10. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Oddfellowar færðu HSU vöktunartæki

                                 

Félagar í Oddfellowstúkunum Þóru og Hásteini á Suðurlandi komu færandi hendi á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi fimmtudaginn 14. september síðastliðinn og færðu stofnuninni gjöf að verðmæti 10.000.000 króna.  Um er að ræða vöktunartæki fyrir lífsmörk sjúklinga, ásamt varðstöð, sem er gjöf til lyflækningadeildar Sjúkrahússins á Selfossi. Tækin samanstanda af sex vöktunarstöðvum sem auðvelda fagfólki sjúkrahússins að fylgjast af meiri nákvæmni og öryggi með ástandi sjúklinga.  Tvö tækjanna eru svo kölluð monitor-tæki sem að öllu jöfnu eru föst við rúmstæði sjúklings en eru með minni ferðamonitor fyrir flutning sjúklinga. Þessi tæki mæla blóðþrýsting, líkamshita, öndun, súrefnismettun, púls og hjartsláttarrit. Fjögur tæki eru svokallaðar telemetríur með skjá sem sýna púls, hjartsláttarrit og súrefnismettun sjúklings. Öll þessi tæki tengjast svo varðstöð á vakt lyflækningadeildarinnar þar sem hægt er að fylgjast vel með sjúklingum.  Auk þess senda tækin merki og viðvaranir í snjallsíma eða píptæki hjúkrunarfræðings eða læknis á vakt. Tækin senda milli sín þráðlausar upplýsingar, eru nettengd. Gjöfin var gefin í tilefni af 25 ára afmæli stúkanna en þess má geta fyrir nokkrum árum að gáfu stúkurnar Heilbrigðisstofnun Suðurlands kapellu í sjúkrahúsið á Selfossi.

Meðfylgjandi mynd var tekin við afhendingu gjafarinnar en á henni eru, talið frá vinstri: Steindór Gunnlaugsson stúkunni Hásteini, Sigurður Jónsson formaður afmælisnefndar stúkunnar Hásteins, Björn Magnússon læknir, Herdís Gunnarsdóttir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Guðríður Egilsdóttir formaður afmælisnefndar Oddfellowstúkunnar Þóru, Sigríður Guttormsdóttir, Steinunn Aðalsteinsdóttir, Sesselja Sigurðardóttir og Ingunn Guðmundsdóttir, allar úr stúkunni Þóru, Hjörtur Kristjánsson framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Magnús Jónsson, ásamt Torfa S. Guðmundssyni sem báðir eru í Oddfellowstúkunni Hásteini. Ljósmynd/Magnús Hlynur Hreiðarsson.Þetta vefsvæði byggir á Eplica