12. tbl. 103. árg. 2017
Fræðigrein
Yfirlitsgrein. Lækning, trú og töfrar - samþætting og þróun fram yfir siðaskipti
Medical practice, magic and religion - conjunction and development before and after Reformation
Ágrip
Tengsl lækninga við trú og töfra eru þekkt frá fornu fari af elstu bókum og samofin langt fram eftir öldum. Lækningar og lyfjagerð voru stundaðar og þróaðar í klaustrum, bæði hérlendis og á meginlandi Evrópu. Úr klaustrunum færðust þessi vísindi yfir í háskólana eftir því sem þeir urðu til. Samhliða þróuðust alþýðulækningarnar sem áfram voru iðkaðar um alla Evrópu, sprottnar af hinum lærðu, fornu lækningum. Á það ekki síst við um grasalækningarnar sem eru fyrsta form og grundvöllur nútíma lyflækninga.
Hér á eftir verður nánar vikið að samþættingu trúar, töfra og lækninga í elstu íslensku heimildum. Litið verður til bókmenntaarfsins, elstu lækningahandrita og ekki síst galdrarita 17. aldarinnar sem urðu tilefni brennudóma yfir fjölda Íslendinga eftir að galdraofsóknirnar í Evrópu teygðu anga sína hingað til lands. Í þessum heimildum má greina ákveðna þróun sem sýnir að 16. og 17. öld voru þekkingarlegt hnignunarskeið hvað lækningar varðar. Lærðar lækningar voru um þær mundir skammt á veg komnar líkt og í nágrannalöndum og óljós skil milli lærðra og leikmanna. Á sama tíma og fólk var brennt á báli fyrir það sem í galdraskræðurnar var skráð iðkuðu menntamenn danska ríkisins lækningar sem vert er að bera saman við fyrrnefndar heimildir og spyrja: Hvar lágu skilin milli töfra og vísinda – milli læknis og galdramanns?
Barst til blaðsins 14. september 2017, samþykkt til birtingar 4. nóvember 2017.
„Njót lyfja“
Hugtökin lyf og lækning eru bæði jafngömul íslensku máli og virðast frá upphafi hafa verið nátengd galdri og trú.
Orðið læknir er forngermanskt, meðal annars þekkt í fornensku lǽcnian, lācnian, en gæti átt sér keltneska rót því líaig sem merkir læknir er skylt lēpagi sem hugsanlega þýðir galdraþulumaður. Ýmsir telja þó að orðið sé al-germanskt og eigi skylt við latneska orðið legere, að `lesa; tína eða safna saman´ og gríska orðið légō, sömu merkingar og lógos `ræða, orð, rök´ og léxis `orð, ræða´. Upphafleg merking væri þá `galdraþulu-læknir´ eða ef til vill fremur `(græðslu)jurtasafnari´.1
Lyf er sömuleiðis ævagamalt orð og vel þekkt í elstu ritheimildum í merkingunni `meðal, læknisdómur; töframeðal´ af sama toga og nýnorska orðið lyve `læknisdómur, fróun´, fornháþýska orðið luppi `eitur, töfrar´ og gotneska orðið lubjaleis `eiturfróður´. Líklega eru þessi orð skyld lauf og upphafleg merking þess `jurt eða jurtaseyði til lækninga´.1 Ekki er ólíklegt að lyflæknirinn til forna hafi verið galdramaður (kona eða karl) eða einhver sem hafði trúarlegu hlutverki að gegna í heiðnum sið, jafnvel goði eða gyðja. Um þetta höfum við fáar heimildir aðrar en fornbókmenntir okkar en þar má til dæmis sjá í Eddukvæðum að læknisgeta Óðins fór saman við galdragetu hans og spádómsgáfu. Menglöð „sú hin sólbjarta“ hefst við á Lyfjabergi með meyjum sínum, eins og segir í Fjölvinnsmálum (vísa 42), en ein af meyjum hennar var gyðjan Eir sem ætla má að hafi verið lækningagyðja.2
Jurtir voru sjálfsögð læknismeðul á söguöld og eru enn í dag. Notkun þeirra var þó ekki alltaf raunvísindaleg eins og sumar frásagnir votta. Hálfdanar saga Brönufóstra segir frá því er grös voru lögð undir svæfil sofandi stúlku til þess að efla ástarhug hennar. Sama átti við um ýmis meðul önnur, til dæmis rúnir og steina. Egill Skallagrímsson eyðir misheppnuðum lækningagaldri sem framinn hafði verið með því að rista rúnir á „tálkn“ (sennilega hvalskíði) sem lögð voru í rúm sjúkrar stúlku. Við það versnaði henni stórum. Úrbætur Egils voru sem hér segir:
„... hann bað þá hefja hana ór rúminu ok leggja undir hana hrein klæði, ok nú var svá gǫrt. Síðan rannsakaði hann rúmit, er hon hafði hvílt í, ok þar fann hann tálkn, og váru þar á rúnarnar. Egill las þær, ok síðan telgði hann af rúnarnar ok skóf þær í eld niður; hann brenndi tálknit allt ok lét bera í vind klæði þau, er hon hafði haft áður. Þá kvað Egill: „Skalat maðr rúnar rísta, nema ráða vel kunni ...“ (s. 229-30)3
Að svo búnu reist Egill nýjar rúnir sem hann lagði undir hægindið í hvílunni. Var þá sem stúlkan vaknaði af svefni og sagðist hún nú heil vera. Gjörningur Egils að skafa tálknin niður í eld minnir á ákvæði Hávamála um að eldur taki við sóttum (vísa 137).4, 5, Ekki verður heldur horft fram hjá því ráði – sem ætla má að alltaf sé í góðu gildi – að viðra vel sængurföt og láta lofta um máttlítinn sjúkling sem lengi hefur legið i sótt sinni.
Rúnaristingar hafa augljóslega tíðkast um öll Norðurlönd sem liður í lækningagöldrum gegn sjúkdómum og sársauka. Meðal elstu minja þar um er höfuðkúpa fundin í Ribe i Danmörku frá árinu 725. Á hana eru ristar rúnir sem ákalla „Úlf og Óðinn og há-Tý“ gegn „sársauka af dvergi unninn“.6 Á 11. aldar töfragrip sem fannst í Sigtúnum í Svíþjóð er einnig að finna áletrun þar sem sóttin er kennd við „þurs“ og „úlf“ og klykkt út með óskinni „njót lyfja“.7
Ljóð og lækning
Augljósustu tengsl töfra og læknisdóma má sjá í heimildum um fæðingarhjálp fyrri alda. Sigurdrífumál4,5 geta um bjargrúnir þær sem „leysa kind frá konu“.
... á lófa þær skal rísta
og um liðu spenna
og biðja þá dísir duga. (vísa 9)
Í sama ljóði er einnig getið um limrúnar sem ristar skulu á trjágrein ...
... ef þú vilt læknir vera,
og kunna sár að sjá:
á berki skal þær rísta
og á baðmi viðar,
þeim er lúta austur limar. (vísa 11)
Í Oddrúnargráti4,5 kemur Oddrún til bjargar Borgnýju sem er í barnsnauð og yfirkomin af sorg og þjáningu þegar Oddný gengur „mild fyrir kné / meyju að sitja“. Eins og ljósmæður allra alda hafa gert, situr hún fyrir knjám konunnar og aðstoðar hana í fæðingunni. Hún kveður Borgnýju galdra þá sem leysa hana frá þrautum sínum. Síðan upphefur Borgný raunasögu sína og verður það tregróf henni til hugarhægðar (vísur 14-34). Sjáum við þar eitt elsta dæmi fornra frásagna um geðlækningu eða sálfræðiaðstoð sem veitir lausn frá hugarangri. Sú geðlausn gerist þó ekki átakalaust ef marka má Oddrúnargrát, því ...
... ríkt gól Oddrún,
rammt gól Oddrún,
bitra galdra
að Borgnýju. (vísa 7)
Galdrar og lækningar tengjast mjög kveðskap og skáldgáfu. Hugtakið ljóð í fornum kvæðum hefur yfir sér kynngimagnaðan kraft og virðist oft vera samheiti við galdur, eins og glöggt má ráða af Ljóðatali Hávamála.4,5 „Ljóð eg þau kann“ segir þar „er þurfu ýta synir er vilja læknar lifa“ (vísur 146 og 147). Í Sigurdrífumálum er kennt hvernig veita skuli nábjargir og fara með lík:
Það ræð eg þér ið níunda,
að þú náum bjargir,
hvar er þú á foldu finnur,
hvort eru sóttdauðir
eða eru sædauðir
eða eru vopndauðir verar. (vísa 33)
Laug skal gera,
þeim er liðnir eru,
þvo hendur og höfuð,
kemba og þerra,
áður í kistu fari,
og biðja sælan sofa. (vísa 34)
Segja má að Sigurdrífumál – ekki síst þessi síðasttöldu tvö erindi – séu á vissan hátt elsti vísirinn að heilbrigðisreglugerð sem við eigum í fornum heimildum. Þau votta að heiðnir menn hafa borið skynbragð á þýðingu hreinlegrar umgengni við lík og að sýna því verki alúð og virðingu að veita nábjargir.
Frá kristnum tíma eru mýmörg dæmi um töfraþulur, rúnir og bænir í tengslum við lækningar, sérstaklega eftir að kemur fram á 15. og 16. öld og allt fram á 19. öld. Í Kristinna laga þætti Grágásar8 er sérstaklega tekið fram hvað við liggi ef framin er fjölkynngi og má af lagaákvæðinu ráða að fjölkynngi fornmanna tengdist mjög lækningaviðleitni þeirra:
Þá fer [maður] með fjölkynngi, ef hann kveður það eða kennir, eða lætur kveða að sér eða að fé sínu [...] Menn skulu eigi fara með steina eða magna þá til þess að binda á menn eða á fé manna. Ef menn trúa á steina, til heilindis sér eða fé, og varðar fjörbaugsgarð. (s. 22)8
Þrátt fyrir þetta bann Grágásar má víða sjá í heimildum dæmi um notkun lausnar-, lyf-, hulinshjálms-, óska-, og lífsteina.9 Hólmgöngu-Bersi hafði lyfstein um háls sér í Kormáks sögu.10 Steinninn var rifinn af honum í bardaga og eftir það greru sár hans seint. Þórður Arndísarson færir honum steininn aftur og græðir síðan sár hans (kafli 12). Má af samhenginu ráða að lyfsteinninn hafi ráðið miklu um batavon Bersa.
Trú á náttúrusteina til lækninga var viðurkennd og viðtekin langt fram eftir öldum. Lútherska kirkjan leit á lausnarsteininn sem náttúrulegt og kristilegt meðal til þeirra nota eins og sjá má af lýsingum í steinabók Jóns lærða sem er kafli í riti hans „Nokkrar fáar greinar um jörð vora og hennar undarlegu náttúrur“.11 Er þar vísað til meðferðar íslenskra presta á steininum, til dæmis Odds Einarssonar biskups í Skálholti (1589-1639) og Sigfúsar Sigurðssonar (d. 1639) á Refsstað í Vopnafirði. Í skrá yfir eigur Hóladómkirkju árin 1525 og 1550 er getið um arnarstein (achitis) sem nefndur er lausnarsteinn og talinn til eigna kirkjunnar.12 Hefur steinninn sá væntanlega verið notaður í kristilegum og lögmætum tilgangi.
Jörð tekur við öldri en eldur við sóttum
Í þeim nýaldarfræðum sem vinsæl urðu á Vesturlöndum á síðari hluta 20. aldar má sjá lífseigar, ævafornar hugmyndir um áhrif náttúrunnar á líf og heilsu. Hreinsunaröflin eru jörð, eldur, loft og vatn, eins og lýst er í ræðu Óðins í Loddfáfnismálum Hávamála.5
[...]
því að jörð tekur við öldri, öldri = öli
en eldur við sóttum;
eik við abbindi, abbindi = harðlífi/gyllinæð
ax við fjölkynngi,
höll við hýrógi, hýróg = heimilisófriður
– heiftum skal mána kveðja, –
beiti við bitsóttum, beiti = ánamaðkur
en við bölvi rúnar, bölvi = böli
fold skal við flóði taka. (vísa 137)
Norræn þjóðfræði geymir mörg dæmi um hreinsunarmátt jarðar, vatns og vinds auk eldsins. Sá siður tíðkaðist víða um Norðurlönd fram eftir öldum að láta fólk ofan í hola trjástofna eða jarðföll til þess að jörðin gæti tekið við sjúkdómum þess og sárauka. Af sama toga er sú venja sem þekktist víða, meðal annars hér á landi, að láta sængurkonu stíga á grastorfu. Má ætla að orðatiltæki á borð við að „barn góli í grasinu“ megi tekja til þess siðar.9
Stryki maður vörtur með fleskbita og græfi hann síðan í jörð var þess von að vörturnar hyrfu þegar bitinn væri rotnaður og fullsameinaður moldu. Annað ráð var að binda hnúta á ullarband fyrir hverja vörtu sem fjarlægja skyldi, leggja bandið í jörð í þeirri trú að þegar hnútar og band hefðu rotnað saman við moldina yrðu vörturnar horfnar.13 Þess eru jafnvel þekkt dæmi í nágrannalöndum frá síðari hluta 19. aldar að íklæðast dýrshræi eða dýrsham til lækninga, eins og þegar aðalskona í Kaupmannahöfn kom í sláturhús á Vesterbro, afklæddist í einu horninu og skreið síðan inn í nýslátraðan stórgrip sér til heilsubótar.14
Elstu lækningabækur
Fornu lækningahandritin sem varðeitt eru í Árnasafni hljóta að teljast meðal merkustu menningarminja á íslensku og þótt víðar væri leitað. Hið elsta þeirra er frá síðari hluta 13. aldar, AM 655 XXX 4to.15 Næst því í aldri er sennilega handrit í AM 187 8vo frá því um 1350-1400.16 Því næst tvö önnur 14. aldar handrit, annað frá því um 1350, AM 696 I 4to17 og hitt, AM 194 8vo, er frá 1387 eins og kemur fram í handritinu sjálfu.18 Í Árnasafni er einnig lækningabók frá 15. öld í AM 434 a 12mo19 sem augljóslega byggir að verulegu leyti á fyrrnefndu handritunum en hefur að auki ýmis nýrri lækningaráð og uppskriftir.
Annars staðar á Norðurlöndum er einnig að finna í söfnum nokkrar ævafornar og merkar lækningabækur af sama toga, til dæmis hið fræga Dyflinnarhandrit MS 23 D 43 8vo20 sem hefur að geyma (að minnsta kosti upphafið að) lækningabók Þorleifs Björnssonar hirðstjóra (d 1486). Öll þessi handrit eiga það sameiginlegt að vera skrifuð á Íslandi, en um uppruna efnisins sem í þeim stendur hafa verið skiptar skoðanir. Hefur uppruninn ýmist verið rakinn til Noregs eða Danmerkur í gegnum mismarga milliliði, enda má til sanns vegar færa að sú þekking sem elstu handritin miðla beri með sér að vera af erlendum toga – það sýna til að mynda jurtirnar sem taldar eru upp.
Hér og hvar í þessum ritum birtast brot úr fræðum Salernóskólans, ítalska læknaskólans sem lengi vel var eina menntastofnun Evrópu í læknisfræðum, stofnaður á 9. öld. Þessháttar þekkingaráhrif í íslenskum heimildum þurfa ekki að koma á óvart því ætla má að íslenskir munkar og prestar sem lærðu guðfræði í evrópskum háskólum hafi borið með sér læknisþekkingu og bækur um það efni til landsins. Með tímanum má þó greina nokkra breytingu á innihald lækningaritanna. Elstu bækurnar innihalda vissulega blendið efni, en einfaldar grasalækningar eru þar þó áberandi. „Náttlaukur“ stappaður vel og lagður við blæðandi sár er dæmi um ráð sem gefið er í AM 655.15 Lögur af myntu „tekur óþef af“ þeim sem hefur „nasraufadaun“ (andremmu) eins og segir í sama handriti, og dugar enn í dag.
Eftir því sem nær dregur 17. öld verða lækningaritin þó blendnari og sundurlausari að efni, með ýmiskonar hjátrúarefni, rúnahrafli, bænum og fleiru sem einkennir mjög yngri ritin. Í riti síra Odds Oddssonar á Reynivöllum (1564-1649) um grasa- og lyflækningar er gefið það ráð við andfælum að binda við háls manni og hans vinstri armlegg „hests tennur þær sem hann fellir fyrst“.21 Í bók Christians Villadssonar sem samin var í kringum 1593 er ráðlagt við tannverk að taka merg úr hrafnsbeini, smyrja á sortulyng og tyggja síðan fast undir svefn.22 Við skalla mun ráð að þvo höfuðið úr hundshlandi. Raunar hafa hland og hárþrif oft verið sett í samband. Ekki er heldur útilokað að mergur úr fuglsbeini, settur saman við lækningajurt geti haft áhrif á tannverk. En eftir því sem tímar líða verður verður æ erfiðara að gera skýran greinarmun á lækningabókum og galdraritum, einkum þegar kemur fram á 17. öld. Virðist sem það eigi ekki aðeins við um ritheimildir þess tíma, heldur einnig læknisiðjuna sjálfa eins og nú verður vikið að.
„Galdrar“ við Hafnarháskóla
Ýmis form líkingagaldra eru þekkt úr gömlum heimildum. Athöfnum er þá ætlað að líkja eftir eða tákna viðfangsefnið. Þegar kona losnaði ekki frá barni í fæðingu skyldi finna alla hnúta sem bundnir höfðu verið í húsinu og leysa þá. Ef maður gat ekki gefið upp andann í dauðastríði sínu átti að opna dyr og leggja hurðina upp að veggnum svolitla stund.13
Sú aðferð að reka út líkt með líku er alþekkt frá fornu fari. Við blóðnösum var til dæmis ráð að binda rauðan stein (Carneolus) við þumaltá hægri fótar með sterkum þræði.18 Við hinni fornu hettusótt var notuð sú aðferð sem „sýnir hve rangar hugmyndir fólk hefir haft um þenna kvilla“ eins og Jón Pétursson benti á, að „sofa með gráhettu ofan fletta“. (s. 350)24
Thomas Bartholin, prófessor í Hafnarháskóla seint á 17. öld, var kominn af merkri ætt lækna og vísindamanna og tileinkaði sér sjálfur ýmsar markverðar læknisfræðilegar nýjungar á sinni tíð. Þekktastur er hann fyrir uppgötvarnir sínar á eitlakerfi mannslíkamans.23 Bartholin var þó barn síns tíma. Hann virðist hafa verið altekinn samkenndar- og líkindafræðum og bæði stundaði og kenndi lækningar í þeim anda að líkt tengdist líku, sjúklingum til lækningar. Hann taldi að ef rautt klæði væri lagt á hörund hlypi blóð út í hörundið. Nota skyldi beinamjöl úr sköflungi til að græða sérstaklega sár á fótleggjum, en beinamjöl úr höfuðskel til að græða sár á höfði. Þá skrifaði hann margt um flutning sjúkdóma (transplantatio morborum) úr mönnum í dauða hluti, dýr og menn. Þegar gamall prófessor, Thomas Fincke, tók kveisu og gerðist uppþembdur var spænskur hundur lagður á kvið honum. Ekki var hundurinn fyrr orðinn heitur en hann æddi á dyr og engdist spúandi – kveisa þess gamla átti að hafa hlaupið i hundinn. „Vinnukona á heimilinu hafði tannverk og sami hundur var lagður við kinn henni. Svíaði þegar, en hundurinn hljóp ýlfrandi um stofuna, og hafði auðsjáanlega tekið tannverkinn.“ (s. 157)25 Já, það gekk á ýmsu við Hafnarháskóla í þann tíð. Er umhugsunarvert að á sama tíma og aðferðir sem þessar voru iðkaðar og kenndar sem viðurkennd fræði við norræna háskólastofnun var fólk brennt á báli fyrir rúnapár og lækningablöð sem lágu til grundvallar iðju af sama toga.
Særingar og töfraþulur
Ekki verður sagt skilið við lækningar og töfra án þess að geta um blóðstemmurnar gömlu sem eru eitt gleggsta og best vottaða dæmið sem við eigum um tengsl lækninga við töfra og trú. Til að stöðva blóðrás, hvort sem var innvortis eða útvortis, var farið með blóðstemmur (gamlar töfraþulur) oft í bland við ritningargreinar á latínu, mismikið afbakaðar, og textinn tengdur blóði – einkum frelsarans eða fólks sem frá er sagt í Biblíunni – eins og þessi þula ber með sér:
Stodviz blod þitth † inn nomine patris et filii et spiritus amen. Stodviz blod þeim er blædir, blod fiell af guds rodu, almattigur baud otta, aund þeir sarligu pinndu. Stattu fyrir dyr þar er dreyrir dreyre guds sonar, heyra unnda laugur þar er ægir, fyrir os vartu pinndur aa crosi. Drottinn minn staudva þu blod þetta † inn per libera me domine sangvinis lixta et sangvinis unnda sċt sīt stedid iordanis plūm qƨdus in iordanis baptizatus consumatum est. (s. 366)9
Sé nánar rýnt í þennan texta má sjá að kjarni hans, innan um latínutilvísanir, er blóðstemma undir dróttkvæðum hætti.
Stöðvist blóð þeim er blæðir,
blóð féll af guðs róðu,
almáttugur bauð ótta,
önd þeir sárliga píndu.
Stattu fyr(ir) dyr þar er dreyrir
dreyri guðs sonar, heyra
unda lögur þar (er) ægir,
fyr(ir) oss varstu píndur á krossi.
Minna fer fyrir bragarháttum í ýmsum öðrum særingaþulum þar sem öllu ægir saman, ritningartextum á afbakaðri latínu í stuðlalausum setningum með mismiklu innrími. Einkennileg eru þessi ráð:
Wid traull-ridu : Res ·:· , fres †, pres †, tres †, gres †, [...]
Wid svefn-leysi rist þetta aa tree ok legg i hægindit und hofud hans : Res, refres, prefers, pregi, prodiui [...] (s. 365)19
Í lækningabók Þorleifs Björnssonar gefur meðal annars að líta þetta:
[...] fiat voluntas tua dominus jhesus xristus fres. ·†· pares † res †· pax † vax nax † amen amen amen (s. 24)20
Auðséð er að töfraráð gamalla lækningahandrita eru ekki aðeins torskilin þeim sem nú lesa þessi fræði, heldur má á stundum draga í efa að skrásetjari hafi sjálfur skilið það sem sett var á blað. Til dæmis eru í AM 434 a 12mo fyrirmæli um að rista tilteknar rúnir til að auka mátt lækninga. Þegar lesið er úr rúnunum er textinn þessi: Ólafr, Ólafr, Haralldr, Haralldr, Eiríkr. Á sömu síðu er galdrastafur með þjófagaldri. (s. 367) Í lok handritsins gefur að líta 25 rúnir sem reynast svo ekki vera annað en latneska stafrófið ritað með rúnaletri: A B C D E F G H I K L M N O P Q R S T U X Y Æ Z Þ. (s. 394)19
Himintungl og hreinar meyjar
Gangur himintungla hafði áhrif á líðan fólks og náttúrufar, einnig goðmögn þau sem dagarnir og mánuðirnir voru kenndir við. Þannig þótti Þórsdagurinn sérlega góður til hverskyns læknisathafna.14
Blóðtökur með blóðhorni, bíldi eða (erlendis) blóðsugum tíðkaðist öldum saman af bæði lærðum og leikum og heyrðu til viðurkenndri, lærðri læknisfræði. Ekki var þó sama hvenær blóð var tekið. Til dæmis var ekki takandi blóð nema 13 daga í hverjum mánuði, einkum í síðari hlutanum. Á síðasta kvartili tungls voru allar blóðtökur álitnar gagnslausar. Því hafa gömlu lækningabækurnar ítarleg fyrirmæli um það hvaða vikur og mánuðir ársins henta blóðtökum á vissum stöðum líkamans eftir tunglstöðu. Ungu fólki skyldi taka blóð með vaxandi tungli, en eldra fólki með minnkandi tungli, og ekki var ráðlegt að taka blóð fyrstu fimm dagana eftir fullt tungl. Ekki heldur um hundadagana.9
Fyrr á tíð var því og trúað að hlutir gætu dregið kraft eða eiginleika af öðrum hlutum. Við snertingu kæmist maður ekki aðeins í samband við hlutinn efnislega heldur eiginleika hans einnig. Hár af ósnortinni mey var eftirsótt til töfra þar sem það var talið bera í sér óspilltan hreinleika hennar og lífskynngi sem ætlað var að hefði æskileg og tilætluð áhrif.9 Gert var ráð fyrir einhvers konar geislaáhrifum milli sárs eða sjúkdóms og áhaldsins sem olli ástandinu. Til dæmis uppgötvaði Paracelsus „hinn mikli uppreisnarmaður gegn bókstafslærdómi læknisfræðinnar“ að það kæmi sér betur að smyrja græðismyrsli á vopnið sem bitið hafði heldur en sjálft sárið og gerði þar með ráð fyrir einhverskonar geislaáhrifum frá vopninu á sárið.25 Líklega hefur ástæðan þó fremur legið í þeirri einföldu staðreynd að græðismyrsl fyrri alda voru ekki ýkja heilnæm eða græðandi enda gerð úr ýmsum óþverra, jafnvel saur manna eða dýra með tilheyrandi sóttkveikjum og bakteríum, að ráði lærðustu manna þess tíma.
Í anda sömu hugmynda var leppur tekinn frá sári, lagður í vatn sem hafði verið stráð samkenndardufti (pulvis sympatheticus) en nafnið er tilkomið vegna þess að duftið átti að verka á blóð úr sárinu án þess að lyfið snerti sárið sjálft.25 Þorkell Arngrímsson (1629-1677), sóknarprestur í Görðum á Álftanesi og fyrsti lærði læknir sem Íslendingar eignast, átti til dæmis lyfjaduft sem hann nefndi Pulvis noster sympatheticus. Í riti sem við hann er kennt og nefnist Curationes25 má finna ýmsar þekktar og viðurkenndar lækningajurtir á borð við blágresi, sóleyjarrót, ljónslappa, muru, hvannarót, kveisugras, vogsúru, hrísarfa og vallhumal (mellifolia) – einnig merarmjólk sem þekkt er fyrir heilnæmi. Innan um eru þó einkennilegir læknisdómar á borð við mjólk úr alhvítum, einlitum hundi; regnmaðk; kiðlingablóð; kattarket; refsheila; mannsístru og ýmiss konar saur og þvag. Ennfremur þessi ráð:
Áma. Læknar dúkur vættur í kýrgalli með hlandsteini meing-að og so viðlagður, volgur nautasaur yfirlagður. Edik áborið, geldingstað með vaxi og smjöri viðlagt, hland og hunang áborið. (s. 3)
Anda (þungan) læknar vatnsblanda eða einfalt barnshland inntekið. (s. 4)
Barnabólu mýkir tittlingatað við fastandi manns hráka áborið. (s. 48)
Við taki eða kveisu. Tak mold af leiði því, er nákominn liggur undir, og legg við takið í þrjár nætur. (s. 44)
Tunglamein. Drekki sá, sem þau hefur, hestaþvag með smiðjuvatni, sem járn er í hert. (s. 63)
Dregið hefur verið í efa með rökum að ofangreind ráð eigi uppruna sinn hjá séra Þorkeli – enn ólíklegra þykir að hann hafi sjálfur iðkað þau.25 Trúlegra er að þessir læknisdómar hafi slæðst með í handritum og gömlum læknabókum sem Þorkell hefur safnað til sín heldur en að um sé að ræða aðferðir sem vert sé að eigna honum enda voru þessi læknisráð í umferð í ritum sem lærðir menn þess tíma höfðu um hönd.
Trú og lækning
Skýrt dæmi um tengsl trúar og lækninga eru hinar helgu heilsulindir sem þekktar eru víða um veröld í kristinum sið. Á Íslandi höfum við til dæmis Vígðulaug á Laugarvatni og Krosslaug í Lundarreykjadal sem fram á þennan dag hafa verið taldar búa yfir yfirnáttúrulegum lækningamætti.26 Annað glöggt dæmi um trúarlegt inntak lækninga er fæðingarhjálpin.
Við kristni yfirfærði kirkjan ýmsa þá heiðnu siði sem rótgrónastir voru í menningunni, til dæmis tímasetningar hátíðisdaga, dýrlingatrú og jafnvel tiltekna helgisiði.27 Þannig tóku kristnir helgigripir og -dómar við af heiðnum, en aðferðin var í grundvallaratriðum söm og fyrr. Elstu kvæði kenna að rísta bjargrúnir í lófa fæðandi konu „og um liðu spenna, og biðja þá dísir duga“ eins og segir í Sigurdrífumálum (vísa 9). Eitt útbreiddasta og helgasta hjálpræði við barnsburð, aldirnar eftir kristnitöku, var að leggja blöð af Margrétar sögu við kvið konunnar eða binda um læri hennar. Margrétar saga hefur að geyma ákvæði þau sem koma fram í andlátsbæn heilagrar Margrétar er hún biður þess á dauðastundinni að píslarsaga hennar verði hverjum handhafa til blessunar og „í því húsi er bók sú er inni, verði þar eigi fætt dautt barn né lama“. (s. 480)28 Í Frakklandi tíðkaðist á 13. öld að Margétar saga væri látin á brjóst konu með jóðsótt til að greiða fyrir fæðingunni. Þegar kemur fram á 17. öld er átrúnaður á heilaga Margréti enn við lýði vítt um álfu. Til dæmis var „helgidómur heilagrar Margrétar“ hafður á borði hjá drottningu Frakklands þegar hún fæddi Lúðvík XIII árið 1601 að viðstöddum 5 læknum, ljósmóður og tveimur nunnum sem þuldu bænir.29
Í kirkjutilskipan Kristjáns III árið 1537 sem löggilt var á Íslandi 1541 og 1551 er uppfræðsla ljósmæðra lögð á herðar prestum og þeim uppálagt að sjá til þess að ...
... þær [ærlegar og guðhræddar ljósmæður] skikki sér svo við sængurkonurnar og reiði sig þar til í tíma að þær kunni með íðillegum fortölum að hugga þær og svo vel fyrir fæðinguna sem eftir að koma þeim til þakklætis við guð fyrst fyrir lífsins ávöxt sem er ein stór Guðs blessun hverja ekki öðlast allar kvinnur. (s. 210 - ritháttur breyttur)30
Í Dominicale, helgisiðabók sem var prentuð á Hólum í Hjaltadal árið 1750 er hið sama uppi á teningnum varðandi ljósmæður og prestlega handleiðslu þeirra.31 Mun svo hafa verið fram yfir 1826 þegar enn má lesa svipuð tilmæli í „Handbók presta“ sem gefin var út það ár. Yfirsetukonum fyrri tíma var augljóslega ekki ætlað annað hlutverk við fæðingar en að sitja yfir konum eins og nafngiftin bendir til – biðja fyrir þeim, hughreysta og viðhafa þeirra tíma töfraráð á borð við lausnarsteina og lausnarblöð.
Svartbækur í galdrafári
Sautjánda öldin hefur verið nefnd brennuöldin á Íslandi vegna fjölda galdramála (152 mál) sem þá komu upp og leiddu til brennudóma yfir 25 Íslendingum.27 Brennuöldin á Íslandi var angi af galdrafárinu sem svo hefur verið nefnt og gekk yfir Evrópu frá síðari hluta 15. aldar og náði hámarki á fyrri hluta þeirrar sautjándu. Mörg umtöluðustu villutrúar- eða galdramálin sem komu upp í Evrópu, einkum á fyrri hluta tímabilsins, voru landráðamál eða valdaátök af margvíslegum toga. Að baki lá viðleitni kaþólsku kirkjunnar til valdeflingar sem fólst ekki síst í því að halda þekkingarþráðum í höndum sér. „Kirkjan var ekki aðeins hinn eini sanni skóli, hún var samfélagið“ eins og bent hefur verið á.27
Birtingarmynd galdraofsóknanna á Íslandi er um margt frábrugðin því sem gerðist á meginlandi Evrópu. Til dæmis voru konur í miklum meirihluta þeirra sem brenndir voru erlendis þegar líða tók á tímabilið, en á Íslandi voru það einkum karlar sem höfnuðu á báli. Aðeins á Vestfjörðum sköpuðust skilyrði, ekki ósvipuð þeim sem urðu víða í Evrópu, þar sem andleg og veraldleg yfir-völd (kirkja og dómstólar) sameinuðust í galdraofsóknum gegn einstaklingum, svo úr varð vísir að galdrafári.27 Í allmörgum tilvikum var um það að ræða að hjá fólki höfðu fundist kver, blöð eða bækur með galdrastöfum eða rúnaletri. Af því litla sem varðveist hefur af þessu efni má sjá að innihaldinu svipar til svartbókanna sem víða þekktust í Evrópu á sama tíma, kenndar við Cyprianus (d. 304) biskup í Antíókíu. Í evrópskum munnmælum voru bækur þessar jafnan eignaðar fyrirmennum ekki ósvipað Rauðskinnum og Gráskinnum þeim sem í íslenskum þjóðsögum voru sagðar tilheyra biskupum.27 Í Danmörku voru þær bannaðar með lögum 1639 en gengu manna á milli þar og víðar í Evrópu allt fram yfir nítjándu öld. Svartbækur höfðu á sér það orð að vera máttug svartkúnst. Flestar innihalda þær þó fátt annað en bænaáköll og formúlur, stærðfræði og stjörnufræðihrafl í bland við rúnir, galdrastafi og slitur úr lækningabókum sem einnig gengu manna á milli á sama tíma. Ein þekktasta svartbókin er sú sem fannst í marmarasteinkistu í Wittenbergs Akademíunni árið 1520. Meðal ráða sem gefin eru í þeirri bók er að forða því að maður verði ofurölvi. Skal þá taka lunga úr sauðkind – helst hrúti – sjóða vel í vatni, þurrka síðan, mala saman við pipar og eta.13 Minnir þetta mjög á ýmis ráð sem lesa má í norrænum lækningabókum 14. og 15. aldar, til dæmis að taka lungu héra og binda við auga eða fót til þess að milda verk.19 Við flogaveiki var ráð að taka ennisblað dauðs manns, helst þess sem stegldur hefur verið eða hengdur, þurrka í bakarofni þar til beinið molnar í duft. Þetta skal gefa hinum sjúka með möluðum piparkornum, lavendel-vatni, níu morgna eða þrjá, fastandi.13 Annað ráð við niðurfallssýki var að brenna hjarta úr froski og svölu, mala í duft og taka inn fastandi í þrjá daga.13 Svölutunga soðin og lögð undir tungu manns á samkvæmt sömu bók að vera allra meina bót.13 Þess má geta að mulið svöluhjarta er gamalt læknisráð til að lækna líkþrá,19 en fuglshjörtu voru einnig álitin koma að gagni sem ástarauki hjóna í íslenskri þjóðfræði.9
Við tannverk var ráðlagt að skera fleðu eða flís af trjáberki, til dæmis af ungum pílviði eða greni, og stinga í tannholdið svo blæði hjá veiku tönninni. Setja síðan flísina aftur undir börkinn á trénu. Í sumum tilvikum fylgja athafnir á borð við að vefja rauðum þræði þrívegis utan um tréð, spýta blóði þrisvar og hnýta þrisvar hnút á þráðinn í hvert sinn.13 Aðferðina má bera saman við það forna læknisráð að nudda mururót fast við tannhold til að lina tannverk.18 Í báðum tilvikum er verið að koma efni jurtarinnar í samband við sýktan vef og blóðrásina umhverfis.
Skríði ormur ofan í mann ráðleggja svartbækur að brenna skósóla og bera reykinn að vitum manns, þá muni kvikindið upp koma.13 Sé hins vegar leitað í lækningabókum miðalda má finna þetta ráð:
Ef ormur skríður í mann sofanda, þá tak hleif súran, svo heitan sem úr ofni kemur, og brjót í sundur og legg við tvo vegu og þrýst fast, þá mun hann úr fara. (s. 373)19
Þá má í svartbókum finna hagnýt ráð sem dugað gætu enn í dag við ýmsu, til dæmis við þrifnað. Ekki eru miklir töfrar tengdir því að nota reykelsi til þess að reka mýs úr híbýlum manna, en því gefa svartbækur þó dulmagnaðan blæ með því að tilgreina torkennilegar jurtir sem nota skuli í reykelsið, það er Atik og Kalmus, og heiti þeirra rituð með rúnaletri.13
Rökrétt virðist að útrýma veggjalús með því að þvo veggi og rúm úr sterku soði af brasilískum pipar eða strjúka á brennisteini. Hver veit nema dugað geti enn að tyggja fjólurót til þess að deyfa vínlykt eftir öldrykkju.13
Lækningablöð á brennuöld
Af þeim íslensku galdrabókum og blöðum sem varðveist hafa má ráða að innihald þeirra hefur einkum verið varnar- og heillaráð, ekki síst gegn þjófum og reimleikum. Æði mörg galdrakver sem urðu tilefni brennudóma voru í raun eins og skræðan sem Páll Vídalín opnaði á alþingi 1710 og hafði að geyma fátt annað en „fávíslegar lækningareglur“. (s. 570)34
Í galdraskræðu35 sem varðveitt er í Konunglegu fornfræðastofnuninni í Stokkhólmi er að finna 47 ráð, þar af 20 góðgaldra og 7 lækningaráð, þar á meðal þessi hér:
Fæðingarhjálp. „Les orð þessi þrjú eftirfylgjandi þrisvar í eyra á þeirri konu er ei kemst frá fóstri sínu og Pater Noster þrisvar á milli og munu umskipti á verða. Galath, malagalath, Sarathim. Hér eftir fylgir Pater Noster á latínu.“ (s. 259)
Við blóðrás: „Að stilla blóð hvar sem af líkamanum rennur, les þetta eftirfylgjandi vers þrisvar og Pater Noster á milli ...“ (s. 266)
Við blóðrás. „Að stilla nasablóð, skrifa í enni honum með sjálfs hans nasablóði þetta orð: Consummatum est.“ (s. 269)
„Við höfuðverk eður svefnbrigðum skrifa vers þetta og lát í húfu hans eður undir höfuð honum svo hann viti ei á kvöldi dag og mun lagfærast: Milant vá vitaloth jeobóa febaoth.“
(s. 274)
„Batni honum ei sjálfum þá gef honum heita mjólk og skinið og þurrt album grekum skafið ofan í. Það á ogsvo við lífsýki og slær ekki feil.“ (s. 359)
Aðeins síðasttalda ráðið getur talist raunveruleg lækningaviðleitni með raunmeðulum – flóuð mjólk hefur jú löngum þótt góð heilsubót, hvað svo sem segja má um það sem skafið var út í hana. Vert er þó að nefna að fæðingarhjálp sú sem þarna er kennd er í sjálfu sér ekki frábrugðin þeirri sem iðkuð var af yfirsetufólki og viðurkennd af yfirvöldum þeirra tíma. Hún fólst í aðgerðarleysi og fyrirbænum. Annað dæmi um samslátt hjátrúar, fornra hugmynda um eðli hluta og lækninga eru skrif Jóns Guðmundssonar lærða, sem auk þess að kveða niður drauga og taka saman athuganir sínar um náttúrur landsins, fékkst við lækningar. Árið 1631 var hann dæmdur útlægur „af öllum kong. majestets löndum og ríkjum“ fyrir kver það eða blöð sem hann viðurkenndi að hafa skrifað upp og nefndi „bót eður viðsjá við illu ákasti“.36 Í ævidrápu sinni Fjölmóði37 lýsti Jón innihaldi kversins þannig að það væri „læknispunktar / löngu skrifaðir“ (vísa 243). Upprunalega gagnið er löngu glatað en samkvæmt lýsingu í dómabók er um að ræða ...
... kver og nokkur blöð, sem sá ryktaði maður Jón Guðmundsson [...] meðkenndi sig skrifað hafa, hvar inni eð stóðu nokkrir punktar og kallaðir bót eður viðsjá við illu ákasti: 1. Eldsgangi, 2. Blóðrás, 3. Vopnum, 4. Líkamsgirndum, 5. Vitfirringu, [...] 12. Jóðsjúkra kvenna frelsi, [...] 19. Við ofsjónum, 20. Við æði, [...] 25. Bót við elds-, vatns- og vopnaskaða, ef trúin fylgir, [...] 29. Ristingar fyrir gulusótt, útsótt, matleiða, hósta, kláða og höfuðverk, 30. Blóðstemmur aðskiljanlegar og annað fleira, en til hvers eins punkts voru lagðir sérdeilis caracteres, fígurur og málverk eður alphabet með margháttaðri vanbrúkun guðs orða. (s. 483-484)36
Við vitum ekki hvernig læknisráðin voru á blöðum Jóns lærða, hvort þau fólu í sér rúnaristingar og yfirlestra eingöngu eða raunlækningar með grösum eða öðrum raunhæfum ráðum. Engu að síður virðist sem innihaldið hafi verið dæmigerð þeirra tíma læknisráð sambærileg við þau sem finna má í gömlu handritunum sem kennd hafa verið við Harpestræng, til dæmis AM 655 XXX 4to,15 AM 194 8vo,18 AM 696 I 4to17 og AM 434 a 12mo.19 Síðastnefnda ritið er skráð með hendi langafa Jóns, Þorbjörns Jónssonar í Kálfanesi í Steingrímsfirði. Er þar minnst á „Ypocraz“ eða Hippókrates sjálfan (460-377 f.Kr.) sem þar er sagður spakastur lækna og fleiri vísindamenn fornaldar á borð við Díoskorídes (40-80 e.Kr.) og Galenos (130-200 e.Kr.) sem einnig er að finna í eldri handritum. Í þessu gamla lækningariti forföður Jóns má einnig lesa bæði blóðstemmur og rúnapár ásamt hagnýtum ráðum og grasalækningum við ýmsum kvillum.
Eins og viðurnefnið „lærði“ gefur til kynna var Jón Guðmundsson uppi á tímum þegar skilin voru enn óljós milli lærðra og -leikra, ekki aðeins hér á landi heldur víðar í Evrópu.38 Hugmyndaheimur hans studdist að verulegu leyti við forngrískar kenningar um eðli náttúrunnar og mannslíkamans sem lítt höfðu þróast fram að hans tíð. Ritheimildir sýna enn fremur að vessakenningar Hippókratesar sem Galenos byggði inn í kenningakerfi sitt, meðal annars um heita og kalda sjúkdóma, náttúrufræði Pliníusar (d. 79) og grasafræði Díoskorídesar voru enn við lýði og mótuðu hugmyndir sjálfmenntaðra íslenskra fræðmanna seint á sautjándu öld.39 Þessi fræði blönduðust annars vegar saman við magískar hugmyndir um náttúrukrafta og kosmísk öfl, meðal annars áhrif himintungla á heiminn og lífið í honum – hins vegar heiðnar trúarleifar í bland við kristni, því ekki er ýkja mikill munur á því að spenna rúnir um liðu „og biðja dísir duga“ eins og segir í Sigurdrífumálum (vísa 9) eða að binda brot af Margrétarsögu28 um læri fæðandi konu, svo dæmi sé tekið.
Niðurstaða
Frá upphafi vega hafa töfrar og trú tengst lækningum og verið viðurkenndur liður í þeim lengst af. Skilin milli töfra og vísinda voru lengi óljós en samþykki yfirvalda og samfélags á læknisaðferðunum sem beitt var valt á því hvort þekkingin – eða einstaklingurinn sem beitti henni – laut boðunarvaldinu. Þannig réðst það ekki síst af trúarlegri afstöðu (hvort sannkristið hugarfar bjó að baki lækningunum) og samfélagsstöðu, hvort iðja manna taldist galdur eða fræði.
Áhrif siðbreytingarinnar eftir 1550 á vísinda- og þekkingarstarf í landinu ber einnig að taka til greina. Fram að þeim tíma voru íslensku klaustrin, líkt og víðast erlendis, vísindastofnanir og þekkingarmiðstöðvar,40 ekki síst í læknisfræðilegum efnum. Eftir að klaustranna naut ekki lengur við má greina tímabundinn afturkipp í læknisfræðilegu þekkingarstarfi á Íslandi, eins og framangreindar frumheimildir votta. Í þeim efnum virðist viðleitni siðbótarmanna41 til að efla þekkingu og kristindóm eftir siðaskipti hafa verið lítið mótvægi.
Varðveittar galdrabækur sem og lýsingar glataðra rita sýna að þeim sem fengust við kukl og galdur á Íslandi var einkum umhugað um líf og heilsu, sjálfra sín og annarra. Þó að galdrastafir hafi orðið æ fyrirferðarmeiri í lækningabókum og „fávíslegar lækningareglur“ að sama skapi ríkari þáttur í galdrabókum eftir því sem leið á lærdómsöld, verður ekki framhjá því litið að bækurnar geymdu ævagömul læknisráð. Þau ráð voru upprunnin úr ritum sem fyrr á tíð og lengi fram eftir voru meðal fremstu fræða, byggð á hippókratískum kenningum sem ætla má að hafi verið kennd í Salernóskólanum á Ítalíu. Með tímanum – einkum eftir siðaskipti – hnignaði innihaldi þessara lækningarita sem virðast hafa gengið manna á milli í bjöguðum afskriftum og tekið á sig viðbætur úr ýmsum áttum uns svo var komið að örðugt var að greina á milli lækninga- og galdrarita. Sama þoka umlykur læknisiðjuna sjálfa, eins og sjá má af þeim samkenndar- og líkindafræðum sem um svipað leyti riðu húsum við Hafnarháskóla og voru í raun af sama toga og lækningaviðleitnin sem leiddi sakfellda galdramenn á bálköstinn.
Heimildir
1. Magnússon ÁB. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík 1989. | |
2. Steffensen J. "Lækningagyðjan Eir". Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags 1960; 134: 34-46. | |
3. Íslenzk fornrit, II. bindi. Sigurður Nordal gaf út. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík MCMXXXIII (1933). | |
4. Eddukvæði. Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna. Mál og menning, Reykjavík 1998. | |
5. Eddukvæði. Ólafur Briem annaðist útgáfuna. Veröld, Reykjavík 1985. | |
6. runer.ku.dk/VisGenstand.aspx?Titel=Ribe-hjerneskal - október 2015. | |
7. abdn.ac.uk/skaldic/db.php?id=15281&if=runic&table=mss - október 2015. | |
8. Grágás. Konungsbók. Genoptrykt efter Vilhjálmur Finsens udgave 1852. Odense universitetsforlag, Óðinsvéum 1974. | |
9. Jónasson J. Íslenzkir þjóðhættir. Reykjavík 1945 (1. útg. 1934). | |
10. Íslenzk fornrit, III. bindi. Einar Ól. Sveinsson gaf út. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík MCMXXXIX (1939). | |
11. AM 717, 4to II, bl. 4v-5r. | |
12. Jónsson G. Dómkirkjan á Hólum í Hjaltadal. Lýsing íslenzkra miðaldakirkna. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta að fornu og nýju 1919; V: 1-418. | |
13. Bang AC. Norske Hexeformularer og Magiske Opskrifter. Videnskabsselskabets Skrifter II, Kristiania 1901-1902. | |
14. Seeberg P. "Lægedom og sygehjælp". Daglig liv i Danmark i det nittende og tyvende århundrede. I. bindi. Ritstj. Axel Steensberg. Kaupmannahöfn 1963. | |
15. Gíslason K. Sýnisbók íslenzkrar tungu og íslenzkra bókmennta í fornöld. Kaupmannahöfn, 1860 (81/1, 299/1). | |
16. Såby V. Det Arnamagnæanske Håndskrift nr. 187 i Oktav, Indeholdende en Dansk Lægebog. Kaupmannahöfn 1883. | |
17. Hægstad M. Gamalnorsk fragment af Hendik Harpestreng. (Videnskabs-Selskabets Skrifter. II. Hist.-Filos) Christiania, Kaupmannahöfn 1906. | |
18. Kålund K. Alfræði íslenzk. Islandsk Encyklopædisk Litteratur. I. COD. MBR. AM. 194, 8vo. Kaupmannahöfn 1908. | |
19. Kålund K. Den islandske lægebog. Codex Arna-magnæanus 434 a, 12mo. (Det Kgl. Danske Vidensk. Selsk.) Kaupmannahöfn 1907. | |
20. Larsen H. An Old Icelandic Medical Miscellany. MS Royal Irish Academi 23 D 43 with Supplement from MS Trinity College (Dublin) L-2-27. Det Norske Videnskaps-Akademi i Oslo, Ósló 1931. | |
21. AM 700 a 4to, bl. 4r; AM 701 a 4to, bl. 5. | |
22. Ólason PE. Saga Íslendinga, IV. Sextánda öld. Menntamálaráð og Þjóðvinafélag, Reykjavík 1944. | |
23. Hill RV. "The contributions of the Bartholin family to the study and practice of clinical anatomy". Clin Anat 2007; 20: 113-5. https://doi.org/10.1002/ca.20355 PMid:16795028 |
|
24. Steffensen J. Menning og meinsemdir. Ritgerðasafn um mótunarsögu íslenzkrar þjóðar og baráttu hennar við hungur og sóttir. Sögufélagið, Reykjavík 1975. | |
25. Jónsson V, Arngrímsson Þ. Lækningar – Curationes – séra Þorkels Arngrímssonar sóknarprests í Görðum á Álftanesi. Skýrt hefur og birt eftir kveri með rithönd Jóns Magnússonar á Sólheimum, Vilmundur Jónsson landlæknir. Helgafell, Reykjavík 1949. | |
26. Þorsteinsson J. "Heitar laugar á Íslandi til forna". Læknablaðið 2005; 91: 617-21. | |
27. Þorvarðardóttir ÓK. Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan, Reykjavík 2000. | |
28. Heilagra manna sögur. Fortællinger og legender om hellige mænd og kvinder; efter gamle haandskrifter udgivne af C.R. Unger. Christiania 1877. | |
29. Forbes TR. The Midwife and the Witch. Yale University Press, New Haven 1966. | |
30. Íslenskt fornbréfasafn, X. Íslenzkt fornbréfasafn sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, dóma og máldaga og aðrar skrár, er snerta Ísland eða íslenzka menn. Gefið út af Hinu íslenzka bókmenntafélagi. 10. bindi: 1169-542. Reykjavík 1911-1912. | |
31. Lovsamling for Island, I-III. Samlet og udgivet af Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson. Kaupmannahöfn 1853-1854. | |
32. Salmonsens Konversations Leksikon, I-XXVI. Schult, Kaupmannahöfn 1915-1930. | |
33. Einarsson B. Munnmælasögur 17. aldar. Íslenzk rit síðari alda, 6., Reykjavík 1955. | |
34. Alþingisbækur Íslands IX, 1697-1703. Sögufélag, Reykjavík 1957. | |
35. Sæmundsson MV. Galdrar á Íslandi. Íslensk galdrabók. Almenna bókafélagið, Reykjavík 1992. PMid:1411275 |
|
36. Alþingisbækur Íslands V, 1620-1639. Sögufélag, Reykjavík, 1922, 1925-1932. | |
37. Guðmundsson J. Fjölmóður. Ævidrápa Jóns Guðmundssonar með inngangi og athugasemdum eftir Pál Eggert Ólason. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta að fornu og nýju 1916; 5: 1-92. | |
38. Nagy DE. Poplular Medicine in Seventeenth Century England. Bowling Green State University Popular Press, Ohio 1988. | |
39. Hreinsson V. Jón lærði og náttúrur náttúrunnar. Lesstofan, Reykjavík 2016. | |
40. Kristjánsdóttir S. Leitin að klaustrunum. Klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Sögufélag í samstarfi við Þjóð-minjasafn Íslands, Reykjavík 2017. | |
41. Eggertsdóttir M. ""Frómum og guðhræddum, leikum og lærðum." Um Guðbrand biskup Þorláksson og þýðingar hans." Áhrif Lúthers. Siðaskipti, samfélag og menning í 500 ár. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2017: 145-74. | |