu mörgum að fjörtjóni. Barnadauði var hár og fram á miðja 19. öld dó nær þriðja hvert barn á fyrsta ári.

                                  

Athyglisvert er því hve fæðingum verðandi lækna fjölgaði hratt á Íslandi, einkum á síðari hluta 19. aldar.

Við upphaf 18. aldar voru lærðir læknar sárafáir ef nokkrir hér á landi. Fyrsti menntaði læknirinn sem fæðist hér á öldinni er Bjarni Pálsson (f. 1719) sem skipaður var fyrsti landlæknir á Íslandi árið 1760. Alls fæddust 17 læknar hérlendis á öldinni og störfuðu 14 þeirra hér á landi. Sjö þeirra voru bændasynir (rúm 40%) og stærsti hópurinn kom úr Eyjafjarðarsýslu (5). Þrír danskir læknar er fæddir voru á öldinni störfuðu að meira eða minna leyti hér á landi.


                                                       
                                                                                Guðmundarnir þrír.

Nokkrir þessara lækna lærðu hjá sitjandi landlækni en aðrir sigldu og stunduðu nám við Hafnarháskóla. Þessi háttur breyttist með tilkomu Læknaskóla Reykjavíkur 1876 og stofnun læknadeildar Háskóla Íslands 1911.

Á fyrri helmingi 19. aldar fjölgaði heldur fæðingum læknisefna á Íslandi og voru þær 32. Allir störfuðu læknarnir hér á landi nema fjórir. Enn fremur störfuðu fjórir Danir fæddir á tímabilinu um tíma hér sem læknar. Reykjavík óx fiskur um hrygg og fæddust þar 6 læknar. Í Húnavatnssýslu sem mjög kom við sögu á seinni hluta aldarinnar fæddust þrír læknar.

Á síðari hluta 19. aldar fjölgaði mjög fæðingum verðandi lækna og dreifing þeirra um landið breyttist verulega.

Frá 1851 til 1900 áttu 172 nýfæddir íslenskir sveinar og þrjár meyjar eftir að leggja fyrir sig lækningar. Það var meira en fimmföldun nýfæddra læknisefna frá fyrri helmingi aldarinnar. Þessir þrír elstu kvenlæknar landsins voru Kristín Ólafsdóttir f. 1889 sem varð cand. med. 1917, fyrst íslenskra kvenna, Katrín Thoroddsen f. 1896 og Jóhanna Guðmundsson f. 1898 er starfaði í Danmörku. Einn Færeyingur (Níels Finsen), tveir Danir og einn Þjóðverji sem fæddir voru á tímabilinu komu hér að sinna námi eða læknisverkum.

Af læknunum 175 voru flestir fæddir í Reykjavík eða 29 enda mátti hún í aldarlok teljast höfuðstaður Íslands. Af sýslum landsins ber Húnavatnssýslu hæst með 27 fædd læknisefni. Er það níföld fjölgun frá fyrri hluta aldarinnar. Af þessum 27 voru 74% bændasynir. Nafntogaðastir þessara lækna og allir fæddir á sama áratug munu „Guðmundarnir þrír“ G. Björnsson landlæknir (f. 1864), G. Hannesson prófessor (f. 1866) og G. Magnússon prófessor - (f. 1863)

Ýmsum hefur fundist það undrum sæta hve margir húnvetnskir bændasynir voru sendir í svo dýrt nám í erfiðu árferði. Leitt hefur verið getum að því að hér kunni sauðasalan svonefnda að hafa skipt máli. Á síðari hluta 19. aldar græddu íslenskir bændur verulega á sölu sauðfjár á fæti til erlendra kaupmanna sem síðan fluttu féð utan, einkum til Bretlands, fóðruðu það um hríð og slátruðu síðan. Er þess getið að eitt árið hafi 80.000 fjár verið flutt utan. Bændum var borgað í reiðufé sem þeim var hagur að. Árið 1896 voru þessi viðskipti bönnuð í Bretlandi og þvarr þar með þessi tekjulind.

Það kann að styðja þessa skýringu að á síðasta áratug 19. aldar fæddust flest læknisefnin á einum áratug aldarinnar í Húnavatnssýslu og voru 9 talsins. Fyrstu tvo áratugi nýrrar aldar virtist ævintýrið úti því þá fæddust í sýslunni aðeins tveir læknar. Þeir voru bændasynir og grannar og skildi Laxá á Ásum ein að jarðirnar. Þetta voru þeir Sigurður G. Sigurðsson síðar berkla- yfirlæknir og landlæknir sem fæddist á Húnsstöðum 1903 og Hjalti Þórarinsson prófessor í handlækningum er fæddist á Hjaltabakka 1920.

Heimild

Blöndal LH, Jónsson V. Læknar á Íslandi. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1944.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica