11. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Fyrsti ársfundur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Fjölmenni mætti í matsal Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) á Selfossi fimmtudaginn 21. september síðastliðinn til að sitja fyrsta ársfund stofnunarinnar en hjá henni starfa ríflega 500 manns. HSU var stofnuð 1. október 2014, í víðfeðmasta heilbrigðisumdæmi landsins, með um 27.000 íbúa, við sameiningu Heilbrigðisstofnunar Suð-Austurlands, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja. Formleg sameining tók gildi 1. janúar 2015.

 

                
                           Fyrsti ársfundur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands var vel sóttur, bæði af starfsfólki,
                           sveitarstjórnarmönn um alþingismönnum. Ljósmynd/Magnús Hlynur Hreiðarsson.

 

Verkefnin hafa margfaldast

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU, tók fyrst til máls á ársfundinum. Fram kom í máli hennar að tekist hefur að byggja upp sterka liðsheild stjórnenda og gengið mjög vel að fá heilbrigðisstarfsmenn til starfa. Við sameininguna varð til sjötta stærsta A-hluta stofnun á fjárlögum ríkisins með um tæplega 4,9 milljarða í ársveltu á árinu 2016. Ríflega helmingur rekstrarfjár fer til heilsugæslu og sjúkraflutninga, um þriðjungur til sjúkrarúma og einn sjötti til reksturs hjúkrunarrýma. Á árinu 2016 þurfi HSU  að fara í endurskipulagningu í rekstrinum ásamt því að segja upp 20 starfsmönnum en samhliða var geysi-mikil aukning verkefna. „Fjárframlög ársins voru að núvirði í byrjun árs 2016 um 8% undir því sem eldri stofnanir sem nú tilheyra HSU fengu samanlagt í fjárframlög fyrir hrun árið 2008. Á því sama tímabili hafa verkefnin hins vegar margfaldast. Sambærilegur vöxtur í eftirspurn eftir þjónustu HSU á sér vart hliðstæðu annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Aldrei fyrr hefur HSU þurft að sinna jafn mörgum verkefnum og árið 2016, og enn vex eftirspurnin eftir þjónustu. Á ársgrundvelli fjölgaði komum á bráðamóttöku um 16%, sjúkraflutningum um 11%, legudögum í sjúkrarúmum fjölgaði og biðtími eftir hjúkrunarrýmum og eftirspurn eftir heimahjúkrun óx“, sagði Herdís meðal annars í framsögu sinni.

 

Fjarheilbrigðisþjónusta á svæði HSU

Anna María Snorradóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar kom víða við í erindi sínu. Hún talaði um margvíslega möguleika stofnunarinnar á fjarheilbrigðisþjónustu en mikið frumkvöðulsstarf hefur verið unnið á heilsugæslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri. Markmið fjarheilbrigðisþjónustu er að auka og bæta aðgengi skjólstæðinga að  heilbrigðisþjónustu sem ekki er aðgengileg á staðnum og auka aðgengi heilbrigðisstarfsfólks að ráðgjöf og  þjónustu, til dæmis varðandi rannsóknir. Með fjarheilbrigðisþjónustu er unnt að auðvelda aðgengi að hverskyns ráðgjöf án tillits til búsetu, tryggja frekara mat og meðferð, fá aðstoð við sjúkdómsgreiningar og meðferð þegar þess gerist þörf og draga úr kostnaði og óþægindum vegna ferðalaga, enda oft um langan veg að fara. Því getur fjarheilbrigðisþjónusta orðið viðbótarþjónustuform til að styðja enn frekar við hlutverk heilbrigðisstofnana í umdæmum á landsbyggðinni. Anna María nefndi nokkur áhugaverð dæmi um þetta. 

Auk Herdísar Gunnarsdóttur og Önnu Maríu Snorradóttur fór Björn Steinar Pálmason framkvæmdastjóri fjármála yfir ársreikning HSU og Birgir Jakobsson landlæknir hélt erindi sem hann nefndi „Umbætur í heilbrigðisþjónustu, hver gerir hvað?“.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica